Mánudagur

'Það er eins og ég sé drukkin' sagði ég þar sem ég hrasaði um skótauið á leið minni út úr dyrunum.

'Þú ert bara drukkin af gleði' sagði konan mín blíðlega og brosti til mín.

Ég var boðin í afmæli hjá einni í mömmuklúbbnum á laugardaginn og þar sem ég hef nú farið ansi sjaldan út síðan 2008 án þess að vera ólétt og/eða alveg edrú hlakkaði ég mikið til. Ég drakk þrjá litla bjóra, spjallaði frá mér allt vit og hló og hló og hló. Kom heim um þrjú, gaf Röskvu brjóst og rotaðist. Var svo að farast úr þreytu í gær en andlega var ég í toppformi. Þessi mömmuklúbbur er skemmtilegastur í heimi, var áður bumbuhópur en er núna mömmuhópur og við náum allar svo vel saman. Skemmti mér alltaf konunglega með þeim.

Helgin var góð. Fórum á víkingasafnið í Perlunni allar fjórar og Röskva var í fyrsta skipti í kerru. Hún undi sér vel og var svo væn að sofa á meðan við vorum á safninu. Við fengum okkur svo kaffi og með því á kaffihúsinu áður en við Röskva fórum til mömmu og Hrund og Rakel í skógarferð í Öskjuhlíð. Á sunnudaginn skelltum við Rakel okkur í sund með mömmu og Hrund fór hér um eins og hvítur stormsveipur. Setti í hundrað vélar, vaskaði upp, sá um Röskvu og þreif meira að segja glerið í eldhússkápnum. Eldaði svo kvöldmat á meðan ég bjó til sjúklega góðan súkkulaðibúðing úr lárperum, banönum, kakó, agave og kókosolíu. Elska fjölskyldulífið.

Við Röskva örkuðum út að verða ellefu í morgun og stefndum á Laugardalinn. Ég fór í fyrsta skiptið í kerrupúl og sjiiiiiiiiit hvað það var erfitt. Þetta er ekkert rölt með kerrurnar. Við stikuðum á örugglega 50 km hraða um Dalinn, hlupum og skokkuðum, gerðum armbeygjur, hnébeygjur og ég veit ekki hvað og sprettum inn á milli á meðan börnin hossuðust í vagninum. Ég hélt ég myndi gefa upp öndina á leiðinni heim og handleggirnir á mér titruðu þegar ég var að bera Röskvu upp stigann. Geggjað og aftur geggjað. Verð þrisvar í viku í 8 vikur og djöfull mun ég vera komin í gott form.

Er alveg að verða geðbiluð á þessum vagni og Röskvu sofandi í honum. Hún sefur alltaf svo laust, það má varla hreyfa vagninn og svo er hún sífellt að rumska og stundum finnst mér ég eyða heilu dögunum í það að standa út á svölum eða hlaupa upp og niður stigann þegar hún sefur úti á palli. Ég er þakklát fyrir að hún sofi eitthvað en ég fer ekki ofan af því að það væri MIKLU MIKLU þægilegra ef barnið væri til í að sofa inni. Reyndi það aftur um daginn og ekki séns. Oh.

Pabbi kemur í næstu viku og svo fer ég bráðum að gefa Röskvu smá matarsmakk í hádeginu. Kannski þegar hún er svona 5 og hálfs mánaða. Hún hefur engan áhuga á pelanum sínum lengur og maður er hálftíma að koma mjólkinni ofan í hana. Held að hún sé alveg að verða tilbúin að fá smá sæta kartöflu eða lárperu.

Svo eru það bara páskar. Og ekki of mikið af páskaeggjum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband