Krosslagðir fingur

Sprundin fór læknavaktina áðan þar sem henni hefur versnað eftir því sem liðið hefur á vikuna. Sjúkdómsgreining: inflúensa. Og ekkert við því að gera nema bíða. Ég trúi þessu ekki. Ég sárfinn til með konunni minni sem er eitthvert óþekkjanlegt hrúgald, annaðhvort í sófa eða rúmi. Man líka hvernig þetta var í janúar í fyrra þegar ég fékk inflúensu, var með 40 stiga hita og grét af vanlíðan, fullorðin manneskjan. Sprundin hjúkraði mér og varð svo sjálf veik þótt það væri ekki fyrr en rúmri viku eftir að ég lagðist í rúmið.

Ég get því enn þá átt von á því að verða veik. Og þá get ég ekkert lært og prófin fara í vaskinn og líf mitt endar og allt það. 

Sprundin er sem betur fer ekki eins veik og ég var í fyrra.  

Er ekki frá því að ég finni fyrir hausverk.

Nei. Og aftur nei. Ég ætla ekki að verða veik.

Annars varð Sprundin skyndilega sprækari áðan. Varð sjálfri sér lík og deildi sínum einkahúmor með mér. Núna situr hún hér hjá mér og unir sér í Playstaition (eða hvernig sem þetta er skrifað). Úr því hún getur farið í bílaleik þá hlýtur hún að verða frísk bráðum.

Eins gott líka því við erum að fara á Malarrif á morgun. Er búin að pakka fyrir okkur og ætlum að reyna að leggja af stað upp úr hádegi.

Engill er hjá pabba sínum. Ég stakk upp í því að við breyttum kerfinu og hún færi til hans annan hvern fimmtudag (yfir nótt) og annan hvern föstudag (yfir helgi). Þannig hittast þau einu sinni í viku en áður fór hún til hans aðra hverja helgi og svo á mánudegi eftir mömmuhelgi sem þýddi að þau hittust tvisvar í sömu viku og svo ekkert í rúma viku. Betra svona held ég.

Er bara að draga það á langinn að fara að sofa. Þori ekki að vakna á morgun ef ég skyldi vakna veik.

Annars lærði ég ekkert í dag. Gott hjá mér. 

Ljósi punkturinn þessa stundina er brósi minn sem brilleraði á sýningunni í gær þar sem hann lék af tærri snilld og söng Allt fyrir ástina. Kvenfólkið í fjölskyldu hans (í meiri hluta eins og alltaf) plús afi og pabbi hans fylltist stolti þegar drengurinn steig nýklipptur og spangarlaus á svið, eins og snýttur út úr nös á mömmu en hafði þó yfir sér sama sjarmann og pabbi hans. Svo vel upp alinn, góðhjartaður og vel skapur í alla staði.

Ég sé þann dag fyrir mér þegar hann hefur lokið hraðbraut, útskrifast úr leiklist og leikið aðalhlutverkið í kvikmynd sem Davíð frændi framleiðir og Valdís frænka klippir. Hann mun stíga á stokk á frumsýningu og þakka móður sinni og systrum tveimur, en án þeirra hefði hann ekki orðið sá maður sem hann væri í dag, þær væru allar kjarnakonur og hefði hann alist upp í faðmi þeirra, sem blómi í eggi og ætlaði hann sér í ókominni framtíð að skýra dóttur sína því nafni sem aðalkonurnar í lífi hans bera allar, Rós.

Ég tárast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband