Japanskt bað

Ég var búin að segja ykkur frá dekrinu sem ég fékk í afmælisgjöf og að Hrund fékk líka sem fyrirfram afmælisgjöf frá mömmu. Við skelltum okkur sumst í dekrið, japanskt bað, á miðvikudaginn. Áttum tíma klukkan fjögur og mamma tók því Rakel að sér. Við vorum settar í sturtu og skrúbbaðar og þvegnar. Sátum þarna á evuklæðunum og lyftum höndum og fótum eftir skipun. Gott fyrir mann að neyðast til að líta á líkama sinn sem einmitt það sem hann er og hætta að vera svona sjálfsmeðvitaður. Hef ekki verið skrúbbuð svona af annarri manneskju síðan ég var lítil og mamma þvoði mér.

Vorum svo settar í bleyti í sjóðandi heitan pott og þegar við vorum að yfirliði komnar sökum hita var komið að nuddi. Svæðanuddi. Og ég fékk powernudd. Ég hélt ég myndi deyja úr sársauka. Hef aldrei upplifað annað eins. Ég lá á dýnu á gólfinu og konan notað olnbogana og allan sinn líkamþunga til þess að nudda einhverja orkupunkta á rasskinnunum. Tárin láku ofan í koddann og ég var farin að biðjast vægðar. Hún tók allan líkamann minn svona. Bak, læri og kálfa að aftan og svo snéri ég mér við og það sama tók við hinum megin. Hún nuddaði líka kirtlana í holhöndinni og ég hélt að hún myndi slíta af mér brjóstin þegar hún var að sýna mér hvernig ég gæti komið í veg fyrir brjóstakrabbamein með því að nudda eitlana. Nakin, að sjálfsögðu, og löðrandi í olíu var mér svo komið fyrir í stól og punkar í andliti örvaðir. Allan tímann talaði konan látlaust, margt var speki og annað, að mér fannst, bull. Hrund sem fékk venjulegt svæðanudd lá í slökun í næsta herbergi.

Hún var nú ekki í vandræðum með að lesa okkur, konan sem nuddaði mig og sem á þetta japanska bað. Í lokin vissi hún allt um okkar hagi. Við fórum svo í sloppa og borðuðum heimatilbúin mat og hvíldum okkur. Við vorum rúma þrjá tíma í þessu og það verður að segjast að við vorum heldur betur endurnærðar og eiginlega agndofa að þessu loknu. Ég fékk líka að vita að það væri ekkert að mér, öll líffæri í góðu standi, mjaðmagrindin breið og ég því sköpuð til að eiga börn og að ég ætti að láta af þessari fullkomnunaráráttu sem væri að plaga mig. Ég veit.

Ég mæli með þessu. Þó ekki nema væri fyrir lífsreynsluna. Við kyrnur fórum svo í bíó á eftir og ræktuðum sambandið enn meir. Yndislegt að fara svona út í miðri viku og gera eitthvað skemmtilegt.

Í gær var ég voða skrítin. Held að orkustöðvarnar hafi verið of opnar. Var eiginlega hálf geðveik af tilfinningarugli. Tókst þrátt fyrir það að leggja lokahönd á ritgerðina í spænsku með hjálp mömmu sem prófarkalas. Hún er tilbúin!

Í dag var ég skárri, hamingjusöm og full orku eins og konan sagði að ég myndi vera. Kom heim, tók smá stund fyrir sjálfa mig og hófst svo handa við að þrífa. Eins og ég hef áður sagt þrífum við Hrund á eins og hálfs vikna fresti. Í þau fáu skipti sem það bregst og lengra líður á milli endum við yfirleitt með því að þrífa svakalega vel. Sú var raunin í dag. Ég tók til og þreif allt hátt og lágt. Gerði pásu til að drösla þríhjólinu á leikskólann og leyfa Rakel á hjóla heim. Hún sat svo inn í herbergi og teiknaði en ég setti óperur á fóninn, opnaði alla glugga til að hleypa vorinu inn og stillti svo græjurnar í botn svo hverfið gæti notið með okkur Rakel. Við fíluðum okkur í tætlur og tókum undir sönginn í sitthvoru herbergi. Rakel byggði svo marblett (?) úr kubbum og er líklega eina manneskjan sem hefur tekist það. Meðan ég lagði lokahönd á þrifin steig hún dans inn í stofu með hettu á höfðinu og var vægast sagt kostuleg.

Hrund kom heim að verða sex og er nú að ryksjúga. Rakel horfir á Litlu folana og ég er búin að henda sítrónukjúlla inn í ofn. Ætla núna að fara að gera kúskús og njóta lífsins.

Rétt föstudagur og heil helgi framundan. Ég bið ekki um meira. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá, hvar  kemst maður í svona powernudd...væri nú alveg til í að sleppa því að láta baða mig...man hvað mér þótti neðanþvotturinn á fæðingarheimilinu leiðinlegur...reyndar liðin ein 28 ár siðan, bráðum 29. Vil helst sjá um það sjálf að þvo mér, en nudd er allra meina bót og virkilega tilfinningalosandi og gott fyrir svefninn og draumana. Og fullkomnunaráráttan...well maður verður nú að hafa einhverja galla...er það ekki??

Tengdó 4.4.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Hér skráir Díana Rós fyrir hönd litlu fjölskyldunnar hinar ýmsu athafnir hennar og deilir með ykkur sögum úr stelpukotinu þeirra í Skipasundi

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 56566

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband