Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Þoka

Ég hef verið voðalega ódugleg að skrifa undanfarið. Ekki af því að það er ekkert að gerast heldur að af því að þoka hefur sest að í hausnum á mér.

Það helsta. Ég og Hrund keyptum okkur nýja kaffivél síðustu helgi. Þarf bara að ýta á einn takka og kaffið spýtist í bollann. Vorum eins og krakkar í dótabúð alla helgina nema við vorum fullorðnar og inni í eldhúsi. Strukum kaffivélina, dáðumst að henni, röðuðum öllu upp á nýtt á eldhúsbekknum til þess að sem best færi um hana og drukkum auðvitað ógrynni af kaffi.

Ótrúlega gaman hjá mér og Rakelitu í fyrradag. Hoppuðum alla leiðina heim úr leikskólanum og sátum svo sveittar í stigaganginum heima í úlpunum og skemmtum okkur. Fórum með vísuna um puttana (þessi datt í sjóinn, þessi dró hann upp ...) aftur og aftur, rifum okkur svo úr sokkunum og töldum tærnar. Komumst loks berfættar inn og úr úlpunum. Létum tærnar okkar knúsast og Rakel vildi endilega smella nokkrum blautum kossum á mínar (enginn annar í heiminum leggst á hnén og kyssir á mér tærnar). Skelltum svo á okkur svuntum og ákváðum að baka köku. Þar sem ég baka helst ekki vantaði ýmislegt í kökuna. Fórum berfættar í skó og og út í búð og fannst ýkt fyndið að vera ekki í neinum sokkum. Þegar við komum aftur heim var hafist handa. Rakel fékk að hella öllu í skálina og hjálpa mér að blanda. Hún smakkaði líka smjörið samviskusamlega og blés á þurrefnin í skálinni svo kakóský lagðist yfir eldhúsið. Við settum líka kakó á nefið og hveiti á kinnarnar svo það færi ekki á milli mála að við værum bakarameistarar. Æ já, líf og fjör, þetta er ungt og leikur sér. Ps. kakan var mjög góð.

Kíktum svo til ömmu/langömmu í gær. Náði í lítla dverginn minn veðurbarinn og hundblautann á leikskólann. Tók eftir því þegar ég var að festa hana í bílstólinn að buxurnar voru rennblautar. Hún kvartaði og kveinaði að sjálfsögðu en róaði sjálfa sig með því að hún myndi setja buxurnar ´í´ofninn hjá langömmu. Áttum svo notalega stund hjá ömmu. Rakel sagði mér að hún væri ekki skinka (ég hélt því fram að hún væri skinka) heldur mamma, hún sjálf væri ostur og ég tómatur. Við yrðum góð samloka held ég. Hver vill vera brauðið?

Eins og venjulega er ég að verða of sein. Er að fara í spænsku. Var einmitt í spænskuprófi í gær og stelpan sem sat næst mér var að gera mig vitlausa. Skrifaði öll svör eftir mér og viritst ekkert vera að reyna að fela það. Langaði að hvæsa á hana að ég hefði lært í marga tíma fyrir þetta próf og ef hún væri of löt til að gera það sama gæti hún bara hætt í skóla. Eða að minnsta kosti reynt að láta lítið á því bera að hún væri að svindla.

Það á ekki að svindla í lífinu. 


Kynlegir kvistir

Á lífsins tré eru margir kynlegir kvistir.

Undanfarnir dagar hafa einmitt verið það. Kynlegir kvistir. Stundum er eins og ég renni niður eftir trjástofninum á lífsins trénu og lendi á rassinum við rætur þess. Þar heyri ég hvorki né sé eins vel og annars. Og skugginn af trénu þrengir að hugsunum mínum svo að erfitt er að henda reiður á þeim. Það er eins og að draga andann eftir að hafa verið lengi í kafi þegar ég er aftur komin upp í trjákrónuna og hef þá yfirsýn sem mig vantar að nýju. Ég heyri aftur í sjálfri mér og sé ykkur öll hin. Hugsanir mínar fá að streyma óhindrað fram.

Á lífsins tré eru margir kynlegir kvistir. 


Skafa

Ég þurfti að skafa af bílnum í morgun, ekki sátt. Og fara með kuldabuxur á leikskólann fyrir Rakel. Á eftir ætlum við í leiðangur, það þarf að kaupa kuldaskó og lambhúshettu á barnið.

'Mér er sveitt' sagði rauðhaus þar sem hún lá afvelta og dúðuð í stigaganginum heima og beið eftir farinu okkar.

'Hún er ekki reið' tilkynnti hún mömmu sinni þegar hún koma að sækja okkur og átti þá við gribbuna mig.

'Þú ert í þykjustunni vond' sagði hún við mömmu sína í um kvöldið í stað þess að bjóða henni góða nótt. Hún skildi ekki af hverju við hlógum og ítrekaði beiðnina.

Helgin framundan. Leti hefur plagað mig þessa viku þegar kemur að lærdómi. Eins mikil leti og ég get leyft mér. Fór í fýlu við norskuna og neitaði að lesa hana. Las í staðinn sjónvarpsdagsskrána þar sem ég er bókalaus í augnablikinu. Féllust hendur yfir nýjasta verkefninu í forna málinu og var næstum farin að grenja yfir því á miðvikudagskvöldi. Fékk mér kók og súkkulaði í mótmælaskyni við illgjörn verkefni, eitthvað sem ég er ekki vön að gera á virku kvöldi. Klambraði einhverju saman á fimmtudagsmorgni en hrýs hugur við því að þurfa að skila þessu af mér.

Hnéð á mér er í uppreisn. Hrund hefur smitað mig af hnésýki og hefur því fengið illt augnaráð frá mér alla vikuna (hún hefur samt ekkert tekið eftir því, brosir bara til mín, huh). Hrund var að drepast í hnénu fyrst eftir að við byrjuðum í ræktinni en það lagaðist eftir smá tíma. Mitt bæklaða hné (sem hefur áður gefið sig og þurfti að krukka í það á skurðborði, oj barasta) hefur ákveðið að vera ekki í lagi lengur og verða aftur bilað. Það gefur sig reglulega og ég hrasa og skjögra í skólanum eins og ég hafi fengið mér eitthvað sterkara en kaffi í morgunmat.

Oddný og Viktor ætla með okkur í keilu á morgun (Viktor er barnið hennar Oddnýjar einu sinni í mánuði, ekki dularfulli kærastinn sem enginn vissi um). Það verður frábært, fórum einhvern tíma í vor og Rakel rústaði okkur. Mér finnst keiluskór svo flottir. Vinkona mín stal einu sinni svona skóm þegar við fórum í keilu. Ég hélt mig hins vegar á beinu brautinni og skilaði skónum eftir notkun. Það var svo mikil táfýla af þeim.

Ætla í spænskutíma. Ritlist. Þið viljið ekki vita hvað ég hef um hann að segja í augnablikinu.

Díana Rós, æst í skapi (sem ég er ekki alltaf, sama hvað Hrund segir, það er ekki það sama að vera æstur og ekki-rólegur).


Búkolla

Þetta er búinn að vera góður dagur. Við Hrund áttum ekki að mæta fyrr en tíu í morgun svo við tókum því rólega, leyfðum Rakel að sofa út og dúlluðum okkur. Ég fór í ræktina eftir tímann og tók vel á. Það er oft hægt að ímynda sér að maður sé kominn í ágætis form á meðan maður heldur sig í tækjasalnum. Fyrir mína parta er það svo aldrei eins augljóst hversu mikil blekkingin er fyrr en ég er komin í tíma. Hélt ég myndi deyja. En það er líka yndisleg tilfinning að halda út í tvær vikur í viðbót og finna muninn.

Seig niður í sjóðandi heitt bað þegar ég kom heim og las um íslenskt mál að fornu á norsku. Ég er í tveimur námskeiðum núna þar sem meirihluti námsefnisins er á norsku. Ég verð orðin mellufær í norsku um jólin, það er víst, en nota bene þegar ég er búin í námskeiðunum.

Eftir bað og hádegismat prófarkalas ég verkefnið sem ég á að skila í forna málinu á morgun. Hló jafn mikið yfir svörunum mínum núna og þegar ég gerði verkefnið fyrir helgi. Svörin eru efni í ágætis örsögu, hugmyndaflug mitt nýtur sín vel. Í örsögu eru þó sjaldnast mörg orð höfð yfir eitthvað sem hægt er að segja með einu orði en svörin mín eru hins vegar heilu setningarnar um ekki neitt. Verður gaman að fá þetta til baka og lesa athugasemdirnar. En maður fær allavega eitt stig af þremur fyrir það eitt að reyna að svara og skila inn svo ekki fæ ég núll. Verst að þessi verkefni gilda svona mikið af lokaeinkunn ...

Helgin var góð. Ég og Sprundin fórum út að borða með tengdapabba og bróður hans á föstudaginn og svo á Jethro Tull tónleikana. Þeir voru hreint út sagt frábærir. Fórum svo í ræktina á laugardaginn og út að borða á Grænum kosti. Geðveikur völlur á okkur, alltaf úti að borða. Námslánin gott fólk, þau tryggja mikla skemmtun. Nei, nei, þetta var nú tilfallandi þótt við höfum það sem hefð þær helgar sem við erum barnlausar að fara á Grænan kost eftir ræktina. Það verður nátla að rækta sambandið.

Við sem sagt ræktuðum sambandið og fórum svo í afmæli til Ölbu um kvöldið. Gáfum henni innrammað plakat með mynd af konu og textanum'haltu kjafti og vertu sæt' (mér finnst þetta magnað plakat, en ógesslega leiðinlegt að lifa lífinu haldandi kjafti og sætur). Og segul sem á stóð 'miðbæjarrotta' þar sem hún er það.    

Snúllan kom svo heim í gær, yndisleg að vanda. Mokaði í sig kjötsúpunni minni og spjallaði eins og henni einni er lagið. Dreif sig í bað alveg að drepast úr spenntu yfir bókinni sem ég ætlaði að lesa. Held ég hafi verið búin að segja ykkur að ég keypti tvær bækur handa henni fyrir helgi og við áttum eftir að lesa Búkollu. Það má með sanni segja að henni hafi fundist sagan skemmtileg. Hlustaði hugfangin í kjöltunni á mér þar sem við vorum búnar að koma okkur allar þrjár fyrir í sófanum inn í stofu. Þegar við vorum búnar reisti hún sig við og við töluðum aðeins um söguna eins og við gerum oft. Henni fannst þó óþarfi að vera að ræða söguna eitthvað frekar, betra væri bara að lesa hana aftur. 'Lesum hana aftur' sagði hún með blíðustu röddinni sinni og brölti með því aftur upp í fangið á mér, breiddi yfir sig sængina og beið átekta. Það er nú ekki hægt að segja nei við svona svo ég las hana aftur. Hún endursagði svo söguna með eigin orðum og tiplaði að því loknu inn í rúm. Bað sínar bænir og söng sín lög á methraða, ég hafði ekkert í hana, lokaði augunum og sofnaði.

Jarðneskir englar hafa ekki vængi enda þurfa þeir þá ekki til þess að fólk þekki þá úr fjöldanum.

Ætla að fara að ná í minn engil á leikskólann.                            


Þetta er nú meira veðrið

Við Rakel erum sammála um það að veðrið hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. 'Það er komið veður' æpti barnið upp í vindinn í gær þegar við löbbuðum í leikskólann. Átti þá við að það væri komið vont veður. 'Ertu ekki með regghrífu mammí' spurði hún mig svo undrandi þegar ég kom að sækja hana í grenjandi riginingu, steinhissa á fjarveru regnhlífarinnar. Kannski ég fari að dusta rykið af vetrarúlpunni og sendi hana í henni í leikskólann á morgun. Vil ekki vera móðirin sem átti barnið sem varð næstum úti í útiveru.

Það var eitthvað svo mikið sem ég ætlaði að segja en ég er búin að gleyma því öllu. Bloggandinn vill ekki koma yfir mig.

Annars erum við Hrund að fara á Jethro Tull tónleika á morgun í boði tengdapabba. Erum svo að fara í afmæli á laugardaginn plús eitthvað fullt í viðbót. Meira hvað maður þarf alltaf að útrétta. Spurning að fara að nota allan þennan pening sem við eigum afgangs af námslánunum í lok hvers mánaðar í persónulega aðstoðarkonu/mann.

Gerði mig að fífili í gær. Var í röð í matsölunni og mjakaðist í átt að kaffinu þegar námskeiðið Íslensk bókmenntasaga bar á góma. Ég veit ekki hvort öllum er það kunnt en ég var með svakalega fordóma gegn bókmenntafræði, og viss um að mér myndi finnast áfanginn hundleiðinlegur,áður en ég tók þann kúrs. Sem er í algjörri mótsögn við áhuga minn á lestri bókmennta. Kennarinn henti fordómunum út um gluggann og glæddi áhuga minn. En sumst. Þar sem ég stóð í röðinni spyr samnemandi minn mig hvort það hefði ekki verið mikið að lesa í námskeiðinu. 'Það var viðbjóður' var svar mitt og átti þá við magnið sem við þurftum að lesa, ekki námskeiðið sjálft. '300 blaðsíður fyrir hvern tíma'. Sem er hræðileg lygi. Ég bara ruglaðist, það voru 300 blaðsíður á viku. Náði nú að gubba því út úr mér að þetta hefði verið mjög skemmtilegt námskeið á meðan ég hellti kaffi í bollann. Er ekki viss um að samnemandinn hafi heyrt það þar sem kaffið kláraðist í kaffikönnunni, ég panikkaði yfir yfirvofandi kaffiskorti og snéri því baki í hann þegar ég gaf út þá yfirlýsingu. Þegar ég lít við með mitt kaffi (fann nýja könnu sem var full af kaffi) sé ég bókmenntakennarann. Hann stóð fyrir aftan okkur í röðinni. Það eina sem hann hefur heyrt er líklega þegar ég sagði námskeiðið viðbjóð (sem ég meinti alls ekki ) og þegar ég laug magni heimalærdómsins. Held ég geti gleymt því að fá góða einkunn í þessu námskeið.

Hins vegar hélt ég mínu striki og hélt aftur í tímann, sem hann kennir einmitt, og helltist þá yfir mig yndisleg tilfinning. Það var tilgangurmeðlífinutilfinning. Ég hugsaði með mér hversu ótrúlega gaman það væri að vera í skóla og læra eitthvað nýtt á hverjum degi, losa sig við fordóma og neyðast til að þroskast og víkka sjóndeildarhringinn. Svo fór ég að hugsa um stelpurnar mínar og hvað allt væri frábært og yndislegt. Í hugaræsingnum og allri væmninni svelgdist mér á kaffinu og ég fékk hóstakast, svitnaði af áreynslunni við að bæla það niður og heyrði ekki útskýringar kennarans upp við töflu.

En ...

það er leikur að læra, leikur sá er mér kær

að vita meira og meira

meira í dag en í gær 


Erfiðar þessar fyrirsagnir

Mér finnst stundum mjög erfitt að semja þessar fyrirsagnir, t.d. í dag ...

 'Sérðu hvað ég er í fínni skjörtu' sagði litla manneskjan þegar ég kom að sækja hana áðan. Átt hún þá við skikkjuna sem hún var með. Ég sagði að hún væri glæsilegur súpermann og hún var hæstánægð með hrósið.

Við erum að æfa okkur í litunum, hún kann þá bara alls ekki og allt í lagi með það en það er um að gera að æfa sig. Svo að þegar við löbbum í og úr leikskóla bendi ég á kyrrstæða bíla og spyr hvernig þeir séu á litinn. Gangan áðan var mjög fróðleg. Gráa bílinn sagði hún bláan, hvíta sagði hún DÖKKBLÁAN (hún hrópaði litinn himinlifandi, handviss um að hún hefði rétt fyrir sér) og svo fram eftir götum. Ég reyndi að leiðrétta: 'nei, hann er hvítur eins og skýin og snjórinn'. Hún virti fyrst fyrir sér gangstéttina, sá engan snjó og varð þá litið upp í heiðbláan himininn. 'Já, svona grænn eins og skýin og himininn' sagði hún og þar með var málið útrætt.

Fór upp í rúm fyrir tíu í gærkvöldi. Var að lesa svaðalegan krimma til hálf tvö kvöldið áður og var því ansi þreytt. 'En CSI er að byrja' sagði Hrund steinhissa þegar ég tilkynnti henni að hér með færi ég að sofa. Held ég hafi varla misst af þætti, sjónvarpssjúklingurinn sem ég er.

Rumskaði svo þegar konan kom upp í rúm og spurði hana af einhverjum ástæðum hvernig þátturinn hefði verið. Allt í lagi fannst henni. 'Kannski ekki eins skemmtilegur og hann hefði verið ef ég hefði verið vakandi' spurði ég hana. Hún var ekki frá því að það hefði verið hundleiðinlegt að horfa á hann án mín og hún saknað mín og í því skreið hún upp í ból til að knúsa mig. Notalegt það.

Fór í Heilsuhúsið í gær til að kaupa vítamín. Fæ fiðring í allan líkamann þegar ég fer þarna inn. Mig langar svo til að stórversla og ég vildi að ég hefði efni á því að vera svona lífræn. Í staðinn kaupi ég stundum og stundum, reyni að fara einhvern meðalveg, er ekki alveg lífræn en ekki heldur alveg rotin að innan. Er ekki heldur viss um að mig langi til að vera holl, alltaf, að eilífu. Vil frekar fara hinn gullna meðalveg. Ég vil hins vegar að við stelpurnar mínar borðum eins mikið af lífrænum vörum án aukaefna, spelti og heilhveiti eins og við höfum efni á. Ég keypti því þau vítamín sem vantaði, lífrænt salt, sinnep og paté (eins og smurostur, búið til úr papriku, rosa gott) og rúgbrauð (brauð úr Grímsbæjarbakaríinu, roooosa hollt) til að hafa með fiskinum um kvöldið. Ég hef líka verið að skipta út snyrtivörum smám saman, nota lífrænt sjampó, sturtusápu og baðsalt og olíur í stað bodylotions. Á rosa gott andlitskrem og bætti lífrænum andlitshreinsi við í gær. Og ekki má gleyma svitalyktaspreyinu sem við eigum. Án aluminium. Rek mikinn áróður fyrir svitaeyði sem inniheldur ekki það krabbameinsvaldandi efni. Annars líður mér eins og líklega flestum betur bæði andlega og líkamlega ef ég blanda þessu lífræna með, og lífrænar snyrtivörur eru miklu betri en hinar.

Komin með nóg af áróðri? OK.

Mér finnst hins vegar líka mjög mikilvægt að missa sig ekki í þessum pælingum. Vil t.d. ekki hætta að borða kjötbollur. Eða nammi öðru hverju. Eða venjulega súkkulaðiköku. Mér finnst heilsukökur ógeð. Ógeð. Get alveg eins fengið mér brauð með osti eða bara sleppt þessu!

Allavega. Var mjög lífræn í gær. Fékk mér tilbúinn heilsuhádegismat og lífrænan djús úr Heilsuhúsinu. 

Hrund keypti svo bragðaref handa okkur um kvöldið með kívi, jarðaberjum, marsi og heitri súkkulaðisósu (mig langaði svo svakalega í ís þegar ég var lasin og Hrund var að bæta mér það upp að hafa ekki farið þá, þessi elska). Ég var ekki mjög lífræn eftir hann. Kannski var líkaminn í sjokki eftir hann og þessa vegna sem ég var að lognast út af. Svona gerist ef maður er of lífrænn, óhollustan verður enn þá óhollari.

Jæja. Ætla að fara gefa Rakel banana og mjólkurglas áður en hún fer í Kroppakot og við Sprundin í ræktina. Síðast gleymdi ég því. Gleymdi líka að láta Hrund hafa skonsuna sem ég smurði handa henni svo að hún yrði ekki of svöng í ræktinni. Og gleymdi að borða sjálf. Barnið fékk brauð í drekkutímanum og svo ekki mat fyrri en sjö um kvöldið. Allt of seint. Fór beina leið inn í eldhús þegar við komum heim og settist fyrir framan tómt eldhúsborðið, var svo gráti næst þegar við sögðum að maturinn væri ekki tilbúinn. En við vorum fljótar að snara fram pítur með grænmeti og lifðum allar af.

Rakel situr inn í herbergi og öskrar á einhvern sem á að fara út í buskann samkvæmt henni. Best að fara að gá að henni. 

  


Stórfrétt

Ég gleymdi stóru fréttinni. Ég er búin með trefilinn. Einhvern veginn tókst mér að klára hann á akkúrat viku. Hann er hlýr og mjúkur og langur og röndóttur, rauður, dökkblár og ljósblár. Ég heklaði meira að segja utan um hann með rauðu garni. Hann er stórkostlegur. Ég mátaði hann á Rakel í morgun. Hún var svo ánægð, búin að fylgjast spennt með meðgöngu hans. Hún brosti til mín og þakkaði mér fallega fyrir. Kurteisa barnið mitt.

Það er alltaf verið að hrósa litla ljósinu okkar. Það er yndisleg tilfinning. Fyrst og fremst verðum við stoltar en við erum líka svo glaðar yfir því að uppeldið skilar sér. Börn fæðast ekki kurteis og með allt á hreinu. Það er í sjálfu sér heilmikið afrek að kenna, siða og ala upp. Þú ert aldrei búinn og það er allt í lagi. Ég gæti fríkað út ef ég hugsaði of mikið um hversu mikil áhrif ég get haft og hef á Rakel, ég þarf ALLTAF að passa mig. En að sjá afrakstur erfiði síns endurspeglast í persónuleika og hegðun barnsins er gullsins virði. Og ég, við öll þrjú foreldrarnir, höldum áfram að gera eins vel og við getum.

Hún er mér allt þið vitið, litla dótlan mín. Og Sprundin auðvitað. 


Sveittur dagur

Sit hérna í tölvunum upp í skóla og reyni að hósta ekki hátt. Kvíði tímanum á eftir, hrædd um að yfirgnæfa kennarann með ofsahósta. Ætla í hann vopnuð hálsbrjóstsykri og vatni.

Allt gekk vel í bíó. Var vopnuð hálsbrjóstsykri og vatni. Var ansi óglatt eftir myndina, búin að borða einhverja 10-15 brjóstsykra. Myndin var mjög góð og ógeðsleg á köflum. Það sem fullorðið fólk getur gert börnum. Var farin að sjá eftir því að hafa keypt mér popp, ógeðið í bland við brjósykurinn olli mikilli ólgu í maganum. Úff.

Ég fékk að sofa út á laugardaginn í von um að ná úr mér þessari flensu. Tókst ekki. Fór á þrjóskunni með stelpunum mínum í Kolaportið. Alltaf stemmning. Versluðum ýmist smádót, tvær afmælisgjafir og blöðru handa Rakel sem lék á alls oddi að venju. Töltum um og átum nýbakaða ástarpunga. Fórum svo og náðum okkur í bestu pizzu sem ég hef smakkað á Pizza Rizzo.

Um kvöldið horfðum við á mjög góða mynd sem heitir If these walls could talk 2 (keyptum fjórar videospólur á 100 kall í portinu). Hélt ég hefði séð hana þegar hún kom út en ég hef kannski verið svo hrædd við sjálfa mig að ég hef ekki þorað, allavega komst ég að því að ég hafði ekki séð hana. Þetta eru þrjár sögur um lesbíur og gerast þær á þremur mismunandi tímum. Sem grunnskælingur hef ég verið alltof rugluð til að þora að taka hana. Það hefði einhver getað haldið að ég væri lesbía!

Allavega. Myndin er mjög góð enda komu lesbíur að gerð hennar. Myndir um lesbíur eftir gagnkynhneigða eru hræðilegar. Hræðilegar. Annað hvort verða stelpurnar allt í einu straight, deyja eða verða tvíkynhneigðar og kynóðar. Hvurslags eiginlega kjaftæði er það. Ég vona að það verði hætt að gera svona myndir þegar Rakel verður eldri svo að einhverjum rugl ímyndum um lesbíur verði ekki troðið inn í hausinn á henni.

Á sunnudaginn fórum við í haustlitaferð á Þingvelli með mömmu. Við sáum nokkur gul laufblöð, annars var allt grænt. En það var allt í lagi. Veðrið var yndislegt og Rakel hljóp um svo ótrúlega krúttleg í nýju lopapeysunni og skoðaði hvern einasta stein, smáþúfur, gjótur og 'hell' eins og hún segir (lesist hellir). Enduðum svo daginn í mat hjá mömmsunni. Um kvöldið horfðum við kyrnurnar á CSI. Þar var einmitt stelpa sem átti tvær mömmur, var lögð í einelti út af því og stakk strák í bakið með skærum. Mér var farið að líða eins og fjölkskyldan mín ætti sér enga von. En við ætlum ekki að gera eins og mömmurnar í þættinum og senda barnið í strangtrúaðan kaþólskan skóla.

Ég trúi á okkur mannfólkið, treysti umburðarlyndi þess, skilningi og manngæsku. Ég trúi á útrýmingu fordóma og ást milli fólks af sama kyni. Ég trúi á getu okkur Hrundar til að ala upp heilbrigðan einstakling sem verður stoltur af sjálfum sér og fjölskyldunni.

Það sem við Hrund eigum saman er fallegt. Þeir sem ekki vilja sjá það eru viljandi blindir. Og Rakel er heppnust í heimi. Það geta ekki allir státað af því að eiga tvær mömmur og pabba!

Annars eru ég enn lasin og löðursveitt

 


Enn á lífi

Ég er enn á lífi. Er aðeins skárri í dag. Er allavega uppistandandi þótt það sé ekki meira en það. Sleppti tíma í morgun en skal í þennan ritlistartíma á eftir. Sá að ég hafði keypt vitlausa bók fyrir spænskuna svo ég þarf í Bóksöluna fyrir tíma. Vex mér í augum að keyra hvað þá labba. Hafði mig samt í sturtu áðan og í einhver föt. Setti á mig augnblýant og allt í mótmælaskyni við veikindin. Þetta var allt saman aðeins of mikil hreyfing og fötin mín eru blaut af svita. Svo sem ekki mikið sem ég þarf að gera í dag. Fara í bóksöluna, í tíma, heim að hlusta á tímann á netinu sem ég missti af í morgun (tæknin gott fólk) og glósa. Kannski ná í Hrund í skólann, fara að sækja Rakel til ömmu sinnar, gefa henni að borða og baða, skipta um föt og fara svo á forsýningu á Veðramótum eftir Dunu. Þar er örugglega bannað að hósta, hnerra og snýta sér.

Kannski ég láti Hrund taka strætó heim, sækja Rakel og hugsa um hana, hlusti á eins mikið af tímanum (sem ég missti af í morgun) og ég hef orku til, fari í sömu fötum og ég er í á forsýninguna og hósti þar eins og ég vil.

Og fari snemma að sofa. Sumir myndu segja að það ofantalda væri það eina skynsamlega í stöðunni. Það má allavega reyna.

Með hor í nös og skólakvíða í hjarta, Díana Rós 


Ósátt

Kverkaskíturinn í gær breyttist í slæma flensu á klukkutíma. Ætlaði í skólann en varð að játa mig sigraða. Leið verr ef eitthvað var í morgun. Ætlaði í skólann eftir hádegi en varð að játa mig sigraða. Svaf í fimm tíma og leið betur í korter eftir að ég vaknaði. Þurfti ofurmannlegt átak til að labba og sækja Rakel. Þar sem leikskólinn er lokaður á morgun þurfti að taka allt dótið heim. Regngalli hefur aldrei verið eins þungur og á þeirri stundu. Þegar við komum heim fattaði ég að ég hafði gleymt strigaskónum hennar Rakelar. Við til baka og heim aftur. Hélt það myndi líða yfir mig á leiðinni. Hata að vera veik.

Hef eiginlega ekki orku til að hugsa. Nema um tímana sem ég missi af í skólanum. Fyrsti tíminn í spænskri málfræði í dag og í spænskri ritlist á morgun. Ömurlegt að missa af þessu.

Rakel farin til pabba síns. Amma Lilja verður með hana á morgun. Ég bjóst nátla ekki við því að verða veik heima. En get ekki séð um sjálfa mig, hvað þá barnið mitt.

Mig er farið að svima. Ætla að leggja mig.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband