Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Afmæliafmæli

Hef bara ekki komist til að skrifa, öll helgin fór í gleði og glaum. Við Sprundin brunuðum í Ríkið á föstudagskvöldið og svo til mömmu. Vorum þar að dúlla okkur við skattaskýrslu og ekki skrítið að við skulum hafa þurft að fá okkur nokkra bjóra við þá iðju. Kom nefnilega í ljós að í íbúðalánin okkar eru í dag tveimur milljónum hærri en þegar við tókum þau sökum verðbólgu. Og það þrátt fyrir að við höfum borgað tæpar 800000 krónur á síðasta ári í afborganir. Og eitthvað svipað árið 2006. Maður verður svo fjandi frústreraður.

Allavega. Með nokkra bjóra í malla ákváðum við spúsan að skella okkur niður í bæ. Hittum Kötlu og Arnar kærastann hennar og fórum á Hressó þar sem Tryggvi frændi bættist í hópinn. Þetta varð hið skemmtilegasta djamm. Dönsuðum og dönsuðum á Hressó og svo á Apótekinu og ég skemmti mér vægast sagt konunglega.

Á laugardaginn vaknaði ég og ákvað að vera ekkert þunn. Fékk mér ristað brauð og saft og rölti svo til mömmu að ná í bílinn. Það var góður 20 mínútna göngutúr og ég hresstist öll við. Þegar ég kom heim var fallega konan mín vöknuð og sat í stofunni með gítar og söng sinni englaröddu. Hún söng fyrir mig meðan ég fór í sturtu og tók mig til og þegar hún var klár kom mamma og náði í okkur og keyrði okkur heim til sín þar sem afmælisveislan átti að eiga sér stað (það komust ekki allir við borðstofuborðið mitt). Við lögðum á borð og snurfusuðum og skelltum spænska saltfisksréttinum sem ég hafði undirbúið kvöldið áður í ofninn. Gestirnir komu um sjö og skáluðu með mér í freyðivíni. Maturinn var gómsætur, gjafirnar mína frábærar, vínið og bjórinn góður og samræður stórskemmtilegar. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í háa herrans tíð, ef nokkurn tíma. Þetta var æði.  Um eitt var vínið búið og Einar og mamma komin heim. Við héldum þá til Rósu frænku og Gests þar sem margir kassar af bjór biðu okkar. Við spiluðum á spil og gítar, drukkum örugglega allan bjórinn í heiminum, hlógum og spjölluðum. Tryggvi, Katla og Davíð fóru í bæinn milli tvö og þrjú og við Hrund skakklöppuðumst heim um fjögur, að ég held, ánægðar með að vera bara í Skipasundinu (þar sem Rósa og Gestur búa líka).

Ég var ekki hress þegar ég vaknaði á hádegi en hafði það samt gott það sem eftir lifði dags. Borðaði núðlur með chilli og horfði á Friends og lagði mig svo þangaði til litli ljósgeislinn minn kom heim. Hrund skrapp svo út og kom heim með spólur og meiri sterkar núðlur. Það má með sanni segja að hún hafi gefið mér alla sína ást og athygli undanarið (ekki að hún geri það ekki yfirleitt en afmælisstelpuna mig hefur hún virkilega trítað).

Í dag bauð mamma mér í afmælishádegisverð og núna er við stelpurnar mína hér hjá mömmu í pizzuveislu. Ég er svo glöð og sæl að ég snerti varla jörðina.

 Takk allir sem hafa glaðst með mér. Þetta stórafmæli mitt hefur sannarlega verið eftirminnilegt. Og eftir rúma tvo tíma verð ég formlega orðin 25 ára.

Hasta luego.


Veikindi ...

... eru ástæða bloggleysis. Hef varla getað skeint mig sjálf svo orkulaus hef ég verið. Hefði nátla getað nýtt mér vilja Rakelar til að skeina mig og látið hana gera það en gekk ekki svo langt. Í staðinn hef ég síðan á miðvikudag legið eins og klessa upp í sófa og notið þess að eiga yndislega konu sem sér um allt.

Ég er eitthvað borubrattari í dag, er mætt í skólann og langar að öskra af stressi. Missti af forna málinu og hljóðfræði á miðvikudag og sé ekki fram á að hafa tíma til að hlusta á bæði á netinu, missti af áhugverðum fyrirlestri um konur í rómönsku Ameríku í gær og tíma í spænskri málfræði. Þetta er annar tíminn í röð sem ég missi af í þessu námskeiði og næsta fimmtudag er próf sem er ekki gott þar sem mig vantar svör við einhverjum fjórum verkefnum og veit því ekkert í minn haus. Í dag á ég líka að skila 10% verkefni í Ritþjálfum sem ég er ekki búin að gera og held ég neyðist til að sleppa.

Ég kem til greina í sumarvinnu í Háskólanum í sumar og hefði átt að mæta á fund varðandi vinnu í gær en opnaði fyrst bréf þess efnis áðan. Auk þess verða úrslit smásagnakeppni Mímis gerð kunn í partýi í kvöld sem ég hef hvorki orku né tíma til að mæta í. Þarf að undirbúa matinn fyrir morgundaginn í kvöld (afmælisveisla!) og gera skattaskýrsluna mína og efast um að ég hafi orku til að gera meira.

Þetta er ekki sanngjarnt. 


Páskafrí, frh.

Held aðeins áfram ...

Við röltum í Efstasundið í heimsókn til vinafólks á laugardaginn. Sátum þar og spjölluðum í góða tvo tíma og fórum svo í mat til tengdó. Rakel var búin að vera með hor í nös og hósta í talsverðan tíma og rauk allt í einu upp í hita um kvöldið. Fékk líka rauð flekki um allan líkamann og kláðabólur og ofsakláða. Hún hefur fengið svoleiðis áður þegar hún var lasin og sagði læknir að þótt þeir gætu ekki vitað ástæðuna fyrir ofnæminu væri þetta mjög algengt hjá börnum, sérstaklega þegar mikið álag væri á ónæmiskerfið sökum veikinda. Rakel var hins vegar þakin flekkjum í andlitinu sem og á öllum líkamanum og var öll sjóðheit svo í stað þess að fara heim að sofa fórum við með hana á læknavaktina. Hún var hin hressasta á meðan við biðum þótt hún væri rauð eins og karfi. Læknirinn sagði það sama og áður, óþekkt ofnæmisviðbrögð, gefa henni hálfa ofnæmistöflu og ekki hafa áhyggjur.

Við gerðum það og einhvern veginn tókst Rakel að halda sér vakandi í bílnum á leiðinni heim þrátt fyrir að klukkan væri farin að ganga tíu. Hún sofnaði að verða tíu og svaf vært þótt hún væri svo rennblaut af svita (hitinn líklega) að ég hélt á tímabili að hún hefði pissað undir.

Hún vaknaði rétt fyrir átta og þar sem ég vissi að það væri ekki nægur svefn fyrir hana setti ég hana upp í til okkar. Hún brölti og muldraði í hátt í klukkutíma á meðan ég dottaði með kannski eina rasskinn og einn handlegg í rúminu. Hafði reynt að koma henni fyrir eins nálægt mér og langt frá Hrund og hægt var þar sem Sprundin var líka veik og hafði farið að sofa á sama tíma og Rakel kvöldið áður. Ég hrökk upp að verða hálf tíu við magnaðar kvefhrotur Rakelar. Það var ekkert pláss fyrir mig í rúminu svo ég fór á fætur, borðaði morgunmat og horfði á Friends. Rakel vaknaði ekki fyrr en hálf tólf og Hrund rétt á eftir. Veit ekki hvort þið munið það en Rakel svaf líka svona lengi á aðfangadag og þennan dag var annar hátíðisdagur, páskadagur.

Ég undirbjó páskamat, Rakel leitaði að páskaegginu sínu sem ég hafði falið og Hrund sötraði kaffi. Rakelita var alsæl með pappapáskaeggið, sýndi lífræna namminu takmarkaðann áhuga en límdi límmiða í bók, lét hestinn brokka og gaf okkur rúsínur að smakka. Við komum okkur svo allar fyrir í sófanum og horfðum á teiknimynd þar til maturinn var tilbúinn. Þótt við værum að borða um fjögur var Rakel orðin stjörf af þreytu og var sofnuð fyrir hálf níu sem mér finnst ótrúlegt miðað við hvað hún svaf lengi. Við Hrundin opnuðum okkar egg og gæddum okkur á þeim eftir að krílið var komið í rúmið og horfðum á Juno, mynd sem ég verð að mæla með.

Í gær vöknuðum við saman og Rakel horfði á sjónvarpið og borðaði morgunmat áður en pabbi hennar kom að sækja hana. Hún eyddi deginum með honum en við Hrund í sjónvarpgláp og enduðum svo á því að leggja okkur og var hvíldin kærkomin (ef maður er með barn verður maður sjaldan eins þreyttur og í fríum, þá fer maður allt of seint að sofa og vaknar snemma í marga daga).

Rakel kom heim klukkan sex og stuttu seinna komu mamma og systikinin mín. Við bárum páskadagsafganga á borð og höfðum það gott. Elísabetu Rós var skutlað á vit félagslífsins eftir matinn en mamma og Einar komu sér fyrir í sófanum með okkur Hrund og við horfðum á spólur sem við náðum okkur í.

Í dag eru páskarnir búnir, ég nenni alls ekki að taka niður páksaskrautið og er strax komin með lærdómskvíðahnút. Rakel er heima þar sem hún er ekki orðin alveg frísk. Ætla aðeins að læra spænsku og taka svo niður skrautið. 

Það er að duga eða drepast, eins og alltaf. 


Páskafrí, frh.

Afmælisveislan heppnaðist fullkomlega. Þrátt fyrir að vindurinn blæsi ofsafenginn úti skein sólin inn um gluggann í fallegu stofunni okkar sem öllum líður svo vel í. Öll fjölskyldan mín mætt með bros á vör og vor í hjarta þrátt fyrir páskahret og að sjálfsögðu dýrindis gjafir handa lafðinni, mér. Ég fékk peninga og gjafabréf í japanskt dekur (skrúbbun, saltnudd, hreinsun, detox og fleira-mamma gaf Hrund líka fyrirfram afmælisgjöf: eins dekur svo við getum farið saman), bókina Mergurinn málsins sem er algjör snilld og stórt saumabox á hjólum með alls kyns hirslum. Dásamlegt! Takk fyrir mig!

Allir gæddu sér á veitingunum, spjölluðu, sungu afmælissönginn fyrir mig og svo voru gítararnir hennar Hrundar dregnir fram og strengir plokkaðir. Ég var að springa úr hamingju og gleði, sat bara á mínum rassi og naut og á meðan konan mín þaut um húsið og þjónaði öllum.

Við stelpurnar mínar vorum allar frekar þreyttar eftir daginn, náðum okkur í Subway og þegar Rakel var komin í rúmið horfðum við Sprundin á bíómynd og höfðum það kósý.

Ég stakk upp á því að Hrund færi til mömmu sinnar í gær og héldi áfram að smíða dúkkuhúsgögnin sín. Hún tók því boði, held að hún hafi kannski ekki kunnað við að láta sig hverfa svona á föstudaginn langa og í raun langað það mest af öllu. Mér finnst bara svo gaman að hún hafi pínu aðstöðu hjá mömmu sinni til að hlúa að áhugamáli sínu. Hún ljómar eins og sól í heiði þegar hún talar um það.

Við Rakel fórum til mömmu í brunch og svo fórum við þrjár ásamt systkinum mínum í langan göngutúr í sólinni. Rakel vildi ekkert vera í kerrunni og labbaði alla leiðina rjóð í kinnum og kát. Komum við hjá ömmu og afa á leiðinni heim og fengum okkur kaffi og köku og kláruðum svo göngutúrinn. Ég eldaði heima hjá mömmu (var einmitt að segja við hana að ég velti oft fyrir mér að biðja um einhver eldhúsáhöld í gjafir en finnst svo alltaf að ég eigi að biðja um eitthvað fyrir sjálfa mig, raunin er sú að eldamennska er mitt áhugamál, ég hlakka til alla daga að komast í eldhúsið og gleyma mér og ég næ aldrei betur að slaka á, næst bið ég um alminnilega hnífa í afmælisgjöf eins og mig langar í (og borga þeim sem gefur mér þá að sjálfsögðu, annað boðar ólukku). Og mamma sá alfarið um að baða Rakel og svona og koma henni í rúmið þar sem Rakel fékk loks þá ósk sína uppfyllta að fá að gista hjá ömmunni. Hefur í síðustu skipti sem við höfum verið þar neitað að fara heim og komið sér fyrir upp í ömmurúmi með bók, tilbúin að fara að sofa.

Við Hrund enduðum daginn á því að fara í bíó og nutum þess svo að sofa út í dag. Rakel er núna í Bónus þar sem mamma er að versla páskaegg, meðal annars handa okkur Hrund. Eins og ég hef sagt áður ætlum við ekki að gefa Rakel súkkulaðipáskaegg þar sem hún hefur ekkert við það að gera. Hún fær aldrei nammi hjá okkur og ég býð ekki í hana þegar hún er búin að gúffa í sig heilu eggi. Henni er líka alveg sama og þetta er líklega síðasta árið sem henni er alveg sama svo við ætlum að nýta okkur það. Það er hins vegar annað mál að ömmurnar langar voða mikið að gefa henni egg en það er bannað. Sorrý. Ég lofa að hún verður alsæl með rúsínur (svona í pínkulitlum pökkum), límmiða, plasthest, lífrænt hlaup og aldrei að vita nema við setjum eitt Kinderegg inn í, aðallega út af dótinu inn í því.

Við erum svo að fara eftir smá stund í heimsókn til vinar Hrundar úr smíðinni sem býr með konu og barni hérna í Efstasundi. Erum að hugsa um að kíkja til tengdó í mat þar á eftir.

Það er nebla svo fyndið að þegar ég er í fríi hef ég engan sérstakann áhuga á að elda nema tilefnið sé sérstakt. Eftir langan dag í skólanum get ég ekki beðið eftir að setja á mig svuntuna og kveikja undir pottununn. Eldhúsið er minn staður, ég skrifa innkaupalista, ákveð hvað er í matinn, ákveð hvernig raðað er í skápa og skúffu og fíla það í tætlur.

Mamma var að hringja og sagði meðal annars að Rakel hefði viljað vita hver ætti eiginlega að fá þessi páskaegg sem hún var að kaupa og bætti því svo við að pabbi hennar leyfði henni alltaf að fá nammi.

Við vondu mömmurnar.

Farin að taka mig til. 


Páskafrí!

Við erum búnar að vera ansi athafnasamar á þessum bæ undanfarna daga. Ég fíla það bara alveg í tætlur þar sem ég vil helst alltaf vera að gera eitthvað.

 Eins og áður sagði vorum við í mat hjá tengdó á sunnudagskvöldið. Á mánudaginn fórum við þangað aftur, í það sinnið til að fara í pottinn. Í gær vorum við svo heima hjá mömmu. Á undan þessu öllu var Rakel búin að vera frá fimmtudegi til sunnudags hjá pabba sínum í fermingaveislu og látum. Það er því búið að vera brjálað fjör hjá unganum. Reyndar svo mikið að hún var alveg búin á því í gær. Tók að minnsta kosti fimm grátköst fyrir svefninn, bæði vegna þreytu og vegna þess að mömmur hennar ávítuðu hana (Blush)fyrir að velta sér upp úr drullu í leikskólanum, fara úr stígvélunum og nota innleggin sem skóflu til að moka ofan í stígvélin (einhvern veginn svona var sagan hennar Rakelar og er þetta öruggleg rétt, sérstaklega miðað við útganginn á barninu sem er venjulega slæmur en hefur undanfarna daga verið að gera okkur Hrund KLIKKAÐAR).

Litla lúsin svaf svo mjög órólega, var sífellt að emja eitthvað upp úr svefni um kvöldið, vaknaði tvisvar um nóttina og vissi ekkert hvað var að sér og endaði svo með því að ná ekki á klósettið snemma um morguninn og pissa því undir. Hún var grátklökk þegar hún tilkynnti okkur um hálf sjö í morgun að nærbuxurnar væru blautar og náttkjóllinn og allt rúmið líka og að hún vildi fara úr fötunum. Við skiptum á rúmi og barni en þar sem sængin var blaut var rauðhaus settur í miðjuna í stóra rúmi þar sem húns svaf eins og prinsessa til hálf níu. Mömmurnar húktu á sitthvorri brík og ældu næstum af þreytu þegar vekjaraklukkan hringdi.

Við ákváðum að Rakelitan þyrfti sérstaka umhyggju og athygli í dag. Eftir morgunmat og lýsi fór hún  í gula peysu og pils og hélt á gulan dag á leikskólanum. Rölti í úðanum með litla lófa í sitthvorri mömmuhendi. Við Sprundin fórum heim og þvoðum pissudótið, horfðum aðeins á L-word og töldum dósir og fórum svo og náðum í Rakel í hádeginu. Við fórum í Svínabúðina (Bónus) til að kaupa inn fyrir páskana og fékk Rakel að setja nær hvern hlut í kerruna og taka þá aftur upp á kassanum. Henni finnst alltaf toppurinn að fá að hjálpa og ljómaði eins og sól í heiði. Við röltum líka yfir í Hagkaup til að kaupa lífrænt hlaup (eða þannig: enginn viðbættur sykur eða aukaefni, bara ávaxtasykur og allt náttúrulegt). Vorum dágóða stund í dótadeildinni þar sem okkur Hrund langaði til að kaupa eitthvað smáræði í viðbót í páskaeggið.(Rakel fær pappapáskaegg). Ég rak augun í Hello Kitty dúkkur (pínkulitlar og ekki Barbie viðbjóður) og við Hrund veltum fyrir okkur hvort við ættum ekki einu sinni að kaupa dúkku handa stelpunni. Við sýndum Rakel dúkkuna sem leit snöggt á hana og sagði: 'Þetta er bara einhver dúkka' og henti sér svo á bólakaf í körfuna með plastdýrunum. Við enduðum því á að kaupa lítinn plasthest og allar ánægðar með það.

Þegar heim var komið hjálpaði Rakel að sjálfsögðu við að taka vörur upp úr pokum og ganga frá þeim og svo fórum við á Sorpu þar sem Rakel fékk að henda hverri einustu krukku og dagblöðum og fara með dósirnar. Hún snerti varla jörðina af gleði.

Að þessu loknu fórum við aftur heim, Rakel fór að horfa á Línu Langsokk og við Hrund gerðum páskahreingerningu. Rakel fékk svo að setja allt páskaskrautið upp og elda kakósúpu með mér.

Núna situr hún böðuð í fanginu á mömmu sinni og hlýðir á lestur bókanna sem hún valdi sér fyrir svefninn.

Vonandi náðum við næra í henni sálartetrið og láta henni líða vel með sjálfa sig, okkur og lífið. Kannski hún sofi eins og engillinn sem hún er.

Fjölskylduafmælisboð á mogun. Búin að gera hummus og túnfiskssalat. Svo er það eggjasalat, vöfflur og heitt súkkulaði sem ég geri á morgun. Og Sprundin skreppur út í Jóa Fel og kaupir eitthvað gott brauð. Mmmm.

Ætla að knúsa barnið mitt núna. 


Flakkari

Ég elska flakkarann okkar. Þótt ég hræðist það að verða algjör sjónvarpssjúklingur þar sem við höfum núna endalaust eitthvað til að horfa á. Hrund setti nýjustu seríuna af L-word inn á hann á gær og við sátum límdar við skjáinn frá átta til eitt en þá neyddum við okkur til að fara að sofa. Og svo var The Gossip með lag í einum þætti. Ég uppgötvaði þessa hljómsveit fyrir tilviljun síðasta sumar. Las grein um söngkonuna sem er feit lesbía og stolt af því og hlustaði á nokkur lög á heimasíðunni þeirra. Þetta er svona hrátt rokk og allgjör snilld.

Það er gaman að vera lesbía og horfa á þætti um lesbíur. 

Síðasti skóladagur fyrir páskafrí. Og ég á bara 1000 orð af 4000 eftir í spænskuritgerðinni. Húrra fyrir mér. Núna þarf ég ekki að læra í páskafríinu. 


Óskalisti

Núna er afmælið mitt að skella á og ég því að reyna að búa til einhvern óskalista. Hrund er búin að gefa mér ógisslega flotta skó og mamma tvo kjóla og jakka. Amma held ég ætlar að gefa mér risa, gamaldags saumabox sem mig hefur langað í síðan ég var krakki. Ég er aðallega að skrifa þetta af því að tengdamamma var að velta fyrir sér hvað hún ætti að gefa mér. Eftir á listanum er eitthvað dekur, matreiðslubók með grænmetisréttum, rauðir leðurhanskar og dúnkoddi.

Ég var eiginlega búin að láta mér detta í hug að þú gætir gefið mér dúnkodda kæra tengdó!? Ef þú vilt bæta einhverju við (þar sem ég veit að þú ert einstakleg rausnarleg) þá kannski dekur!? Eða eitthvað sem við Hrund getum gert saman (gisting einhvers staðar, sameiginlegt dekur, út að borða ...)

Ég er nebla eins og lítill krakki og vil helst ekki vita hvað fólk ætlar að gefa mér en til þess að allir fái eitthvað til að kaupa er nauðsynlegt að hafa smá lista. 

Ok. Þetta er undarlegur pistill. 

Tölum um helgina. Eftir að hafa sent Oddnýju sms-ið sem ég bloggaði um, hringdi hún í mig. Á þeim rúma klukkutíma sem við töluðum saman hringdi mamma til að segja mér að hún væri ekki að fara í fjallgöngu og því laus og liðug, Katla vinkona til að spyrja hvort ég vildi koma út í sólina og Sprundin til að segja mér að hún væri búin í skólanum. Ég ákvað að fara niður í bæ með mömmu og leita að fötum fyrir afmælið, hitta Kötlu á djamminu og í brunch daginn eftir og Hrund um kvöldið.

Ótrúlegt en satt: ég fann mér föt. Hef ekki farið Laugaveginn í háa herrans tíð og uppgötvaði þar hina ýmsu búðir með föt sem eru flott og passa á mig. Fann einn kjól í Rokk og rósum, notaðan og gamaldags og ótrúlega sætan, einn eldrauðan jakka í búð sem ég man ekki hvað heitir og þvílíkan gellukjól í Glamúr. Við mamma röltum svo á Svarta kaffi og fengum okkur að borða, ég sötraði bjór, talaði án afláts og naut dagsins.

Að verða sjö brunuðum við heim, ég heyrði í Hrund sem var enn að smíða (hún hefur verið að smíða dúkkuhúsgögn undanfarna daga sem eru alveg hreint mögnuð, er búin að gera eftirlíkingar af hægindastólnum og sófanum (með lausum pullum og öllu) hérna heima og er að vinna í sófaborðinu, ískápnum (með opnanlegum hurðum), þvottvél og þurrkara, lampa, sjónvarpi og sjónvarpsskáp og borði og stólum) og við ákváðum að hittast aðeins seinna: 'Við verðum bara í bandi á eftir' sagði ég og mömmu fannst ýkt fyndið að við sem par skyldum tala svona saman eins og við byggjum ekki saman. Það er svo gott og nauðsynlegt að vera ekki bara par heldur líka vinir.

Við mamma höfðum það kósý fram eftir kvöldi eða þangaði til Hrund kom heim rétt fyrir ellefu útötuð í sagi og alsæl. Mamma fór heim til ungana sinn og við Hrund fengum okkur bjór og fórum niður í bæ. Ætli við höfum ekki verið þar í svona klukkutíma. Bærinn er eiginlega ekkert skemmtilegur. Við fórum aðeins á Celtic og svo á Q til að dansa, eftir það vorum við sáttar og fórum heim að sofa.

Ég eyddi svo deginum í gær með Kötlu og Hrund að sjálfsögðu heima hjá mömmu sinni að smíða. Fengum ungann okkar heim um sex og vorum í mat hjá tengdó sem er alltaf notalegt.

Við Hrund horfðum á Friends (komnar í 6. seríu, slepptum reyndar 1. og 2.) og ég var komin upp í rúm klukkan tíu. Það var líka yndislegt að vakna úthvíld í morgun.

Núna veeeeerð ég að vera dugleg að skrifa spænskuritgerðina, er hálfnuð og vil að minnsta kosti ná að skrifa 1000 orð í dag áður en ég fer til hnykkjarans.

 Einhverjar hugmyndir um það hvernig ég get hjálpað elsku Oddnýju að fjármagna ferð sína hingað suður svo hún geti komið í afmælið mitt? Mig langar svo að fá hana.


Þriðji vordagur

Mér finnst vera þriðji í vori í dag. Fyrsti var á laugardaginn fyrir viku og annar í gær. Fór einmitt með þunna peysu og þunna húfu á leikskólann fyrir Rakel svo hún myndi ekki stikna. Það verður að fara að endurskoða fatavalið aðeins hjá henni þar sem vorið hefur hafið innreið sína. Hallelúja!

Vaknaði við vekjaraklukkuna hennar Hrundar áðan. Get aldrei sofnað aftur svo ég fór á fætur, fékk mér kaffi, setti í vél og borgaði einn ljótan reikning. Hrund kom sér á fætur og fór í skólann og ég sit hér full af söknuði. Eftir Oddnýju minni sem flutti á Akureyri í byrjun árs til að vera nær fjölskyldu og gerast skólastelpa. Ég er óskaplega stolt af stelpunni minni en mér finnst stundum svo vont að hafa misst hana svona langt í burtu. Eða mér finnst það langt í burtu þar sem við erum sífellt blankar báðar tvær og eigum því erfitt með að heimsækja hvor aðra.

Þegar ég vaknaði og sá hvernig veðrið var sendi ég henni þetta sms:

Á svona dögum sakna ég þín: þriðji vordagur, hverfið sofandi, flugurnar suða (!) og sólin skín. Ef þú værir enn hjá mér myndi ég hringja í þig og vekja þig, við myndum fara niður í bæ í brunch, færa okkur svo yfir í bjór á útikaffihúsi, reykja, gerast tískulöggur og hlægja stórkarlalega. Sakna þín Odda podda bestavinkona svo óskaplega mest. Elska þig!

Það er svo gott að eiga góða vini og vont að hafa þá langt í burtu. Svo kemst hún ekki einu sinni í afmælið mitt og minns sem er að verða 25 ára. Búhú.

Kannski ég ætti að biðja um flugmiða til hennar í afmælisgjöf.

Nei. Djók. Var búin að gleyma hvað ég er sjúklega flughrædd orðin. 


Æi

Hlíf var með svo skemmtilegt nördapróf á blogginu sínu svo ég ákvað að taka það og komast að því hvort, og þá hvernig og hversu mikið nörd ég væri. Útkoman var: Kinda Dorky Non-Nerd.

Ég er ekki mikið nörd samkvæmt þessu. Allavega ekki nógu mikið til að geta sett prófið og útkomuna inn á bloggið mitt. Leiðbeiningar á tölvumáli hræða mig. Hélt reyndar að ég gæti klippt og afritað en svo virðist ekki vera ...

Dorky Díana


Júlíus

Talaði við Oddu poddu bestuvinkonu í gær og hún sagði mér að hana hefði dreymt mig. Ég, hún og Katla vinkona vorum upp á fæðingardeild og ég var nýbúin að eiga. Litla, dökkhærða Júlíus. Að sjálfsögðu hét hann Júlíus ...

Var að gramsa eftir kaffikortinu í veskinu mínu áðan og fann ljóð eftir Hrund á pappírssnepli. Ljóðið samdi hún til mín fyrir löngu og ég hef það alltaf í veskinu. 'Finn' snepilinn öðru hverju og gái hvaða miði þetta er. Alltaf gaman að lesa ljóðið:

Það lifnaði við ást í hræi

og dafnaði í hræinu af mér

sem hélt að öll ást væri

klisja sem ætti ekki samleið

með mér.

En nú er ég nýsprottinn, útsprunginn

geisli sem nærist á sólinni

þér.

InLove


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband