Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Betri tíð

Ég er ekki beint búin að ná að slaka á en þetta er allt að koma.

Hrund gaf mér ís og knús í gær og gerði allt sem hún gat til þess að róa mig. Ég var hins vegar eins og hengd upp á þráð og lá eins og spýtukall uppi í rúmi, ófær um um að sofna. Bylti mér til hálf fjögur um nóttina og gat þá loksins sofnað, eins gott því ég var að drepast úr leiðindum. Vaknaði aftur eftir klukkutíma og var dágóða stund að sofna. Svo hringdi vekjaraklukkan hálf sjö. Þrír og hálfur tími í svefn.

Ég var eins og draugur upp úr öðrum draug en drattaðist í skólann. Fór í svæfandi tíma og skellti mér svo upp á Hlöðu þar sem ég lærði spænska málfræði á milli þess sem ég talaði við Kristínu í sms-marþoni. Ótrúlegt hvað maður þarf að tala alltaf.

Hitti vin minn hópavinnufélagann og við komumst að einhverri niðurstöðu. Hann ætlar að halda áfram með það sem hann er að gera og á meðan skrifa ég fyrirlesturinn. Svo ég gerði það í dag. Náði að klára svona 3/4, ætla að gera restina annað kvöld og glærur á miðvikudaginn. Held þetta svo og hugsa aldrei um þetta meir á fimmtudaginn.

Kútur var þreyttur þegar ég náði í hann. Þar sem ég var í fyrirlestrartráma í gær hjá mömmu fórum við óvenju seint heim og Rakel var ekki sofnuð fyrr en að verða korter í níu sem er allt of seint fyrir í hana. Hún var því ósköp lítil í sér en ég setti upp tjald fyrir hana og svo sat hún inni í því, perlaði og hlustaði á Pétur og úlfinn á meðan ég lærði.

Inskot: Hlíf og aðrir málfræðinördar, krílið mitt sagðist ætla 'að perla garðinn Péturs'. Er þetta ekki í einhverri mállýsku eða?

Ég hressti mig svo við í kvöldmatnum, sullaði miklu magni af tabasco út í kjötsúpuna, svo miklu að augun ætluðu út úr höfðinu á mér en ég vaknaði öll til lífsins. Mamma kom svo til að passa fyrir mig á meðan ég fór í afró.

Við grátum til skiptis hér á þessu heimili. Ég ætlaði að skutla Rakelinni í bað áður en ég hentist út en hún var ekki á því. Grét í fanginu á mér og ég skildi ekki neitt í neinu. Tókst loks að skilja að hún vildi fara með mér. Svo erfitt að vera svona þreyttur. Notaði allt sem ég átti til, talaði hana ofan í baðið, talaði á meðan ég skolaði af henni, þurrkaði henni og burstaði tennurnar. Hún vildi enga ömmu skinnið, bara mammí sína. Eiginlega vissi hún ekkert hvað hún vildi. Þóttist ekki vilja bók að lesa, söng né bænir. Brast svo aftur í grát þegar ég kvaddi en mamma sagði mér að hún hefði heldur betur orðið hress eftir að ég fór og heimtað þrjár bækur.

Mamma sæta las yfir fyrirlesturinn á meðan ég dansaði og núna sit ég hér á leið í sturtu og svo upp í rúmið mitt yndislega.

Blóm í haga.


Skjótið mig núna

Í dag kláraði ég frekar leiðinlegt verkefni í íslensku. Ég veit ekki hvort eitthvað sem ég gerði var rétt. Því næst eyddi ég nær fimm tímum í að undirbúa fyrirlestur í spænsku. Þegar ég bar það sem við og hópavinnufélginn vorum búin að gera undir kennarann í tölvupósti kom í ljós að við gerðum ALLT VITLAUST. Við þurfum því eiginlega að byrja frá grunni. Hvenær í helvítinu á ég að hafa tíma til þess? Bara skrópa í öllum tímum, sleppa lærdómi fyrir önnur námskeið og geyma Rakel á leikskólanum?

Fyrir utan nú það að það er ekki talandi við félagann, það er bara eins og tala við vegg. Hann heldur ótrauður áfram í vitleysunni og ég kvíði því að hitta hann á morgun. Ég bara búin að missa mig bæði við hann og kennarann (ekki dónalega samt, bara í móðursýkiskasti). Kennarinn ætlar að taka tillit til þess að við fengum erfiðasta efnið en við eigum samt eftir að fá ömurlega einkunn.

Helvítis skítur.

Ég og hinn fimmtugi, rússneski hópavinnufélagi minn erum ekki alveg að bonda hérna.

Á leið heim frá mömmu áðan brast ég í grát í bílnum, algjörlega búin á því eftir þessi ömurlegheit. 'Af hverju ertu svona leið mammí' spurði krílið aftur í og ég kom því upp úr mér á milli ekkasoganna að það væri svo eherfiiiiiitt að læra. 'Þú lærir bara heima' sagði krílið snöggt upp á lagið. Ég vældi eitthvað um að ég gæti ekki meira. Krílið hafði engin fleiri svör en læddi lítilli hendi í lófa mér þegar við stigum út úr bílnum.

Ég er hætt í þessum helvítis skóla.


Hvað er að gerast

Það er eitthvað að gerast inni í höfðinu á mér. Ég bara gleymi stundum hver ég er og hver ég vil vera. Það vella allskonar hlutir út úr mér sem ég meina ekki. Ég er alltaf að bíða eftir því að mér líði eins og ég sé 25 ára og fullorðin en ég snýst enn í kringum sjálfa mig eins og ég gerði þegar ég var krakkkjáni í menntaskóla. Ég bara veit ekki hvernig haustið leggst í mig og ég skil ekki fólkið í kringum mig. Hvað þá að ég skilji sjálfa mig.

Sjitt.

Mér er búið að vera illt í maganum síðan á föstudaginn og þetta er hinn klassíski magaverkur sem ég fæ þegar ég er eitthvað stressuð. Ég veit ekkert yfir hverju ég er svona stressuð, veit bara að það er ekki lærdómur. Ég þarf að róa mig niður.

Ég þarf að glósa upplýsingar um sjálfa mig þegar ég er með hutina á hreinu. Svo ég geti bara dregið punktana fram þegar ég er í bullinu og lesið um sjálfa mig: 'jáááá, svona líður mér venjulega í þessum aðstæðum, síðast þegar ég lenti í þessu þá brást ég svona við og það voru algjör mistök, það er betra að gera þetta hinsegin núna, einmitt já, þetta eru mín lífsmottó, ok ég fíla ekki svona fólk og ég vil ekki láta koma svona fram við mig ...'

Málið er bara að allt breytist svo hratt, hjá mér og hjá öðrum og ég næ ekkert að uppfæra mig á blaðinu.

Það er eitthvað hrikalegt eirðarleysi í mér. Ég þarf að fá útrás fyrir einhverju einhvern veginn.

Það er illa gert af lífinu að láta mann alltaf hafa sem mest að læra þegar heilinn starfar ekki sem skyldi.

Og Oddný. Ég veit að þú ert að lesa þetta og sálgreina mig. Hættu því. Hringdu í mig.


Loksins loksins

Já, það er kominn föstudagur. Hann er bara svo kærkominn að þið trúið því ekki. Hlakka svo til að fara í vísó og hitta Gyðu og Kristínu og alla hina og fá mér bjór sem er bara svooo góður.

Ahhhh.

Hitinn hér fjarri góðu gamni og ég er að drepast úr kulda.

Þetta íslenskuverkefni sem ég á að skila á mánudaginn ætlar mig lifandi að drepa. Mér bara fallast hendur þegar ég horfi á þessar hundrað blaðsíður eða eithvað sem ég þarf að lesa áður en ég get byrjað á verkefninu.

Auglýsi hér með eftir einhverjum sem vill hitta mig einhvern tímann um helgina og hjálpa mér með þetta. Ég skal hjálpa honum á móti.

Ok, bara smá lærdómur eftir, einn tími uppi í skóla og svo ...

... helgarfrí krakkar mínir, helgarfrí ...


Harka

Já, ég er bara búin að taka daginn í gær og í dag á hörkunni. Las þrjár greinar fyrir íslensku í gær og kláraði skáldsögu í spænsku. Eldaði meira að segja kvöldmat þótt ég þyrfti að setjast niður inn á milli og hvíla mig.

Fór í tíma í morgun, horfði á mynd fyrir kvikmyndir Spánar í pásunni, fór í annan tíma, keypti hefti úti í fjölritun, ljósritaði á bókhlöðunni, svaraði spurningum úr kvikmyndinni, náði í burritos á Culiacan og fór í sturtu með Rakel.

Núna er ég búin að taka tvær feitar íbúfen og sit upp í sófa í ullarsokkum og undir dúnsæng (já, hitinn er ekki enn kominn á húsið, brrr) og er að slaaaaaappa af.

Morgundaginn ætla ég líka að taka á hörkunni, nenni ekki þessum veikindum. Ætla að byrja á verkefni í íslensku sem ég þarf að skila á mánudaginn og byrja að undirbúa fyrirlestur í spænsku. Ætla svo að taka sunnudaginn í einhvern lærdóm.

Æ, leiðinleg færsla. 

Annars þykir mér svo vænt um allar vinkonur mínar. Vinir eru bara það besta í heiminum.

Og ég veit þið trúið því ekki en ég ætla í vísindaferð á morgun. Og ég ætla að drekka bjór (engan vodka aldrei aldrei aftur) og ég ætla ekki að læra neitt á laugardaginn.

Passið ykkur bara ...


Bíðið aðeins, þetta er orðið enn þá betra

Já, já. Hitalögnin farin niðri í kjallara. Búið að vera að bora þarna niðri og gera andskotann ég veit ekki hvað í allan dag svo það er ekki séns að leggja sig þótt hausinn sé að springa.

Og já. Lögnin er í sundur svo að það er enginn hiti í húsinu. Þeir búast ekki við þvi að ná að laga það í dag.

Focking jeij!


Þetta verður betra og betra

Nú er Hrund orðin lasin. Var orðin slöpp í gær og svona hundlasin í morgun. Við erum eiginlega báðar búnar að vera slappar síðan í síðustu viku, maður hefur bara ekkert tíma til að vera veikur. Krílið var eitthvað rámt líka en þó hresst að vanda svo farið var með það á leikskóla.

Núna er ég ógeðslega öfundsjúk út í Hrund sem getur lagt sig en ég þarf læra læra læra. Verð að fara í umræðutíma á morgun og þarf að lesa þrjár greinar. ÖH.

Í spænsku í gær fékk fólk að velja sér fyrirlestrarefni og fólk til þess að vinna með. Nema ég auðvitað sem var heima. Það var bara valið fyrir mig. Frábært. Fyrirlestur úr leiðinlegustu bók í heimi, ég er ekki að grínast, ég hef aldrei lesið önnur eins leiðindi. Bókin veldur mér ógleði.

Ok, ég er ekki ekki ekki í góðu skapi.


Nei, hættu nú alveg

Ég er lasin!

Óþolandi.

Kannski er það þess vegna sem mér leið svona illa í gær. Í fyrsta lagi er ekki fræðilegur möguleiki á því að ég sé þunn þriðja daginn í röð og svo líður mér heldur ekki þannig. Það hefur sem sagt ekki verið mjög góð hugmynd að fara slappur í haustferð í brjáluðu veðri, drekka ótæpilegt magn af bjór og krókna úr kulda (þess virði samt, auðvitað).

Ég sem var á milljón í gær að læra. Gerði verkefni í spænsku á milli þess sem ég sinnti Rakel sem vildi tala við mig, hlusta á sögu, perla, vantaði blað, meiddi sig, þurfti að láta skeina sig, fann ekki sjálfa sig ... Hrærði í grjónagrautnum og las upphátt ljóð fyrir mig á spænsku og reyndi að láta sögudisk krílisins í tækinu inni í stofu ekki trufla mig. Náði einhvern veginn að vera búin að öllu mátulega korter fyrir átta því þá kom maður frá Verði að selja okkur tryggingar.

Fór snemma að sofa og svaf ágætlega í tandurhreinum rúmfötum en mér er greinilega ekki ætlað í skólann í dag.

Nú fæ ég magasár, yfir þessum spænskutímum sem ég missi af í dag og eru ekki teknir upp og sýndir á netinu. Og spænsku kvikmyndinni sem ég þarf að horfa á upp í Tungumálamiðstöð og ætlaði að gera í dag.

ARG.

Ætla samt að vera heima í dag og sofa og taka lærdóm með trompi á morgun því ég verð að mæta í skólann á fimmtudaginn.

ARG.

Svo er árlegt frænkukvöld í kvöld. Verð eiginlega að fara á það líka.

ARG.

Ef ég næ að sofa og hvíla mig í allan dag þá kannski meika ég það. Svo verð ég bara að læra eitthvað um helgina, eitthvað sem ég geri aldrei. Það er eiginlega mjög gott að venja sig á að klára allan lærdóm á virkum dögum og eiga frí um helgar. Þær má svo nota í neyð og í prófum.

Ég verð að ná í sængina mína.


Seinna

Heilsa? Ekki miklu betri.

Ég þurfti bara að leggjast í sófann áðan og gera ekki neitt. Gat ekki gert neitt. Jú, hitaði mér brauð með osti og pizzasósu. Það var mjög djúsí og gott (þarf ekki meiri þynnkumat en það).

Held samt að ég sé aðeins að skána því athafnaþráin er komin yfir mig. Þegar ég er þunn fæ ég alltaf sjúklega þörf fyrir að taka til í kringum mig. Hún var fjarri góðu gamni í gær þar sem ég var varla með meðvitund en er að vakna til lífsins núna. Svo eftir að hafa gert ekki neitt í talsverðan tíma braut ég þvott, skipti á rúmum, setti í vél, ryksaug (fór ekkert rosalega vel í hornin sko, það var bara lauf út um allt eftir alla stormana í síðustu viku) og hraðlas spænska málfræði.

Núna á ég bara eftir að gera verkefni í spænsku og lesa ljóð fyrir latinobókmenntir. Og klára Frankenstein. Og sækja Rakel og elda. Og setja í þurrkara. Og baða Rakel og svæfa. Og vaska upp. Og Hrund er ekki heima til að taka utan um mig.

Bara anda rólega. Þetta er allt í lagi. Best ég einbeiti mér bara að bananum sem ég er að borða.

Annars stakk Hrund upp á því að við hefðum kósýkvöld. Færum í freyðibað og ég fengi heilnudd á eftir. Aaaahhhhh.

Verkur í höfði. Svo mikill verkur í höfði.


Sjitturinn titturinn

Já, sjitturinn titturinn hvað ég er enn þá þunn. Lenti í löngu spjalli við Oddnýju bestu vinkonu í gær og endaði á því að fara of seint að sofa. Rumskaði við einhver hróp og köll í Rakelinni um miðja nótt. Eða það hélt ég. Hélt að klukkan væri svona að verða hálf fimm kannski miðað við hvað ég var enn þreytt. En nei. Nokkrum sekúndum síðar hringdi vekjaraklukkan. Hálf sjö. Ég var með æluna í hálsinum þegar ég dröslaðist á fætur. Aðeins of seint og missti því af strætó. Sprundin mín keyrði mig en varð þá sjálf of sein í vinnuna. Allt gerir hún fyrir mig þessa elska.

Ég þarf svo mikið að læra en ég get varla hugsað. Verð bara að læra í kvöld eða eitthvað, get eiginlega ekki farið ólærð í spænskutímana á morgun.

Annars er ég bara að springa úr ást á Hrundinni minni í dag. Elska hana auðvitað alltaf, alla daga en fáið þið ekki stundum þessa tilfinningu að þið hafið fangað hamingjuna? Oft varir tilfinningin andartak og er svo sterk að hún er algjört kikk. Það eru forréttindi að eiga maka sem er líka besti vinur þinn. Það er magnað að geta talað um allt. Stundum er eitthvað sem mér finnst erfitt að tala um við Hrund og er ekki viss um að hún skilji en hún kemur mér stanslaust á óvart. Við áttum svo gott samtal áðan. Hún dæmir ekki, hún er skilningsrík og hún elskar mig skilyrðislaust.

Amen.

ps. Mig vantar þynnkumat. Ég er ekki að grínast. Ég hef aldrei verið þunn tvo daga í röð. Nema þegar ég varð tvítug, sturtaði í mig abcinti og var næstum búið að takast að henda mér út um glugga. Þá gat ég ekki lyft höfðinu frá koddanum fyrr en um kvöldmatarleytið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband