Pínupistill

Þetta hefur verið erilsöm vika, eða þannig, vorloftið fyllir fjölskylduna atorku og gleði svo löngunin til að hanga heima eftir daginn er ekki mikil.

Rakel fór til pabba síns á mánudaginn og ég lærði á meðan Hrund var í skólanum. Hún var að heiman frá 17 til 22 svo ég hafði íbúðina út af fyrir mig. Það er allt öðruvísi að vera ein heima og geta gert það sem ég vil heldur en að vera heima að læra. Þá er ekkert í boði að dúlla við sig. Ég naut mín því í botn, búin að læra, enginn barnarass að þrífa eða kvöldmatur að elda og ég gat verið ein með hugsunum mínum. Fékk mér samloku í kvöldmat, dúllaði mér í tölvunni, sýslaði eitthvað og horfði á sjónvarpið. Yndislegt.

Það var líka yndislegt að fá konuna heim. Ekkert eins gott og að liggja í kuðli upp í sófa með henni, allar flæktar saman. Og ekkert eins skemmtilegt og láta hana fríka út með því að horfa á hana. Hún bara höndlar það ekki þegar ég glápi svona ástaraugum (eða stíðnisaugum á hana). Augun fara að flökta og hún roðnar af feimni, svo þurrkar hún sér um munninn ef vera skyldi að einhverjar matarleifar væru þar, fingurnir fara á flakk og hún byrjar að klóra sér og dæsa af óöryggi. Þetta er sætast í heimi. Mér finnst æðislega krúttlegt að hún skuli enn þá verða feimin við mig eins og þegar við kynntumst fyrst.

Við kíktum í heimsókn til tengdó á þriðjudaginn, sníktum spjall og pizzur og Rakel brunaði um húsið á plastbílnum sínum (sem guði sé lof er ekki pláss fyrir heima, það eru bölvuð læti í honum). Á miðvikudaginn var veðrið slíkt að það kom ekki til greina að fara heim og fórum við í staðinn niður að Tjörn og gáfum aggresívum gæsum og scary svönum brauð. Vorum í lífshættu á tímabili og Rakel kvartaði yfir því að komast ekki að vatninu til að gefa öndunum (vegna óðra, hvæsandi gæsa sem Hrund var farin að stugga ansi harkalega í burtu á endanum). Fengum okkur kvöldmat á Icelandic fish and chips sem var guðdómlega gott. Fyrir þá sem ekki vita er allt hráefni lífrænt, fiskurinn steiktur upp úr repjuolíu og deigið búið til úr bankabyggi. Svo er hægt að fá ofnbakaðar kartöflur eða laukhringi og margar tegundir af salati með, skyronessósur (búnar til úr skyri, ekki majonesi), heimatilbúið límonaði og rjómalagað skyr með fíkjum eða berjum í eftirrétt. Og verðið er viðráðanlegt.

Haldiði svo að ég hafi ekki unnið 25% afslátt af mat á staðnum á Núinu áðan.

Í gær var ömmu- og afadagur á leikskólanum og fékk Rakel mæðraömmur sínar í heimsókn. Við Rakel fórum svo til ömmu sem er alltaf notalegt og núna er helgin framundan.

Ljúfa líf, ljúfa líf.

Annars réðst á mig aspassúpa á miðvikudaginn. Var búin að hella sjóðandi vatni í bolla og hellti duftinu úti (þetta var bollasúpa). Gaus þá ekki upp sjóðheitur aspasstrókur og lenti á mér og allt um kring. Í gær opnaði ég skápinn fyrir neðan slysstaðinn og fann aspassúpu í plastboxi sem og þornaðan aspassúpublett á hillunni. Það var aðeins lögg eftir í bollanum að gosi loknu. Mér finnst að það ætti að vara við þessu á umbúðunum.

Farin í tíma. Góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband