Prófatörn

Ætla ekki að hafa mörg orð um helgina þar sem hún var í einu orði sagt dásamleg. Malarrif er uppáhalds staðurinn minn í heiminum.

Þarna voru ég og stelpurnar mínar, mamma og systkini mín, Edda móða og Unnur og Rósa, dætur hennar, og svo Valdís móða. Við eyddum allri helginni úti og létum orkuna frá jöklinum umvefja okkur og endurnæra. Rakel var í úti í tólf tíma á dag og var aldrei svöng og þurfti aldrei að pissa. Hún fór líklega í nálægt 500 gönguferðir með hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum og ég hef aldrei vitað til þess að ein manneskja, hvað þá kríli eins og hún, geti búið yfir jafn endalausri orku.

Ég tók mér langan göngutúr meðfram fjörunni og tók svo hraunið á leið til baka. Var löðursveitt og hamingjusöm þegar ég kom til baka. Svo var bara lesið og spilað og spjallað og drukkið kaffi og borðað. Yndislegt.

Ég náði meira að segja að lesa tvær langar greinar í spænsku. Húrra fyrir mér.

Síðasti dagur Hrundar í skólanum er á miðvikudaginn. Þar sem hún var veik alla síðustu viku hefur hún bara fram á miðvikudagskvöld til að klára kommóðuna sína. Hún á víst eftir að gera allar skúffurna. Hún býr því upp í skóla núna og ég tek mér pásu frá lærdómnum og sé um Rakelina. Í staðinn tekur Hrund hana að sér á sumardaginn fyrsta og líklega eitthvað í næstu viku þótt hún þurfi auðvitað  líka að læra sjálf.

Það er svolítið sérstakt að vera í prófum þegar maður á barn. Allur lærdómur verður að vera skipulagðir í kringum þarfir þess og svo kemur tími þar sem þú sérð það ekert og ert algjörlega vængbrotinn. Sem betur fer er þetta bara tvisvar á ári og svo fer ég nú kannski líka að klára þetta nám. Þetta eru síðustu prófin mín á vorönn. Þangað til ég fer að læra eitthvað meira. 

Við Hrund ætluðum að vakna eldsnemma í morgun, hún ætlaði að vera komin í skólann klukkan átta og byrja að smíða og ég ætlaði að byrja að læra þar sem það tekur endalausan tíma að lesa allar þessar greinar. Við vöknuðum hins vegar um fimm í morgun við mjálmið í pissublautu og eldhressu barni. Skiptum á rúmi og skipuðum barninu í það aftur að sofa. Vorum allar þrjár lengi að sofna aftur og sváfum allar til hálf tíu. Ég er ekki enn byrjuð að læra. Þurfti að stússast eitthvað og fá mér að borða.

Það hefur hvorki gefist tími til að þrífa né versla ansi lengi núna. Það átti að gerast í síðustu viku en Hrundin lá fyrir og ég var ekkert að vasast í þessu ein. Mér ofbauð skíturinn áðan, náði mér í Clif hreinsiklút og þurrkaði mesta skítinn, vaskaði upp og setti í vél. Maður losnar víst ekki við það þótt maður sé að læra. Í gær borðuðum við Rakel hjá mömmu, á eftir ætlum við að ná okkur í pizzu og á sumardaginn fyrsta förum við í mat til tengdó. Ég hef ekki enn fundið út úr morgundeginum. Það verður naglasúpa líklega. Á föstudaginn vonast ég til að við getum látið setja sumardekkin undir bílinn (við gleymdum alveg að nýi bíll var ekki á heilsársdekkjum og svo þegar við ætluðum að gera það varð Hrund veik og allt það) og keypt inn.

Gud i himmelen. Bæði litli og stóri vísirinn er á tólf og ég ekki enn byrjuð að fræðast. Yfir og út. 

Aðeins inn aftur: ég er ekki enn orðin veik svo ég vona að ég hafi sloppið við þessa inflúensu og Rakel líka. Djöfull erum við hraustar. Það er af því að við tökum alltaf vítamín og lýsi og drekkum nýpressaðann appelsínusafa með. Það gerir Hrund ekki en neitar að það skipti máli í þessu tilfelli. Ég hélt öðru fram um daginn og varð ekki vinsæl. Hún vill ekki að ég röfli í henni út af þessu svo ég geri það bara hér:

Taktu vítamín Hrund og hættu þessari vitleysu!

Ha, ha. Út aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nokkuð víst að appelsínusafi og lýsi gera sitt gagn hvað sem Dundý segir. En þú veist hversu þver hún er...hefur það trúlega frá mér. Þegar ég var í Kvennó áttum við að lesa Laxnes, Þórberg og einhverja fleiri eðalpenna en ég las ekkert af þessu...læt ekki segja mér hvað ég á að lesa og heldur ekki hvað ég á að setja ofan í mig, svo...Gangi þér vel í prófunum, sem ég veit reyndar að þú gerir hvað svo sem þér finnst sjálfri...það mætti halda að þú værir fædd í meyjarmerkinu, haldin fullkomnunaráráttu á MJÖG háu stigi. Stundum er það gott, stundum ekki og yfirleitt bitnar það á viðkomandi fullkomnunaráráttupersónu!!! Hlakka til að sjá ykkur á morgun. Tengsan.

Tengdó 23.4.2008 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband