Þetta er nú meira veðrið

Við Rakel erum sammála um það að veðrið hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. 'Það er komið veður' æpti barnið upp í vindinn í gær þegar við löbbuðum í leikskólann. Átti þá við að það væri komið vont veður. 'Ertu ekki með regghrífu mammí' spurði hún mig svo undrandi þegar ég kom að sækja hana í grenjandi riginingu, steinhissa á fjarveru regnhlífarinnar. Kannski ég fari að dusta rykið af vetrarúlpunni og sendi hana í henni í leikskólann á morgun. Vil ekki vera móðirin sem átti barnið sem varð næstum úti í útiveru.

Það var eitthvað svo mikið sem ég ætlaði að segja en ég er búin að gleyma því öllu. Bloggandinn vill ekki koma yfir mig.

Annars erum við Hrund að fara á Jethro Tull tónleika á morgun í boði tengdapabba. Erum svo að fara í afmæli á laugardaginn plús eitthvað fullt í viðbót. Meira hvað maður þarf alltaf að útrétta. Spurning að fara að nota allan þennan pening sem við eigum afgangs af námslánunum í lok hvers mánaðar í persónulega aðstoðarkonu/mann.

Gerði mig að fífili í gær. Var í röð í matsölunni og mjakaðist í átt að kaffinu þegar námskeiðið Íslensk bókmenntasaga bar á góma. Ég veit ekki hvort öllum er það kunnt en ég var með svakalega fordóma gegn bókmenntafræði, og viss um að mér myndi finnast áfanginn hundleiðinlegur,áður en ég tók þann kúrs. Sem er í algjörri mótsögn við áhuga minn á lestri bókmennta. Kennarinn henti fordómunum út um gluggann og glæddi áhuga minn. En sumst. Þar sem ég stóð í röðinni spyr samnemandi minn mig hvort það hefði ekki verið mikið að lesa í námskeiðinu. 'Það var viðbjóður' var svar mitt og átti þá við magnið sem við þurftum að lesa, ekki námskeiðið sjálft. '300 blaðsíður fyrir hvern tíma'. Sem er hræðileg lygi. Ég bara ruglaðist, það voru 300 blaðsíður á viku. Náði nú að gubba því út úr mér að þetta hefði verið mjög skemmtilegt námskeið á meðan ég hellti kaffi í bollann. Er ekki viss um að samnemandinn hafi heyrt það þar sem kaffið kláraðist í kaffikönnunni, ég panikkaði yfir yfirvofandi kaffiskorti og snéri því baki í hann þegar ég gaf út þá yfirlýsingu. Þegar ég lít við með mitt kaffi (fann nýja könnu sem var full af kaffi) sé ég bókmenntakennarann. Hann stóð fyrir aftan okkur í röðinni. Það eina sem hann hefur heyrt er líklega þegar ég sagði námskeiðið viðbjóð (sem ég meinti alls ekki ) og þegar ég laug magni heimalærdómsins. Held ég geti gleymt því að fá góða einkunn í þessu námskeið.

Hins vegar hélt ég mínu striki og hélt aftur í tímann, sem hann kennir einmitt, og helltist þá yfir mig yndisleg tilfinning. Það var tilgangurmeðlífinutilfinning. Ég hugsaði með mér hversu ótrúlega gaman það væri að vera í skóla og læra eitthvað nýtt á hverjum degi, losa sig við fordóma og neyðast til að þroskast og víkka sjóndeildarhringinn. Svo fór ég að hugsa um stelpurnar mínar og hvað allt væri frábært og yndislegt. Í hugaræsingnum og allri væmninni svelgdist mér á kaffinu og ég fékk hóstakast, svitnaði af áreynslunni við að bæla það niður og heyrði ekki útskýringar kennarans upp við töflu.

En ...

það er leikur að læra, leikur sá er mér kær

að vita meira og meira

meira í dag en í gær 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahahahahaha!!! Ég hló upphátt af sögunni, hahaha!!

Tinna Rós 25.9.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband