Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

vangaveltur

Sem ég sit hér í tölvuverinu í Árnagarði, borða stærstu skonsu í heimi og drekk súrmjólk með velti ég því fyrir mér:

  • Hvenær verkefni á borð við það sem ég er að vinna núna muni gagnast mér en  mér er skylt að finna út og rökstyðja hvort nefhljóð eru sjálfstæð hljóðön eða kannski hljóðbrigði sama hljóðans.
  • Hvort ég muni halda áfram að fitna þangað til ég spring úr offitu og skil þá allt eftir í líkamsleifum eða enda með því að setjast á Hrund og nær kæfa hana án þess að taka eftir því.
  • Hvort ég muni einhvern tíma hafa tíma og eiga peninga til að byrja aftur að spila á píanó og þá jafnvel klára 7. stigið.
  • Hvort ég muni einhvern tíma læra söng eins og mig hefur alltaf langað til eða hvort ég syngi bara hörmulega og ætti því að gleyma þessu.
  • Hvar öll fötin sem mig langar svo í og veit hvernig eiga að líta út eru eiginlega því ég finn þau aldrei.
  • Hvort ég sé góð mamma og eiginkona og hvort Rakel og Hrund myndu vappa um eins og hauslausar hænur ef mín nyti ekki við.
  • Hvort ekki ætti að skylda alla feður dætra sinna til að fara á námskeið þar sem þeim er kennt að greiða fagurt hár þeirra.
  • Hvort ég geti einhvern tíma lært að slaka á svo ég sleppi við stressmagaverki annan hvern dag.
  • Hvort ég muni geti skrifað 4500 orð á spænsku og skilað þeim inn sem ritgerð.
  • Hvort Hrund verði í skólanum 29. mars þegar ég ætla að halda upp á afmælið mitt og hún muni því ekki geta trítað mig eins og Lafði Díönu sæmir.
  • Hvort BA-rigerðin muni ganga af mér lifandi dauðri þegar ég loks byrja á henni.
  • Hvort það verður alvöru sumar í sumar eins og var í fyrrasumar
  • Hvort við stelpurnar mínar getum farið í eitthvað sumarfrí saman.
  • Hvort ég eigi ekki bara bestu mömmu og bestu tengdmömmu í heimi þótt ég bjóði í hvoruga reiða (jú reyndar held ég að ég bjóði í þær, get orðið eins reið og þær).
  • Hvort  barnið mitt sé ekki eins fullkomið og barn getur orðið.
  • Hvort konan mín sé ekki ólík öllum sem ég hef kynnst.
  • Hvort ég eigi einhvern tíma eftir að búa í Svíþjóð, Svíþjóð, ó fagra Svíþjóð.
  • Hvort ég sakni pabba míns ekki meira eftir að ég eltist og við urðum vinir.
  • Hvort spænska sé ekki eitt fallegasta mál í heimi.
  • Hvort það sé ekki svo mikill viðbjóður í heiminum að mannkynið eigi sér ekki viðreisnar von.
  • Hvort ég gæti ekki samið milljón svona spurningar
  • Hvort mér finnist ásættanlegt að vera að blogga þegar á að vera að læra.

Síðustu spurningunni ætla ég að svara: Það er óásættanlegt, Díana Rós Rivera, að þú skulir ekki beina öllum þínum kröftum að hinni undursamlegu gátu um nefhljóðin. Bráðum byrjar tími hjá þér og þá þýðir ekkert að grenja yfir sjáfsköpuðum óförum.

Akkúrat núna langar mig til að labba út á heimsenda í frostinu, syngja fyrir sjálfa mig á leiðinni og þegar á endann er komið sækja mér þá einstöku orku sem mín bíður þar, rölta svo til baka með nýjan dag og ný tækifæri í fararteskinu, trúna á sjálfa mig og óttaleysi við framtíðina.


Kyrnur

Síðastliðnir tveir dagar hafa verið algjörir hjónkyrnudagar. Á mánudaginn sótti Robbi Rakel í leikskólann (venjulega sækir hann hana heim til okkar (á mánudögum eftir mömmuhelgar) þegar hann er búinn að vinna um sex og fer með hana í leikskólanum daginn eftir en þetta skiptið fékk hann að fara fyrr) svo við Hrund þurftum ekkert að gera neitt sérstakt. Hrund náði í mig í skólann um hálf fjögur, við útréttuðum og enduðum svo heima með pítu og videomyndir. Eyddum öllu kvöldinu í knús og gláp (Hrund reyndar fór allt í einu að vaska upp um hálf ellefu) og höfðum það gott.

Þegar ég vaknaði til að fara í skólann á þriðjudagsmorguninn (Hrund hraut enn inn í rúmi) beið mín lítið ástarbréf og eyrnalokkur og hringur sem Hrund hafði búið til kvöldið áður (eftir að ég var farin að sofa). Ég missti mig á móti í miðum, skrifaði fyrst einn sætan um hvað ég elskaði hana og límdi á spegilinn inn á baði, setti svo annan á kaffivélina þar sem allt var tilbúið (þurfti bara að ýta á takkann) og svo annan á videspólurnar frá kvöldinu áður, var að minna hana á að skila þeim. Var kannski orðið heldur órómantískt svona í lokinn.

Í gærkvöldi þegar kúturinn var sofnaður héldum við knúsinu og glápinu áfram. Vorum eins og tveir ástfangnir unglingar.

Ég er alltaf voða skotin í Hrundinni minni og hún í mér en það er ótrúlega gaman að upplifa daga þar sem maður má ekki sjá af ástinni sinni.

Það er gott að muna þessa daga á morgnana þegar við vöknum óguðlega snemma og eins morgunfúlar og við Hrund erum liggur oft við að við bítum hausinn af hvor annarri þótt við stillum okkur við barnið sem syngur og trallar nær án undantekninga frá því að hún opnar augun.

Guði sé lof fyrir gsm, með þeim má senda mörg falleg skilaboðin einni mínútu eftir að maður er mættur í skólann og pirringurinn út af ekki neinu fokinn út í veður og vind.


Snillingur

'Manstu' spurði Rakel mömmu sína. Hrund var þá nýbúin að biðja hana að vera ekki að fikta í öllum sköpuðum hlut í Smáralindinni.

'Man ég hvað' spurði mamman.

'Þegar þú varst lítil'

'Já, svona eitthvað allavega' hélt Hrund.

'Hugsaðu málið' sagði þá Rakel.

Kannski Hrund þurfi að fara að rifja upp hvernig var að vera lítill og handóður. En hvernig í ósköpunum  barninu datt í hug að segja þetta veit ég ekki. Hún er algjör snillingur. Henni var allavega ekki bannað meir. Mamma hennar var of upptekin við að hlæja.

Ég var ekki með, aldrei þessu vant, af ástæðum sem ég mun brátt koma að.

Oddný vinkona kom í bæinn á fimmtudaginn og fengum við Hrund mömmu til að passa svo við gætum heimsótt hana og Kötlu á föstudagskvöldið. Hrund átti ekki að vera í skólanum daginn eftir svo við ætluðum að fara allar þrjár, Skipasundstelpurnar, í íþróttaskólann. Fyrir misskilning hélt ég að þetta yrði eina skiptið sem Hrund kæmist (komst að því heima hjá Kötlu að það var misskilningur) og ætlaði því ekkert með stelpunum á djammið. Þeim tókst nú að plata mig samt til að fá mér bjór og sannfærðu mig um að Rakel yrði ekki sködduð á sálinni þótt ég færi ekki með henni og Hrund í fimleikana þrátt fyrir loforð um það að við myndum allar fara (sem er toppurinn).

Ég drakk þrjá bjóra og stóð varla í lappirnar. Við Hrund fórum heim, hún til að taka við af mömmu og ég til að skipta um föt og fá mömmu til að skutla mér niður í bæ til stelpnanna. Það eina sem ég gat hugsað mér var hins vegar að fara að sofa, mér leið hörmulega og eins og áður sagði var ég algjörlega á sneplunum af þessum þremur bjórum.

Ég svaf líka illa, vaknaði klukkan sjö (af hverju, af hverju, af hverju) og dormaði þangað til klukkan hennar Hrundar hringdi, tími til kominn að búa sig undir fimleikana. Ég ákvað að þar sem ég hafði beilað á bestu vinkonum mínum ætlaði ég ekki að beila á barninu mínu, skreið fram úr, í föt og með þeim í hoppið og skoppið. Enn þá leið mér viðbjóðslega. Eins og ég hefði skotið heila tekílaflösku kvöldið áður.

Eftir hoppið (úff, mér var svo flökurt) náðum við okkur í pizzu (megavika) og svo fékk ég að skríða upp í rúm (takk, elsku besta kona í heimi) en Hrund og Rakel fóru í heimsókn til tengdó. Var það með henni sem þær fóru í Smáralind og Rakel lét út úr sér fyrrnefnt gullkorn. Á meðan svaf ég órólegum svefni, þjáð af magaverk og svitaköstum. Ég hef bara aldrei vitað annað eins.

Við fórum svo til mömmu seinnipartinn, ég náhvít í framan og enn illa haldin en stelpurnar mínar hressar og kátar. Ég og mamma elduðum guðdómlegan saltfiskrétt sem ég er að hugsa um að hafa í afmælinu mínu. Vorum svo þarna fram eftir kvöldi og höfðum það gott.

Í dag er konudagur. Sögðum Rakel það í morgun sem var viss um að það væri líka barnadagur. Við héldum því upp á konu-og barnadag. Fengum okkur djús gerðan í nýju safapressunni, fórum niður í bæ í góða veðrinu og gáfum öndunum brauð og fengum okkur í svanginn á kaffihúsi. Við enduðum svo í Gerðubergi í heimi Sigrúnar Eldjárn. Fórum í heimsókn til Málfríðar og mömmu hennar, fengum að keyra skordýrabílinn þeirra, prófa eldflaug og sáum tölvuskrímslið. Ótrúlegt stuð. Náðum okkur í Múmínálfanna út á videoleigu, fórum heim og allar í sunnudagsbað og sitjum núna ilmandi upp í sófa og horfum. Svona á þetta að vera.

Ég er sem sagt búin að ákveða hvernig ég ætla að haga afmælisveisluhöldum. Ætla að hafa fjölskyldukaffi helgina fyrir afmælið mitt (fólk kemur þá í páska- og afmælisboð) og bjóða svo vinum í mat 29. mars. Hugsa að konan sé með eitthvað surprise um daginn (hefur venjulega verið æði) svo ég er að hugsa um að byrja á því að fara til mömmu og búa saltfiskréttinn til, hafa það gott með Hrund yfir daginn og bjóða svo vinunum heim til mömmu (kem ekki svona mörgum fyrir við matarborðið heima hjá mér) um sjö. Er bara farin að hlakka til. 

Í síðustu færslu skrifaði ég 'skyldi' í einu af þremur tilfellum með 'y'. Mjög skrítið þar sem ég veit að orðið er skrifað með 'y'. Ég skammast mín. 

Annars líður tíminn svo hratt. Febrúar að verða búinn, önnin hálfnuð, farið að birta, ég að verða 25, bráðum kemur sumar ...

Konunni minni finnst ég flottust í heimi og barnið mitt elskar mig skilyrðislaust. Gerist ekki betra. 


Hoppað í dullupolli

Fór að sækja krílið áðan. Var með fiðrildi í maganum. Skyldi allt vera ofurdrullugt (snjórinn er svo svakalega blautur), skyldu kennararnir gefa mér illt auga, skyldi Rakel vera skemmd á sálinni eftir að hafa verið neitað um að moka drullu?

Labbaði upp tröppurnar, sá í gegnum glerið á hurðinni að engin drulluföt voru í poka. Var barnið mitt eitthvað veikt? Hræddust kennararnir illsku mína það mikið að þeir neituðu barninu um útiveru?

Sá svo glitta í skítuga vettlinga í poka. Fjúff, hún hafði farið út. Stóð nokkra stund og starði á hólfið hennar. Gat verið að ekkert væri drullugt í poka nema vettlingar. Hafði hún verið látin hjóla í hringi alla útveruna í von um að halda henni frá drullunni? Var hún orðin félagslegt outkast eftir að ég bannaði henni að vera í drullunni, fær ekki að vera með neinum og neyðist til moka sand og éta hann ein?

Rakelin var hins vegar hress og kát. Af úfnu hárinu að dæma var greinilegt að hún hafði farið út. Af einhverjum ástæðum safnast allt hár á hausnum á henni saman í einn haug aftan á hnakkanum undir húfunni í útiveru og breytist í einn stóran rembihnút. Gormur brokkaði til mín og gaf mér knús. Kennarinn sem varð vitni að pirringi mínum í gær sagði:´Jæja, hún er ekki eins drullug og í gær'. Ég reyndi að gefa henni bros. Leið eins og ég hefði tekið æðiskast og verið dónaleg í gær sem ég var alls ekki (Allir kennararnir þarna eru yndislegir og ég vona að þeir skilji að ég er ekkert pirruð út í þá prívat og persónulega heldur FO***** DRULLUNA.) Við vorum sammála um að það væri eiginlega ótrúlegt hvað krakkarnir hefðu allir verið þurrir þegar þeir komu inn.

Pollagallinn hennar Rakel var einmitt þurr. Hennar aldur fer út eftir hádegi svo að venjulega eru útifötin allavega enn þá rök þegar ég kem að sækja hana. Mér leið eins og það væri eitthvað verið að focka í mér.

Sem betur fer voru stígvélin aðeins blaut inn í. Hún fór sem sagt út.

'Varstu bara alveg þurr eftir útiveruna?' spurði ég Rakel þegar ég var að draga hana heim á snjóþotunni.

'Já, alveg þurr'

'Hvað varstu að gera úti?'

'Ég var að hoppa í drullupolli' sagði barnið hýrt á svip og með stolti í röddinni.

Ég stoppaði á göngunni og leit á hana. Hún horði á mig, pínulítið óörugg, var örugglega að hugsa 'bíddu, átti ég ekki að hoppa í drullupolli (eins og allir vita snýst felst sem maður segir við í höfðum barna manns'. Sagði svo:

'Bara pínu að hoppa'

Ég byrjaði eitthvað að segja að það mætti alveg hoppa pínu í pollum sem væru úr vatni en ekki vera að drullumalla. Hætti svo bara þessu leiðindablaðri, brosti mínu breiðasta til gormsins og sagði:

'Rosalega varstu dugleg að hoppa bara pínu í drullupolli. Og alveg án þess að blotna. Flott þér duglega stelpan mín'

Barnið mitt brosti og trallaði alla leiðina heim.

 

Spænsk ritþjálfun II er eins skemmtilega og I var hræðilega leiðinleg. Í fyrsta lagi er kennarinn svo fyndinn og ákafur og í öðru lagi eru tímarnir alveg eins og ég hafði ímyndað mér að þeir ættu að vera. Við lærum um lýsingar og sögumann og frásögn og bara allt sem tengist því að skrifa. Í fyrri tímanum kennir kennarinn okkur eitthvað nýtt en í seinni tímanum æfum við okkur í að skrifa í hópum. Það er æði. Hann kannski gefur okkur stað sem við eigum að lýsa 'oooog BYRJA'. Maður þarf að hugsa hratt, nota ímyndunaraflið og reyna að muna orð sem maður vill nota á spænsku. Við erum líka búin að læra að skrifa formleg bréf og beiðnir. Í dag skrifaði ég mína fyrstu örsögu á spænsku. Trúiði þessu?

Annars tók ég strætó í skólann. Horfði fyrst á einn þjóta fram hjá þar sem ég átti nokkra metra eftir að stoppistöðinni. Strætóinn var þremur mínútum á UNDAN áætlun. Hvað er málið með það. Það er bara andstætt allri reynslu minni af strætó. Ég þurfti því að bíða eftir næsta. Sem betur fer var ég með ipodinn hans Einsa bró. Fann lagið 'Hold the line' og var alveg að kafna úr nostalgíu við hlustunina. Spiluðum þetta í fyrri hljómsveitinni af tveimur sem ég var í í lýðháskólanum. Það var svo drullugaman. Ég spila á píanó í þessu lagi (sem ég gerði oft en ég söng líka og spilaði einu sinni á bassa) og það er bara fjandanum erfiðara að taka introið. Bæði að passa taktinn og að spila nákvæmlega þetta á píanó. Ahhhh, ljúfir dagar þegar maður var enn yngri og skemmtilega vitlaus.

Bleikjan bíður. Leyfði Hrund að velja milli tveggja uppskrifta (sem ég hafði valið úr fjórum) og hún valdi Hnetubleikju. Ætla að fara að mylja hnetur. Nei, bíddu, fyrst þarf að úrbeina. 

Ég er ekki frá því að ég sé pínu stressuð. 


Heitt í hamsi

Ok. Ég geri mér grein fyrir því að ég á barn á leikskóla sem elskar að vera úti og sækir í mesta skítinn á svæðinu. Allt á sér hins vegar takmörk. Ég fékk alveg nóg í dag þegar ég kom að ná í hana. Hún var akkúrat að koma inn. Búið var að troða pollafötunum í poka þar sem þau voru ógeðsleg. Allt annað, sem og Rakel sjálf, var þakið drullu. Þar með taldir SKÓRNIR hennar. Ef það er veður fyrir pollagalla, er þá ekki líka verður fyrir STÍGVÉL. Sérstaklega þegar vitað er að Rakel Silja gerir ekki annað en leita uppi bleytu og drullu. Skórnir voru óþekkjanlegir. Ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum að það fauk í mig þótt ég segði ekkert svo sem. Sagði bara að ég væri orðin svo þreytt á þessu og að ég vissi ekki hvernig ég ætti að þrífa þessa kuldaskó. Kennararnir sögðu mér hvernig börnin sæktu í kartöflugarðana og velti sér upp úr drullunni þar. Af hverju eru kartöflugarðar inn á (eða við) lóð leikskólans??? Og af hverju er ekki hægt að sanda yfir drulluna. Ég skal kaupa helvítis sandinn.

Síðastliðinn hálftíma hefur Hrund setið inn á baði, mokað drullu upp úr skónum og reynt að þrífa þá með blautum þvottapoka. Þar sem pollagallinn var ekki drullugur að INNAN eins og venjulega lét ég duga að þrífa hann með þvottapoka að utan. Ég þarf hvort sem er að þvo hann á morgun. Skil heldur ekki af hverju göllunum er troðið í poka og maður sendur með þá heim ef þeir eru skítugir. Mega þeir ekki vera skítugir að utan? Þar hrinur af þeim. Almáttugur.

Ég hef nú ekki talið það eftir mér að þvo af barninu en ég er að missa vitið. Ég bannaði Rakel áðan að leika sér í drullunni. Hefði frekar viljað að kennararnir ræddu við krakkana og segðu þeim að það mætti ekki vera að grafa holur og skemma þannig garðinn. Það er miklu betra heldur en ég þurfi að vera ógeðslega leiðinleg og banna barninu mínu sérstaklega að velta sér upp úr drullunni. Þetta er bara ekki hægt.

Er ég ömurleg? Annars er þetta frábær leikskóli.

Litli skítahaugurinn sagði mér áðan að litli bróðir hennar væri dökkhærður en samt ekki með krublur eins og ég. Og hann heitir Júlíus. Þegar hinn margumtalaði bróðir fæðist (sem ég er farin að trúa statt og stöðugt eftir heilaþvott Rakelar) vona ég samt að við Hrund höfum eitthvað um nafnið á honum að segja.

Það er svo gaman að læra eitthvað nýtt. Lærði að prjóna sokka fyrir áramót, rifjaði upp heklið með ömmu fyrir ekki svo löngu, er að æfa mig í að elda fisk og sauma núna. Afi gaf mér eðal bleikju áðan sem hann veiddi sjálfur. Þetta er algjör munaðarvara svo ég ætla að hafa hana í föstudagsmatinn á morgun Áðan kenndi amma mér að hreinsa beinin úr eftir að hafa spurt hvumsa: 'Hefurður aldrei unnið í fiski?'. Veit ekki alveg hvar það hefði átt að vera. Út á Granda? En núna held ég að ég kunni þetta. Klára að úrbeina á morgun og vona svo að mér takist vel upp við eldamennskuna.

Við amma hjálpuðumst svo að við að sníða náttkjól handa Rakel. Amma lánaði mér saumvél og núna þarf ég bara að læra að þræða hana. Á meðan við vorum inn í eldhúsi að sníða var Rakel inn í sofu og galaði á okkur ömmu til skiptist. Svona hundraði billjón sinnum. Bjáluð útiveran tekur sinn toll. Tekur enn þá meira á núna heldur en þegar snjór var yfir öllu. Eftir leikskóla er barnið úrvinda, brestur í grát upp úr þurru, neitar að taka til eftir sig, öskar á okkur endalaust að koma og sjá eitthvað, nennir ekki að leika sér í baði, treður í sig kvöldmatnum svo stendur í því og svona fram eftir götum. Eftir lestur, þegar upp í rúm er komið, er ormurinn hins vegar sprækari en allt sem sprækt er. Eða hún heldur það. Syngur og trallar og leikur sér með koddann og ég veit ekki hvað.

En svona eru blessuð börnin og ekki vildi ég hafa hana Rakel mína öðruvísi en hún er. Maður bara stendur upp einu sinni á mínútu og skoðar eitthvað sem hún er að gera, knúsar hana þegar hún brestur í grát yfir því að spilinn hennar duttu í gólfið, minnir hana á að anda í matnum og skemmtir henni í baði.

Best ég fari að huga að því að baða skítahauginn og elda. Hrund er núna að hreinsa sandinn og drulluna úr franska rennilásnum á skónum með naglaskærum.


Söngfugl?

Einhver sem kallar sig söngfuglinn var að biðja um að fá að vera bloggvinur minn. Hver myndi það vera?

Gleymdi

Ég hef gleymt að segja ykkur í meira en viku að ég er búin að setja nýjar myndir inn á Barnaland. Ef ykkur vantar lykilorð sendið mér póst á drr1@hi.is

 Og Hlífin: þú ert ekki stalker. Þú ert skemmtileg. Ef við hittumst oftar myndum við teljast vinkonur. Ætlum við séum það ekki bara. Allavega, kíktu á síðuna hjá Rakel og skemmtu þér.

Þið hin líka og endilega kvitta í gestabókina hennar. 


Er að læra ...

... svo ég hef þetta örsnöggt. Er búin að skrifa þetta líka svaðalega formlega bréf á spænsku til ímyndaðs tölvufyrirtækis en það er hluti af 10% verkefni sem ég þarf að skila í ritþjálfun á föstudaginn. Helsta áskorunin í  bréfinu var að skrifa eitthvað tölvumál, biðja um áveðna gerð af tölvu, harðan disk, megbæt, bla, bla , bla. Netið bjargaði mér eins og svo oft áður.

Held að það sé aðallega skíðafólk og barnafólk sem þráir stöðugt snjó og kulda. Eftir að Rakel kom inn í líf mitt stend ég mig að því að glápa á veðurfréttir hvert kvöld í von um að nógu kalt sé til þess að engin von sé á rigningu. Væri möguleiki að dagurinn liði án úrkomu myndi ég vona það auðvitað en úrkomulausir dagar þykja til tíðinda á skerinu. Ég vil miklu frekar þurfa að skafa af bílnum og frjósa á tánum heldur en þurfa að sækja skítahaug í stað barns á leikskólann. Ekki nóg með að hún sé með drullu í eyrunum og augunum og öllu andlitinu heldur þarf ég að þvo pollagallann á hverjum degi (sem er ekki bara drullugur utan á heldur inn í líka), þvo húfuna og vettlingana í höndunum (ullin má ekki fara í vélina), þurrka stígvél og innlegg, þvo öll fötin sem hún var í og aukafötin sem hún er komin í og auðvitað skrúbba skítahauginn. Allt ofantalið er þakið sandi svo þið getið ímyndað ykkur hvernig gólfin hérna heima eru eftir að ég dreg þetta inn dag hvern. Ef yndislegur snjór liggur yfir öllu get ég bara sótt barnið mitt og klætt það í kuldaúlpu.

Auðvitað er ég þakklát fyrir að barnið er heilbrigt og kátt og glatt og fullt orku. En ég á erfitt með að hrósa henni þegar hún lýsir afrekum dagsins fyrir mér sem felast í hoppi í polla. Hún þreytist ekki á því að segja mér hvernig hún og Stefán Steinar hoppuðu eins mikið og þau gátu í pollinum og lögðust svo í hann á eftir. Hvað á maður að segja? 'Flott hjá þér, dugleg ertu' eða bara 'plís nenniru að róla eða hjóla í útiveru og hætta þessu pollastússi áðurn en ég missi vitið og trampa á pollagallanum og ríf húfuna í sundur í æðiskasti'. Best að halda bara kjafti held ég.

Ég og Hrund fórum með Rakel í klippingu áðan (vorum reyndar bara að láta særa, ég vil sítt hár sem ég get leikið með mér). Hún var auðvitað ógisslega dugleg og þar sem hún hefur farið þangað áður vissi hún vel að verðlaun voru í boði. Hún var ekki sein á sér þegar hún var komin úr stólnum að reka nefið ofan í plastfötuna sem hún vissi að innihélt blöðrur. Klippikonan reyndi eitthvað að bjóða henni hring en Rakel vildi bara blöðru. Það eru alltaf ´stelpu-' og 'strákaverðlaun' í boði. T. d. glingur fyrir stelpur og boltar fyrir stráka. Auðvitað er börnum ekki bannað að velja það sem 'ætlað' hefur verið fyrir hitt kynið en þetta er bara ein enn pirrandi sönnun þess að börn eru hlutverkaþvegin og kynjaþvegin frá frumbernsku. Mér finnst æðislegt að Rakel skuli alltaf velja sér bolta eða blöðrur ef það er í boði, finnist skemmtilegast í heimi að vera skítug og klár eins og Lína langsokkur og finnast ekkert eins kúl eins og Spiderman. Mér finnst líka frábært að henni finnist gaman að vera í pilsi og leyfa mér að greiða sér og setja borða í hárið. Það sem skiptir mig öllu er að hún hafi frelsi til að velja og að samfélagið hafi ekki áhrif á hennar skoðanir.

Þess vegna er ekkert sérhannað stelpudót á þessu heimili, þess vegna hömpum við Línu langsokk, þess vegna ölum við upp í henni sjálfstæði og sjálfsöryggi. Svo enginn eða eitthvað nái nokkurn tíma að brjóta vilja hennar á bak aftur.

Áróðri lokið. Verð að fara að sækja Rakel. Fór ekki með úlpuna hennar á leikskólann í dag þar sem við löbbuðum þangað í grenjandi rigningu og hún var í pollagalla. Núna hefur hins vegar snjóað síðan um eitt leytið. Frábært. 

 

 


Hvernig er þetta ...

... með mig og innsláttarvillur. Ég les alltaf yfir færslurnar áður en ég vista þær en samt eru villurnar óteljandi. Sérstaklega virðist hrjá mig sú árátta að sleppan n-um í lok orða. Nær öll sem eiga að enda á tveimur n-um enda á einu og það er ekki af því að ég kann ekki reglurnar.

Svo lengi sem þið vitið að ég kann víst reglurnar þá er þetta í lagi.

Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að fara í þennan göngutúr um daginn. Líklega vegna þess að ég hef þann einstaka hæfileika að geta framkvæmt án þess að hugsa.

Fór með molann til ömmu á fimmtudaginn eins og við erum vanar. Tryggvi frændi var þar að læra fyrir sína verkfæði eins og hann er vanur. Hann hefur nú formlega verið tekinn í guðatölu af Rakel. Sem hún var að troða í sig kremkexi fyrir rúmri viku sýnir Tryggvi henni hvernig hægt er að taka kexið í sundur, vera þá kominn með tvö kex og sleikja svo kremið af. Þetta var Rakel svo mikil opinberum og hefði hún ekki verið of upptekin við að sleikja krem hefði hún örugglega hneigt sig fyrir Tryggva. Núna á fimmtudaginn borðaði hún sitt brauð áður en hún fékk næstarétt (eftirrétt). Hún fékk sitt kremkex og ég spurði hana hvort ég ætti að hjálpa henni að taka það í sundur. Hún leit ekki á mig þegar hún sagði: 'Nei, Tryggvi' og lotninginn í röddinni fór ekki fram hjá neinum. Tryggvi kexguð.

Á föstudaginn fórum við molinn til tannlæknis í þriggja ára skoðun. Rakel gapti eftir skipum og sýndi sínar glæsilegu og ávallt vel burstuðu tennur. Bitið var líka í lagi og Rakel svo dugleg og ég horði bara á krílið mitt og þakkaði guði í billjónasta skipti fyrir að lána mér þetta barn.

Á föstudagkvöldið rölti ég til Rósu frænku sem býr í sömu götu. Við heimsækjum aldrei hvor aðra, líklega búum við of nálægt hvor annarri. Á meðan sat Hrund heima í tölvunni og fékk svo frænda sinn í heimsókn svo tvö pör af tvímenningum ræddu málin í sitthvoru húsi í sömu götu.

Í gær fór í göngtúr. Ég var nokkuð fljót að koma mér í rúllupylsuátfittið enda að verða komin í æfingu. Ég valdi nýjan flokk laga á playlistanum og með Muse öskrandi í eyrun á mér arkaði ég áfram. Ég tók góðan klukkutíma í labbið, tók sama hringinn og í gönguferðinni þarna from hell og bætti svo  öðrum við. Ég labbaði sum sé mun fleiri kílómetra í þessari göngu en hinni margrómuðu.

Við Hrund skelltum okkur svo í Ikea og keyptum eitthvað dúll sem okkur fannst nauðsynlega vanta og í Egginu fengum við glæsilega brauðrist og safapressu í stíl fyrir inneignarnótu sem við fengum í jólagjöf. Ég er búin að stilla þessu upp inn í eldhúsi og endurraða ögn að sjálfsögðu. Fer öðru hvoru inn í eldhús og horfi á nýju hlutina mína. Og sparka í sjálfa mig fyrir að hafa ekki keypt appelsínur í Bónus á föstudag, þá gæti ég fengið mér ristað brauð og nýpressaðan appelsínusafa.

Hrund skutlaði mér, Tryggva og Rósu svo til Davíðs þar sem við héldum frænsystkinakvöld. Við höldum þau tvisvar til þrisvar á ári. Í því eins og stendur er Davíð (25),ég (24),Rósa (23) og Tryggvi (21). Við höfum ákveðið að aldurstakmarkið sé 18 svo Unnur kemur inn á næsta ári, Elísabet á þarnæsta og Einsi bró eftir þrjú ár.

Við skemmtum okkur við það í gær búa til innvígsluprógram, datt í hug að krúnaraka þau og troða upp í þau bjórtrekt og svo gætum við bara skiluð þau eftir ef við vildum fara niður í bæ, enda greyin ekki komin með aldur. Svo mundum við okkur þykir ansi vænt um krílin og ætlum bara að leyfa þeim elda.

Það var nátla drullugaman. Borðuðum indverskan mat og slökktum chillibrunann með bjór, kjöftuðum og enduðum svo niðrí bæ um eitt. Hittum Sprundina þar og fórum í eitthvað Vesturportspartý með celebrityfólki. Þarna var auðvitað Vesturportsliðið, Elsa María úr Kastljósinu og fleiri sem ég kann ekki að nefna. Þarna var líka Gael García sem er mjög lítill og mjög sætur. Svo voru þarnga billjón litlar brennivínsflöskur í bala fullum af klaka. Ó, ó, ó.

Tryggvi var svo sannarlega í fíling. Svo æstur í dansinum og hoppaði um gólandi. Hann hélt bara uppi rífandi stemmningu. Við Hrund dönsuðum líka af okkur rassinn. Dj-inn sýndist mér einhver fyrri hluta nætur en svo tóku hinir ýmsu við. Og voru með ipod. Og kunnu ekki meira á það tæki ég. Þeir náðu kannski að byrja eitthvað lag og allir urðu trylltir og voru bara' hey þetta er uppáhalds lagið mitt' eða 'hey þetta var uppáhalds lagið mitt einu sinni' (hvert lag var uppáhalds lag einhvers einhvern tíma svo gleðin var alltaf jafn mikil) en svo gerðist eitthvað og lagið hætti. Svo byrjaði það aftur. Og hætti. Og svo byrjaði það aftur og svo var allt í einu komið annað lag. Allir fengu sér brennivín upp á það.

Við fórum svo á Hressó og héldum fjörinu áfram og allt í einu var bara verið að sópa okkur út, búið að loka. Ég hef ekki látið sópa mér út síðan í menntaskóla. Ég, Tryggvi og Hrund löbbuðum í mígandi, helvítis rigningu í Bogahlíðina heim til Tryggva. Við Sprundin tókum leigubíl þaðan. Sem var gott. Við vorum komnar upp í rúm rétt fyrir átta og fínt að það var ekki seinna.

Ég sef nebla aldrei neitt lengur eftir djamm þótt ég fari að sofa undir morgun. Ég vaknaði upp úr hádegi og slík var líðanin að ég hélt ég væri kannski dáinn. Það var ég ekki og fannst mér það miður um stund. Eftir vatn og ískaldan trönuberja og vínberjasafa var ég komin í gír. Stússgír. Ég dett stundum í hann á virkum dögum sem er fínt en að hanga svona í honum skelþunn skil ég bara ekki. Ég botna ekkert í sjálfri mér. Ég setti í vél, braut þvott, þvoði vaskinn inn á baði, tók saman dótið hennar Rakel fyrir leikskólann, raðaði skóm og öllu öðru sem hægt var að raða, fór í gegnum skóladót, heftaði, gataði og setti í möppu, vaskaði upp, tók til í veskinu mínu og eiginlega í öllu húsinu.

Það suðar fyrir eyrunum á mér. Ég verð að taka úr vélinni og fá mér einhverja næringu.

Annars eigum við Hrund afmæli, höfum verið trúlofaðar í tvö ár í dag. Eftir örfáar vikur höfum við verið saman í þrjú ár svo við höfum hugsað að gera okkur glaðan dag á næstunni. Vííí. 


Háskaför

Þeir eru yndislegir dagarnir sem maður nennir að læra. Ég hreinlega fyllist fítonskrafti hafi ég fylgt algjörlega því plani sem ég bjó mér til fyrir daginn, mætt stundvíslega og Í alla tímana, fylgst með og glósað og komist yfir allt sem ég ætlaði mér. Tala nú ekki um ef ég borða ógó hollt. Ég svíf fitt (að mér finnst þótt það eigi sér enga stoð í raunveruleikanum) um ganga skólans og út á bílaplan, hlæ upp í frískandi rokið, sest inn í tryllitækið mitt og stilli tónlistina það hátt að bíllinn nötrar. Ég lít svo á að hann sé dansa með mér.

Það var svona dagur í gær. Hann var meira að segja óvenju skemmtilegur þar sem ég hitti Hlífina á kaffistofunni og við gátum skipst á sögum. Ég held henni finnist ég svolítið fyndin sem er gott fyrir sálartetrið. Ég var líka í óvenju góðu skapi, hafði rétt á undan klárað verkefnin í forna málinu og hljóðfræði. Hafði verið að geyma það sem ég skildi ekki en eftir tíma í báðum fögum rann loks upp fyrir mér ljós.

Eftir samtal okkar Hlífar og skil á verkefnum trylltist ég heim og bjó mig undir að fara í göngutúr í góða veðrinu. Ég gróf upp leikfimibuxurnar mínar  sem guði sé lof eru úr teygjuefni svo þrátt fyrir fögur aukakíló passa þær enn fínt. Tróð mér ansi í þröngan íþróttatopp og með brjóstin upp undir höku skellti ég mér í bol og lopapeysu. Yfir öll herleginheitin fór ég svo í vindgallan minn. Buxurnar voru rétt mátulegar þegar ég keypti þær síðastliðið vor. Þær eru ekki mátulegar lengur. Strengurinn hefur reyndar alltaf verið pínu þröngur en núna er hann nánst hættulegur. Ég dró buxurnar eins langt upp í mitti og ég gat (sem var mjög lekkert) en þrátt fyrir að þær væru þá utan um mig þar sem ég er grennst á minni bumbu ollu þær mér nokkurri andnauð.

Jakkann komst ég áfallalaust í en gönguskórnir þvældust ögn fyrir mér. Ekki af því að ég kann ekki að reima heldur vegna þess að þegar ég beygði mig fram (ég sat á stigaskörinni) þrýstist buxnastrengurinn inn í magann á undarlegum stað og skapaði undarlegar fellingar á maganum sem komu í veg fyrir að ég gæti almennilega beygt mig. Ég var örg út í spikið á mér þegar ég skellti á eftir mér hurðinni.

Ég komst samt afur í gott skap þegar ég kom út þótt komið væri hífandi rok. Ég fékk ipodinn hans Einsa bró lánaðann um daginn og var ótrúlega spennt yfir græjunni og tónlistinni sem hún innihélt. Mér tókst að kveikja (mundi leiðbeiningar Einars) og finna playlistann. '90´s lög' hugsaði ég, 'hvað ætli það sé'. Fram streymdu lög sem voru vinsæl bæði þegar ég var úlli í sálarkreppu í gagnfræðiskóla og þegar ég var menntskælingur heltekinn krónískri sálrangist. Radiohead, Prodigy, Creed, Nirvana, Fugees, etc. Það er skondin tilhugsun að systkini mín ólust ekki upp við þessi lög, lög sem nú teljast til 90's kynslóðar laga en eru ekki 'lög núsins' ef þið skiljið mig. Mér finnst svo stutt síðan ég hlustaði á þetta allt að það geti bara alls ekki hafa verið fyrir aldamót, fyrir áratug.

Allavega. Göngutúrin varð ekki sú orkuganga sem hann átti að vera. Hann var hrein og bein háskaför. Með vindbuxurnar sleiktar yfir rassinn (svo sá í útlínur nærbuxna og hefur líklega mátt fylgjast með því hvernig þær þrjóskuðust við að halda sig á rasskinnum og færðu sig í þvermóðskunni sífellt nær boru) og vindinn í andlitið hökti ég áfram. Það var glerhált. Klaki út um allt og vatn yfir öllu. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu. Það var ekki mikil reisn yfir mér á göngunni, ég rann sífellt til og gaf frá mér hina ýmsu skræki í hvert sinn sem ég var nær dottinn og ég labbaði eins og spýtukarl þar sem ég spennti hvern einasta vöðva við að reyna að halda mér lóðréttri. Ég endaði á því að þræða alla skafla sem ég sá og sem lágu meðfram gangstéttunum. Væri auður blettur á ganstéttinni eða örfá sandkorn nýtti ég mér það. Ég hef verið eins og fáviti, hoppandi og skoppandi og skrækjandi.

Þetta var aðeins betra þegar ég var komin niður í Laugardal og á Laugarásvegi var ég komin á gott skrið. Ég var eiginlega hálf örmagna þegar ég kom heim og var að drepast í fótunum langt fram eftir kvöldi. Sem var góð tilginning.

Þegar ég kom heim gat ég ekki slökkt á ipodinum. Hrund kunni það ekki heldur. Ég hringdi í litlu systur mína sem ég held að hafi ekki trúað sínum eigin eyrum, hvað þá tæknifötlun minni:

'Hæ Elísabet. Hvernig slekk ég eiginlega á svona ipodi?

'Hlátur (sem í fólst undrun áður en hann var snögglega kæfður)'. Þú ýtir bara á stopptakkann niðri'

'Það er enginn stopptakki niðri'

'Ýttu þá á stopptakkann uppi'

'Það er enginn stopptakki uppi, bara playtakki'

'Hvernig ipod ertu eiginleg með?' (orðin pínu óþolinmóð)' Rabis eða travis eða gimli ...'

'Ég veit það ekki. Einars ipod!!! ´(gríp ég fram í örvæntingarfull)

''Ýttu þá á playtakkann'

'Ef ég geri það kemur bara eins og skuggi yfir allt en það slokknar ekki á honum'

'Haltu honum inni'

'Já. já, já. Ég gat það, það slokknaði honum. Ok, takk, bless.'

Ég er hipp og kúl nútímakona sem fer í gönguferðir mér til heilsubótar með fancy ipod.

'


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband