Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Aðalbjörg Röskva veltir hlutunum fyrir sér

Ég skellti mér í bað um daginn og ekki leið á löngu þar til Aðalbjörg Röskva var mætt. Hún stóð og mændi á mig í baðinu löngunaraugum þar til ég sagði að hún mætti koma ofan í eftir smá stund. Eftir minna en smá stund var hún mætt, tætti sig úr fötunum og skellti sér ofan í froðuna til mín og hófst handa við að elda handa mér og sitthvað fleira. Hún fer svo að skoða mig eitthvað og er greinilega að velta fyrir sér naflanum á mér:

AR: Mammí, kom ég þarna út?
Ég: Nei, börn koma ekki út um naflann heldur út um sérstak gat á mömmunum.
AR: Hvar er það?
Ég: Það er rétt gatinu sem pissið kemur út um.
AR: Má ég sjá?
Ég: Nei, það er svolítið erfitt að sýna það en það er fyrir neðan pissugatið.

AR lítur á mig með vantrúunarsvip og skellir svo upp úr:

AR: Neeeeei, þú ert að bulla.
Ég: Þetta er alveg satt. Gatið er fyrst pínulítið og svo stækkar þegar barnið er að koma út og minnkar svo aftur.

AR veltir þessu fyrir sér drykklanga stund og allt í einu grettir hún sig full viðbjóðs:

AR: Oj!!! Kom ég út rétt hjá þar sem pissið kemur út.
Ég: Já.
AR: Var þá pissulykt af mér þegar ég fæddist?

Ég sprakk úr hlátri og og hélt áfram að útskýra þetta eitthvað fyrir henni en henni fannst greinilega viðbjóður að hafa ekki komið út um naflann:

AR: En ég var búin að segja þér að ég vildi koma út um naflann!!!

Ó.

Hún er greinilega enn þá að velta þessu fyrir sér í því að nótt, eftir að hafa verið vakandi heillengi á fullu spjalli, þegar ég hélt að hún væri sofnuð heyrist í henni:
AR: Mammí
Ég: Já.
AR: Kom ég út um naflann á þér.
Ég: Nei, þú veist það. Tölum um það á morgun.
AR: Já, við skulum sko tala vel um það á morgun!

Gleðigjafi

Rauðhausinn minn er mikill gleðigjafi og skín svo skært í lífi mínu. Ég er hennar klettur, hún er þess fullviss að ég viti allt og kunni og setji hún eitthvað ætt upp í sig er hún á því að ég hafi búið það til frá grunni. Ekki slæmt að vera á þessum stalli hjá henni þótt ég standi nú varla undir þessu.

Nú er mini-unlingurinn minn farinn að vera einn heima frá 16 á daginn og hefur það verið þannig í allan vetur. Hún gengur heim úr frístund og er með miða með símanúmerum á töflunni heima ef hún þarf að hringja. Hefur fengið vinsamleg tilmæli um að hringja fyrst í vinnusímann og bara í gemsann ef ég svara ekki í hann og ef það er mikilvægt því að það er svo dýrt að hringja úr heimasíma í gemsa.

Rakel finnst gaman að tala við mig í símann. Eða það hlýtur að vera miðað við hvað hún hringir oft í mig út af ekki neinu. Auðvitað þarf að skipuleggja hinu ýmsu vinahittinga og ég kann vel að meta að hún beri allt slíkt undir mig. Önnur símtöl er algjöra tilgangslaus og fáránlega fyndin:

"Hæ ástin".

"Hæ mammí. Þetta er Rakel."

"Já, hæ elskan."

"Ég ætlaði bara að segja þér að buxurnar mínr blotnuðu í skólanum."

"Já, ok. Og fórstu ekki bara í aukabuxurnar?"

"Jú."

"Flott."

"Já."

"Ætlaðirðu að spyrja mig að einhverju?"

"Neeeeei. Bara segja þér þetta."

"Takk fyrir það. Bless."

"Bless."

 

Þessi samtöl voru líka sjúklega fyndin:

"Hæ ástin."

"Hæ mammí. Þetta er Rakel.

"Já, ég vissi það elskan."

"Ég skar mig."

"Æ, æ, á hverju skarstu þig?"

"Á blaði."

"Ok. Er þetta nokkuð mjög alvarlegt?"

"Það blæðir."

"Viltu ekki bara setja plástur á skurðinn, veistu ekki hvar plásturinn er?"

"Jú."

"Ok, settu plástur og við sjáumst á eftir."

 

Fimm mínútum seinna hringdi hún aftur:

"Ég finn ekki plásturinn."

Ég reyndi að lýsa staðsetningu hans fyrir henni en hún gat ómögulega fundið hann.

"Settu bara eldhúsbréf utan um puttann og svo finn ég plásturinn þegar ég kem heim."

"Ok."

Þessi samtöl áttu sér stað rétt áður en ég lagði af stað að sækja Röskvu. Sem ég renni upp að leikskólanum hringir farsíminn.

"Hvað nú elskan?"

"Hæ mammí. Þetta er Rakel." (Ég veit!)

"Það blæðir enn þá."

Nú varið aðeins farið að síga í mig þar sem ég reyndi að losa af mér bílbeltið, orðin of sein að sækja Röskvu út af þessu puttadrama,

"Og hvað viltu að ég geri vinan, ég er alveg að koma heim en getið lítið gert núna."

"Ég vildi bara segja þér það."

"Ok, ég kem heim eftir fimm mínútur. Hættu núna að hringja í mig."

"Ok, bless".

 

Í gær var hún búin að hringja af því að hún vildi fara í heimsókn til drengs sem ég veit ekkert hver er. Ég heimtaði að fá að tala við foreldra hans og hún ætlaði að hringja í drenginn og biðja þá að hringja í mig. Eins og venjulega var ég að verða of sein að sækja Röskvu og hljóp út stuttu eftir þetta símtal. Þegar ég er að hlaupa niður stigann að stimpilklukkunni heyri ég að vinnusíminn hringir, datt í hug að þetta væri Rakel en hafði ekki tíma til að svara. Svo hringir farsíminn:

"Hæ ástin mín."

"Hæ mammí, þetta er Rakel."

Gud i himmelen. Ég verð að fara að útskýra undur númerabirtist fyrir Rakel sem heldur greinilega að ég svari alltaf með "hæ ástin" í símann burtséð frá því hver það er en ekki einmitt af því að ég VEIT að þetta er hún.

"-", þegir hún í símann.

"Ætlaðirðu að segja mér eitthvað, ég svolítið að drífa mig að sækja Röskvu."

"Já. Veistu hvað?

"Nei."

"Ég fann krabba í fjöruferðinni."

"Frábært"

"Ég tók þá með mér heim."

"Voru þeir dauðir?"

"Nei."

"Ertu með lifandi krabba heima? Hvar eru þeir?

"Á skrifborðinu mínu."

"Ertu með lifandi krabba á skrifborðinu þínu, Rakel Silja?"

"Jááá. En hann er í svona, æ, hvað heitir það aftur, oh ég man ekki hvað það heitir.

"Í hverju???"

"Æ, svona, já, boxi!"

"Viltu setja þá út."

"Á svalirnar eða?"

"Já, já, fínt. Þú veist samt að krabbar drepast ef maður tekur þá úr fjörunni."

"Ó"

"Því miður."

"En það er samt svona sjóvatn hjá þeim í boxinu."

"Það heitir sjór. En það er samt ekki nóg."

"Ó." 

"Rakel, hringdirðu í farsímann minn til að spyrja mig að einhverju?"

"Neeeeei. Ég ætlaði bara að segja þér frá kröbbunum."

"Og hvað með strákinn sem þú ætlaðir að leika við."

"Nei, hann getur ekki hitt mig. Bless mammí."

"Bless Rakel."

 

Þessi símtöl auðga líf mittt. Unginn hafði svo miklar áhyggjur af kröbbunum að hún spurði mömmu sína hvort þær gætu ekki farið með þá niður í fjöru. "Ég vil ekki taka áhættuna á því að þeir deyi og bíða þar til á morgun svo það er best að þú farir bara með þá niður í fjöru og sleppir þeim á eftir mamma." Sem hún og gerði.

Krúttrass. 

 

 

 


Hugleiðingar

Ég á svo sterka minningu um eldri litla bróður minn, hann Simon. Hann hefur verið um 2-3 ára, ég 10 ára, og ég var í heimsókn hjá pabba í Svíþjóð. Á þessum tíma bjó pabbi og barnsmóðir hans með Simon í sama hverfi. Stuttu eftir að ég vaknaði rölti ég yfir til Simonar, ég fékk ekki nóg af honum. Ég var svo snemma í því, óþolinmóð að vanda, að mamma hans var rétt að klæða hann í fötin. Ég man hvað mér fannst merkilegt að hann skyldi ekki fara í nærskyrtu heldur bara beint í stuttermabolinn, á kalda Íslandi var sjaldan veður til að sleppa nærfötunum. Hann var svo fallegt barn. Kaffibrúnn í sænska sumrinu, með þykku varirnar frá mömmu sinni og litinn frá pabba. Hárið, sem seinna varð snarhrokkið, var tinnusvart og stuttklippt, augun dökkbrún, næstum svört, þar sem hann horfði upp til mín og brosti.

Við fórum tvö út í sólina. Sátum á stéttinni og sleiktum íspinna. Sólin vermdi mig inn að hjarta, ég var svo heppin, átti eina systur á Íslandi og einn bróður í Svþjóð. Þegar ég horfði á hann vissi ég að það var mitt hlutverk að vernda hann, vissi að ég mundi gera allt fyrir hann. Hann var með fæðingarblett á kálfanum, hann var heitfengur og hreyfði sig stanslaust þannig að svitaperlur mynduðust á litla andlitinu, hann var með pínulítið skakkt bros. Höndin hans var svo ólík hendi litlu systur, hún var þykk, fingurnir stuttir, lófinn hlýr í mínum. 

Nei, þetta er ekki minningargrein um hann, Simon er sprellilfandi, en hann er samt horfinn mér. Við höfum átt ótal stundir saman með pabba, hann kom í heimsókn til Ísland, hann spurði sífellt um Röskvu, systurdóttur sína, við gátum baktalað pabba og hlegið að honum á sama tíma, hann hefur líka farið til Nicaragua og hitt ömmu og afa, skoðað rætur sínar, við sendum hvort öðru skilaboð á Facebook og ég skoðaði myndir af honum á veggnum hans; sama brosið, sömu augun, svo dökkur og óendanlega myndalegur, sá pabba í honum eins og ég sé stundum pabba í mér.

En svo hvarf hann. Hætti á Facebook, hætti að tala við pabba og snérist gegn honum. Tók svo margar rangar ákvarðanir og er nú horfinn í einhvern heim sem ég er ekki hluti af, með fólki sem hefur engan áhuga á að vernda hann eða þykir vænt um hann eins og mér.

Ég hitti hann síðast 2008. Hann hefur aldrei hitt Röskvu, hún skilur ekki hver þetta er á myndinni inni í svefnherbergi, hvernig getur mammí átt bróður sem hún hefur aldrei hitt? 

Ég hitti hann fyrst í janúar 1992, þá var hann hvítvoðungur í plastkassa á sjúkrahúsi í Svíþjóð. Ég fékk að upplifa fyrsta dagana hans með honum, man þegar hjúkkan tók blóðprufu úr hælnum og hann öskraði svo mikið að mig langaði mest að taka hann í fangið og hlaupa með hann út, hugga hann.

Þegar pabbi sagði mér að hann væri hættur að tala við sig leyfði ég mér að vona að það breyttist, hann var unglingur í uppreisn. Svo var hann næstum dáinn eftir hnífsstungu í partýi. Mér fannst ég svo vanmáttug á Íslandi, reyndi að spyrja hvernig hann hefði það og hann sagðist hafa það svo fínt. Ég trúði honum ekki. Við spjölluðum áfram þótt hann hefði klippt á öll tengsl við pabba en í fyrra lokað hann Fésinu sínu og núna hef ég engin tök á því að tala við hann. Hann hefur komið þannig fram við pabba ég efast um að það muni nokkurn tíma gróa um heilt á milli þeirra.

Við pabbi tölum oft um Simon. Gerðum það meira áður þegar við vorum bæði örvingluð, skildum þetta ekki, söknuðum hans. Höfum varla orku í það núna, það er of sárt.

Ég skrifa þetta af því að ég verð að sætta mig við að ég mun kannski aldrei tala við hann aftur. Ég óttast á hverjum degi að fá símtal frá pabba um að hann sé allur, þannig lífi lifir hann núna. Held ég,

Svo langt síðan ég heyrði röddina hans. Enn þá lengra síðan ég tók utan um hann. Hann er svo hávaxinn, örugglega tæpum 30 cm stærri en ég. Stóri litli bróðir minn. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband