Þriðji vordagur

Mér finnst vera þriðji í vori í dag. Fyrsti var á laugardaginn fyrir viku og annar í gær. Fór einmitt með þunna peysu og þunna húfu á leikskólann fyrir Rakel svo hún myndi ekki stikna. Það verður að fara að endurskoða fatavalið aðeins hjá henni þar sem vorið hefur hafið innreið sína. Hallelúja!

Vaknaði við vekjaraklukkuna hennar Hrundar áðan. Get aldrei sofnað aftur svo ég fór á fætur, fékk mér kaffi, setti í vél og borgaði einn ljótan reikning. Hrund kom sér á fætur og fór í skólann og ég sit hér full af söknuði. Eftir Oddnýju minni sem flutti á Akureyri í byrjun árs til að vera nær fjölskyldu og gerast skólastelpa. Ég er óskaplega stolt af stelpunni minni en mér finnst stundum svo vont að hafa misst hana svona langt í burtu. Eða mér finnst það langt í burtu þar sem við erum sífellt blankar báðar tvær og eigum því erfitt með að heimsækja hvor aðra.

Þegar ég vaknaði og sá hvernig veðrið var sendi ég henni þetta sms:

Á svona dögum sakna ég þín: þriðji vordagur, hverfið sofandi, flugurnar suða (!) og sólin skín. Ef þú værir enn hjá mér myndi ég hringja í þig og vekja þig, við myndum fara niður í bæ í brunch, færa okkur svo yfir í bjór á útikaffihúsi, reykja, gerast tískulöggur og hlægja stórkarlalega. Sakna þín Odda podda bestavinkona svo óskaplega mest. Elska þig!

Það er svo gott að eiga góða vini og vont að hafa þá langt í burtu. Svo kemst hún ekki einu sinni í afmælið mitt og minns sem er að verða 25 ára. Búhú.

Kannski ég ætti að biðja um flugmiða til hennar í afmælisgjöf.

Nei. Djók. Var búin að gleyma hvað ég er sjúklega flughrædd orðin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband