Hugleiðingar

Ég á svo sterka minningu um eldri litla bróður minn, hann Simon. Hann hefur verið um 2-3 ára, ég 10 ára, og ég var í heimsókn hjá pabba í Svíþjóð. Á þessum tíma bjó pabbi og barnsmóðir hans með Simon í sama hverfi. Stuttu eftir að ég vaknaði rölti ég yfir til Simonar, ég fékk ekki nóg af honum. Ég var svo snemma í því, óþolinmóð að vanda, að mamma hans var rétt að klæða hann í fötin. Ég man hvað mér fannst merkilegt að hann skyldi ekki fara í nærskyrtu heldur bara beint í stuttermabolinn, á kalda Íslandi var sjaldan veður til að sleppa nærfötunum. Hann var svo fallegt barn. Kaffibrúnn í sænska sumrinu, með þykku varirnar frá mömmu sinni og litinn frá pabba. Hárið, sem seinna varð snarhrokkið, var tinnusvart og stuttklippt, augun dökkbrún, næstum svört, þar sem hann horfði upp til mín og brosti.

Við fórum tvö út í sólina. Sátum á stéttinni og sleiktum íspinna. Sólin vermdi mig inn að hjarta, ég var svo heppin, átti eina systur á Íslandi og einn bróður í Svþjóð. Þegar ég horfði á hann vissi ég að það var mitt hlutverk að vernda hann, vissi að ég mundi gera allt fyrir hann. Hann var með fæðingarblett á kálfanum, hann var heitfengur og hreyfði sig stanslaust þannig að svitaperlur mynduðust á litla andlitinu, hann var með pínulítið skakkt bros. Höndin hans var svo ólík hendi litlu systur, hún var þykk, fingurnir stuttir, lófinn hlýr í mínum. 

Nei, þetta er ekki minningargrein um hann, Simon er sprellilfandi, en hann er samt horfinn mér. Við höfum átt ótal stundir saman með pabba, hann kom í heimsókn til Ísland, hann spurði sífellt um Röskvu, systurdóttur sína, við gátum baktalað pabba og hlegið að honum á sama tíma, hann hefur líka farið til Nicaragua og hitt ömmu og afa, skoðað rætur sínar, við sendum hvort öðru skilaboð á Facebook og ég skoðaði myndir af honum á veggnum hans; sama brosið, sömu augun, svo dökkur og óendanlega myndalegur, sá pabba í honum eins og ég sé stundum pabba í mér.

En svo hvarf hann. Hætti á Facebook, hætti að tala við pabba og snérist gegn honum. Tók svo margar rangar ákvarðanir og er nú horfinn í einhvern heim sem ég er ekki hluti af, með fólki sem hefur engan áhuga á að vernda hann eða þykir vænt um hann eins og mér.

Ég hitti hann síðast 2008. Hann hefur aldrei hitt Röskvu, hún skilur ekki hver þetta er á myndinni inni í svefnherbergi, hvernig getur mammí átt bróður sem hún hefur aldrei hitt? 

Ég hitti hann fyrst í janúar 1992, þá var hann hvítvoðungur í plastkassa á sjúkrahúsi í Svíþjóð. Ég fékk að upplifa fyrsta dagana hans með honum, man þegar hjúkkan tók blóðprufu úr hælnum og hann öskraði svo mikið að mig langaði mest að taka hann í fangið og hlaupa með hann út, hugga hann.

Þegar pabbi sagði mér að hann væri hættur að tala við sig leyfði ég mér að vona að það breyttist, hann var unglingur í uppreisn. Svo var hann næstum dáinn eftir hnífsstungu í partýi. Mér fannst ég svo vanmáttug á Íslandi, reyndi að spyrja hvernig hann hefði það og hann sagðist hafa það svo fínt. Ég trúði honum ekki. Við spjölluðum áfram þótt hann hefði klippt á öll tengsl við pabba en í fyrra lokað hann Fésinu sínu og núna hef ég engin tök á því að tala við hann. Hann hefur komið þannig fram við pabba ég efast um að það muni nokkurn tíma gróa um heilt á milli þeirra.

Við pabbi tölum oft um Simon. Gerðum það meira áður þegar við vorum bæði örvingluð, skildum þetta ekki, söknuðum hans. Höfum varla orku í það núna, það er of sárt.

Ég skrifa þetta af því að ég verð að sætta mig við að ég mun kannski aldrei tala við hann aftur. Ég óttast á hverjum degi að fá símtal frá pabba um að hann sé allur, þannig lífi lifir hann núna. Held ég,

Svo langt síðan ég heyrði röddina hans. Enn þá lengra síðan ég tók utan um hann. Hann er svo hávaxinn, örugglega tæpum 30 cm stærri en ég. Stóri litli bróðir minn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi. Svo sorglegt. Vona að hann komi til og sé ekki of djúpt sokkinn. Erfitt að vera svona langt í burtu og geta ekkert gert, en líklegast gætirðu ekki gert neitt heldur þótt þú værir nær.

Hlíf 3.6.2013 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband