Fimmtudagur

Dettur ekki önnur fyrirsögn í hug ...

Ég fer allt of seint að sofa. Er alltaf að drepast úr þreytu milli sex og tíu á kvöldin en eftir það kemst ég yfir þreytuna og vaki of lengi. Trufla Hrund við húsgagnapælingar, tek aðeins til, athuga hvort allt er tilbúið fyrir morgundaginn og fer svo upp í rúm og les eða leysi krossgátu þegar ég ætti að vera sofnuð. Oft þarf ég svo líka að fara fram úr og pissa og minna Hrund á eitthvað eða segja henni eitthvað sem getur ekki beðið til morguns. Þegar við förum á sama tíma að sofa þarf ég líka alltaf að lesa. Sprundin er svo sem vön því að sofna í skininu frá lampanum mínu, setur annan handleggin yfir augun og hinn á magann á mér og sefur svo rjómahvít og mjúk.

Afleiðingin: Á erfitt með að halda mér vakandi í tíma. Sérstaklega klukkan átta á morgnana þegar kennarinn heldur fyrirlestur og notar glærur sér til stuðnings. Sem þýðir að ljósið er slökkt svo við sjáum betur á tjaldið. Pynting. Svona var þetta einmitt í morgun. Fyrirlesturinn var hins vegar mjög áhugaverður og ég hélt mér vakandi með því að glósa eins og brjálæðingur á spænsku. Rölti svo yfir í Árnagarð, fékk mér kaffi og drakk það standandi í kápunni með nýþungu skólatöskuna á bakinu á meðan ég las í Mogganum að Heath Ledger væri dáinn.

Sit núna í tölvuverinu og líkt og síðastliðinn fimmtudag blogga ég í stað þess að læra. Var reyndar svo dugleg á þriðjudagskvöldið að ég kláraði uppkastið að fyrirlestrinum mínum um jarðskjálftann í höfuðborg Nicaragua sem ég á að flytja í Menningu og sögu rómönsku Ameríku. Djöfull er ég ógesslega dugleg. Nú hef ég nægan tíma þar til í mars (þegar ég á að flytja hann) og get búið til eitthvað kreisí powerpoint show og ég veit ekki hvað.

Sökum þessa var ég róleg yfir öllum lærdómi í gær. Rakel hefur verið heima í þessari viku og í gær var Hrund með hana. Þegar ég var búinn í skólanum í hádeginu fór ég og keypti allt til að búa til dýrindis kjúklingasallat, leigði Skógarlíf og keypti frostpinna með alvöruávaxtasafaogánaukaefnaaðsjálfsögðu. Kom því færandi hendi heim, skellt mér í flísnáttkjólinn minn, Hrund til samlætis, og svo borðuðum við og sátum svo allar þrjár undir sæng og gláptum. Náðum því næst í bílinn úr viðgerð. Barnið var orðið brjálað af inniveru og næstum klifraði upp veggina af spenningi þegar við sögðum henni að við þyrftum aðeins að skreppa út.

Ég hafði svo grautarlummur/pönnkökur í kvöldmatinn. Er mjög stolt af mér yfir að hafa getað búið til deigið án uppskriftar. Hefur lengi dreymt um það, færni mín í bakstri er mun minni en í eldamennsku. Skellti bara afgang af grjóngraut í skál, slatta af spelti, einu hamingjusömu eggi, mjólk, lyftidufti og agavesýrópi. Úr urðu ljúffengar pönnukökur. Við borðuðum þær með smjöri, sultu og osti og átum í nær algjörri þögn og sælu.

Sem betur fer er Rakel orðin frísk og fór í leikskólann í dag.

Helgin framundan. Rakel fer, ef guð lofar og allt gengur vel eins og amma segir, í íþróttaskólann á laugardaginn og er að sjálfsögðu mjög spennt. Ég á mér skóla, mamma hennar á sér skóla og nú á hún skóla. Talar stanslaust um að hún sé alveg bráðum að fara í skólann 'sinn'. Við eigum svo miða á Skilaboðaskjóðuna á sunnudaginn og mun það vera fyrsta leikhúsferð Rakelar.

Nú á maður að skrá hvenær krakkinn verður í sumarfríi í leikskólanum. Ég veit ekki einu sinni hvar ég verð að vinna. Þvílík pressa. Veit fólk ekki hvernig ég er. Ég á ekki eftir að geta sofið vegna sumarfríspælinga í nótt.

Ég er með einhverja illsku í auganu. Fór á læknavaktina í gær og fékk sótthreinsandi krem. Held ég hafi sett fullmikið af því í augað. Skömmu eftir smurningu hafði kremið borað sér leið inn um augnkrókana, niður nefgönginn og niður í kok svo ég var farin að éta kremið. Það var eigi bragðgott. Í dag er mér illt í maganaum.

Vitiði hvað er best í heimi. Að geta verið ógesslega pirraður og ósanngjarn og fúll og mikil brussa við fjölskyldumeðlimi og komið svo og knúsað þá á eftir og beðist fyrirgefningar. Það er yndislegt að mega missa sig án þess að manni sé refsað, að konan mín þekki mig það vel að hún leyfi mér að tuða og kyssir mig svo bara á ennið að loknu nöldurkasti. Vissan um að vera elskaður þrátt fyrir veikleikana, eða einmitt vegna þeirra, er yndislegt.

Augnaráð Hrundar er sjaldan jafnt hlýlegt og milt og þegar ég er eitthvað að brussast á kvöldin. Við kannski sitjum í sófanum og eins og alltaf þarf ég að standa upp tíu sinni yfir hverjum sjónvarpsþætti. Yfirleitt tekst mér að reka tánna í, draga til í náttkjólnum, flækja mig í teppinu og hella niður. Hrund fylgist með mér hýr á svip. ' Þú elskar mig' á ég til að segja óörugg þegar ég tek eftir að hún er að horfa á mig. 'þótt ég sé brussa'. 'Einmitt þess vegna' segir Sprundin og strýkur mér um vangann. 

'Ertu að fara að hitta einhvern sætan lækni' spurði Hrund í gær þegar ég var á leið út úr dyrunum og á læknavaktina. Fannst ekki eðlilegt að ég hefði sett á mig vellyktandi fyrir brottför. 'Ertu kannski að fara að hitta viðhaldið'. Ég sagði henni að þá myndi ég líklega vera fínni og kyssti hana bless. 'Þú ert örugglega í fínu fötunum innan undir' kallaði hún á eftir mér niður stigann. Ég veit nú ekki hvenær ég ætti að koma viðhaldi inn í þéttskipað dagskipulag. Enda var hún nú að grínast.

Henni ferst nú. Á í ástarsambandi við gamla bílinn okkar. Hefur aldrei viljað selja hann, sama hvað það kostar, og finnst hann einfaldlega besti bíll í heimi. Nýi bíllinn jafnast ekkert á við þann gamla. Þetta jaðra við að vera svik. Bara verið að halda við bílinn. Já, já. Á kvöldin stend ég úti á náttsloppnum og hugga nýja bílinn.

Djók. Hrund segist hafa alið gamla bílinn upp og greinilegt er að á milli þeirra er strengur. Vírstrengur. Það verður þó að segjast að nýi bíllin kemur sterkt inn.

Annars argaði barnið á ömmu Öllu sína í gærmorgun sem passaði hana smástund á meðan við Hrund vorum báðar í skólanum. Þær voru að spila og eftir að hafa lesið leiðbeiningar sagðist mamma vera með reglurnar á hreinu. Þegar hún byrjaði var hún fljótt stoppuð af, af yfir sig hneiksluðu barninu: 'Mammí gerir aaaaaldrei svona!!!'. Kom í ljós að hægt var að spila tvær útgáfur og hafði mamma dirfst að spila þá sem ég er ekki vön að spila við rauðhaus. Voðaleg áhrif hefur maður á litla molann. Hélt henni fyndist ég mest pirrandi með allan minn aga en kannski barnið meðtaki hvert orð sem ég segi.

Kannski ég sé góð mamma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heath Ledger bara dáinn mæ ó mæ.  Mikið óskaplega er ég út úr heiminum að frétta það svona seint. 

Annars vildi ég bara kasta kveðju á þig skvís

Kv. Arna

Arna 24.1.2008 kl. 18:31

2 identicon

Það er alveg á hreinu að þú ert frábær mamma Díana mín. Og ég reyndi að kommenta á útgáfu ljóðabókar eða örsagna en trúlega eitthvað klikkað á summunni fyrir ofan. Um leið og útkoman verður hærri en 25 lýkur minni reikningskunnáttu nema með hjálp reiknivélar. En örsögur og ljóðabók er algjörlega málið og þá meina ég hvoru tveggja. Þú ert alveg frábær penni og líka besta tengdadóttir sem hægt er að hugsa sér. Tengsan.

Tengdó 24.1.2008 kl. 19:49

3 identicon

Á ekkert að fara að skrifa....she

tengdó 29.1.2008 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband