Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Þetta er dagurinn

Settur dagur í dag!!!

Skrítin tilfinning.

Það sem ég finn mest fyrir núna er ...

... viiiiiiðbjóðsleg þreyta. Byrjaði að fá verki og samdrætti yfir fréttum í gær sem hélst stöðugt til sex í morgun. Varð ekki að almennilegum hríðum (samt meiri verkir en á föstudaginn þegar ég fékk líka falshríðar í 10 tíma) en var of vont til að ég gæti sofið nokkuð nema frá sex til átta þegar þetta datt niður. Ég bara bið og vona að þessir verkir og samdrættir hafi haft einhver áhrif og ég sé alveg að malla af stað.

Mægður kysstu bumbuna áður en þær fóru út úr húsi áðan og báðu krílus að koma út í dag. Merkisstund þegar Rakel gerði x á dagatalinu yfir daginn í dag (búin að gera það við hvern dag í október). Eftir að hafa beðið síðan ég var komin 12 vikur gat hún loks sagt að í dag ætti barnið að koma. Vona hennar vegna og allra vegna að þetta verði bara dagurinn.

Koddu.

ps. Miðað við hvað það eru margir sem skoða bloggið á dag þá eru þið ekki dugleg að kommenta. Verð bara að segja það sko.


Pressa

Það er soooooldið mikil pressa á mér að eiga fyrir helgi. Síðasti dagurinn til þess að skrá sig úr námskeiði er 1. nóvember og samkvæmt Fæðingarorlofssjóði verð ég að vera með fulla töflu alveg þangað til barnið er fætt (af hverju af hverju af hverju) en svo er þeim alveg sama hvað ég klára og hvað ég geri. Ég get því ekki sagt mig úr námskeiði fyrr en barninu þóknast að koma í heiminn. Komi það ekki fyrir helgi fæ ég fall í þeim tveimur námskeiðum sem ég ætla ekki að klára.

Manneskja með minn metnað og einkunnasýki finnst mjög ófyndið að vera með tvö föll á námsferlinum og það í fögum sem ég mætti aldrei í. Og það til þess að fá þessar tvær krónur á mánuði sem fæðingarstyrkurinn er. Ég meina, ég er að fá 50.000 kalli minna en ef ég væri á atvinnuleysisbótum. Skýr skilaboð sem maður fær sem námsmaður, ég er bara búin að vera að dúlla mér í einhverju ómerkilegu og ég og mitt barn megum éta það sem úti frýs þess vegna (sem verður ekki raunin hjá mér þar sem ég á konu á ofurlaunum (hoho) og hef erft peningavit móður minnar, lesist: ég er með þetta allt á hreinu).

Svo komdu úúúúút krílus. Settur dagur á morgun og 40 vikur er alveg nóg. Svo sagði samnemandi minn mér sem átti barn fyrir tveimur vikum að miðvikudagur væri kjörinn dagur til að eiga á (hún átti á miðvikudegi) þar sem það væri lasagne í matinn í Hreiðrinu á fimmtudögum og ógisslega gott, ristað brauð með. Hún mælti með því að horfa á Kiljuna en hún fór einmitt sjálf af stað yfir henni.

Komaso.


Ljúft

Helgin var einstaklega ljúf. Pínu svekkelsi reyndar á föstudaginn þar sem ég byrjaði að fá reglulega samdrætti með verkjum rétt fyrir sex um morguninn og hélt ég væri að malla af stað en 10 tímum seinna þegar rétt um 4 mín. voru á milli samdrátta datt allt niður!!! ARG!!! Vona svo sannarlega að allir þessir samdrættir hafi unnið einhverja undirbúningsvinnu og ég eigi minna eftir þegar ég fer af stað fyrir alvöru.

Samt gott að finna að um leið og ég hélt að ég væri að fara af stað þá helltist yfir mig ró og friður og ég kveið fæðingunni ekki neitt, var bara spennt. Fór að taka til og snurfusa hérna heima og lá í lavenderbaði og las á meðan ég fylgdist með kúlunni harðna reglulega og krílinu á fullu. Barnið hefur bara verið á útopnu síðastliðnar vikur hvað varðar hreyfingar, auðvitað lítið pláss eftir en það bara stoppar ekki og slær sífellt ný met sem er bara skemmtilegt.

Við Sprundin ákváðum að fá okkur göngutúr um kvöldmatarleytið, hún orðin mygluð af viku veikindainniveru og ég vildi freista þess að labba samdrættina í gang aftur. Röltum út í sjoppu og litum vægast sagt út eins og gömul hjón á kvöldgöngu. Höktum meira en gengum, ég að farast í grindinni þar sem barnið þrýstir svo með litla kollinum sínum á allt og Hrund löðursveitt við áreynsluna, ekki alveg orðin góð kannski. Náðum okkur í spólur, höktum til baka og fórum svo og fengum okkur að borða á Culiacan. Ákváðum að kíkja á tengdó og fá lánaða myndavélina hennar (okkar er svo léleg) ef ég skyldi fara af stað, viljum eiga góðar myndir úr fæðingunni. Áttum svo kósýkvöld heima upp í sófa.

Ætlaði að vera rosa dugleg og klára verkefni í íslensku á föstudeginum en það fór allt í rugl út af samdráttunum sem áttu hug minn allan. Tók samt þá ákvörðun að leyfa mér að vera í fríi þessa pabbahelgi sem ég ætla rétt að vona að sé síðasta barnalausa helgin, vil ekki vera ólétt enn þá eftir hálfan mánuð. Eyddi laugardeginum með mömmunni minni, sem er alltaf yndislegt, og sötraði kaffi hjá ömmu. Fór svo heim og eldaði kjúkling handa okkur Sprundinni og við kúrðum aftur upp í sófa og höfðum það gott. Ákvaðum að fá okkur bröns á sunnudeginum sem var ótrúlega notalegt og fórum aðeins í Kolaportið með Kötlu og Oddu poddu sem er í bænum þessa dagana. Spjölluðum á kaffihúsi dágóða stund sem var svo gaman, veit ekki hvað það er langt síðan við vorum svona fjórar saman. Við Hrund fengum okkur svo kvöldmat og fórum snemma í rúmið aldrei þessu vant.

En svo gat ég bara ekkert sofið. Veit ekki hvort ég er orðin svona óþolinmóð og yfirspennt en ég var andvaka meira og minna alla nóttina. Held ég rumpi þessu verkefni af núna og sinni nokkrum heimilisverkum og leggi mig svo.

Rakel besta barn kemur heim á eftir og ég get ekki beðið. Hún er mesti snillingur sem ég þekki og ég vildi stundum að ég gæti tekið hana upp heilu dagana, gullmolarnir velta upp úr henni. Við mömmurnar söknum hennar alltaf meira og meira um pabbahelgar eftir því sem hún eldist. Það verður yndislegt að fá rauðhausinn í fangið og spjalla um daginn og veginn og veltast um af hlátri.


Orð

Mikið svakalega var gaman í tíma í dag. Ekkert heillar mig eins mikið og orð og texti. Ég sogaði í mig hvert einasta orð sem kom út úr munni gestafyrirlesaranna og fann hvernig umræðan um skrif fyllti mig spennu og endurnærði um leið.

Er bara miklu hressari. Hitalaus og kát og stútfull af orðum og hugsunum sem ég þyrfti að festa á blað.


Ugh

Jæja.

Þá er maður kominn í veikindaandvökuna aftur. Get ekki sofið fyrir kvefi og hálsbólgu.

Held ég gefist upp bara.


Nei, hættu nú alveg

Nú er Hrund orðin veik! Og hún sem fór í flensusprautu í síðustu viku. Annaðhvort er hún með svínó eða einverja þriðju pestina sem er að ganga, allavega ekki það sem við Rakel vorum með. Ég er svo miður mín yfir þessum endalausu veikindum hérna að ég er gráti næst. Í fyrsta lagi vil ég hafa Sprundina með mér í fæðingu og það getur hún ekki og fær ekki lasin. Og ég get farið af stað hvenær sem er. Í öðru lagi meika ég ekki, svo innilega ekki, að verða veik aftur. Get það ekki og höndla ekki tilhugsunina um að vera veik í fæðingu. Í þriðja lagi vil ég alls ekki að rauðhaus verði veik aftur, allt of mikið álag fyrir svona litla stelpu og ég vil bara að allir séu frískir!!! þegar barnið fæðist.

Langar helst að fara eitthvað í sóttkví.

Sprundin var ekki með hita í morgun en höfðuverk, mikið kvef, beinverki og slæma hálsbólgu. Ég skipaði henni að hringja á heilsugæsluna um leið og hún fengi hita. Vil þá láta taka streptókokkastrok eða svínaflensustrok eða eitthvað og fá úr því skorið hvort eitthvað sé hægt að gera.


Jæks

38 vikur í dag og nú má barnið bara fara að koma svo ég geti fengið mína ljósu í heimaþjónustu (hún fer til útlanda 1. nóv).

Er búin að setja það helsta í spítalatöskuna ...

Get ekki beðið eftir að sjá ungann minn. Trú varla að þetta sé að fara að skella á.

Bara svona til að hafa það á hreinu þá á ég ekki von á því að vera lengi á spítalanum ef allt gengur vel. Ég sé því ekki fyrir mér heimsóknir á spítalann nema frá tengdó og stóru systur. Auðvitað geta fleiri kíkt ef við verðum eitthvað lengur en ég ætla að vera ýkt ströng á því að fólk hringi á undan sér og athugi hvernig standi á, líka þegar við erum komin/komnar heim, ekki bara mæta allt í einu. Hef aldrei verið með hvítvoðung áður og tengslamyndun, ró og næði fyrir alla fjölskylduna skiptir öllu.

Ég veit að þið vitið þetta elskurnar en það verða auðvitað allir svo spenntir þegar nýtt ljós kemur í heiminn. Bara hringja á undan eða við hringjum í ykkur. Og svo verða allir að þvo sér um hendur eða spritta þær áður en krílið er kjassað, það verður regla númer eitt, tvö og þrjú.

Það fá einhverjir útvaldir skilaboð þegar ég fer af stað en annars ætlum við ekkert að útvarpa þessu fyrr en eftir fæðingu. Svo set ég nú eins og eina mynd hér inn og Sprundin líklega á Fésið.

Úff, hvað þetta er spennandi. Vona bara að við þurfum ekki að bíða í fjórar vikur í viðbót!

Innskot, skrifað seinna: Eitthvað virðist stefna í heimsóknarbann á spítalanum út af flensunni og þá má bara enginn koma í heimsókn nema makinn. Við sjáum hvað setur, maður verður víst að fara varlega.

 

 


Hvítt

Best að blogga aðeins svo þið haldið ekki að ég sé dottin í þunglyndi bara. Svona mikil líkamleg vanlíðan hefur hins vegar óneitanlega áhrif á sálartetrið og ég hef örugglega grenjað meira síðastliðna viku en samtals á meðgöngunni. Ég er samt öll að skríða saman. Hef sofið aðeins betur undanfarnar tvær nætur og svona og það skiptir öllu.

Ákvað að hunsa hálsbólgu og hósta í dag og vera hress. Hoppaði í sturtu og drakk kaffi með Sprundinni, skutlaði Rakel í leikskólann og spúsunni í vinnuna og útréttaði svo eins og mér einni er lagið. Leið samt eins og ég væri 100 kíló, kemst varla úr sporunum núorðið og vagga, geng ekki. Allt í lagi með það.

Var að koma með heim með pinkla. Fór hér um eins og stormsveipur með handryksuguna og gekk frá þvotti, þreif (létt þrif bara) vaska á baðherbergjum og klósett, skellti í vél og ...

... allt í einu helltist yfir mig hamingjan. Hamingjan umvefur mig alltaf í formi augnablika hér og þar, það er það sem gerir hana svo sterka og yndislega. Mér fannst allt verða hvítt og hreint og hlýtt í kringum mig og ég sá bara myndir af rauðhausnum mínum og Sprundinni og strauk kúluna og dáðist að heimilinu mínu og söng aðeins með Pétri. Svo færðist yfir mig ró.

Vá, hvað ég þurfti á þessu augnabliki að halda.


Klikk!

Ég verð klikkuð. Ég hef nú sofið frekar illa alla meðgönguna og eðlilega hefur þetta farið versnandi á lokasprettinum. Brjóstsviði og bakflæði og martraðir og samdrættir og verkir og pissuvesen.

EN ER ÞETTA GRÍN!!!! Ég hef ekki sofið í bráðum viku, ekki síðan ég varð lasin. Var vön að ná allavega svona tveggja tíma dúr fyrst og dorma svo restina af nóttinni en vanlíðanin í veikindunum veldur því að ég sef ekki neitt bara. Sef kannski fyrsta hálftímann eftir að ég fer upp í rúm og vakna svo á svona korters fresti. Meika ekki að vakna fjórum sinnum á sama klukktímanum. Enda svo með því að vera andvaka frá svona hálf þrjú, gefast að lokum upp og koma mér fyrir inni í stofu þar sem ég á erfitt með að anda í liggjandi stöðu. Fyrst var hitinn að fara með mig og svo hóstinn. Mamma greyið varð skelfingu lostin að heyra í mér í verstu hóstakösunum á föstudaginn, hélt hreinlega að ég væri að kafna. Mér leið eins og einhver hefði kveikt í lungunum og að bumban væri að rifna. Ég get svo svarið það að ég hlýt að vera kviðsltin efftir þessi köst.

Í gær rann upp fyrsti hitalausi dagurinn en þá fékk ég í staðinn skyndilega hálsbólgu og eyrnaverk fyrir utan að vera alls ekkert hress þótt hitinn sé farinn. Núna er mér svo illt í hálsinum að ég get EKKERT sofið. Svaf í klukkutíma áðan og er svo bara búin að vera vakandi og klukkan er focking korter yfir sjö um morgun. Ég er bókstaflega að missa vitið. Reyni svo að leggja mig á daginn en næ yfirleitt bara klukkutíma og vakna rennsveitt og illa.

Mig bara dreymir um svefntöflu. Ætla á læknavaktina á eftir. Neita að trúa að þessi hálsbólga sé eðlileg, hlýt að þurfa að pensilín. Var samt hjá lækni á föstudaginn og það kom ekkert út úr stroki. Þetta er bara orðið hundrað sinnum verra og ég virðist ekki ætla að verða frísk.

Ég er orðin klikk. Vola bara af vanlíðan og get ekki meir.


37 vikur og myndir

Þá er ég búin að ná 37 vikunum og er ekkert smá lukkuleg með það. Núna má unginn koma hvenær sem er. Væri reyndar fínt að ná flensunni úr sér fyrst. Er mun verri í dag en í gær, með hita og kvef og hósta dauðans. Rauðhaus er hinsvegar hitalaus.

Búin að setja tvö ný albúm inn á Barnaland og bæta við myndum í bumbumyndaalbúmið hérna til hliðar. Endilega skoða.

Svo er hérna tvær myndir af okkur mæðgum og kúlusúkki, teknar í gær:

pa060060.jpg pa060061_919843.jpg


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband