Ofurkona

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að taka ruslvörnina af. Man reyndar ekki eftir að hafa beðið um hana og vona að hún sé nú farin. Ef ekki látið mig vita og segið mér hvernig ég geri það.

Mér finnst ég aldrei hafa eins mikið að gera og þegar ég er í fríi. Rauk upp með andfælum í morgun og hnút í maga yfir öllu því sem ég þurfti að gera. Er þetta eðlilegt? Neyddi mig til að slaka á og horfa á mynd í náttfötunum. Hrund segir að ég þurfi að læra að slaka á. Ég sagðist kunna það og vildi sanna það í morgun. Hún var reyndar ekki heima en hún hringdi úr skólanum þannig að ég gat sagt með stolti að ég væri bara upp í sófa að horfa á mynd.  Ég verð að viðurkenna að ég leit ansi oft á klukkuna til að fylgjast með tímanum, svo margt sem ég átti eftir að gera. Myndin var næstum tveir tímar svo að um leið og hún var búin rauk ég á fætur, vaskaði upp, setti í vél, gekk frá fötum, raðaði skóm, tók til inni hjá Rakel og snurfusaði inn í stofu. Svo hringdi ég um það bil 10 símtöl og punktaði hjá mér ýmis atriði, reiknaði út mánaðarlegar greiðslur og gerði það sem gera þurfti í heimabankanum. Núna er klukkan korter yfir fjögur, ég var að fatta að ég gleymdi að fara í sturtu og klæða mig og borða! Og Hrund kemur heim eftir smá stund og ég er búin að bjóða henni út að borða. Ég er ekki tilbúin. Ég gleymdi sjálfri mér!

Vitiði það. Ég er ekki ofurkona. Og þekki engar slíkar. En mér finnst samt alltaf að ég eigi að vera hrikalega dugleg og aldrei að kvarta. Síðasti vetur var erfiður fyrir okkur Hrund. Hún vann alla daga og var í kvöldskóla þrisvar í viku. Þess á milli lærði hún og svaf. Ég var í skóla alla daga, lærði eins og brjálæðingur en átti samt alltaf eitthvað eftir. Ég var ein með Rakel og heimilið þegar Hrund var í skólanum og þegar allt sem þurfti að gera var gert átti ég ekki eina kaloríu eftir sem ég gat eytt í meiri lærdóm. Aldrei kvartaði Hrund. Og aldrei kvartaði ég. Ég fékk bara kvíðaköst inn í mér, vaknaði aðeins fyrr og fór aðeins seinna að sofa. Það var ekki fyrr en um daginn sem mér var bent á að þetta var heilmikið, fyrir okkur allar þrjár og að það væri eðlilegt að ég hefði verið þreytt. Ó!!!

Þessi vetur verður betri. Við verðum alltaf saman í mat og á kvöldin og eins og áður hefur komið fram ætlum við Hrund að vera góðar við okkur og fara í ræktina.

Hver sagði mér eiginlega að ég mætti aldrei vera þreytt og finnast eitthvað erfitt? Að ég þyrfti að standa mig óaðfinnanlega í öllu? Það var ég sjálf. Og ég á eftir að drepa mig á þessum kröfum ef ég læt ekki af þeim.

Það að vera þreyttur er ekki það sama og gefast upp. Ef ég vaska ekki upp eftir kvöldmatinn er ég ekki aumingi og letibykkja.

Ég fæ stundum svo illt í magann af stressi að ég þarf leggjast fyrir. Og svo ligg ég hugsa um að ég hafi ekki tíma til að eyða honum í svona vitleysu.

En nú munu renna upp breyttir tímar. Ég ætla leyfa mér að vera manneskja og hætta að halda að ég sé vélmenni.

Á eftir fer ég út að borða með konunni sem þarf ekki að annað en að segja :'þetta verður allt í lagi' og friðurinn færist yfir mig.

Og á morgun kemur litli rauðhaus sem eins næmur og hann er hallar undir flatt, leggur heita barnshönd á vanga minn og segir með fallegustu röddinni:'þetta vera allt í lagi mammí, rakel passar þig', eins og ég er vön að segja við hana þegar hún á bágt.

 Hversu heppin er ég? Nú er að duga eða drepast, kúppla mig úr fimmta gír, slaka á og njóta heppninnar.

Ég verð samt að þjóta núna áður en Hrund kemur heim, þarf að gera nokkra hluti fyrst ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband