Erfiðar þessar fyrirsagnir

Mér finnst stundum mjög erfitt að semja þessar fyrirsagnir, t.d. í dag ...

 'Sérðu hvað ég er í fínni skjörtu' sagði litla manneskjan þegar ég kom að sækja hana áðan. Átt hún þá við skikkjuna sem hún var með. Ég sagði að hún væri glæsilegur súpermann og hún var hæstánægð með hrósið.

Við erum að æfa okkur í litunum, hún kann þá bara alls ekki og allt í lagi með það en það er um að gera að æfa sig. Svo að þegar við löbbum í og úr leikskóla bendi ég á kyrrstæða bíla og spyr hvernig þeir séu á litinn. Gangan áðan var mjög fróðleg. Gráa bílinn sagði hún bláan, hvíta sagði hún DÖKKBLÁAN (hún hrópaði litinn himinlifandi, handviss um að hún hefði rétt fyrir sér) og svo fram eftir götum. Ég reyndi að leiðrétta: 'nei, hann er hvítur eins og skýin og snjórinn'. Hún virti fyrst fyrir sér gangstéttina, sá engan snjó og varð þá litið upp í heiðbláan himininn. 'Já, svona grænn eins og skýin og himininn' sagði hún og þar með var málið útrætt.

Fór upp í rúm fyrir tíu í gærkvöldi. Var að lesa svaðalegan krimma til hálf tvö kvöldið áður og var því ansi þreytt. 'En CSI er að byrja' sagði Hrund steinhissa þegar ég tilkynnti henni að hér með færi ég að sofa. Held ég hafi varla misst af þætti, sjónvarpssjúklingurinn sem ég er.

Rumskaði svo þegar konan kom upp í rúm og spurði hana af einhverjum ástæðum hvernig þátturinn hefði verið. Allt í lagi fannst henni. 'Kannski ekki eins skemmtilegur og hann hefði verið ef ég hefði verið vakandi' spurði ég hana. Hún var ekki frá því að það hefði verið hundleiðinlegt að horfa á hann án mín og hún saknað mín og í því skreið hún upp í ból til að knúsa mig. Notalegt það.

Fór í Heilsuhúsið í gær til að kaupa vítamín. Fæ fiðring í allan líkamann þegar ég fer þarna inn. Mig langar svo til að stórversla og ég vildi að ég hefði efni á því að vera svona lífræn. Í staðinn kaupi ég stundum og stundum, reyni að fara einhvern meðalveg, er ekki alveg lífræn en ekki heldur alveg rotin að innan. Er ekki heldur viss um að mig langi til að vera holl, alltaf, að eilífu. Vil frekar fara hinn gullna meðalveg. Ég vil hins vegar að við stelpurnar mínar borðum eins mikið af lífrænum vörum án aukaefna, spelti og heilhveiti eins og við höfum efni á. Ég keypti því þau vítamín sem vantaði, lífrænt salt, sinnep og paté (eins og smurostur, búið til úr papriku, rosa gott) og rúgbrauð (brauð úr Grímsbæjarbakaríinu, roooosa hollt) til að hafa með fiskinum um kvöldið. Ég hef líka verið að skipta út snyrtivörum smám saman, nota lífrænt sjampó, sturtusápu og baðsalt og olíur í stað bodylotions. Á rosa gott andlitskrem og bætti lífrænum andlitshreinsi við í gær. Og ekki má gleyma svitalyktaspreyinu sem við eigum. Án aluminium. Rek mikinn áróður fyrir svitaeyði sem inniheldur ekki það krabbameinsvaldandi efni. Annars líður mér eins og líklega flestum betur bæði andlega og líkamlega ef ég blanda þessu lífræna með, og lífrænar snyrtivörur eru miklu betri en hinar.

Komin með nóg af áróðri? OK.

Mér finnst hins vegar líka mjög mikilvægt að missa sig ekki í þessum pælingum. Vil t.d. ekki hætta að borða kjötbollur. Eða nammi öðru hverju. Eða venjulega súkkulaðiköku. Mér finnst heilsukökur ógeð. Ógeð. Get alveg eins fengið mér brauð með osti eða bara sleppt þessu!

Allavega. Var mjög lífræn í gær. Fékk mér tilbúinn heilsuhádegismat og lífrænan djús úr Heilsuhúsinu. 

Hrund keypti svo bragðaref handa okkur um kvöldið með kívi, jarðaberjum, marsi og heitri súkkulaðisósu (mig langaði svo svakalega í ís þegar ég var lasin og Hrund var að bæta mér það upp að hafa ekki farið þá, þessi elska). Ég var ekki mjög lífræn eftir hann. Kannski var líkaminn í sjokki eftir hann og þessa vegna sem ég var að lognast út af. Svona gerist ef maður er of lífrænn, óhollustan verður enn þá óhollari.

Jæja. Ætla að fara gefa Rakel banana og mjólkurglas áður en hún fer í Kroppakot og við Sprundin í ræktina. Síðast gleymdi ég því. Gleymdi líka að láta Hrund hafa skonsuna sem ég smurði handa henni svo að hún yrði ekki of svöng í ræktinni. Og gleymdi að borða sjálf. Barnið fékk brauð í drekkutímanum og svo ekki mat fyrri en sjö um kvöldið. Allt of seint. Fór beina leið inn í eldhús þegar við komum heim og settist fyrir framan tómt eldhúsborðið, var svo gráti næst þegar við sögðum að maturinn væri ekki tilbúinn. En við vorum fljótar að snara fram pítur með grænmeti og lifðum allar af.

Rakel situr inn í herbergi og öskrar á einhvern sem á að fara út í buskann samkvæmt henni. Best að fara að gá að henni. 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband