Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ferðasagan

Rakel (í örvængtinartón):Mammí, ég er að pissa í mig!

Ég (í svefnrofunum): Á mig. Maður segir pissa á sig!

Rakel: Mammí, ég er að pissa á mig!

Ég: Hruuuund! Ástin mín!

Sprundin fór með Rakelina á klósettið. Klukkan var að verða níu. Við mömmurnar vorum grænar í framan af þreytu. Ofsarok hafði haldið fyrir okkur vöku mest alla nóttina. Neyddumst til að fara á fætur um fjögur leytið og festa fortjaldið niður. Hælarnir höfðu togast upp úr jörðinni í rokinu og því lá fortjaldið á svefntjaldinu.

Við vorum Þórisstöðum í Hvalfirði. Nutum þessa að keyra fjörðinn í veðurblíðunni á föstudaginn. Mikið er hann fallegur. Þegar við mættum á svæðið var pínu rok en sól og sumar þrátt fyrir það. Við komum tjaldinu upp á meðan Rakel lék sér og grilluðum svo hamborgara. Fórum allar í háttinn á sama tíma og sofnuðum fljótt. Við Sprundin vöknuðum eins og áður sagði við storminn sem skók tjaldið svo að það small í því.

Laugardagurinn var ansi vindasamur og tjaldið hélt áfram að bogna í vindinum. Við létum það ekki á okkur fá. Klæddum okkur eftir veðri, borðuðum góðan morgunmat og komum flugdrekanum hennar Rakelar á loft. Litla kjánastrikið sleppti honum svo hann fauk út í veður og vind og var sorgin svakaleg. Við fengum okkur því göngtúr og leituðum að flugdrekanum. Leitin var nú til málamynda, aðallega til að róa litla sál, en ótrúlegt en satt þá fundum við drekann. Við keyrðum svo niður að sjó. Rannsökuðum fjöruna og hlustuðum á gargið í fuglunum. Fórum aftur á tjaldstæðið og fengum okkur 'nælusúpu' og 'sponsur' eins og Rakel kallar núðlusúpu og skonsur.

Efti matinn skelltum við okkur í sund og ó my lord hvað það var kalt. Vindurinn blés ískaldur en Rakel lét sig hafa það og fór hundrað ferðir í rennibrautinni. Var orðin blá á vörunum þegar við neyddum hana upp úr. Þegar við komum til baka á tjaldstæðið höfðu bönd slitnað, allt var galopið og dótið í fortjaldinu út um allt. Við vorum að hugsa um að gefast upp þegar við sáum blett sem var í skjóli við hliðina á húsbíl. Færðum því bara tjaldið og sátum svo í skjólinu og sólinni og grilluðum og lékum okkur.

Vindurinn færðist í aukana þegar leið á kvöldið þvert ofan í allar spár. Ég ætlaði aldrei að sofna fyrir öskrinu í vindinum og bröltinu í Rakel sem var greinilega að endurupplifa sundferðina. Bannaði okkur að hoppa í lauginni og veinaði þess á milli. Svefn okkar Sprundarinnar var slitróttur og ég ætlaði ekki að geta opnað augun í morgun. Hresstist þó við kaffisopa og eftir að hafa pakkað öllu saman fórum við í göngutúr. Rokið var svo mikið að gangan tók heilmikið á. Við vorum niðri við vatn og öldurnar voru eins og úti á rúmsjó. Eftir gönguna héldum við heim á leið. Komum við í Ferstikluskála og borðuðum og fórum svo göngin til baka.

Þrátt fyrir ofsarok var helgin yndisleg og skemmtileg og dásamleg. Fái Hrund frí stefnum við á hringinn í sumar. Við þurfum hins vegar fyrst að kaupa nýja hæla sem flestir eru bognir eftri óveðrið og svo brotnaði ein súla við álagið. Það á nú að vera lífstíðarábyrgð á tjaldinu svo súluna ættum við að fá okkur að kostnaðarlausu.

Við tókum okkur góðan tíma í að ganga frá og fengum okkur svo skyr og bláber. Rakel lá í baðinu í einn og hálfan klukkutíma og eftir burstun, bænir, lestur og söng rotaðiast hún rétt um sjö. Hrundin er að koma úr sturtu, ég er búin að fara í bað. Sófinn er svo mjúkur og sængin svo hlý og hér er nær ekkert rok. Ætlum að horfa á eina mynd og svo ætla ég að skríða upp í.

En ótrúlega ljúft. 


Áfram stelpur!

Djöfull (afsakið orðbragðið) er ég ánægð með árangur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Og enn þá betra var að það var fullt af fólki mætt á leikinn. Er líka mjög sátt við umfjöllunina sem stelpurnar fengu í fjölmiðlum en þar var fólk hvatt til að mæta á leikinn og sýna stuðning. Það hafði greinilega áhrif. Núna getur Rakel kannski æft fótbolta (ef hana langar) án þess að ég þurfi að útskýra fyrir henni að samfélagið álítur typpi meira virði en píkur.

Ó já, ÁFRAM STELPUR!

Annars er það bara tjaldútilega í Hvalfirðinum á eftir. Við Sprundin vorum í allt gærkvöld að taka okkur til og guð almáttugur hvað maður þarf að taka mikið af dóti með sér í eina helgarútilegu. Svefnpokar, dýnur, tjald, stólar og borð fylltu skottið og restin þurfti að fara inn í bílinn. 'Og við erum ekki einu sinni með annað barn en Rakel' stundi Hrund eftir að hafa raðað í bílinn. Við viljum hvorki gefa barn né útilegur upp á bátinn svo við verðum líklega að kaupa 7 manna bíl þegar að því kemur (ég er ekki ólétt svo við erum ekki farnar að örvænta).

En það er bara allt í lagi.

Núna er það vinna, svo næ ég í krílið mitt og eftir að Hrund hefur skolað af sér og fiskunum eftir vinnu brunum við af stað.

Ætla aðeins að ákalla sólarguðinn/ina! 


ÚTILEGA

Þetta er svolítið æst fyrirsögn, ég veit. Ég er nú frekar æst að eðlisfari en núna er ég bara svo spennt og glöð. Við erum alveg að fara í útilegu og Rakel telur niður dagana. Spyr sífellt hvenær við förum og þegar ég sagði henni í dag að amma Alla ætti afmæli og við ætluðum út að borða með henni eftir leikskóla spurði hún vongóð: 'Ætlum við að taka ferðatösku?'

Í fyrra þegar við Sprundin fórum í okkar fyrstu útilegu með krílið áttum við ekkert útilegudót. Tengdó bjargaði okkur um allt og vorum við í tjaldi frá henni, með stóla, borð, svefnpoka, lukt, prímus, grill og so videre. Við ákváðum í sumar að kaupa eitthvað pínulítið og biðja svo um rest í jólagjöf eða kaupa sjálfar þegar við ættum meiri pening. Við erum hins vegar eiginlega búnar að kaupa allt nema svefnpoka og pottasett fyrir prímusinn og það í tveimur hollum. Eigum núna uppblásnar dýnur, stóla fyrir okkur allar, borð, tvær luktir, prímus (sem mamma gaf okkur), ferðagasgrill, kælitösku sem gengur fyrir rafmagni og ég veit ekki hvað og hvað. Eigum líka plastdiska í þremur stærðum og sér uppþvottabursta og bala til að vaska upp í. Keyptum líka útilegukveikjara og hitabolla handa okkur Hrund. Þetta er svakalegt. Og við erum að springa úr gleði. Málið er nefnilega að í fyrsta skipti síðan síðasta sumar eigum við einhvern pening. Svo við ákváðum að leyfa okkur þetta. Og við eigum samt eftir fyrir kreppuna.

 Hallelúja.

Tek það fram að við þurfum ekki meiri þægindi. Ég læt ekki sjá mig í neinu fellihýsi eða þvíumlíku sem ég kann ekki að nefna. Þau þægindi sem við viljum eru dýnur, borð og stólar og svo er voða gott og gaman að hafa ferðagasgrill með í för.

Annars á mi madre afmæli í dag. 55 ára og á besta aldri. Kraftimikil, fríð og fönguleg. Klár, hnyttin og blíð. Mesta kjarnakona sem ég hef kynnst. Við börnin hennar, gríslingar þrír, eigum bestu mömmuna.

Ok. Búin að monta mig af mömmu og dóti. Vil bara koma því að að við þjáumst ekki af neinni dótagræðgi. Það er bara svo gaman að eiga svona sjálfur. Gerir okkur svo fullorðnar og að enn meiri fjölskyldu.

Oh, ég er svo fullorðin.

Hrund finnst hún líka fullorðin. Þegar við fórum út að borða með Rósu og Gesti á laugardaginn síðasta sagði hún einmitt:' Við bara úti að borða með öðru pari, ógisslega fullorðnar.'

Þótt ég sé orðin 25 (sem er auðvitað kornungt) þá verð ég stundum steinhissa þegar ég man skyndilega að ég á bíl og hús og barn og konu sem ég er trúlofuð.

Jösses.

Ekki það að ég fíli það ekki í tætlur.

Er farin að fá mér súrmjólk og múslí. 


Ilmur af sumri

Ég held ég njóti þess aldrei jafn vel að vera barnlaus um pabbahelgar og á sumrin. Það er eitthvað við það að koma heima á föstudegi eftir vinnu, sjá að konan nennir jafn lítið að þrífa og ég, beila þá á þrifunum og bruna niður á Austurvöll með teppi. Sátum þar með Tinnu vinkonu til hálf tíu þegar sólin hvarf bak við Nasa. Ég og Tinna fórum heim en Hrund fór á röltið með vini sínum. Hún drakk mikið af bjór og borðaði ekkert, kom heim akkúrat þegar ég var að fara að sofa og ældi í vaskinn um morguninn. Af einhverjum ástæðum tókst mér illa að fá hana á fætur á laugardaginn.

Ég sólaði mig því og setti myndir inn á Barnaland. Farið nú og skoðið fallegu fjölskylduna mína. Rósa og Gestur komu svo í heimsókn seinnipartinn. Rósa var enn þá full síðan kvöldið áður og skemmti Gestur sér konunglega yfir því. Við fjögur fórum niður á Austurvöll og höfðum það gott og fórum svo út að borða á Ítalíu. Eftir það fóru hjónakornin heim en við Hrund röltum um og borðuðum ís. Enduðum kvöldið í afmæli hjá vinkonu okkar en stoppuðum ekki lengi. Náðum okkur í mynd og snakk og hugguðum okkur upp í sófa það sem eftir lifði nætur.

Meðan Hrund svaf á sínu græna eyra fór ég í Hagkaup og verslaði afmælisgjöf og keypti ýmislegt gott að borða handa okkur Sprundinni. Við höfðum það kósý þar til Rakel kom heim en þá dressuðum við okkur upp og fórum svo í afmæli til Júníönu, dóttur Kristínar vinkonu.

Við stefnum enn á útilegu um helgina. Spáin er ekki góð en það var hún heldur ekki síðast og rættist nú úr öllu þá. Tíminn bara líður svo hratt. Þetta er síðasta mömmuhelgin áður en Rakelita fer í sumarfrí til pabba síns.

Næstu helgi verður frændsystikinakvöld sem verður að líkindum rosalegt líkt og fyrri svoleiðis kvöld. Helgina þar á eftir er ég búin að bjóða mjög svo frumlegu, fyndnu og fallegu stelpunum í vinnunni í mat og gleði.

Íslensk sumur eru yndisleg. Þau ilma vel, næra sálina og gleðja augað. Þau bera með sér grilllykt og eru kolsýrð líkt og bjórinn. Sumarið er berir barnahandleggir og klístruð sólarvörn, lakkaðar táneglur í sandölum, sól í stofunni. Sjóðheitur bíll, skemmtileg vinna, spennandi helgar og hlírabolir. Sóbrennd kona og kámugt barn

AAAAHHHH!


Spennandi

Já, það eru spennandi tímar framundan. Við Hrund náðum okkur í ókeypis bíómiða út á fjölmiðlamælispunktana okkar (berum fjölmiðlamæli og fáum punkta til að versla fyrir í staðinn). Á meðan við biðum eftir því að miðarnir bærust missti Hrund áhugann á því að fara í bíó. Hætti að þykja það skemmtilegt??? Mamma fór því með mér á Sex and the City. Ég reyndi að freista Hrundar með Narníu-myndinni nýju en engu tauti var við hana komið. Í gær sagðist hún hafa endurskoðað málið. Ef hún verður ekki of þreytt í kvöld eftir vinnu ætlum við jafn vel að skella okkur. Það þykir mér spennandi.

Þegar maður er orðinn ráðsettur verða ýmsir áður óspennandi hlutir mjög spennandi. Miklu fleiri hlutir en áður verða því spennandi. Í raun er því líf mitt eitt stórt adrenalínkikk.

Og nú er ég ekki að vera kaldhæðin.

Annars var drullulabbinn svo skítugur eftir leikskóla í gær að dusta þurfti af honum yfir baðinu og skrúbba hendur og fætur áður en hægt var að baða hann. Annars hefði hann legið í drulluvatni. Skottið var með svo mikla drullu í andlitinu að hún var nær óþekkjanleg. Leit helst út fyrir að hafa farið í litun og plokkun með sínar þykku, dökku, drulluaugabrúnir. Algjör strumpur.

Við erum búnar að fá bústað á Malarrifi síðustu vikuna í júlí. Þar er að finna mína paradís á jörð. Við kyrnur og afkvæmið eina sanna erum svo jafn vel að hugsa um að skella okkur í útilegu síðustu helgina í júní. Við vitum ekki enn hvert eða hvort við förum sem er í sjálfu sér mjög spennandi.

Eitt sem er ekki spennandi er að fara heim að þrífa á eftir. Ég þakka bara fyrir að þurfa ekki að ryksjúga (Hrund sér um það). Það færi nú endanlega með geðheilsuna.

Annars er bara alveg að koma kaffi. Það er líka helvíti spennandi. 

 


Sól og sumar

Oddný og Katla komu í mat á mánudaginn. Bauð upp á gómsætan fisk og kaffi á eftir og að lokum skyr með ferskum bláberjum og rjóma. Nammi, namm. Hrund keyrði svo stelpurnar í partý og eftir það komum við okkur fyrir í sófanum, uppgefnar eiginlega. Ég sem var loksins búin að ná mér eftir flensuna vaknaði með kvef og mun meira hor í nös en daginn áður. Það sama var upp á teningnum hjá Hrund.

Litli kútur svaf svo til hálf tíu á sjálfan þjóðhátíðardaginn svo við kyrnur náðum ágætis hvíld. Tókum okkur til og ákváðum að skella okkur til mömmu í kaffi. Rósa frænka og Gestur, kærasti hennar, komu með og við reiddum í sameiningu fram kaffi, vöfflur með sultu og rjóma og kex og eggjasalat. Rakel hafði ekki mikinn tíma til að borða. Oddný hafði gefið henni veifu og sápukúlur kvöldið áður og við gáfum henni fána og gasblöðru. Hún var ekki lengi að velja sér blöðru, valdi sér stóra, græna, grimma risaeðlu og var alsæl. Hún var svo með hárborða í fánalitunum og var því algjört þjóðhátíðarbarn.

Eftir mat fórum við aðeins niður í Hljómskálagarð að skoða mannlífið og Gestur keypti sér snuð. Rakel benti honum á á að aðeins lítil börn væru með snuð. Ég held samt að hann hafi ekki fallið mikið í áliti hjá henni, hún hefur hann enn á einhverjum stalli og dýrkar hann og dáir enda er hann alltaf til í að leika við hana.

Fórum svo á víkingahátíðina í Hafnarfirði, þriðja árið í röð og annað árið í röð á þessum degi. Það var stuð að venju. Röltum um og horfðum á víkinga berjast, keyptum falleg hnífa í leðurhulstri og skartgripi og sverð og skjöld handa Rakelitu sem að eigin sögn varð þá loksins orðin alvöru 'viking'. Enduðum daginn í læri hjá mömmu og höfðum það rosa gott.

Yndislegur dagur í alla staði bara.

Náði ekki að fara út að ganga í gær en bæti úr því eftir vinnu. Ætlum svo að grilla hamborgara í sólinni og njóta lífsins.

Næ vonandi að klára ritgerðina í kvöld og byrja eftir það fyrst í algjöru fríi. Fyrir utan að vera í vinnu reyndar ...

Verð að fara að vinna! 


Mánudagur á morgun

Það leggst reyndar ekkert svo illa í mig. Hlakka eiginlega bara til að skella mér í bréfin gömlu góðu og fara út að ganga í hádeginu eins og ég byrjaði á í síðustu viku. Mér finnst yndislegt að geta gert það og nenni því lítið að fara upp í skóla. Held samt að eftir nokkra daga í viðbót verði mér farin að leiðast einveran og finn mér þá félagsskap í vinnunni enda stúlkur þar fagrar og fyndnar.

Afmælið var skemmtilegt, Oddan var falleg.

Hrud fór í nálastungur á laugardaginn og við Rakel gáfum öndunum á meðan. Fórum svo upp í Heiðmörk með nesti og nýja skó og Rakel veiddi flugur á meðan við kyrnur sóluðum okkur. Fórum því næst til mömmu þar sem við Hrund sáum um að marínera og grilla kjúlla sem var alveg hreint ótrúlega góður.

Fórum í morgunkaffi til ömmu í morgun og vorum þar dágóða stund. Fengum okkur svo göngutúr með Oddnýju í Grasagarðinum og enduðum á kaffihúsinu þar. Það var mjög ljúft þótt við værum solitla stund að finna okkur eitthvað að gera (það er áður en okkur datt garðurinn í hug). Hér áður fyrr sáum við Oddný engan tilgang með sunnudögum þar sem við vorum barnlausar, það var hreinlega ekkert að gera og sunnudagur bara súrir. Núna er ég með barn og ég og Hrund vitum stundum ekkert hvað við eigum að gera með þessu ofvirka kríli. Sunnudagarnir eru samt hættir að vera súrir og enda alltaf í því að vera sætir og bleikir og bragðgóðir af því að það er gaman að dúllast með fjölskyldunni, sama í hverju dúllið felst.

Hrundin vaknaði hálf slöpp í morgun. Var svo komin upp í rúm með hita um sjö leytið svo hún hefur náð sér í sömu flensu og ég. Ekki gott.

Annars er Rakelita svo hryllilega fyndin. Við erum að passa fiskana hennar Katrínar, systur hennar Hrundar, og hefur Rakel mikinn áhuga á þeim. Mælir búrið þeirra með málbandi, skoðar fiskana með stækkunargleri og límir post-it miða á glerkúluna þeirra. Ég stoppa hana af þegar hún er á leiðinni að setja hendurnar ofan í vatnið eða einhverja aðra hluti og svona. Hún vill því helst ekkert að við Hrund föttum að hún sé að vesenast í búrinu. Í dag svaf ég á mínu græna eyra, Rakel var að vesenast í búrinu og Hrund fylgdist með henni:

Rakel við mömmu sína: Vertu ekki að glápa á mig, horfðu bara á borðið.

Í Grasagarðinum spurði Oddný af hverju hún væri svona sæt, hvort hún hefði það frá mömmu sinni:

Rakel: Nei, frá mammíu

Hrund fór að segja að henni hefði fundist hún þurfa að hugsa full lítið um svarið, hún hefði hiklaust sagt mammí. Rakel (án þess að stoppa leik sinn með plastdýrin sín) setur hönd fyrir munn á móður sinni og segir: Ekki tala.

Þegar Oddný var farin úr bílinum spurði ofur þreytta barnið hvert við værum nú að fara. Ég sagði okkur á leið heim. Með grátstafinn í kverkunum og vansæl á svip sagði blómið:

'En ég eeeeelska Oddnýju'

Búin að vera að gera ritgerð í kvöld. Ætla að horfa pínu á Friends og fara svo að sofa.

Rétt upp hönd sem finnst sambönd erfið!

Rétt upp hönd sem finnst þau samt þess virði því makinn er lífið og sólin og saman eru þið heimurinn!

Rétt upp hönd sem veit að lífið er ferðalag, ekki áfangastaður!

Rétt upp hönd sem er ótrúlega heppinn og hamingjusamur!

Ég

Ég

Ég

Ég 


Listin að stafsetja

Mamm benti mér að ég hefði skrifað hneyksla með einföldu. Nenni ekki að leita að færslunni sem inniheldur þau mistök svo ég leiðrétti þau bara hér. Ekki hneiksla heldur hneyksla.

Það er eins og Hlíf segir, eftir því sem maður lærir meira í íslensku þeim mun verri verður maður í henni.

Að minnsta kosti verður maður mjög fær í að stafsetja orð vitlaust sem maður veit alveg hvernig á að stafsetja.

Jæja, Odda podda er í bænum. Verður 25 ára í dag. Afmæli á eftir. 

 


Loksins

Jæja, þá er ég loksins eitthvað að koma til. Var viss um að ég myndi vera orðin frísk í gær og ætlaði að vinna þótt það yrði heima. Vaknaði svoleiðis hundslöpp að það kostaði átök að fara með krílið á leikskólann. Fór svo bara heim og svaf þangaði til það var kominn tími til að fara á íþrótthátíð í leikskólanum. Píndi mig í sturtu og ofan í mig kaffi og rölti af stað á leikskólann. Þurfti að snúa við og ná í myndavél. Af stað aftur. Þurfti að snúa við og ná í lykilinn að lásnum á hjólinu hennar Rakelar sem hún hafði hjólað á í leikskólann. Það lak sviti niður mitt veika bak þegar ég loksins komst á staðinn.

Rauðhaus sat á vegasalti þegar ég kom og borðaði grillaða pylsu. Hún var svo sæt svo sæt. Hafði valið handa henni grænar leggings, pils og stuttermabol til að vera í og hún var svo falleg í öllu svona eplagrænu með hvíta húð og rauða hárið í tveimur snúðum.

Við Rakelin eyddum einum  og hálfum tíma saman á hátíðinni. Borðuðum pylsur og drukkum djús, skoðuðum deildina hennar og myndir af vetrarstarfinu og svo lék hún sér á meðan ég spjallaði við kennarana. Ákvað svo að taka þetta bara með trompinu, hætta bara að vera veik og fara að gera eitthvað skemmtilegt. Fór heim og baðaði krílið. Sprundin kom svo heim drulluskítug eftir vinnuna og svo skaðbrunnin að hún var næstum óþekkjanleg. Hún var nefnilega að pússa einhverjar svalir og var úti allan daginn. Sprundin skolaði af sér og svo fórum við á Grænan kost og fengum okkur að borða. Sátum úti í sólinni og röltum svo niður á Ingólfstorg og keyptum okkur ís. Sleiktum hann á Austurvelli og héldum svo heim.

Ég var ótrúlega dugleg um kvöldið og vann aðeins í spænskuritgerð sem ég er að laga. Það er kvöl og pína að þurfa að læra heima á sumrin. Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að laga hana og hækka lokaeinkunn en það veldur mér í alvöru líkamlegum kvölum að setjast niður og læra. 

Sprund var enn sólbrunnin og dauðþreytt í morgun og ætlaði aldrei að komast á lappir. Ég hef þá kenningu að ef maður fer að sofa milli eitt og tvö á nóttunni, stundum seinna, og á svo að vera mættur í vinnu klukkan átta á morgnana, þá endar þetta bara með því að manni verður lífsins ómögulegt að komast á fætur eða verður veikur. Reyndar hefur konan mín sannað þessa kenningu nokkuð oft. Inn á milli fer hún að sofa á skikkanlegum tíma en svo verður hún að bæta sér það upp og vaka mjög lengi í einhvern tíma þar á eftir.

Stundum langar mann að ala sambýlisfólk sitt upp eins og börn. Og fá það til að hlýða sér eins og börnin gera. Eða setja það á stól og láta það hugsa málið þegar það getur ekki hagað sér almennilega.

Ég sé mig alveg fyrir mér að reyna að koma 20 cm hærri en ég konunni minni á einhvern stól og skipa henni að hugsa málið.

Ætli hún myndi ekki bara ulla framan í mig.

Eða troða upp í mig tappa svo ég héldi kjafti í smá stund. 

Kannski ég vinni pínulítið. 


Skemmtilegt

Já, ég veit, ég er alltaf að blogga, ég er með flensu og er að drepast úr leiðindum.

Vildi bara deila smá með ykkur. Oft líður nær heil vika án þess að Rakel horfi á barnatímann. Við bjóðum henni það stundum en yfirleitt látum við hana biðja um það. Barnatíminn er auðvitað ekkert til að hrópa húrra fyrir og svo byrjar hann stundum fyrir sex og stundum klukkan sex og stundum er bara japönsk hasarteiknimynd. Þá veljum við nú uppbyggilegra barnaefni úr okkar einkasafni.

Allavega. Fótbolti gengur eins og alltaf fyrir öllu, fréttir eru færðar og barnatími þurrkaður út. Í gær var Hrund úrvinda eftir vinnuna og ég hundlasin svo við buðum ofurhressa krílinu að glápa. Flöskuðum á fótboltanum svo hún fékk engan barnatíma. Hún kippti sér lítið upp við það og fór bara að leika sér.

Barnið liggur núna í bleyti í baðinu og hlustar á hinar ýmsu sögur í kasettutækinu. Ég fór inn áðan og bauð henni að koma upp úr og horfa á smá barnatíma (einn þátt með Línu langsokk eða Bubba byggir eða eitthvað) eða þá hlusta áfram og busla í baðinu. Vildi bæta henni upp fyrir gærdaginn.

Hlusta.

Sagði barnið án þess að hugsa sig um.

'Video killed the radiostar' var eitt sinn sungið.

Kannski ekki alveg.

Finnst hreint út sagt dásamlegt að barnið mitt velji sögulestur fram yfir imbann. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband