Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Bleh

Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja, ég er svo þreytt. Það er dásamlegt að vera ungamamma en það hljóta að vera einhver mistök frá náttúrunnar hendi að prenta inn í ungbörn að þau eigi sífellt að vera að vakna á nóttunni. Of þreytt manneskja man nákvæmlega ekki neitt og þá verður þessi tími bara svört eyða í minningunni!

Það hlýtur að vera glæpur að það skuli ekki vera til mjólk í kaffið þegar maður lufsast á fætur með úberhressa orminn.

Annars byrjaði Röskvan mín að sitja á þriðjudaginn og mömmuhjörtun eru að rifna úr stolti. Hún er líka alveg að ná skriðinu svo hún verður farin að rífa og tæta ALLT áður en maður veit af, hún er nógu skæð nú þegar.

Nokkrir dagar í vinnu. Þegar unginn kúkar í hverja bleiu, neitar skyndilega að opna munninn (í marga daga) svo það er nær vonlaust að næra hann, sprellar á nóttunni og vill fá mammi sín með í leikinn og orgar þess á milli er kona alveg til í skreppa aðeins í vinnuna í fötum sem eru ekki með kúk, pissi, mat eða gubbi í. Það er samt bókað að kona á eftir að keyra heim úr vinnu á hverjum degi á ólöglegum hraða.

Annars standast mömmur ekki lítinn kút með stóra bleiu þegar hann liggur þversum í rúminu sínu og talar Röskvumál. Geislar svo af gleði þegar mömmuaugun horfa á hann.

Hvítasunna og góð helgi framundan. Er að fara í partý í kvöld því við vitum öll að það besta við síþreytu er að sofa minna og tjútta. Dúllerí með unga og konu í dag og á morgun og svo kemur rauðhaus heim frá pabba sínum á mánudag og reynir líklega að plata mammí sína í sund. Stenst heldur ekki rauða lokka, freknur og biðjandi móeygt augnaráð í litlu dúkkuandliti.

Góðar stundir.


Ungamamma

Argiparg. Ég kvíði því svo að fara að vinna. Er svo hrædd um að missa af miklu á meðan. Röskva fer örugglega að skríða og tala og labba á meðan og eitthvað. Og ég veit að það er asnalegt en mig langar svo að fá fyrsta orðið. Mammí. Reyndar held ég að fyrsta orðið hennar Rakelar hafi verið bubbi sem þýddi nafli en mamma var nú samt fremst í röðinni. Kannski Röskva kalli mig bara mömmu þar sem margir aðrir gera það. Það skiptir mig nú engu máli hvað hún kallar mig þannig.

Æ, ég get ekki útskýrt þetta. Ég fékk bara aldrei að vera heima með Rakel og njóta hennar sem smábarns og ég vildi óska að ég gæti verið lengur heima með Röskvu. Ég mistti til dæmis af því þegar Rakel byrjaði að skríða og kannski verður það eins með Röskvu. Samt hef ég verið að detta svolítið niður í geðinu. Núna er hún bara farin að borða og sofa og drekka svo vel og það er sól úti og ég get farið með hana út í kerru. Akkúrat þegar allt er að verða létt og skemmtilegt þarf ég að rjúka út á morgnana í vinnu, finna á mig föt og blóta á mér maganum sem er eins og ég veit ekki hvað eftir meðgönguna. Búin að basla í allan vetur í kuldanum með vagninn og að berjast við Röskvu til að fá hana til að sofa og næra sig en núna er allt komið í góða rútínu og fjör. En auðvitað verður ofsa gaman fyrir Hrund að fá að vera heima með skottuna sína, hlýtur líka að hafa verið erfitt fyrir hana að fara að vinna á sínum tíma, bæði með Rakel og Röskvu.

Haldið þið ekki að þetta verði bara fínt þegar ég er byrjuð að vinna?

Annars fór ég að hitta mömmuhópinn minn í gær sem er bestastur og skemmtilegastur. Það er dásamlegt að fylgjast með Röskvu leika við önnur börn. Röskva er líka orðin svo duglega að sitja sjálf og er bara orðin svo stór eitthvað. Og þótt barnið mitt sé algjör chela (hvít) þá talaði ein mamman um það í gær hvað hennar stelpa væri hvít miðað við mína. Haha. Röskva er sem sagt 'brún' á smábarnamælikvarða.

Mjólka mig núna tvisvar á dag og það dugir í þessa fjóra pela sem Röskva fær. Hún er enn að smakka mat á fullu en er orðin algjör gikkur. Hún hefur fengið að smakka rísgraut, sætar kartöflur, lárperu, gulrætur, banana, sveskjur, perur, epli, brokkolí, mangó, quinoagraut, rófur og grasker. Best af öllu finnst henni lárpera og banani saman og sætar kartöflur og gulrætur saman er voða gott líka. Annars er hún dugleg að loka bara munninum eða puðra út úr sér. Mömmurnar gefast samt ekki upp og plata matinn ofan í hana. Til þess að koma ofan í hana rófum í gær bjó ég til graut og setti út í hann lárperu, banana og rófur og Röskva gleypti þetta á núll einni en hefur annars ekki verið par hrifin af rófunum.

Rakel og Röskva eru dásamlegar saman. Kemst ekki yfir það.

Rakel er svo dugleg. Áttum yndislega helgi og ég og Rakel bjuggum meðal annars til hollar kókoskúlur (döðlur, kókosolía, lífrænt kakó og kókos) saman og kjötbollur sem voru, þótt ég segi sjálf frá, bestu kjötbollur sem ég hef smakkað. Fórum í Húsdýragarðinn þar sem Rakel réð sér ekki fyrir kæti, sérstaklega í fallturninum (get ekki beðið eftir að sjá Rakel (aftur) í tívolíinu í Svíþjóð), höfðum kósý spilakvöld og bröns, fórum í göngutúr í sólinni og fórum í mat til mömmu. Bara yndislegt.

Kíktum í pottin til tengdó á uppstigningardag. Garðurinn hennar er svo frábær og ég hlakka til að fylgjast með skottunum mínum þar í sumar. Kíktum í pottinn og það fer alveg að koma að því að Röskva geti komið með.

Ljúfa líf.


Opinberun

Það er alltaf svo mikil opinberun fyrir mig að fara til átröskunarsérfræðingsins. Það þarf svo oft að segja mér einföldustu atriði, rétt eins og litlu barni. Við vorum að tala um bataferlið mitt í gær og ég var að segja henni að mér fyndist ég í raun ekki hafa náð neinum árangri. Ég bara hætti að æla og að mestu að svelta mig eftir að ég kynntist Hrund og hrósaði sigri, fannst ég megadugleg að vera orðin svona frísk. Og auðvitað var þetta rosalega stórt skref fyrir mig og óþarfi að gera lítið úr því en mér hefur bara liðið alveg jafn fjandi illa allan tímann og púkarnir láta mig aldrei aldrei aldrei í friði. Eins og sérfræðingurinn benti mér á var þetta eins og þegar alki fer í meðferð og þurrkar sig upp en lagar ekki það sem er í raun og veru að í lífi hans. Hvað gerist? Hann fellur. Og ég hef fallið ítrekað, aftur og aftur. Ég fer aldrei eins langt niður og áður og ég er smám saman að þokast upp á við en það er rosalega erfitt að falla svona og ég fitna og fitna.

Ég reyndi í fyrsta skipti af fullri einlægni að leita mér hjálpar fyrir tveimur árum. Þá komst ég ágætlega af stað en það var svo margt sem ég þurfti að vinna úr og bæta í mínu daglega og persónulega lífi að bataferlið var kæft í fæðingu. Ef mér líður illa og finnst ég ekki hafa stjórn á aðstæðum þá þarf ég dópið mitt (mat). Og eins og sérfræðingurinn sagði þá hefur fíknin, átröskunin, líklega bjargað lífi mínu á sínum tíma því ég hefði ekki höndlað dagana án þess að vera í vímu. Það hefði verið of erfitt.

Þótt það sé gott að vera í vímu er fallið á eftir svo erfitt og mig langar svo að vera frísk. Langar svo að geta tæklað eitthvað óvænt án þess að finnast ég vera að kafna.

Gott dæmi. Fórum allar saman í Bónus um daginn (ég hef verið að skjótast ein eftir að Röskva fæddist) og ég var búin að plana að við myndum taka kerruna með fyrir hana og þá myndi þetta ganga upp því hún er of lítil fyrir sætin í innkaupakerrunum. Við gleymdum kerrunni. Og vonleysið og kvíðinn skall á mér eins og risa alda. Hvað í ósköpunum áttum við þá að gera. Halda á Röskvu stakk Hrund upp á skyldi ekki dramað í mér. Það var ekki í planinu og ég gat ekki endurforritað mig á staðnum, ég vildi fara heim. Hrund náði að róa mig og auðvitað gekk allt vel. En hvernig haldið þið að það sé að vera svo obsest af því að plana hverja sekúndu í lífinu að hæfileikinn til að leika af fingrum fram, spinna, lifa eðlilega, glatast? Eða er eðlilegt að hata dyrabjölluna því hún boðar óvæntan gest sem var ekki inn í planinu? Það skiptir ekki máli þótt ég sé glöð að sjá gestinn, angistin fer alltaf af stað inn í mér.

Núna er ég af öllum mætti að vinna í að bæta allt í lífi mínu sem þarf að bæta svo ég geti átt möguleika á því að vera frísk. Eins frísk og hægt er. Púkarnir fara ekki en ég þarf að hafa kraftinn til að ignora þá, til þess að þurfa ekki á þeim að halda. Ég vil ekki þurfa að deyfa mig heldur geta tekist á við hlutina. Á meðan ég vinn í mínum málum reyni ég að borða allar máltíðir dagsins. Hrósa mér fyrir hverja máltíð sem ég borða. Gefast ekki upp þótt einhver máltíð verði ekki eins og ég ætlaði heldur halda ótrauð áfram og fá mér næstu. Hver máltíð er nýtt tækifæri. Smám saman hætti ég að missa mig á kvöldin, missa mig í veislum, missa mig þegar ég er ein. Hef tíma til að hugsa um eitthvað annað og einbeita mér að þeim hluta af mér sem í raun og veru er sveltur. Sálinni, eins væmið og það nú hljómar. Fara út og vera bara Díana Rós, ekki mamma og maki, og njóta allra vinanna eða sjálfrar mín hreinlega. Fara á stefnumót með Hrund og vinna í okkar ást og sambandi því það hefur svo mikil áhrif á mína líðan.

Og hlusta svo á sjálfa mig. Á tilfinningar mínar og líkamann. 


Dagurinn í dag

Vaknaði korter fyrir sjö við babblið í Öllubjöggu junior.

Píndi mig á fætur, skipti á molanum og plantaði henni í matarstólinn á meðan ég eldaði quinoagraut handa henni.

Hellti upp á kaffi handa mér og Sprundinni, ýtti við stelpunum mínum og gaf molanum grautinn með stöppuðu mangói og peru út í, hörfræjaolíu og svo lýsi á eftir.

Gaf Hrund afmælisgjöf (hún er 31 árs í dag, sæta konan mín), greiddi Rakel, setti í vél og kom Röskvu fyrir í ömmustólnum á meðan ég fór í sturtu.

Skrælaði og brytjaði heilt kíló af lífrænum gulrótum og eina risastóra sæta kartöflu, setti í tvö gufusuðunarsigti og yfir potta. Sinnti Röskvuu þess á milli og vaskaði upp.

Gaf Röskvu pela, hreina bleiu og leyfði henni að rúlla sér í hringi á gólfinu á meðan ég gekk frá þvottafjalli.

Skutlaði molanum út í vagn og drakk svo júgórt úr glasi á meðan ég kláraði að stappa allt grænmetið, koma fyrir í klakaboxum og setja inn í frysti.

Núna er klukkan tíu og ég ætla að setja í þurrkarann og mjólka mig. Reyna svo að fá mér súpu og brauð áður en skottið vaknar aftur. 

Þarf svo að brjóta þvott, gefa Röskvu hádegismat og seinna pela, vaska meira upp, sækja Rakel snemma því Silla ætlar að passa á meðan ég skrepp út, gefa Rakel að drekka í kaffinu, borða sjálf, drekka kaffi, setja í aðra vél og sitthvað fleira.

Langaði bara að deila deginum mínum með ykkur.

Átröskunarsérfræðingurinn á eftir. Ég þarf að drepa nokkra púka svo ég fái kraftinn til að vera heilbrigð og koma mér í form.


Hvað get ég sagt

Annað en að:

 

 

Í höfði mér er stormur

 

og ég vona að hann fari bráðum að lægja

og að eftir sitji aðeins krafturinn

sem olli honum.

 


Fésdagur

Það er merkisdagur í lífi mínu í dag: Ég hef ákveðið að ganga til liðs við Fésið og byrja að njósna um fólk.

Kann ekki rassgat í bala. HELD að ég sé núna á Facebook en kann ekki að gera neitt. Svoleiðis verður það þangað til einhver kemur og sýnir mér og hjálpar eða þangað til ég hef nennu, tíma og vit til þess að finna út úr þessu.

Stend á krossgötum í lífina og finn í fyrsta skipti þörf hjá mér fyrir að vera hluti af þessu tengslaneti. Endilega addið mér ef við erum vinir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband