Ótrúlegt!

Ég hreinlega trúi þessu ekki. Ég get svo svarið það að mér gekk vel í prófinu í forna málinu áðan. Sat meira að segja bara tvo af þremur tímum. Ótrúlegt! Gleðilegt!

Sprundin vonast til að klára kommóðuna í dag. Fór aftur með hana upp í skóla á þriðjudag að smíða og var líka að smíða á miðvikudag. Var svo í stærðfræðiprófi í morgun og ætlar að smíða eftir það. Kennarinn hennar veit að það er lífið sem liggur við, hún hafi fyrir konu og barni að sjá og megi ekki við því að missa námslánin. Greyið er sú eina í námskeiðinu sem hefur ekki unnið við þetta svo hún er helmingi lengur að öllu. Hún fer hins vegar að vinna eftir prófin svo þetta er allt að koma.

Ég er bara svo glöð að hafa fengið hana heim. Eftir fjórar nætur hjá mömmu sinni að passa og mörg kvöld upp í skóla fengum við loksins að eigast og knúsast á þriðjudagskvöldið (hún kom heim að verða ellefu um kvöldið). Við sofnuðum í einni flækju og sváfum eins og steinar. Svo miklu betra en að sofa einn og þótt Rakel sé sætust er efitt að hafa hana upp í. Hún talar látlaust upp úr svefni og rekur upp öskur með reglulegu millibili (veit ekki hvers konar draumfarir þetta eru eiginlega) eins og himinn og jörð sé að farast og svo hún vill bara sofa á mínum kodda og hafa höndina í andlitinu á mér. Samt yndisleg.

Svo fór hún í sveitaferð með leikskólanum á miðvikudaginn (við mömmur komumst ekki með sökum prófa og var hún held ég eina barnið án foreldra, sniff) og datt úr rútunni á andlitið, eins og henni einni er lagið. Er öll í sárum í kringum munn og enni og bætast þau sár við marið á gagnaugunum og sárið sem því fylgdi þar sem það er stutt síðan hún stangaði gólfið á leikskólanum og labbaði á stiga hjá pabba sínum.

Fórum í afmæli til Einsa bró í gær. Sólin skein og allir voru glaðir og það var yndislegt að hafa afsökun fyrir því að vera ekki að læra. Rakel fór svo til pabba síns og við Hrund heim að læra og svo í mat til tengdó.

Verðum báðar að læra stíft um helgina svo Rakel eyðir líklega einhverjum tíma með ömmunum.

Tvö próf búin, þrjú eftir. Í íslenskunni er það hljóðfræði (hjálp, kann ekkert, kann einhver hljóðfræði?) og tvö í spænsku. Kvíði þeim nú ekkert þótt ég sjái ekki fram á að ná að lesa allt efnið fyrir prófið í menningu, sögu og þjóðlífi Rómönsku-Ameríku. Ekki gott en verður að duga.

Sól og sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband