Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

ARRRG

Í dag er mér ekki vel við neitt og er hreint ekkert glöð. Mér er hins vegar einstaklega illa við VÍTAHRINGI. Einhver sagði mér að hástafir á bloggi þýddi að maður væri að öskra. Það passar. Þessi bíll sem við eigum hefur oft komið að góðum notum. Við höfum hins vegar eytt tugum þúsunda í viðgerðir á honum. Eyddum t.d. 40.000 í síðasta mánuði. Í dag er augljóst að bremsuborðarnir eru algjörlega búnir plús eitthvað meira sem veldur því að sarghljóðið í bílnum yfirgnæfir hugsanir manns sem og allt annað hljóð Í HEIMINUM. Við höfum ekki efni á ENDALAUSUM VIÐGERÐUM. Og við höfum EKKI efni á nýjum bíl. Ef ég væri ekki með barn myndi ég bara vera bíllaus.  MIERDA.

Helgi

Alltaf gott þegar helgi er í nánd. Ætla að njóta hennar í botn þar sem prófatörnin nálgast óðfluga og þá renna virkir dagar saman við helgina. Ekkert frí. Ef það er einhver sem ég hefi ekki sagt þetta ennþá (ólíklegt, held að ég sé búin að pirra mig á þessu við alla) þá er ég í síðasta prófinu á síðasta prófdeginu. Búin seint 21. des. Þess vegna klára ég helst allan jólaundirbúning í nóvember.

Er að fara að versla með mömmu á eftir, þarf að klára afmælisgjöf handa Bebe (eins og Rakel kallar Elísabetu Rós systur) og jólagjöfina handa Hrund. Næsti laugardagur er svo frátekinn í jólinnkaup okkar Hrundar. Vantar afmælis- og jólagjöf handa Rakelitu og eitthvað handa pöbbunum. Svo erum við búnar.  Reyndar talaði Rakel að fyrra bragði um skóinn í glugganum um daginn. Höfum velt því mikið fyrir okkur hvort við eigum að gefa henni í skóinn. Hún er nátla yngst af 3 ára börnunum sem eru með henni á deildinni, þau flest orðin 3 1/2 og fá örugglega í skóinn. Hugsa að Rakel sé það skörp að henni geti fundist hún útundan þegar árlega 'hvað fékkstu í skóinn?' leikskólatalið byrjar. Við Sprundin stefnum því á hárskraut, límmiða og mandarínur. Eitthvað lítið bara. Barnið á nú eftir að hoppa af kæti ef hún fær eina rúsínu svo þetta verður ekkert mál. Bara að venja hana á strax að skógjafirnar eru litlar.

Annars óttast ég að hún veruleikafirrist. Haldi að það sé bara alltaf partý og gjafir. Gjafir í skóinn, risa afmælisveisla hjá okkur eina helgi og pabbanum næstu og svo sú mesta jólapakkageðveiki sem ég hef séð. Ef jólin í fyrra voru það sem koma skal. Svo hefur hún engan áhuga á því að opna pakka. Er eins og nægjusömu systkini mín þegar þau voru lítil, gleymir sér í leik eftir einn pakka og maður situr sjálfur sveittur og opnar. Og hrýs hugur við því að þurfa að koma öllu flóðinu fyrir inn í barnaherberginu. Kannski þetta breytist þegar barnabörnin í fjölskyldunni verða fleiri (ég er ekki ólett), fólk hefur einfaldlega ekki efni á að eyða tugum þúsunda í hvert barn (Hrund er heldur ekki ólett). En takk samt allir fyrir yndislegar gjafir handa yndislega barninu. Bækur, púsl, geisladiskar, dvd (ekki heilsuspillandi efni), leir, perlur o.s.frv. er vel þegið. Og bílar. Og sérstaklega mótórhjól. Rakel elskar mótórhjól og spinnur heilu sögurnar um sig á mótórhjóli. Enginn í litlu fjölskyldunni er voða hrifinn af barbí (nei), Bratz (nei, nei) og dúkkudóti. Þar sem við Hrund fáum ennþá að hafa vit fyrir barninu viljum við helst þroskaleikföng og ekkert úr Latabæjarmafíunni. Þá vitið þið það. Vona að ég sé ekkert dónaleg. Vil bara það sem er barninu mínu fyrir bestu og nú hafiði fengið hugmyndir. Afmælið verður snemma í desember, nánari upplýsingar seinna. Já, föt. Alltaf vel þegin. Gracias.

Ætla að gista hjá mömmu í nótt, prjóna og láta hana stjana við mig. Finnst vont að vera ein heima, er svo myrkfælin. Rakel er að fara til pabba síns og Hrund ætlar austur að breyta herbergi pabba síns með góðu eða illu og fara í gegnum myndasafn afa síns heitins. Ég er nú að verða eins og hann var. Er illa við að ástvinir mínur séu að væflast eitthvað yfir þessa heiði. Vil bara hafa þá hjá mér. Helst í bómul í vasanum.

Á morgun er svo tengdó búin að bjóða okkur á dekur og djamm með Léttsveitinni. Höfum farið undanfarin tvö ár og skemmt okkur konunglega.

Er að reyna að klambra saman einhverri sögugreiningu. Gengur hvorki né rekur. Væri fínt að fara að fá ljóðgreininguna til baka svo ég geri ekki bara sömu villurnar aftur. Annars er ég voða róleg yfir þessu.

Í breska matarþættinum sem er í sjónvarpinu á mánudögum má finna ýmsan fróðleik. T. d. vissi ég ekki að omega-3 fitusýrur hefð áhrif á stress. Vissi að þær væru rosa góðar fyrir heila og tek þess vegna svoleiðis lýsispillur á hverjum morgni með fjölvítamíninu og hreina appelsínusafanum (dugleg stelpa). Sá svo í þættinum um daginn að fitusýrurnar auka gífulega andstresshormón í líkamanum og minnka stresshormón. Var gerð svaka tilraun á leigubílstjórum sem voru látnir borða mikinn feitan fisk í tvo mánuði og mumurinn var gífurlegur. Þeir voru pollrólegir. Eins og ég er farin að verða. Þekki varla sjálfa mig. Hvar er Díana sem svitnaði við tilhugsunina um svefn, fannst hann tímasóun og gat hvort sem er aldrei sofnað vegna hugsana um allt sem beið hennar. Farin! Eða allavega mun skárri á geði. Omega-3!!!

Komið að því:

Mér er vel við dimma föstudagsmorgna, einu dagana sem við vöknum allar saman í Skipasundinu. Það er svo notalegt að fá sér kaffi með Sprundinni, leiðast svo allar þrjár á leikskólann og kveðjast. Við Hrund leiðumst líka alltaf til baka og erum ótrúlega miklar hjónkyrnur. Ég keyri hana svo í skólann vitandi það að þegar ég kem að sækja hana erum við komnar í frí. Það er eitthvað ljóðrænt við föstudaga.

Ég höndla ekki hár í niðurfalli. Ég get þrifið ælu og kúk en mér líður eins og ég muni deyja ef ég þarf að draga blauta hárorma upp úr niðurföllum. Oj.

 


Spurningaflóð

Eins og eðlilegt forvitið barn spyr Rakel mikið. Mörgum spurningum er ómögulegt að svara. T. d. ef ég er að keyra hún situr aftur í og bendir á eitthvað sem hún sér: 'Hvað er þetta?' spyr hún og ég veit ekkert hvað hún er að tala um. Hún skilur það auðvitað ekki og finnst ég bara leiðinleg að svara ekki.

Í gær vildi hún fá að vita HVER þetta væri sem sæti á bekknum í strætóskýlinu og hvað hann væri að gera. Við mömmurnar gátum svarað seinni spurningunni, maðurinn væri líklega að bíða eftir strætó. Rakel velti þessi mikið fyrir sér og sagði ljóðrænt á leið upp stigann heima: 'Á bekk sat maður og beið og beið og beið'.

Knúsa þarf maður að sjálfsögðu að gera eftir skipun á heimilinu. Ekki það að við séum ekki endalaust að knúsast en Rakel vill að við knúsumst allar í einu. Ef ég og Hrund leyfum okkur að kyssast og knúsast finnur hún það á sér, kemur hlaupandi úr herberginu sínu með stút á munni og útrétta arma. Og auðvitað höfum við ekkert á móti hópknúsi. Í gær var ég eitthvað að knúsast í Rakel við matarborðið. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að mamma verði útundan svo Rakel tók málin í sínar hendur:' Knústu hann' sagði hún. Og ég knústi hann Hrund.

Ég og Rakelita erum að bíða eftir að Hrund komi heim úr skólanum. Ætlum til tengdó með afmælisgjöf og kort. Get ekki sagt hver gjöfin er ef hún skyldi lesa bloggið áður en við komum. En hún er heimagerð og mjög flott.

Undanförnum þremur kvöldum hef ég eytt í að hjálpa Hrund með bévítans Lífsleiknina. Fyrst aðstoðaði ég hana með ritgerð sem var alls ekkert leiðinleg, það er bara óbærilegt að vera í lífsleikni þegar maður er orðinn þetta gamall. Í gær og fyrrakvöld sló ég inn verkefni, mér finnst þau hafa verið billjón, og Hrund leysti þau jafnóðum. Sprundin fer sér hægt á lyklaborðinu eins og í öðrum þáttum lífsins. Hún hvarf inn í herbergi snemma kvölds með tölvuna. Þegar ég leit til hennar (hljómar eins og hún sé barnið mitt sem ég þarf að líta til með) klukkustund síðar var hún að byrja á verkefni 2. Hún var búin að slá eitt inn. Ég ýtti henni í burtu og hóf mína hríðskotaárás á lyklaborðið. Eftir það gekk allt mun hraðar. Við þurftum hins vegar báðar að blóta mikið, fá okkur bjór og hlægja svakalega (betra en að gráta) áður en þessi 32 BILLJÓN verkefni voru í höfn. Eins gott að hún fái 10 í þessu. Persónulega fannst mér spurningar í verkefnunum fyrir neðan allar hellur. Verst fannst okkur Hrund þó að geta ekki svarað þeim öllum án þess að leita okkur upplýsinga. Við erum kannski alveg ófærar í lífinu. Höfum enga leikni til að bera.

Þá er komið að þessu:

Mér finnst skemmtilegast í heimi að elda. Ef ég fæ eitt bjórglas með og salsa á fóninn þjappast öll hamingja heimsins saman í brjóstinu á mér á meðan ég hræri og sker og malla. Þetta er magnað

Mér er illa við föt sem rafmagnast til andskotans í þvotti. Þori varla að hreyfa mig í fína kjólnum sem loðir við mig og hefur á undraverðan hátt tekist að troða sér inn í naflann.


Vá ...

... hvað ég hef verið ódugleg að skrifa. Er bara búið að vera brjálað að gera. Síðasta vika fór í að vinna upp vikuna sem ég var í Madrid. Ég lærði t.d. af kappi fyrir próf í spænskri málfræði sem kennarinn hafði leyft mér að taka viku seinna en allir hinir af því að ég var í útlöndum. Hélt ég. Þegar ég var búin að læra eins og brjálæðingur fyrir það ákvað ég að senda honum póst til þess að staðfesta prófdaginn. Kom þá í ljós að þetta var allt saman misskilningur. Lokaprófið gildir meira hjá mér, get ekki fengið að taka það núna. Ó. Núna var ég búin að eyða megninu af vikunni í að læra fyrir próf sem ég var ekki að fara að taka. Allur annar lærdómur var langt á eftir áætlun. Þannig ég þurfti að setja í fimmta gír. Þið skiljið. Og hafði hvorki orku né nennu til að blogga. Hins vegar komst ég að því að ég hugsa í blogginu. Í setningum sem myndu sóma sér vel á blogginu. Og um það sem ég myndi vilja skrifa á bloggið.

Ég, Hrund og Rakel útréttuðum eins og okkur einum er lagið á föstudaginn. Sóttum Rakel í leikskólann á hádegi og drösluðum henni í búðir. Hún er samt ótrúlega meðfærileg og við komum ýmsu í verk. Fengum okkur svo pulsu og kókómjólk. Hrund fór svo  austur á Selfoss og gisti þar (jarðaförin hans Dóa var á laugardaginn) en ég og Rakel vorum boðnar í náttfatapartý til mömmu. Það var ótrúleg kósý. Leið eins og ég væri aftur komin í menntaskóla og byggi heima þegar ég sat upp í sófa með mömmu og systkinum mínum, horfði á sjónvarpið og borðaði snakk. Reyndar átti ég þá ekki barn sem hraut inni í herbergi. Mamma var alveg að springa úr hamingju. 'Öll börnin mín heima og barnabarnið'.

Fékk svo far austur með tengdó daginn eftir. Útförin var falleg og sorgleg. Sprundin mín var falleg og sorgmædd. Við kyrnurnar keyrðum svo heim og fórum beint í náttföt og upp í sófa. Kveiktum á kertum og knúsuðumst undir hlýrri sæng. Og ég strauk yfir hárið á Hrund og kyssti tárin á vöngunum. Og fannst ég hjálparvana. Það er svo vont að geta lítið sem ekkert gert fyrir þann sem þú elskar þegar hann þjáist.

Rakel gisti ein hjá mömmu aðfarnótt laugardagsins. Hún grét mikið þegar mamma sagði að nú yrði hún að fara heim til mömmu og mammíar. Við fórum svo með hana til tengdó og leyfðum henni að skottast. Þegar ég sagði að nú þyrftum við að fara heim og setja lærið í ofninn fór hún að gráta. Ætli við Hrund séum svona leiðinlegar?

Svo skreið engillinn upp í til okkar í morgun í hvítum prinsessunáttkjól. Hún horfði á okkur með kátínu í augunum. Eldrauða hárið myndaði ramma í kringum litla eplaandlitið. Hún skríkti og hló og lagðist svo upp að mér og sagði: 'þú ert ynisle (lesist yndisleg) mammí'. Lagðist svo upp að mömmu sinni og sagði: 'Þú ert ynisle mamma'. Þar hafið þið það.

Ég er mikið bún að hugsa um málshætti og orðatiltæki undanfarið. Var að spá í að hafa málshátt dagsins á blogginu. Kannski ég geri það. Stundum getur málsháttur og aðeins málsháttur tjáð nákvæmlega hvað ég er að hugsa og hvernig mér líður. Það gerir þá svo töfrandi í mínum augum. Kannski ég geri þetta. Kannski ekki. Er að hugsa um að leyfa ykkur að kynnast mér betur fyrst og segja frá, í hvert sinn sem ég blogga, einu sem ég þrái eða líkar við og einu sem ég vil burt eða er illa við:

Iwant to look good naked. Eða réttara sagt. Mig langar að finnast ég líta vel út nakinn. Eins og ég er. Núna. Ég er að vinna í sjálfsmati mínu. Og húrra fyrir þáttunum sem hampa eðlilegum konum (verða samt að vara sig að breyta ekki konunum of mikið. Þarf endilega að setja þær í þessar rúllupylsur undir fötin. Ef spikið er hluti af fallegri konu af hverju þarf þá að fela það?)

Mér er illa við að fólki skuli detta í hug að endurútgefa Tíu litla negrastráka. Ég vil ekki banna bækur og það má ekki byrja á því með þessari. Ég vil ekki ritskoðun. En ég vil ekki rasisma. Bókin er líklega ekki skrifuð með það markmið eitt að niðurlægja einhvern ákveðinn kynþátt. Hún hefur á sínum tíma verið í takt við almenna hugsun fólks. Núna er hún rasísk (finnst mér) og því skil ég ekki af hverju einhverjum dettur í hug að endurútgefa hana. Myndirnar í henni réttlæta ekki fórnarkostnaðinn.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband