Ég heiti Díana Rós og ég ...

Ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni í gær og hlustaði á mælsku eins þingmannanna. Átta mig allt í einu á því að ég er farin að brosa út í annað og lít upp af skjánum og út um gluggann. Sólin var farin að brosa og ég með. 

Hver brosir ekki þegar sólin skín? Eitt sinn var ég þess ekki megnug. Myrkrið átti mig. Það var hjúpur utan um mig, eins og seigfljótandi tjara. Eins og ég sagði um þunglyndið í ljóðabók okkar Inam og Önnu fannst mér þunglyndið stundum loða við mig eins og kusk á frönskum rennilás.

Það eru svo margir þættir úr lífi mínu sem fléttast saman, mynda kaðal sem ég óttaðist eitt sinn að mundi verða að snöru um háls mér. Fyrst og fremst var þetta þó í höfðinu á mér, eitthvað óútskýranlegt sem byrjaði sem hugsun, rann niður eftir hálsinum og settist á brjóstið á mér svo ég átti erfitt með andardrátt. Ég gerði allt sem ég gat til að ná andanum en ég notaði ekki réttar leiðir og sársaukinn var óbærilegur. Ég reyndi að púsla mér saman, fannst ég rangur biti í púsluspili, vissi ekki að ég var réttur biti í öðru púsli.

Suma daga barðist ég við þykka tjöruna, tókst að þynna hana á bletti, mynda glugga á milli mín og heimsins en ég gat aðeins horft út, ég komst ekki út.

Ég ber með mér leifar fyrra lífs, inni í mér og utan á mér, ör, sem ég stend fólk stundum að því að vera að horfa á og ég fyllist svo mikilli skömm.

Skömmin er verra en allt. Verra en að geta ekki andað, verra en að sjá ekki út. Með hana hangandi um hálsinn verð ég aldrei frjáls.

Ég vil ekki skilgreina mig út frá kynhneigð, út frá því hvernig mér leið einu sinni, út frá því hvort ég hef alltaf verið heilbrigð eða einu sinni veik, út frá því hvernig ég var veik, út frá örum. Eiginlega vil ég alls ekki skilgreina mig. Ég vil bara vera sátt við mig og fær um að gleðjast. Sem er ekkert bara.

Allt sem ég hef gert, sem ég hef upplifað, sem hefur komið fyrir mig, er hluti af mér. Rétt eins og slit á maga, mjöðmum og kálfum er merki þess að ég hafi einu sinni verið með barn inni í mér eru önnur ör merki þess að líf mitt hafi verið rússíbani. Ég hef steypst niður á 100 km hraða, ég hef brotlent og ég hef náð hæstu hæðum. Og ég er þakklát fyrir það því að það hefur kennt mér svo mikið. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir mig að losa mig við skömmina. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir að hafa ekki alltaf getað plumað mig í lífinu. Ég á að vera stolt af mér fyrir að gera það svo vel núna. 

Það er í raun ekki svo langt síðan mér tókst að brjótast úr fjötrunum, rífa af mér tjöruhaminn og brenna hann á báli. Í raun ekki svo langt síðan mér fannst veggir þrengja að mér ef var í sama herbergi og matur. Ekki svo langt síðan ég áttaði mig á því að ég ber ábyrgð á eigin hamingju og get gert allt sem ég vil.

Ég hekla frá mér púkana í höfðinu. Verð eitt með vindinum þegar ég skokka. Loka augunum þegar ég dansa zumba. Brosi til mín í speglinum. Hræðist það ekki þótt kvíðinn sæki að mér með öllu því sem fylgir honum því að ég er sterkari. "Þú ert alveg einstök, Díana mín", sagði amma gamla við mig um daginn og ég leyfði hrósinu að gæla við mig, kitla á mér vangann og með sjálfstraustinu sem ég hef byggt upp gat ég svarað: "Já, takk fyrir það."

Ég heiti Díana Rós og ég var með átröskun og var mjög þunglynd og kvíðin, hvort sem kom nú á undan og á eftir. Ég mun alltaf bera þess merki en ég vil ekki skammast mín fyrir að vera breysk. Núorðið veit ég hvað er ég og minn persónuleiki og hvað eru leifar af veikindunum. Ég losa mig við það sem ég kæri mig ekki um.

Ég gæti aldrei lært neitt væri ég fullkomin svo ég forðast það eins og heitan eldinn. Núna. Gerði það ekki áður. Ég læt mig dreyma, læt draumana rætast, gleðist yfir hverju sem mér dettur í hug, þræði hamingjuaugnablikin eins og perlur á band. Tek af mér skömmina og hengi perlurnar um hálsinn í staðinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband