Skafa

Ég þurfti að skafa af bílnum í morgun, ekki sátt. Og fara með kuldabuxur á leikskólann fyrir Rakel. Á eftir ætlum við í leiðangur, það þarf að kaupa kuldaskó og lambhúshettu á barnið.

'Mér er sveitt' sagði rauðhaus þar sem hún lá afvelta og dúðuð í stigaganginum heima og beið eftir farinu okkar.

'Hún er ekki reið' tilkynnti hún mömmu sinni þegar hún koma að sækja okkur og átti þá við gribbuna mig.

'Þú ert í þykjustunni vond' sagði hún við mömmu sína í um kvöldið í stað þess að bjóða henni góða nótt. Hún skildi ekki af hverju við hlógum og ítrekaði beiðnina.

Helgin framundan. Leti hefur plagað mig þessa viku þegar kemur að lærdómi. Eins mikil leti og ég get leyft mér. Fór í fýlu við norskuna og neitaði að lesa hana. Las í staðinn sjónvarpsdagsskrána þar sem ég er bókalaus í augnablikinu. Féllust hendur yfir nýjasta verkefninu í forna málinu og var næstum farin að grenja yfir því á miðvikudagskvöldi. Fékk mér kók og súkkulaði í mótmælaskyni við illgjörn verkefni, eitthvað sem ég er ekki vön að gera á virku kvöldi. Klambraði einhverju saman á fimmtudagsmorgni en hrýs hugur við því að þurfa að skila þessu af mér.

Hnéð á mér er í uppreisn. Hrund hefur smitað mig af hnésýki og hefur því fengið illt augnaráð frá mér alla vikuna (hún hefur samt ekkert tekið eftir því, brosir bara til mín, huh). Hrund var að drepast í hnénu fyrst eftir að við byrjuðum í ræktinni en það lagaðist eftir smá tíma. Mitt bæklaða hné (sem hefur áður gefið sig og þurfti að krukka í það á skurðborði, oj barasta) hefur ákveðið að vera ekki í lagi lengur og verða aftur bilað. Það gefur sig reglulega og ég hrasa og skjögra í skólanum eins og ég hafi fengið mér eitthvað sterkara en kaffi í morgunmat.

Oddný og Viktor ætla með okkur í keilu á morgun (Viktor er barnið hennar Oddnýjar einu sinni í mánuði, ekki dularfulli kærastinn sem enginn vissi um). Það verður frábært, fórum einhvern tíma í vor og Rakel rústaði okkur. Mér finnst keiluskór svo flottir. Vinkona mín stal einu sinni svona skóm þegar við fórum í keilu. Ég hélt mig hins vegar á beinu brautinni og skilaði skónum eftir notkun. Það var svo mikil táfýla af þeim.

Ætla í spænskutíma. Ritlist. Þið viljið ekki vita hvað ég hef um hann að segja í augnablikinu.

Díana Rós, æst í skapi (sem ég er ekki alltaf, sama hvað Hrund segir, það er ekki það sama að vera æstur og ekki-rólegur).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist vera landlæg lægð í gangi, búin að vera að strögla í sömu asskotans letinni. 

En gaman að geta fylgst aðeins með ykkur, þú kannt greinilega ennþá að skrifa skemmtilega  (ekki það að ég hafi efast um það)

Arna 21.9.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband