Góðan daginn!

Mig svíður í augun af þreytu.

Vorum með Tinnakrútt í pössun í nótt og tvíbbarnir sváfu saman í Rakelarrúmi eftir að Röskva var búin að taka smá dramakast. Þau skiptast á að taka þau, Röskva og Tinni, en eru svo kurteis að taka þau bara heima hjá sér en ekki í næturgistingu hjá öðrum. Tinni tók víst trylling heima hjá sér síðast þegar Röskva gisti hjá honum. Þau höfnuðu fyrirkomulagi okkar Hrundar um að annað gisti í efri koju og hitt í neðri, vildu bæði sofa uppi og allt í lagi með það en svo þurftu þau aðeins að þræta um hver ætti að sofa næst veggnum og hver ekki. Röskva vildi alls ekki sofa við vegginn, handviss um að Tinni mundi þurfa að pissa um nótt og traðka hana niður við að brölta niður úr rúminu. Ég var að vona að hann mundi bara nota stigann í stað þess að nota Röskvu sem stökkpall og henda sér í öfuga átt og beint á veginn en hún taldi það af og frá. Hrund samdi við krílin og sat á stól á meðan þau sofnuðu, Tinni vildi ekki vera einn með Röskvu sagði hann, enda vanur að sofa með mér og Röskvu í hjónarúminu og Hrund hefur þá sofið í sófanum svo þetta var nýtt og betra kerfi, og þurfti Hrund sér til halds og trausts. Þau sofnuðu á endanum, ekkert rosa þreytt þótt ég hefði reynt að þreyta þau og frysta í sundi fyrr um daginn.

 

Ég fór of seint að sofa, enda búin að snúa sólarrhingnum við. Í mínu gömlukonutilfelli er það ekkert rosalegt, var að fara að sofa um eitt, tvö og vakna svona tíu, ellefu. Mér fannst það samt geðveikt. Rokkaði feitt. Aldrei þreytt. Bara útsofin. Svona er þetta þegar börnin eldast. Reyndi samt að vera skynsöm og fara ekki of seint í rúmið í gær en gerði ekki annað en stara upp í loft. Hefði frekar átt að horfa á annan þátt af Brúnni og fara svo upp í rúm eins og ég var að hugsa um. Rakelin var í okkar rúmi því að þannig var pláss fyrir alla í rúmum og var hún ekki lítið kát með það. Hún sofnaði allt of seint. Búin að snúa sólarrhingnum við eins og aðrir fjölskyldumeðlimir. Og það var ekki séns í helvíti að sofna fyrir hrotum í barninum, ég sver það. Reyndi að laga hana og ýta og pota og lyfta höfði og kodda en ekkert breyttist. Fór inn í herbergi tvíbbanna og lagðist í neðri kojuna sem er í raun bara frekar þunn dýna. Gott fyrir bakið en ég get ekki sofnað á bakinu og mjöðmin á mér var á góðri leið með að mynda holu í parketið undir dýnunni þegar ég reyndi að koma mér fyrir. Lítið pláss fyrir alls kyns púðum og böngsum og dótaríi. Fannst ég rétt vera búin að festa svefn um þrjú þegar ég vakna við að Röskva lafir niður úr efri koju og heimtar að fá að vita hvað ég sé að gera þarna. Man hreinlega ekki hverju ég svaraði en hún var sátt og hætti að lafa og fór aftur að sofa. 

Sofnaði aftur. Eftir langa bið. Vaknaði. Ákvað að færa mig. Leit á klukku. Sjitturinn, hún var strax orðin sjö. Skreið upp í rúm til Rakelar svo ég þyrfti ekki að segja neitt um það að ég hefði þurft að færa mig vegna hrota í henni, hún er svo mikið gull. Hrökk upp klukkustund síðar við að Röskva reif upp hurðina og var mjög misboðið yfir því að hafa rekið höfuðið í. Ég lyfti sænginn upp og bauð henni í hlýjuna og kyssti á stuttklipptan kollin. Hún hélt nú ekki. Náði því eftir smá stund að hún var fokvond út í mig fyrir að hafa fært mig, hef örugglega lofað henni í nótt að fara ekki fet. Svo sagðist hún vilja sofa hjá Tinna og rigsaði út úr herberginu. Ég fór á eftir henni en hún vildi ekkert að ég væri neitt að breiða ofan á hana, bað mig bara að loka hurðinni. Tókst samt að vekja Tinna. Og Rakel.

Klukkan var hvort sem er 8 og tími til að fara á fætur. Og það sem þau skinu skrært svona dauðþreytt, sólargeislarnir þrír, þau flissuðu og léku sér og klæddu sig og borðuðu og ég gat skóflað þeim þremur út í bíl og keyrt hvert á sinn staðinn og var mætt í vinnu fyrir tíu.

En mig svíður í augun.

Hlakka til að fara heim og borða fisk og faðma sófann og stelpurnar mínar allar. Eyddi kaffinu í mínu í að blogga og bráðum get ég farið heim. Held að allir sofni snemma í kvöld. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband