Leirað

Rakelitan situr við litla borðið sitt sem ég flutti inn í stofu fyrir hana og er leira. Er með Barbapabbasvuntu, úfið hár og hor. Hlustar á Pétur og úlfinn sem hún fær ekki nóg af þessa dagana og mér finnst frábært. Stelpan er lasin og því enginn leikskóli í dag. Hún unir sér vel, dýrkar að leira.

Þegar pabbi hennar kom að sækja hana á föstudaginn vildi hún endilega taka leirinn með sér. Leirinn 'minn'. Hún heldur að ég eigi hann þar sem hún þarf að fá leyfi til að leika sér með hann. Og það er algjör óþarfi að vera eitthvað að spyrja mömmu. Barnið virðist vera með það alveg á hreinu að ég ræð öllu. Og mjög erfitt að breyta þeirri skoðun hennar. Ég vil alls ekkert ráða öllu. Kannski ræð ég öllu. Ó lordí. Þá er það bara af því að ég er of óþolinmóð til að bíða eftir að sumir taki ábyrgð ... Ég er óþolinmóðasta manneskja í heimi.

Já, Rakel vaknaði sífellt aðfarnótt föstudagsins, hóstaði holum hósta og grét sárt. Endaði með því að ég sat með böggulinn inn í stofu og strauk bringuna og bíaði. Hún var svo hjá mér til tíu á föstudagsmorguninn en þá kom Hrund úr skólanum til að skipta við mig, ég fór í tíma og svo voru aftur vaktaskipti klukkan tólf þegar ég kom heim og Hrund fór aftur. Robbi kom svo að sækja hana seinnipartinn eins og áður sagði og ég hvatti hann til að fara með Rakel á læknavaktina, sem hann og gerði, þar sem streptókokkar hafa verið að ganga á leikskólanum. Sem betur fer var hún bara með flensu.

Þegar hún kom heim frá honum í gær var hún með risa kýli eða kúlu bak við eyrað. Mjög skrítið. Robbi var nýbúinn að taka eftir þessu en við Hrund ákváðum að fara með hana upp á slysó til öryggis. Eftir rúma tveggja tíma bið fengum við að vita að þetta væri bara svona rosalega bólginn eitill og við þyrftum bara að bíða og sjá hvort illska kæmist í þetta. Jæja, gott að vita.

Ákváðum að hafa hana heima í dag líka þar sem hún hóstar svo mikið og er svo svakalega kvefuð. Það var líka mjög notalegt að vakna við hana í morgun. Heyrði smá snökt og tipl í litlum fótum. Svo stóð hún í flónelsnáttfötunum og með klút um hálsinn inn á svefnherbergisgólfi hjá mér og teygði sig. Sagðist hafa meitt sig í mallanum. Skreið upp í mömmuból sem var tómt enda mamman í skólanum. Lá svo grafkyrr á meðan ég strauk hana alla. Handleggina og hálsakotið, yfir hárið og bak við eyrun. Þorði greinilega ekki að hreyfa sig af ótta við að ég myndi hætta. Rak svo allt í einu rassinn framan í mig og heimtaði að ég stryki bakið líka. Og hinn handlegginn. Og mallann. Svo vildi hún strjúka mér og það var alveg hreint guðdómlegt. Lét hana strjúka yfir mjóbakið þar sem brjósklosið angrar mig stanslaust og það var svo miklu betra á eftir. Það er lækningamáttur í barnahöndum. 

Mig langar svo að gefa út smásagnasafn. Eða reyndar myndu það vera örsögur samkvæmt minni skilgreiningu. Á nokkrar til í fórum mínum. Á hins vegar miklu fleiri ljóð. Kannski ætti ég að gefa út aðra ljóðabók. Ég og Sprundin vorum að keyra í gær og lentum fyrir aftan bíl sem hafði RYK á númerplötunni. Alveg eins og ljóðabókin okkar Inam og Önnu (Fyrir þá sem ekki vita er titillinn gerður úr eftirnöfnunum, Rivera, Yasin, Kristjánsdóttir. Við gáfum hana út þegar við vorum 18 ára og hún er flottust í heimi. Mamma var umbinn okkar og við enduðum tvisvar í útvarpinu og einu sinni í sjónvarpi og einnig í viðtali í Veru. Ég er ótrúlega stolt af þessu og monta mig því af þessu hér. Mitt blogg!!!). Er þetta ekki eitthvað tákn?

Mér sýnist Rakel vera að taka til. Ætla að hjálpa henni og finna eitthvað annað handa henni að gera.

Hvað segið þið. Ljóðabók? Örsögur? Eða gleyma þessu og einbeita mér að námi og skóla. Hef svo sem engann tíma fyrir þetta. En það má láta sig dreyma ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki gleyma, gera! Eða það finnst mér allavegana!

inam 21.1.2008 kl. 16:14

2 identicon

Sammála Inam. Hafa bókina tvískipta; örsögur og ljóð.

Tinna Rós 21.1.2008 kl. 16:45

3 identicon

Pant fá eintak hjá þér.  Finnst ótrúlega gaman að eiga fyrstu ljóðabókina frá þér (eða ég held að það sé þín fyrsta) og það áritaða.  Ekkert smá kúl :)

Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt, þú ert fyrirmyndarpenni skvís :)

Kv. Arna

Arna 21.1.2008 kl. 20:58

4 identicon

kvitta í gestabók, er það annað en skrifa athugasemdir?

tek undir með Tinnfríði: örsögur og ljóð. Þú bara gerir þetta í rólegheitum, byrjar á að slá inn á tölvu það sem er komið þegar þú ert í stuði og svo leiðir eitt af öðru

knús mútta 

ps. færslan þín er tvöföld 

aró 21.1.2008 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband