Þoka

Ég hef verið voðalega ódugleg að skrifa undanfarið. Ekki af því að það er ekkert að gerast heldur að af því að þoka hefur sest að í hausnum á mér.

Það helsta. Ég og Hrund keyptum okkur nýja kaffivél síðustu helgi. Þarf bara að ýta á einn takka og kaffið spýtist í bollann. Vorum eins og krakkar í dótabúð alla helgina nema við vorum fullorðnar og inni í eldhúsi. Strukum kaffivélina, dáðumst að henni, röðuðum öllu upp á nýtt á eldhúsbekknum til þess að sem best færi um hana og drukkum auðvitað ógrynni af kaffi.

Ótrúlega gaman hjá mér og Rakelitu í fyrradag. Hoppuðum alla leiðina heim úr leikskólanum og sátum svo sveittar í stigaganginum heima í úlpunum og skemmtum okkur. Fórum með vísuna um puttana (þessi datt í sjóinn, þessi dró hann upp ...) aftur og aftur, rifum okkur svo úr sokkunum og töldum tærnar. Komumst loks berfættar inn og úr úlpunum. Létum tærnar okkar knúsast og Rakel vildi endilega smella nokkrum blautum kossum á mínar (enginn annar í heiminum leggst á hnén og kyssir á mér tærnar). Skelltum svo á okkur svuntum og ákváðum að baka köku. Þar sem ég baka helst ekki vantaði ýmislegt í kökuna. Fórum berfættar í skó og og út í búð og fannst ýkt fyndið að vera ekki í neinum sokkum. Þegar við komum aftur heim var hafist handa. Rakel fékk að hella öllu í skálina og hjálpa mér að blanda. Hún smakkaði líka smjörið samviskusamlega og blés á þurrefnin í skálinni svo kakóský lagðist yfir eldhúsið. Við settum líka kakó á nefið og hveiti á kinnarnar svo það færi ekki á milli mála að við værum bakarameistarar. Æ já, líf og fjör, þetta er ungt og leikur sér. Ps. kakan var mjög góð.

Kíktum svo til ömmu/langömmu í gær. Náði í lítla dverginn minn veðurbarinn og hundblautann á leikskólann. Tók eftir því þegar ég var að festa hana í bílstólinn að buxurnar voru rennblautar. Hún kvartaði og kveinaði að sjálfsögðu en róaði sjálfa sig með því að hún myndi setja buxurnar ´í´ofninn hjá langömmu. Áttum svo notalega stund hjá ömmu. Rakel sagði mér að hún væri ekki skinka (ég hélt því fram að hún væri skinka) heldur mamma, hún sjálf væri ostur og ég tómatur. Við yrðum góð samloka held ég. Hver vill vera brauðið?

Eins og venjulega er ég að verða of sein. Er að fara í spænsku. Var einmitt í spænskuprófi í gær og stelpan sem sat næst mér var að gera mig vitlausa. Skrifaði öll svör eftir mér og viritst ekkert vera að reyna að fela það. Langaði að hvæsa á hana að ég hefði lært í marga tíma fyrir þetta próf og ef hún væri of löt til að gera það sama gæti hún bara hætt í skóla. Eða að minnsta kosti reynt að láta lítið á því bera að hún væri að svindla.

Það á ekki að svindla í lífinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: inam rakel yasin

Tad er satt sem teir segja um tig; penninn (í tessu tilfelli tölvan og takkabordid) leikur í höndunum á tér. Tad er sorg á mínu heimili....tölvan mín er alvarlega veik, batahorfur eru enn óvissar! 

inam rakel yasin, 28.9.2007 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband