Algjör ...

... geðveiki. Segi ekki meir. Eða jú.

Þessi prófatörn hefur verið algjör vitleysa. Og lítið um lærdóm. Það er svo skrítið þegar allt hringsnýst í höfðinu á manni og utanaðkomandi öfl gera manni erfitt fyrir. Þegar tilfinningarnar vilja vera með í íslenskri útrás og reyna að brjótast út úr líkamanum með látum. Mér hefur verið troðið í rússíbana, ég bundin niður og ýtt af stað. Ég get ekkert gert nema beðið eftir því að ferðinni ljúki, vonað að ég lifi þetta af, veit að ég lifi þetta af þótt mér líði ekki þannig. Og á meðan þýtur allt fram hjá og ég heyri ekkert nema öskrið í vindinum sem reynir að þrengja sér inn í eyrun.

Hrund hefur verið að smíða sig í hel hjá mömmu sinni síðan á föstudag. Hún svaf fjóra tíma aðfararnótt sunnudags, ekkert í fyrrinótt og kvaddi mig í gær glær í augum og föl á vangann. Hún var að fara að smíða. Í alla nótt. Síðasti dagurinn í dag.

Við hittumst á sunnudaginn og okkur leið eins og við hefðum ekki hist í viku. Ég hef þarfnast hennar svo mikið þessa helgi til þess að halda í höndina á mér og hana langað það svo mikið en aðstæður bara leyfðu það ekki. Hún kemur heim á eftir og þá ætla ég að baða hana og gefa henni að borða, leggja hana í bólið og breiða yfir hana svo hún geti sofið í hundrað ár.

Það er alveg sama hvað maður verður fullorðinn, maður ræður stundum ekkert við sig. Æpir á barnið sitt af þreytu af því maður var andvaka og svaf í þrjá tíma eða fer að gráta af því að allt er svo erfitt og maður á svo bágt og langar mest að hvíla sig og láta hugsa um sig.

En það er bara ekkert í boði.

Það verður engum að kenna nema sjálfri mér ef ég þarf að taka endurtektarpróf í öllu.

Elsku litli kúturinn minn sagðist ætla að passa mig. Labbaði svefndrukkin og alveg sjálf á klósettið í fyrrinótt þar sem ég er svo slæm í bakinu að ég lofta henni ekki. Kyssir á bágtið þegar ég emja í miðri skeiningu, svo vont að beygja sig svona yfir hana. Prílar sjálf í og upp úr baðinu og kyssir mig á kinnina af því að hún heldur að ég sé lasin. Og sefur í mömmubóli þegar hún er í burtu og svæfir mig með andardrætti sínum.

Þessum undraverða andardrætti sem segir mér að allt verði í lagi, Hrund muni ná að klára verkefnið og fá námslán, ég muni ná prófunum og geð mitt muni aftur komast í jafnvægi svo ég geti haldið áfram að vera kletturinn í lífi stelpnanna minna.

Þangað til er best að ég drekki mikið kaffi og reyna að glósa eitthvað fjandinn hafi það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband