Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Hó Hó Hó

Gleðileg jól elskurnar mínar! Hef ekkert nennt að skrifa af augljósum jólaástæðum enda tæpast nokkur nennt af lesa af sömu ástæðum.

Smá yfirlit fyrir ykkur. Sprundin var að sjálfsögðu miður sín yfir að hafa verið svona rotuð og lofaði því að bæta mér drottninguna upp. Ég skildi hana eftir meðvitundarlausa og fór til ömmu í kaffi. Hitti þar fyrir mömmu og co og við áttum notalega stund. Þegar ég kom heim var loks lífsmark með Hrundinni sem var með kryppu af samviskubiti. Við kveiktum á kertum og pökkuðum inn gjöfum og horfðum með öðru auganu á væmnar jólamyndir í sjónvarpinu. 

Rakelita kom heim upp úr hádegi á Þorláksmessu og við drifum okkur í laufabrauðsútskurð hjá mömmu. Rakel hefur algera snilligáfu í þessum forna sið. Hef aldrei séð kökur lafa saman þegar búið er að skera þær í hel. Veit nú ekki hvernig gekk að steikja þær því aldrei þessu vant var ég ekki með mömmu í því heldur dreif mig með stelpunum mínum í Jólaþorpið í Hafnarfirði. Tókum einn stuttan hring í þorpinu og héldum svo niður í bæ. Settum Rakel í kerruna og pökkuðum henni inn. Kerruna notaði ég sem göngugrind þar sem ég var í fáránlegum skóm og rann niður allar brekkur. Vorum það snemma í því að bærinn var ekki troðinn. Náðum að kaupa tvær síðbúnar jólagjafir og náðum svo í skottið á friðargöngunni. Borðuðum kvöldmat á Red Chilli og eftir það var Rakel svo full orku að hún söng, dansaði og hljóp alla leiðina upp aftur í bílinn. Við komum svo seint heim að hún var ekki sofnuð fyrr en 10. 

Ég vaknaði fyrst á aðfangadagsmorgun. Kveikti á öllum seríum, fékk mér kaffi og naut kyrrðarinnar. Fannst ég heyra í Rakel og rauk inn til hennar með látum. Hún var þá enn steinsofandi en vaknaði við lætin í mér. Enda kominn tími til, klukkan orðin ellefu. Hef aldrei nokkurn tíma vitað þriggja ára barn sem sefur svona lengi. Hrund kúrði aðeins lengur á meðan við Rakel fengum okkur morgunmat. Hún horfði aðeins á barnatímann og fór svo í jólabað og við kyrnurnar þar á eftir. Fólk leit svo inn með gjafir og eftir það var tími til kominn að elda risasvínið sem átti að vera í jólamatinn. Kallarnir komu svo upp úr fjögur og maturinn var tilbúinn á slaginu sex. Hrund brúnaði meira að segja kartöflur og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa staðið yfir pottunum allan daginn var ég komin með kjötklígju og átti erfitt með að koma matnum niður. En það skipti nú engu. Rakel gleypti í sig matinn og vildi svo byrja að opna. Við helltum því upp á kaffi, drógum fram konfekt og hófumst handa.

Rakel fékk að sjálfsögðu allan heiminn. Fullt af fötum og bókum sem er gott og blessað, lest (ótrúlega flott, tréteinar sem maður púslar saman, sérvalið af okkur Hrund fyrir ömmu) og að sjálfsögðu eldhúsið frá mömmum sínum (stórt úr plasti, alveg hreint geggjað). Rakel ætlaði hins vegar að missa sig yfir litlum plasstyttum af múmínálfunum. Það er svo fyndið hvernig ein gjöf stendur alltaf upp úr hjá henni. Og það er ekkert endilega sú stærsta.

Barnið hvarf svo inn í herbergi að leika sér. Kom rétt aðeins fram til að skófla í sig ís. Af mikilli skyldurækni held ég. 'Má ég fara og leika mér núna?' spurði hún um leið og hún renndi niður síðasta bitanum. Að sjálfsögðu.

Karlarnir voru uppgefnir af öllu pakkaflóðinu og því sem því tilheyrir og héldu heim um tíu. Þá svaf Rakel á sínu græna eyra í grænu bangsanáttfötunum sínum. Þá fyrst höfðum við Hrund tíma til að klára að opna okkar gjafir. Ég fékk svo falleg gull. Og heilar sex bækur sem er met. Hefur ekki verið svona mikið síðan ég var krakki. Jeij!

Á jóladag var okkur boðið í heim til tengdó ásamt mömmu og systkinum mínum. Vorum að prófa þetta í fyrsta skipti, okkur langaði svo að hafa alla sem okkur þykir vænt um á sama stað. Þetta gekk vonum framar. Okkar beið þvílíkt veisluhlaðborð og eftir átið fóru allir að spila. Líka Rakel sem brussaðist um allt og ruglaði öllu. Krúsímús. Veislan stóð í sex tíma og við Hrund snertum ekki jörðina af gleði þegar við héldum heim.

Í gær fórum við með Rakel til pabba síns og svo var ég formlega orðin drottning dagsins. Við Sprundin fórum á Gráa köttinn og fengum okkur hádegismat. Tókum svo göngutúr í kringum tjörnina og stoppuðum aðeins í Ráðhúsinu til að skoða ljósmyndasýningu. Fórum svo í þrjúbíó í lúxussalnum í Smárabíó. Sáum The Golden Compass sem var alveg hreint fyrirtak. Eftir bío náðum við okkur í burritos á Culiacan (held ég að það heiti) og leigðum okkur Home Alone eitt og tvö. Rakel kom heim um átta og við lásum bókina 'Sjóræningjar skipta ekki um bleyjur' sem var alveg sjúklega fyndin. Eftir að engillinn var sofnaður hófumst við Hrund handa við glápið og Sprundin nuddaði mig. Alveg yndislegt.

Við erum boðnar í hangikjöt til mömmu á eftir og á morgun er jólaball fyrir starfsfólk Alþingis sem við ætlum að sjálfsögðu að mæta á. Eftir það verður haldið til ömmu í smá hitting svo það er nóg að gera.

Rakel situr nýböðuð og spariklædd og horfit á Bubba byggir. Sprundin sefur með nýju dúnsængina sína, sem ég og mamma gáfum henni í gjólagjöf, inni í rúmi. Ég sit í yndislega náttsloppnum sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu (Hrund fékk líka og við höfum varla farið úr þeim) og er að hugsa um að skella mér í sturtu og sápa mig og skrúbba mig með öllu því sem við Hrund fengum um jólin.

Náði næstum að kremja barnið mitt í hel í nótt. Rakel kemur sjaldan upp í á nóttinni. Bara á morgnana þegar hún er vöknuð, þá skríður hún upp í til okkar smá stund áður en það er kominn tími til að fara á fætur. Í nótt hefur hún komið upp í án þess að við Sprundin yrðum varar við það því annars hefðum við farið með hana aftur í sitt rúm. Yfirleitt get ég alls ekki sofið með þennan bröltbolta upp í hjá mér. Á það líka til að ýta við henni í svefni þar sem ég held oft að þetta sé Sprundin á góðri leið með að knúsa mig í hel. Rakel verður yfirleitt sármóðguð og gargar á mig að hún verði þá bara hjá mömmu. Leggst svo ofan á hana og sefur þar. Hrund rumskar að sjálfsögðu ekki. Enginn í heiminum sefur fastar en hún. En allavega. Í nótt hefur Rakel sumst skriðið upp í og ekki einu sinni ég rumskað.

Ég vaknaði hins vegar við það um hálf sjö að hann var farinn að hvessa og gardínan slóst af miklu afli í gluggakarminn (erum með trérimlagardínur sem eiga það til að vera með mikil læti). Ég reisti mig við til að loka glugganum en sem ég ætla að leggjast aftur finn ég að Hrund hefur plantað hendinni þvert yfir allt mitt svefnpláss. Ég ýtti henni í burtu (ógesslega leiðinleg, ég veit, það tók mig allt fyrsta árið okkar Hrundar að venja mig við að hafa einhvern hjá mér í rúminu, hvað þá einhvern sem vildi knúsa mig og vera utan í mér, er orðin miklu betri núna og sef ömurlega ef Hrund er ekki hjá mér) og lagðist niður. Ofna á litlu barnahandleggina hennar Rakelar og höfuðið á henni. Heyrði bælt 'ÁÁÁIII'´og færði mig. Þarna lá litli engillinn í holunni milli okkar Hrundar og með höfuðið á koddanum mínum. Ég hafði ekki brjóst í mér að reka hana í rúmið sitt eftir þessa meðferð á henni svo ég leyfði henni að vera. Hún hins vegar mjakaði sér sár yfir á koddann til mömmu sinnar. Fyrirgefðu Rakel mín!

Er búin að pakka niður spilum sem við ætlum að taka með til mömmu. Rakel elskar að spila. Pakkaði líka útifötum fyrir Rakel í poka og ætla sjálf að taka með mér kraftgalla. Það er tími til kominn að við Rakel missum okkur í snjónum.

Það verður að hlúa að barninu í sér. 

ps. Það er ótrúlega fyndið hvernig fólk lætur vel að hvort öðru. Eins og við Hrund til dæmis. Ef ég er ekki með gleraugun finnst okkur svo fela andlitin í hálskoti hvor annarrar og eitthvað þannig og þetta minnir mann á hest og önnur dýr þegar þau eru að knúsast. Ég sagði einmitt við mömmu að við værum nátla dýr og alveg eins og önnur dýr eða að mestu. Við erum bara dýr með skeinipappír. 


Úje

Jibbí kóla og allt það. Ein erfiðasta prófatörn sem ég hef átt er BÚIN. Held mér hafi gengið ágætlega í spænskri ritþjálfun í gær. Verð allavega frekar hissa ef ég fell. Var búin að læra ógrynni af orðum utan að svo ég væri viss um hvernig þau væru skrifuð (allt orð í námsbókinni en á síðasta prófi kom svo mikið af orðum sem ég hafði ekki lært og hafði ekki hugmynd um hvað þýddu). Það kom um það bil eitt orð af því sem ég hafði lært. Það var lystisnekkja. Hin orðin hljóta öll að hafa verið mjög algeng orð því hún sagðist aðeins myndu nota orð úr bókinni og svo algeng orð. Ég þekkti nú samt minnst af orðunum. Kannski minning mín um spænskukunnáttu mína sem var svo góð í Costa Rica sé einhver blekking. Eða ég hafi aldrei notað algeng orð. Veit ekki.

Aðal málið er að þetta er búið. Brunaði beint (það er reyndar lygi, var rúman hálftíma heim úr Háskólanum og eyddi löngum tíma í bílaröð með geðveikum Íslendingum seim EIGA AÐ VERA Í VINNUNNI KLUKKAN ÞRJÚ) eftir prófið á leikskólann að sækja engilinn minn sem hentist í fangið á mér. Pabbi hennar kom svo að sækja hana og eftir fórum við Hrund eins og hvítir stormsveipar um húsið. Skúruðum og skrúbbuðum, þurrkuðum af og gerðum ýmislegt aukalega og betur en venjulega enda hátíð ljóssins handan við hornið. Ég uppgötvaði mér til skelfingar um átta leytið að ég hafði ekkert borðað síðan um morguninn, það útskýrði höfuðverkinn og slappleikann. Ég má bara alls ekki gera þetta. Eina leiðin fyrir mig til að borða eðlilega er að halda matardagbók. Hæfileikann til að umgangast mat eins og felst fólk gerir eyðilagði ég fyrir löngu. Hef hins vegar slugsað dagbókina undanfarið og einbeitt mér að prófhelvítinu. Kannski ég fari að byrja á þessu aftur svo ég endi ekki annaðhvort eins og loftbelgur eða eins og tannstöngull. Úje. (Held stundum að ég deili allt of miklu með ykkur, það eru svo margir sem lesa bloggið sem ég þekki ekki neitt.) 

Hildur vinkona sem býr í Danmörku kom í heimsókn í gærkvöldi og Oddný besta vinkona bættist svo í hópinn. Hún fer norður á morgun eins og alltaf um jólin, kemur svo heim í nokkra daga og flytur svo til Akureyrar. Hún er besta vinkona mín í heiminum. Við kynntumst í lýðháskólanum í Danmörku þegar við vorum 19 og höfum elskað hvor aðra síðan þá. Eins glöð og ég er fyrir hennar hönd (hún var að komast inn í VMA og ég er ótrúlega stolt af henni) finnst mér svo sárt að missa þennan yndislega sálufélaga minn norður. Tilhugsunin um að geta ekki skokkað yfir til hennar hvenær sem er fer alveg með mig. Við dauðkvíðum kveðjustundinni báðar og eigum örruglega eftir að grenja með látum. Svona er að vera fullorðinn. Vinir þínir hætta að vera í tíu metra radíus frá þér. 

Hrund endaði á djamminu í gær og kom heim undir morgun. Ég var búin að plana að vera drottning dagsins, þ. e. nota einn af miðunum sem ég fékk í jólagjöf frá henni í fyrra og ráða deginum alfarið. Mér er hins vegar lífsins ómögulegt að vekja hana. Hnuss. Ég er samt ekki búin að gefast upp. Er búin að stússast upp á háalofti, ganga frá skóladóti (allt úr forna málinu er enn þá hérna niðri, finnst það vera að storka örlögunum að ganga frá því áður en ég veit hvort ég næ) og slasa mig mörgum sinnum við leit og príl upp og niður stigann að háaloftinu. Þar sem ég er algjör dvergur reynist mér mjög erfitt að opna háaloftið og enn þá erfiðara að loka því. Loftfimleikar á hæsta stigi og ég er mjög lofthrædd. Var skíthrædd um að hálsbrjóta mig. Og enn þá hræddari um að Sprundin myndi ekki einu sinni vakna við skarkalann. Ég yrði svo étinn af rykmaurum og fjölskyldan þryfti að éta pizzu í jólamatinn.

Jólamatur. Einhvern veginn gerðist það að pabbi Hrundar OG tveir bærður hans eru að koma á aðfangadag. Fyrst svitnaði ég soldið við tilhugsunina en þar sem ég er svo mikill gestgjafi í mér er ég farin að hlakka til núna.

Ef konan mín myndi bara vakna og þjóna drottingu sinni. Hún átti að vekja mig með kaffi og vera búin að láta renna í bað fyrir mig. Í stað þess sit ég í náttskyrtunni einni saman og nenni ekki í sturtu. Einhver sem vill leyfa mér að stjórna sér í dag og stjana við mig? Ég er 159, aðeins of þung (sumir myndu segja að ég væri fallega þrýstin á réttum stöðum ...). Ég er með græn augu og dökkt og hrokkið hár. Ég hef gaman af skapandi skrifum, lestri og öllu sem felur í sér adrenalínkikk (eins og að labba upp brattasta og lengsta og hæsta stiga í heimi (eða næstum) upp á topp á Mayarústunum í Guatemala, skjálfandi af hræðslu og hálf grenjandi). Freistandi? Alguien?

Á morgum kemur jólastelpann heim og fær loks að skreyta jólatréð sem hún er búina að tilkynna að hún ætli að dansa UM og syngja djiggebegg (jingel bells)  og göngum við í kringum mánudag (eða eitthvað álíka). Svo ætlum við bara að dúlla okkur. Fara í jólalahúsið í Hafnafirði og kannski skera út laufabrauð og taka einn Laugara.

Það er að segja ef Hrund verður vöknuð.

Hljóma ég bitur?

Elska samt yndislega konukjánann minn.

Ætla að ná í glimmerkórónuna sem Rakel fékk í jólagjöf, setja hana á mig og fíla mig sem drottningu.

Úje. 


Eru þið ekki að grínast?

Skítadagur. Fór jákvæð og bjartsýn í prófið í forna málinu. Byrjaði vel en fór svo að ganga illa og svo mjög illa. Féll á tíma og náði ekki að klára einn lið, af hinum fimm veiku sögnum sem ég átti að setja í flokka hef ég kannski rambað á einn réttan flokk. Gat ekkert sagt um þær og ekki klárað svarið. Þegar kom að því að ég átti að samræma texta að forni stafsetninu hafði ég korter ekki fimmtíu mínútur til að gera það eins og áætlað var. Ég skrifaði án þess að hugsa og náði ekki að pæla í neinu.

Fór svo að ná í eina skýrslu og eina ritgerð í bókmenntafræði. Kennarinn hefur gleymt að setja ummælin og einkunn með eins og hann gerir alltaf. Veit reyndar að ég fékk 9 fyrir ritgerðina mína, hann sendi mér einkunnina í tölvupósti um daginn af því að hann var veðurtepptur heima hjá sér. Að ég skuli fá svona fínt fyrir bullið í mér. En hvar eru ummælin? Gleymdi hann mér 

Heima beið mín veik Hrund sem ég druslaði á fætur og með mér í Bónus að versla í jólamatinn. Kortinu var hafnað. Höfum eytt mikilu meira en við héldum í mat þennan mánuðinn, nátla afmæli og jól og svona. En samt. Ekki gaman. Redduðum þessu með vísa. Fórum svo að taka bensín. Bensínkortinu var hafnað. Fórum svo að leyta að óáfengu rauðvíni í Hagkaup sem á að vera í jólasósuna. Það var uppselt.

Fórum í annað Hagkaup þar sem rauðvínið fannst. Á leiðinni út labbaði ég á og er nú að drepast í vinstri hendinni.

Og hvað þarf ég svo að gera núna. LÆRA SPÆNSKU. Ég bara get ekki meira.

Óþolandi dagur.

Annars er ég búin að fá eina einkunn. Fékk 9 í spænskri málfræði sem er meira en ég bjóst við.

Klukkan er orðin þrjú og ég er ekki byrjuð að læra. Oj, bara. 


Dauf augu?

Er hægt að skrifa fyrir daufum augum eins og hægt er að tala fyrir daufum eyrum?

Stundum efast ég allavega um að nokkur lesi þetta blogg. Eiginlega soldið asnaleg að halda úti dagbók á netinu sem kannski enginn les. En ég má ekki vera of hörð við ykkur, mér sýnist nú að slatti af fólki líti hér við á hverjum degi. Þð megið samt alveg kommenta meira.

Annars hef ég engan tíma akkúrat núna til að vera að þessu. Ég er í auga hvirfilbylsins eins og stendur. Forna málið myndi vera bylurinn og það er spurning hvort ég komist lífs af.

Afmælið fór ofsa vel fram. Allir glaðir og ánægðir. Gestirnir komu í þremur hollum, fyrst mín fjölskylda, svo Hrundar og síðast vinkonur okkar. Síðustu gestirnir fóru um hálf ellefu (Rakel var nú reyndar löngu sofnuð þá) svo þetta var ellefu tíma veisla. Rakel var í essinu sínu og sýndi engin merki um þreytu. Fékk helling af bókum og fötum og litum og tónlist og hljóðfærum og perlum ogégveitekkihvað. Fékk líka traktor og plastkýr frá mömmu og lá mest allt afmælið í gólfinu og baulaði og burraði.

Hrund bakaði köku og var að springa úr stolti. Við skreyttum svo afraksturinn og ætluðum varla að tíma að éta hann, kakan var svo flott.

Rakel talar stanslaust um litla bróður sinn sem fer bráðum að fæðast. Í hvaða legi hann er veit ég ekki. Pabbi hennar hringdi í gær og spurði hvort það væri eitthvað sem við vildum segja honum, einhver bróðir á leiðinni? Ekki svo gott. Barnið var því yfir sig hrifið þegar Títa vinkona mætti með Júníönu, sex mánaða dóttur sína. Rakel ætlaði að éta hana, knúsaði hana og kyssti, kallaði hana HANN Júlíus og vildi endilega fá hann til að leika við sig inn í herbergi. Þetta er í annað skiptið sem Rakel er í kringum svona lítið barn og það er stórkostlegt að fylgjast með þessu. Greinilegt að hún þráir systkini.

Laugardagurinn var kærkomið frí. Vaknaði snemma á sunnudag og fór til mömmu að læra. Stelpurnar mínar komu svo þangað í mat og Rakel fór í bað með nýja baðdótið, myndir og sápuliti til að lita þær með. Eftir kvöldmat fóru Hrund og Rakel að tygja (hvernig í ósköpunum er þetta skrifað? svona verður maður heiladauður af lærdómi) sig og ástin litla koma með skóna mína til þess að tryggja það að ég kæmi nú með þeim. Þegar ég sagði að ég gæti ekki komið, ég yrði að læra, henti hún þeim aftur í gólfið, yggldi sig og sagðist reið við mig af því að ég vildi ekki koma með þeim. Hún skilur ekkert í því að ég skuli alltaf láta mig hverfa, spyr sífellt um mig og er öskuvond yfir því að ég vilji ekkert með hana hafa. Heldur hún. Sagði svo við mömmu sína að ég væri leiðinleg. Mamma hennar hefur verið í því að reyna að útskýra fyrir henni að mig langi til að vera með þeim en geti það ekki. Tóninn er eitthvað farinn að breytast hjá litla skinninu. Núna setur hún upp sorgarsvip og þylur: 'Aumingja mammí, greyið mammí, getur ekki verið með okkur, þarf bara að læralæralæralæra.'

Hún fór svo til pabba síns í gær og kom eldsnemma í morgun. Afmælisstelpan, orðin þriggja ára. Við Hrund gáfum henni okkar gjöf, litaspil, lottó og Blómin á þakinu. Sátum flötum beinum í holinu og náðum að spila einu sinni áður en Rakel fór á leikskólann. Í kjól og með ís handa krökkunum. Alveg í skýjunum.

Er búin í bókmenntafræðiprófinu. Gat svarað öllu, hversu vel ég gerði það kemur í ljós. Er svo, eins og áður sagði, að rembast við að berja hljóðskiptaraðir og stofna inn í hausinn á mér. Er búin að gera ógrynni af töflum til að auðvelda mér að skilja og muna, hvenær ég ætla að hafa tíma til að læra þetta allt utan að veit ég ekki. Hvað ef ég fell? Er að reyna að hugsa eins og Oddný vinkona segir að ég eigi að gera: Ef ég fell tek ég bara prófið aftur. Get hins vegar ekki hugsað svo langt. Hef aldrei kviðið prófi eins mikið.

Erum búnar að kaupa jólatré. Rauðhærði jólaálfurinn var með í för og bíður spenntur eftir að fá að skreyta. Trúi ekki að jólin séu handan við hornið og ég að spá í hvernig einhver helvítis rótarsérhljóð voru aftur í forneskju. Ég bið um grið.

Annars horfði ég á breska heimildarmynd um aðstæður kvenna í Afganistann í gær. Hefur maður efni á því að kvarta?

Guð i himmelen. 


Ofsaveður

Þetta er nú meiri veðráttan. Heitapottar, fellihýsi og grill fjúka um eins og lauf í vindi. Dótagræðgin kemur aftan að okkur og munaðurinn feykist um og hlær. Þeir sem ekki hafa látið neyslugeðveikina hlaupa með sig í gönur sitja sallarólegir á sínum rassi og hafa ekki áhyggjur af því að neitt fjúki nema kannski aðhaldskrafturinn sem einkenndi þá í byrjun desember. Allir vilja komast í jólafötin.

Sem er bæ ðe vei stórundarlegt. Kaupir fólk sér í alvöru of lítil föt fyrir jólin og er svo sveitt við að grenna sig í þau allan desember? Ég kaupi mér nú bara föt í réttri stærð og slepp við svitann.

Þetta er svona álíka fáránlegt og þegar konur eru spurðar hvort þær vilji frekar, súkkulaði eða kynlíf (sbr. t. d. How to lood good naked síðast). Lenda einhverjar konur í alvöru í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á mili? Eru kallarnir bara hey! ég sef ekki hjá þér nema þú hættir að gúffa í þig súkkulaði, mér býður við þessari súkkulaðifýlu af þér!

Ég segi nú bara bæði betra og myndi gefa Hrundinni mjög illt augnaráð ef hún væri eitthvað neyða mig til að velja á milli.

Annars er Rakelita orðin frísk. Fór á leikskólann í gær í sparifötum enda jólaball. Fékk að hafa með sér piparkökur í poka eins og háttur er á jólaballsdegi leikskólans. Barnið ætlaði að tryllast úr gleði þegar ég sýndi henni pokann um morguninn, hentist í fötin og bað svo um 'næstið' sitt (af einhverjum ástæðum kallar hún allt gott, t. d. eftirrétt, nesti eða 'næsti'). Eftir miklar fortölur fékkst hún þó til að borða sínar lífrænu kornflexflögur og geyma næstið þangað til í hádeginu.

Ég var burtu allan daginn í gær að læra og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Hringdi í stelpurnar mínar um kvöldmatarleytið alveg veik af söknuði. Rakel tilkynnti mér óðamála í símann að hún hefði fengið vasaljós frá Skyrgám(i) og Kjötgám(i) í leikskólanum. Kjötgámur? Vissi ekki að jólasveinarnir væru orðinr 14, svona fylgist maður illa með.

Eins ógirnilega og það hljómar er Rakel með svokallaðar flökkuvörtur. Þetta eru týpískar leikskólavörtur sem svo oft herja á börn á leikskólaaldri nema þessar flakka (ertu ekki að grínast?). Tókum fyrst eftir einni fyrir svona einum mánuði rétt hjá vinstra handarkrikanum. Stuttu seinna voru þær orðnar fleiri og hertóku litla handarkrikann. Við fórum með hana til læknis sem sagði að best væri að kreista vörturnar eins og bólur, þ. e. þessar stærstu, og þá myndu þær minni fara. Alveg er ég viss um að ekki nokkur einasti læknir sem ráðleggur þetta hefur reynt að framkvæma þessa aðgerð á sínu eigin barni. Svitinn lak af okkur Hrund á meðan önnur hélt barninu og hin kreisti og reyndi að stinga á. Barnið öskraði og barðist um og tilkynnti okkur að pabbi hennar þyrfti sko ekkert að skoða eða meiða hana. Við vondu mömmurnar.

Rakel var fljót að jafna sig en ég og Hrund skulfum af vanlíðan og samviskubiti. Það er hræðilegt að meiða barnið sitt svona. Ætluðum ekki að geta hætt að knúsa stelpuna okkar, biðja hana fyrirgefningar og reyna að útskýra af hverju við hefðum verið að þessu. Sögðumst vissar að jólasveinnin gæfi henni eitthvað extra flott í skóinn þar sem hún hefði verið svo dugleg.

Árangurinn af þessu helvíti: ENGINN.

Rakel fékk hins vegar bók í skóinn og var alsæl.

Hef svo gaman af því hvernig Rakel talar. Hún hefur svo skemmtilegan orðaforða. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft (er þetta ekki svona?). Á tímabili var ég með 'óskaplega' á heilanum. Á sama tíma var Rakel alltaf ósklilega (lesist óskaplega) þreytt og óskilega svöng. Þegar hún var spurð að því hvað hún væri að gera svaraði hún því til að hún væri 'að skottast um'. Stekkjastaur gaf henni litabók með jólasveinamyndum sem hún þurfti nátla helst að lita allar áður en hún fór í leikskólann. Sem hún flettir bókinni rekur hún augun í mynd sem vekur áhuga hennar: Hey, sérru, Glýra og Leppilúði. Þetta er nú eitthvað kunnulegt.

Mikið er gaman að barnið mitt skuli skottast um og reka augun öðru hverju í eitthvað óskaplega kunnulegt. 

Hef verið að læra forna málið undanfarna tvo daga. Gud í himmelen. Það er ekki málið að ég skilji þetta ekki. Þetta er allt mjög rökrétt og áhugavert. En mér finnst ekki mennskt að láta okkur leggja þetta allt á minnið. Ætti að vera hjálpargagnapróf. Það væri alveg hægt að prófa skilning okkar á efninu þótt við fengjum að fletta einhverju upp. Eins og alltaf í hjálpargagnaprófum þarf maður að skilja og vita hvar á að leyta til að ná prófinu. En eins og þetta verður er verið að prófa hvernig dagsformið er þennan tiltekna prófdag og hversu minnug við erum.

Í dag er það hins vegar bókmenntafræði aftur og gott að fá tilbreytingu. Um sex ætla ég svo að drífa mig heim og föndra afmæliskórónu handa stelpunni minni með konunni. Risahjúmongus veisla verður svo haldin á morgun og er ég bara farin að hlakka til. Hrund ætlar að snurfusa aðeins heima í dag og svo verður mölluð súpa í kvöld og bökuð glæsileg speltbangsaafmæliskaka, skreytt með mislitum glassúr. Það sem maður gerir ekki fyrir afkvæmi sín.

Jæja. Bókmenntafræðin kallar: Hey, ertu ekki að koma þú þarna égnenniekkiaðlæralangarbaraaðhorfaávideoundirsæng. Mig langar nú að svara einhverju óprenthæfu en læt það vera. Skráði mig sjálf í þetta nám. Hvernig gerðist það nú aftur?

Djöfull var Kjötgámur heppinn á sér að komast til byggða áður en aftakaveðrið hélt innreið sína. 


Navidad

Eftir að hafa lesið jólapælingar Hlífar á blogginu hennar datt mér þetta í hug:

 Mér finnst eiginlega skemmtilegast hvað fólk hefur mismunandi skoðun þegar kemur að jólum og það er ótrúlega gaman að heyra um siði og venjur annarra.

 Mamma mín er skondin skrítla og þótt hún héldi fast í sumar hefðir ár hvert (jólabað, hrein rúmföt) þá breytti hún öðru eftir hentisemi. Hún gerði tilraunir með jólamat og hafði það sem hana langaði mest í hverju sinni, fór allt í einu að hafa möndlugraut og göngutúr á jóladag. Ég vandist þessu og tók þátt í að skapa þessar 'venjur'.

Eitt árið var jólatréð komið upp hálfum mánuði fyrir jól (um að gera að nýta gripinn), næsta ár á Þorláksmessu. Það skipti engu, það var alltaf stuð.

Ég hreinlega dýrka að skapa mínar eigin hefðir eftir að ég eignaðist stelpurnar mínar. Það getur verið fjandanum erfiðara að blanda saman mínum venjum og Hrundar en stórskemmtilegt púsluspil þó.

Finnst það notaleg og nokkuð skrítin tilhugsun að með tíð og tíma verða þessar venjur að Rakelar venjum, hún á eftir að alast upp við okkar hefð. Þar sem hún er með eindæmum íhaldssöm eins og flest önnur börn á hún örugglega bara eftir að vilja hamborgarahrygg eins og ég elda hann, vilja fara í göngutúr á jóladag, skreyta á fyrsta í aðventu og borða piparkökur allan desember.

Skrítnustu jól sem ég hef upplifað voru þegar ég var eitthvað um fimm ára peð og var hjá papito í Svíþjóð. Risapálminn hans var jólatréð og jólamaturinn öðruvísi en venjulega. Vissi ekki hvert ég  ætlaði. Þetta var sko ekki eins og hjá mömmu.

Við finnum öll okkar rytma. Sumir eru í kyrrstöðu þangað til á aðfangadag og taka þá trylltan tangó, aðrir vanga inn í jólinn og enn aðrir taka rúmbu á þetta.

Ég er loksins farin að læra að meta jólin aftur. Hef ekki gert það síðan ég var krakki. Mitt eigið sálarástand og vanlíðan í mörg ár olli því að hugur minn var út á þekju. Núna hef ég hreinsað til í mér, farið út með ruslið og fundið jólandann lengst inn í skáp.

Ég hlúi að andanum mínum eins og viðkvæmu blómi. Með hverju árinu sem líður verður líf hans meira, stöðugra og brátt mun hann hætta að flökta. Svona getur maður verið duglegur þótt maður missi fótana einhvern tíma á lífsleiðinni.

Aldrei að gefast upp, alltaf að standa upp aftur. Ég get, skal og vil.

Þetta hljómar svolítið eins og ég hafi verið á kafi í dópi. Sú var nú ekki raunin. Ég var bara einhver veginn í því að éta sjálfa mig að innan í mörg ár.

Svona gerir jólandinn mann væminn. Ef ég lít út um gluggann sé ég spegilmynd mína. Lítinn, úfinn krulluhaus í náttfötum. Gleraugun hafa sigið niður á nef og það er stútur á munninum eins og alltaf þegar ég er að hugsa. Mér þykir ósköp vænt um þess veru. Ég ætla að hugsa vel um hana það sem eftir er.

Það er mín jólagjöf. Það er mitt áramótaheit. 

Í virðingu minni og ást á sjálfri mér felst öll mína geta til að vera hamingjusöm.

Það snjóar inn í mér. Jólasnjór. 

 


Finally

Búin að finna sjálfa mig. Hef endurheimt mig. Þekki mig aftur. Um leið og ég byrjaði að læra fyrir íslensku í gær hentist ég í prófgírinn af svo miklum krafti að það var hálf óhugnalegt. Gleymdi að pissa, gleymdi að borða, gleymdi stað og stund. Stoppaði bara til að setja nýtt blý í skrúfblýantinn og hélt svo áfram. Glósaði eins og ég ætti lífið að leysa. Af svo miklum krafti að eldglæringar stóðu í allar áttir. Bætti mér upp alla þá daga í síðustu viku sem ég var ekki í prófgír og lærði í 7 tíma án þess að anda. Næstum.

Rankaði við mér þegar Sprundin var mætt að sækja inniskóna sína sem ég hafði stolið. Komumst þá að því að ég var hálf kalin á tánum. Hrund tók mig í yndislegt fótanudd og hlýjaði mér. Ég hætti að sjálfsögðu ekki að glósa á meðan. Þessi kafli í stílabókinni er pínulítið hristur.

Ég vona að þetta verði ekki svona í framtíðinni. Að ég lufsist eitthvað áfram þegar ég er að læra fyrir spænsku. Eftir þess önn er ég bara búin með (ef guð lofar og allt gengur vel) 5 einingar af 30 í spænsku. Og mér finnst þetta ekki leiðinlegt (ok, reyndar er ritþjálfun pínu asnó), bara kann ekkert að fara í spænskan prófgír. Bara íslenskan.

 Hlíf kommentaði um ritþjálfunarnámskeiðið sem ég skrifaði um síðast. Hún hélt að námskeiðið hefði verið svona lélegt þegar hún var í því af því að kennarinn var þá að kenna það í fyrsta skipti. Sei,sei, nei. Það er enn þá svona. Og meðaleinkunin á prófunum á önninni hlýtur að rétt slefa í fimm. Prófin eru undarleg. Fullt af orðum sem enginn (nema þeir alla hörðustu) skilja. Ég er með 3,5 stig í af 5 í þeim 50% sem ég er búin að klára. Hvað sem það þýðir. Vona bara að ég nái lokaprófinu. Mierda.

En nenni ekki að hugsa um það núna. Eftir lærutörnina í gær fengum við Hrund okkur ís og svo tók hún mig í allsherjar nudd. Ég lá makindalega upp í rúmi sem Sprundin hafði hitað með heitum grjónapokum og sötraði grænt orkute meðan Hrund fór um mig mjúkum höndum. Höndunum sínum með ljósinu eins og einhver miðill sagði. Guðdómlegt. Og soldið vont af því að þetta var svæðanudd og það er frekar sársaukafullt. Hún ýtti á punkta til að lækka blóðþrýstinginn og lækna hnéð.  Las mig svo í svefn.

Annars er litla lús aftur orðin veik. Bara tvær vikur síðan hún var veik síðast. Kom veik frá pabba sínum í gær. Með 39,5 stiga hita. Öll ósköp lítil og aum. Þær mæðgur höfðu það gott heima í dag á meðan ég lærði eins og mother fo**** heima hjá mömmu í 9 tíma. 

Ætla núna að fá mér ólívubollur og horfa breska heimildarmynd.

Ó ritþjálfun. Þú veldur mér martröð. 


Þreytt

Já, ég er endalaust þreytt eitthvað og nenni engan veginn þessum prófum. Finnst ég ekkert hafa komist í neinn prófgír, að minnsta kosti ekki hingað til. Veit ekkert hvað er að gerast með mig.

Hef verið svolítið mikið hjá mömmu að læra. Það er mjög þægilegt. Oftast hef ég verið mest heima í prófum, kannski tekið tarnir á Hlöðunni en annars læri ég mjög vel hérna í kotinu mínu. Núna hefur það ekki gengið eins vel. Næ ekki að einbeita mér. Finnst því gott að fara til mömmu. Litla systir situr inn í herbergi og lærir fyrir sín próf og öðru hverju spjöllum við um hvað við nennum þessu ekki.

Hrund er búin í sínum prófum og er komin í frí. Kannski þess vegna sem ég næ ekki að einbeita mér hér heima. Miklu meira spennandi að tala við hana heldur en að læra. Kannski líka þess vegna sem ég er að drepast úr þreytu. Hún vakir fram eftir og ég kem mér ekki í rúmið. Horfi með henni á sjónvarpið eða held yfir henni einræður eins og mér einni er lagið (þegar ég spyr þessa elsku hvort ég tali of mikið segir hún alltaf nei, hún nennir alltaf að hlusta á blaðrið í mér).

Var við það að fá taugáfall yfir afmælinu hennar Rakelar í vikunni. Við ætlum að halda það næsta laugardag. Ef allir mæta eru þetta um þrjátíu manns með okkur Hrund og Rakel. Sprundin náði að róa mig. Ætlar með mér að versla og hjálpa mér með undirbúning veislunnar kvöldið áður. Fjölskyldan mín er í fyrra hollinu um hádegisbilið og fær súpa (lagaða kvöldið áður svo það þarf bara að hita hana upp daginn eftir) og brauð. Fjölskylda Hrundar mætir svo um hálf þrjú og fær kökur og kaffi. Get ekki eldað súpu fyrir svona marga. Mamma ætlar að koma með eina köku og ætla að biðja tengdó um að bjarga geðheilsu minni og koma með eina köku og einn brauðrétt eða svo. Davíð frændi heldur svo upp á 25 ára afmælið sitt sama dag og byrjar veislan  hjá honum klukkan fimm. Það er því nóg að gera. Ég er að fara í bókmenntafræðipróf mánudaginn á eftir og kvíði því hræðilega. Aðallega þess vegna sem ég hef verið svona stressuð. Þarf að finna tíma til að gera allt sem gera þarf fyrir afmælið. Sem betur fer er Sprundin í fríi og léttir á mér álagið. Ef ég væri ekki í prófum myndi ég njóta undirbúningsins í botn, baka mitt eigið brauð og gera hummus í stað þess að kaupa það. En það verður ekki á allt kosið. Þetta verður örugglega svaka stuð.

Búin með eitt próf. Fór í spænska málfræði í gær og held mér hafi bara gengið ágætlega. Kvíði prófinu í spænskri ritþjálfum miklu meira (það er 21. des). Ólíkt því sem heiti námskeiðsins gefur til kynna er við ekki að æfa okkur í að skrifa heldur að stafsetja. Það er til endalust af áherslureglum og reglum um hvenær skrifað er v, b, h, g, j og svo framvegis. Fjandanum erfiðara þótt það hljómi ekki svoleiðis. Ég er búin að læra svolítið fyrir það. Hef bara 20. des eftir hádegi til að klára lærdóminn. Núna þarf ég að einbeita mér að bókmenntafræðinni og forna málinu. Ó mæ lordí hvað ég er stressuð.

Þar sem ég hef farið svo seint að sofa í vikunni og náði næstum ekkert að sofa fyrir stressi nóttina fyrir prófið var ég að leka niður úr þreytu í gær. Við Hrund fórum til mömmu með gjöf handa Elísabetu Rós sem varð 16 í gær. Stóra litla systir. Hrund fór svo heim með Val, pabba krakkanna, sem setti upp ný blöndunartæki inni á baði hjá okkur. Núna er ekki lengur hætta á því að Rakel skrúfi frá heita vatninu Þegar hún er í baði og grilli sig. Nýju tækin eru með hitastilli. Ég neyddi mig í Kringlugeðveikina og kláraði að kaupa jólagjöfina hennar Hrundar. Var svo í mat hjá mömmu en var komin snemma heim, gat ekki haldið mér vakandi.

Sprundin er búin að smíða hillur í neðri skápana inn í eldhúsi og í skápana undir súðinni frammi í holi. Dugleg. Loksins er hægt að raða eitthvað inn í þessa skápa og ég get hætt að bölsótast yfir þessu. Dauðöfunda Hrund yfir fríinu. Hún er búin að fá lánaða tölvuleiki hjá bróður sínum og er horfin inn í tölvuleikjaheiminn. Hún getur spilað endalaust. Ég lái henni það ekki. Hún fær örsjaldan tækifæri til að hanga í tölvunni svo hún nýtur þess í botn núna.

Guð, hvað ég sé jólafríið í hillingum. Það verður yndislegt að rölta með stelpunum mínum niður í bæ á Þorláksmessu og vakna með þeim á aðfangadag. Dunda mér við að elda á meðan ég hlusta á hláturinn í þeim fram í stofu. Pabbi Hrundar kemur í mat og kannski föðurbróðir hennar líka. Í fyrra var Robbi hjá okkur en í ár ætlar hann að vera með sinni fjölskyldu og í staðinn fer Rakel til hans á gamlársdag/kvöld. Þetta verður yndislegt.

Eftir tvo daga fer ég að leika jólasvein. Hlakka svo til að gefa Rakel í skóinn. Vorum búnar að finna til ýmist smádót, freyðibað í líki frosks, tvær litlar bækur, sokkabuxur, límmiða og þvíumlíkt en ég er alltaf að sjá eitthvað sætt svo ég hef bætt við barbapabbaglasi og skeið, vettlingum, endurskinsmerki og einhverju fleiru. Það er lang skemmtilegast að gefa krökkum á þessum aldri í skóinn segir mamma. Barnið mitt á eftir að verða svo glatt. Hún er alveg jafn glöð yfir dagatalinu sínu og í fyrra. Við kaupum súkkulaðidagatal og tökum súkkulaðið úr en setjum rúsínur í staðinn. Eins og hennar er háttur gefur Rakel okkur alltaf með sér þótt við hvetjum hana til að borða rúslurnar sínar sjálf. Það er ekki til níska í henni og hún virðist njóta betur ef hún gefur með sér.

En núna er ég farin að skrifa ógesslega langa færslu bara af því að ég nenni ekki að byrja að læra fyrir bókmenntafræði og veit ekki hvernig ég á að gera það.

Hrund sefur mjúk og mjólkurhvít inn í rúmi. Þvottavélin malar og tölvan andvarpar. Það er jólasnjór úti og algjör sunnudagur í götunni. Enginn á ferli.

Stelpan mín kemur heim á eftir, er að halda upp á afmælið sitt hjá pabba sínum. Hún verður örugglega í sykursjokki og alsæl. Og bráðum verður hún þriggja ára. Finnst eins og það hafi verið í gær sem ég, 21 árs, grönn, ó svo grönn, leit hana fyrst augum. Litla sköllótta búddistann með útstæðu eyrun. Það var ást við fyrstu sýn. Hafði einungis gerst einu sinni áður. Nokkrum dögum áður þegar ég hitti Hrund. Ljóshærða, hávaxna og með frekjuskarð. Með bleikan topp (hún var nýbúin að vera hármódel) og þykkar varir. Mér fannst hún í svo stórum og ljótum skóm og var viss um að ég gæti aldrei verið með stelpu í svona skóm.

Ég vissi ekki að ég gæti, vissi ekki að ég myndi, vissi ekki að ég kynni, vissi ekki að ég vildi.

En ég er hér enn. Mamma og sambýliskona. Lifi drauminn sem mig dreymdi aldrei um að dreyma. Vissi ekki að mig dreymdi um.

Kaffibollinn er tómur. Glærurnar um bókmenntafræði horfa ásakandi á mig. Mér er ekki til setunnar boðið. Það er eitthvað ljúfsárt við þennan dag. Við þetta tímabil í lífi mínu. Líður eins og það séu breytingar í vændum. Góðar breytingar. En það er alltaf ákveðinn tregi sem fylgir því að klára kafla í lífi sínu. Æ, ég veit ekkert hvað ég er að tala um og ekki þið heldur.


God

Hlfí hefur bjargað deginum í dag. Var að lesa í kommentunum á blogginu hennar að ég væri hennar guð þegar kæmi að hollu og ódýru. Jess! I am god. Það er jarðneskur hollustuguð svo ég gerist ekki sek um guðspjall.

 Annars hef ég beðið mikið til míns guðs undanfarið. Um styrk. Ekki nýjan bíl eða flatan maga. Kann nú ekki við það. Ég bið guð aðallega um styrk. Og hef fengið hann hingað til. Ég er hér enn og á góðu róli. Eða eitthvað.

Um miðjan dag í gær gafst ég upp á lærdómi. Ég trúi þessu ekki. Ég var bara komin í svona 'ég skil ekki, veit ekki, get ekki' stuð og fór bara og lagði mig. Hef aldrei í lífinu gert þetta í miðjum prófum. Veit ekki hvað er að gerast með mig.

Og ég var að læra fyrir spænsku. Hvernig get ég verið svona léleg í spænskri málfræði. Þar sem ég er sjúklegur perfectionisti þá höndla ég ekki að neyðast til að gera eitthvað í marga klukkutíma sem ég er léleg í.

Þegar ég lagðist í rúmið fannst mér ég heimskur, lítill múmínálfur. Horfði nebla á mig í spegli um daginn og sá að ég er grunsamlega lík múmínálfi. Það er eins og ég segi. Lágvöxnu fólki er ekki ætlað að vera fitubollur. Ég verð að komast í How to look good naked og breyta hugarfarinu. Ég er alveg að fríka út á sjálfri mér. Eftir heilaþvott þar myndi mér örugglega finnast ég sæt og bústin snorkstelpa.

Aaaarg. Farðu að læra Díana Rós. Hvað er að þér eiginlega?

Djók. Ég á tíma í klippingu eftir smá. Verð að hlaupa í orðsins fyllstu. Er ekki á bíl. 


Einsi bró

Þessi færsla er tileinkuð litla bróður mínum, honum Einari Jóhanni. Einsi bró er reyndar ekkert svo lítill lengur, kominn í 9. bekk, en hann er samt alltaf lítill fyrir mér. Var eitthvað að stússsast með honum og mömmu um daginn. Við vorum á mömmu bíl og af gömlum vana ætlaði Einar að setjast í farþegasætið fram í. 'Heyrðu Einsi minn, ertu ekki að ruglast eitthvað?' gall í mömmu. Ég nýt þess að vera frumburðurinn og eiga framsætið í hvert skipti sem ég er með þeim för. 'Jú, úps, ég er bara svo vanur að vera fram í' sagði barnið. 'Þú veist að ég fæ alltaf framsætið', sagði ég við hann, 'ég er stærri, sterkari og frekari'. Áður en hann skaut sér aftur í leit hann á mig: 'Ég er nú reyndar stærri en þú' baunaði hann á mig. Ég varð kjaftstopp. Auðvitað er hann orðin miklu stærri en ég.

Stóri litli bróðir er ein ljúfasta manneskja sem ég hef á ævinni kynnst. Svoleiðis hefur hann alltaf verið. Þegar hann var lítill, bústinn kútur var hann mjög lítill í sér, hræddist ryk og vildi helst komast inn í mömmu sína aftur. Ég var mjög mikið með hann, bæði systkini mín reyndar, þegar hann var krakki og hann var sér á báti. Leikskólakennarar og aðir kennarar áttu ekki til orð yfir ljúfmennskunni og börn slóust um að fá að koma í afmælið hans. 

Hann er enn þá svona. Þegar ég og stelpurnar höfum verið í heimsókn hjá mömmu og erum að fara kemur hann alltaf fram og kveður okkur. Hann faðmar okkur allar og kyssir. Hrund vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar úllinn greip hana í fangið og smellti á hana kossi eftir stutt kynni.

Einsi bró býr líka yfir hafsjó alls kyns staðreyndum og upplýsingum. Þegar hann var lítill var það besta sem hann vissi að skoða bækur. Um leið og hann gat lesið lagði hann það sem hann las á minnið. Og hann las bækur um manninn, sjö furðuverk veraldar, vísindabók barnanna og þvíumlíkt. Seinna tóku Lifandi vísindi við og krakkinn lærir tímaritin bara utan að. Svo byrjar hann: 'Hey, Díana, vissur þú að það er til ánamaðkur í Húlú sem getur breytt um lit?' Stundum reyndar veit ég það af því að við Hrund erum líka áskrifandi að Lifandi vísindum. Ha ha.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um brósa núna er að í gær fór ég á magnaða sýningu hjá honum. Hann hefur verið á námskeiði sem heitir Sönglist og er haldið í Borgarleikhúsinu. Hann hefur því verið að læra söng og leik í vetur. Það flottasta er að hann er eini strákurinn í hópnum sínum. Ég tek ofan fyrir honum, strák í 9. bekk, sem lætur sig hafa það að sitja námskeið með eintómum stelpum. Feiminn og óframfærinn eins og hann er. Húrra. Fyrir utan það að leikritið/söngleikurinn þeirra var svo flottur. Og mér dauðbrá þegar litlli bróðir minn hóf upp raust sína og söng dimmri karlmannsröddu. Whot? Þegar ég sá stelpurnar sem hann lék með gerði ég mér eiginlega fyrst grein fyrir því hvað hann væri orðinn gamall. All grown up!

Bravó Einar Jóhann! Hver segir svo að það sé ekki gott að alast upp hjá eintómum kvenmönnum? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband