Hvurslags

Ég auglýsi hér með eftir auka klukkustundum. Mig vantar að fá að bæta nokkrum við í sólarhringinn minn. T.d. svo ég hafi tíma til að skrifa á þetta blogg á hverjum degi. En það er nú kannski óþarfi. Við lifum ekki það krassandi lífi.

Haldiði að ég hafi ekki vaknað með kverkaskít í morgun. Dónaskapurinn. Veit ekki við hvern ég á að æsa mig.

Skólastressið hefur komið sér fyrir í maganum á mér. Finnst svo mikið að læra og það á bara eftir að versna. Kannski væri þetta betra ef ég eyddi ekki tímanum í að prjóna eins og ég gerði í tvo tíma í gærmorgun. En ég er búin að skipta tvisvar um lit og búin með heilmikið. Ég er að springa úr stolti. Ég var búin að rekja að minnsta kosti átta sinnum upp áður en ég komst á lagið. Eins og svo oft var það Hrund sem kom mér til bjargar þegar ég var að tapa geðheilsunni. Hún spurði mig hvað væri eiginlega að þegar hún var búin að fylgjast með mér rennsveittri með prjónana í drykklanga stund, blótandi eins og mér einni er lagið (barnið var sofandi og varð því ekki fyrir neinum skaða). Ég svaraði að ég væri að reyna að helvítis prjóna en það færi alltaf í klessu. Þá horfði hún á mig með þolinmæði (sem ég á ekki til, aldrei) og sagði: þú þarft bara að æfa þig!

Ég hafði ekki fattað það. Svo æfði ég mig og gafst ekki upp, sló af þeim kröfum að trefillinn þyrfti að vera fullkominn og voila (er það ekki skrifað svona annars?)

Ykkur finnst kannski skrítið að þetta gangi svona illa en skýringin er einföld. Handavinnukennarinn í Melaskóla var hundrað ára og átti að vera komin á eftirlaun fyrir löngu en var á einhverjum sérsamningi. Hún reykti í frímínútum og setti stubbana í veskið. Það var ekki hægt að vera nálægt henni. Svo var hún hálfblind og sögur gengu um að hún staupaði sig inn á klósetti hvenær sem færi gafst.

Í Breiðó vorum við bara í því að gera ónauðsynlega hluti eins og að sauma út. Úff.

Í réttó tók ekki betra við. Kennarinn hataði mig auk þess að vera með banvænan andadrátt. Hún fyrirleit mig fyrir að fjöldaframleiða ekki flíkur og fyrir að skilja ekki saumavélar. Þegar ég bað um að fá að læra að stoppa í sokka, sem var um það bil það eina sem ég hafði áhuga á að læra, sagði hún að það gerði enginn lengur. Þá bara gafst ég upp á henni, nenni ekki að tala við fólk sem hendir hosunum sínum ef það kemur gat á þær. Uss bara.

Sumst. Amma kenndi mér að prjóna og hekla þegar ég var krakki og mamma hefur hjálpað mér með allt í skólanum og eftir hann. Þær hljóta að fá einhvern bónus frá ríkinu hvað úr hverju.

Rakel er byrjuð á leikskólanum og það er ekki eins og hún hafi verið í burtu í sjö vikur. Fær endalaus hrós frá starfsfólkinu en ég veit nátla hvað hún er fullkomin.

Mig langar svakalega að prjóna en ég verð eiginlega að fara að lesa spænsku. Kannski ég fari milliveginn og geri eitthvað allt annað eins og að hringja aðeins í mömmu ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband