Síðustu dagarnir ...

... í skólanum framundan. Ótrúlegt.

Við höfðum það gott um helgina, Rakel í sveit með pabba sínum og við kyrnur hér heima. Vorum boðnar í partý á föstudagskvöldið en þreytan eftir vikuna varð viljanum til að fara yfirsterkari og við sátum heima og spjölluðum. Vorum komnar snemma í bólið sem er alltaf gott.

Hrund fór í skólann á laugardagsmorguninn og ég mamma þeyttumst um allt og útréttuðum. Fengum okkur svo brunch á Gráa kettinum og litum inn á magnaða myndlistarsýningu hjá Óla Lár, pabba hans Davíðs frænda. Fórum líka í Ikea og mamma keypti það sem hana vantaði. Núorðið ýtir maður Ikeaferðum á undan sér. Þetta er svo út í rassgati eitthvað. Hér áður þegar verslunin var í Holtagörðum fór maður alltaf einn hring eftir að hafa keypt inn í Bónus.

Hrund eyddi kvöldinu hjá mömmu sinni og ég hjá minni. Alltaf gott að fá tíma í sitthvoru lagi og láta mömmurnar dekra við sig. Í staðin eyddum við spúsan sunnudeginum saman og höfðum það ótrúlega kósý. Vorum vaknaðar snemma og náðum okkur í spólur og ís og héldum heim. Fengum okkur indverska súpu og brauð og ísinn í eftirrétt. Horfðum á sjónvarpið og stússuðumst og fyrr en varði var Rakelin komin heim.

Eftir kjötbolluát var Rakel svo illt í maganum, sagðist hafa borðað grjót. Verkurinn fór eftir strokur og loforð um tvær bækur fyrir svefninn. Hrund fór með hana inn í rúm og söng og bað bænir. Ég leit inn og sá Hrundina krjúpa á gólfinu við rúmstokkinn og knúsa krílið. Gat ekki setið á mér og lagðist á bakið á Hrund og faðmaði stelpurnar mínar báðar í einu. Rakel var fljót að stoppa það: 'Hey, mammí, bara einn í einu, fyrst mamma, svo þú.' Ok, ok. Fyndið hvernig hún byrjar allar setningar á Hey!

Mamma og Edda frænka komu aðeins í heimsókn um kvöldið sem var mjög skemmtilegt. Á meðan Hrund dúllaði sér í tölvunni bjó ég til heimagert bodyscrup. Lífrænt bodyscrub er svo dýrt og en þar sem við notum bara lífrænar snyrtivörur kom ekkert annað til greina. Ég ákvað því að malla þetta sjálf. Setti himalayasalt í krukku og bætti lífrænni möndlu- og ólívuolíu út í. Bætti svo olíum frá Kollu gras út í (hver olía hefur sína lykt og sinn mátt) og voila: ilmandi og heilnæmur skrúbbur tilbúinn.

Ætla í sturtu í kvöld og skrúbba mig frá toppi til táar.

Þar sem prófin eru að byrja og ég ekki í skólanum í dag, ákvað ég að eyða deginum með Rakel. Hef svo lítinn tíma fyrir hana í prófunum svo það er um að gera að nýta tímann þangað til. Við erum búnar að borða og klæða okkur og hún bíður óþreyjufull inn í herbergi eftir því að komast út. Ætlum að taka strætó niður í bæ og fá okkur hádegismat með mömmu, gefa öndunum brauð og eitthvað fleira.

Mér er ekki til setunnar boðið, adios. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband