Litli gullmolinn

Ég elska litla rauðhaus þótt hann geti auðvitað gert mig hálf geðveika stundum sem aftur veldur því að ég skamma hann sem hefur þær afleiðingar ég fæ gífurlegt samviskubit sem endist mér daginn á meðan molinn er löngu búinn að gleyma og syngur inn í herbergi.

Í gær prílaði ég upp á háaloft og náði í þríhjólið hennar Rakelar. Fann þó hvergi hjálminn hennar svo ég gat ekki leyft henni að hjóla heim af leikskólanum. Hún reyndi að sannfæra mig um að húfa væri nægileg vörn en ég stóð fast á mínu. Það á að hjóla með hjálm og eins gott að hún venjist á það frá byrjun. Ég keypti mér meira að segja sjálf hjálm um leið og við urðum okkur úti um hjól og stól aftan á fyrir hana, svona til að sýna gott fordæmi.

Þrátt fyrir dauðaleit fannst hjálmur hvergi og var barnið að rifna úr spenningi yfir hjólinu. Vappaði í kringum um það og hringdi bjöllunni (hjólið stóð í holinu) og minnti mig endalaust á að ef hjálmurinn fyndist mætti hún hjóla á morgun.

Ég ákvað að setja skítahauginn snemma í bað. Þessi orkubolti kemur alltaf löðursveittur og með sand í rassi og hári úr útiveru. Það er hið besta mál, það eru drulluföt og drullupollar sem ég hatast við.

Krílið reif sig úr fötunum og kom þá í ljós að búið var að pissa í buxur og greinilegt var að einhver hafði farið á klósettið og skeint sig sjálfur eftir að hafa kúkað og það með miður góðum árangri miðað við útlit nærbuxna. Barnið var komið ofan í baðið þegar ég tók eftir þessu en ég neyddist til að draga hana upp úr og láta hana pissa svo hún pissaði ekki í baðið. Hélt líka fyrirlestur um að hún væri allt of gömul til að vera sífellt að pissa í buxur, hún yrði að gefa sér tíma til að sinna þessum þörfum sínum þótt lífið væri spennandi. Rauðhaus var stórmóðgaður yfir að vera rifinn upp úr baði auk þess að halda að ástæða þess væri sú að ég væri æf af reiði. Sú var nú ekki rauninn en hún þurfti að gráta soldið og ég að hækka róminn og það finnst okkur báðum leiðinlegt.

Eftir þessi dramaköst okkur beggja lagðist hún aftur í bleyti og ég réðist til atlögu við fisk inn í eldhúsi. Ákvað svo að líta inn til hennar, tjá henni ást mína og athuga hvort ekki væri allt í lagi. Því miður kom ég að henni þar sem hún var að drekka baðvatnið úr bolla. Því miður gerist þetta í hvert einasta skipti sem hún fer í bað. Því miður verð ég ekki glöð þegar ég sé þetta. Hélt langa ræðu yfir henni um það sem væri í vatninu. Mér er nokk sama um lífrænar olíur og baðsalt, hún lifir það af. Hins vegar er öllu ógeðfelldara að drekka vatn sem inniheldur klístrað tásukusk, sand sem áður var í rassi, í höfuðleðri, eyrum og nefi, hor úr nefi, og þær leyfar sem eftir urðu þegar krílið reyndi að skeina sig sjálft. Fyrir utan það var hún svo skítug á höndunum (gaman að vita til þess að hún þvoi sér ekki eftir útveru og fyrir drekkutíma og borði svo drullublandað brauð, ekki það baðvatnið sé eitthvað skárra) að hún skildi drullurákir eftir hvar sem hún snerti baðkarið. Hún harðneitaði að þetta væri allt í baðinu og hundleiddist röflið í mér. Vonandi heyrði hún eitthvað og hún brast að minnsta kosti ekki í grát.

Þetta átti að vera svo kósý stund hjá okkur en fór bara í eitthvað uppeldi og siðavandanir sem ég verð stundum svo þreytt á. Sérstaklega ef ég er þreytt og næ ekki að koma boðum og bönnum til skila á skemmtilega hátt eins og mér tekst stundum.

Allavega. Hrund leitaði að hjálmi án árangurs. Ég var komin upp í rúm að lesa og braut heilann um hvar hann gæti eiginlega verið. Kom allt í einu skápur í hug og viti menn, þarna voru hjálmar okkar beggja.

Þegar ég vakti álfinn í morgun hvíslaði ég í hálsakotið að við hefðum fundið hjálmið. Barnið rauk upp með svo miklum látum að við lá að hún skallaði mig. Hún henti sér í fangið á mér og ég bar þennan heita böggull fram í hol þar sem hjól og hjálmur stóðu. Hún var himinlifandi. Ég sagði henni að ef við værum fljótar gæti hún fengið að hjóla. Allt gekk eins og í sögu þangað til ég var að greiða henni (sem gengur yfirleitt mjög vel, síðan stráin á hausnum urðu tvö hef ég greitt í tagl og fléttað og ég veit ekki hvað og tek minnst 10 mínútur í þetta á hverjum morgni). Kannski var það það að ég fékk að velja greiðsluna (nenni ekki að gera Línu langsokks fléttur á hverjum einasta degi) og athyglin því ekkert of mikil eða þá að mamma hennar var einmitt að koma úr sturtu sem var of mikil truflun fyrir hana. Hún var að minnsta kosti sífellt á iði og snéri höfði í ýmsar áttir sem gerði mér erfitt um vik. 'Horfðu fram Rakel' sagði ég í sífellu, 'þú verður að horfa beint fram'. Hún tautaði eitthvað svar í hvert skipti, ég veitti því enga sérstaka eftirtekt, hún er vön að þusa á móti þegar ég þusa. Á endanum ofbauð henni þó horfðu fram-skipunin og sagði:´Ég get ekki horft fram, mamma er búin að loka hurðinni.' Sem var alveg rétt. Við vorum inn á baði og snérum að hurðinni. Þar sem mamma hennar lokaði hurðinni fram á gang þegar hún kom úr sturtu gat Rakel eðlilega ekki horft fram. Hurðin var fyrir eins og henni sjálfri varð að orði.

Sniðugur krakki. Við Hrund áttum hins vega í basli með að útskýra muninn á því að horfa fram og horfa fram á gang. Kannski að því að við börðumst við hláturinn.

Anginn minn fékk svo að hjóla í leikskólann. Hún horfði annaðhvort beint niður í götuna eða aftur og ég átti fótum mínum fjör að launa. Auk þess tók ég eftir því að hún er orðin svo stór að stækki hún um tvo sentimetra í viðbót mun hún reka hnén í stýrið. Sé ekki alveg þriggja ára barn fyrir mér á tvíhjóli.

Rakelin mín var samt svo glöð og það er það eina sem skiptir máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er ekki bara hægt að hækka stýrið aðeins?

Hlíf 2.4.2008 kl. 14:20

2 identicon

Á misjöfnu þrífast börnin best svo smá táslukusk ætti ekki að skaða neitt. Minnist þess þegar við systurnar sátum undir þakrennunni og löptum drullupollavatn með blárri kaffiskeið sem Amma hafði gefið okkur. Mamma kom margsinnis út í glugga að segja okkur að hætta þessu en allt kom fyrir ekki. Með kvöldmatnum fengum við svo drullupollavatn að drekka, sem Mamma hafði sett í glæra könnu. Okkur fannst þetta frekar ógeðslegt og löptum ekki drullupollavatn meira. Og er ekki bara komið að því að kaupa tvíhjól handa litla risanum. Amman býður sig fram í þau kaup, leyfi ykkur mömmsunum kannski að koma með, svo ég kaupi ekki bleikt latabæjarhjól.  Amma Silla

Amma Silla 3.4.2008 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband