2.6.2008 | 10:37
Útilega
Þetta var vægast sagt yndisleg helgi. Eftir að hafa reynt að vinna í fjóra tíma á föstudag gafst ég upp. Gat engan veginn fengið forritið sem ég átti að nota til að virka og var orðin öskuill út í tölvuna. Geðið léttist um leið og ég hætti og skaust út til að sækja rauðhaus í leikskólann. Var komin fyrir eitt, vildi ná henni áður en hún færi út ef það skyldi byrja að rigna. Nennti ekki að taka rennblautan pollagalla með í ferðina. Rauðhus var að venju kátur og að farast úr spenningi yfir útilegunni, hafði ekki talað um annað alla vikuna. Ég baðaði kút og sjálfa mig og á meðan Rakel horfði á Dýrin í Hálsaskógi kláraði ég að taka okkur til. Við Sprund höfðum pakkað og sett nær allt í bílinn kvöldið áður þar sem við vildum leggja sem fyrst af stað.
Hrund hætti snemma í vinnunni, kom hjá við Rósu frænku og keypti æðislega gönguskó (Rósa vinnur hjá Cintamani, núna eigum við kyrnur báðar 20 þúsund króna gönguskó keypta með töluverðum afslætti) og fór svo til mömmu sinnar að ná í plastflöskur sem hún fyllti af vatni. Pabbi Hrundar og bróðir hans fóru frekar illa út úr skjálftanum, sluppu báðir ómeiddir en allt var á tjá og tundri og vatnið á Selfossi ekki drykkjarhæft. Við lögum af stað austur rétt fyrir fjögur og vorum komnar á Selfoss stuttu seinna. Þar vorum við í góðu yfirlæti þar til Bjarndís, Kjartan og Einar mættu á svæðið og héldum við þá á Hellishóla þar sem við ætluðum að tjalda.
Reyndar misstum við af afleggjaranum og snérum fyrst við hjá Seljalandsfossi. Það var hins vegar þess virði þar sem Fljótshlíðin er dásamlega falleg. Þjóðvegurinn liggur í gegnum svo flatt og óspennandi svæði en tjaldstæðið var umkringt grænum hlíðum með fjöllin í fjarska.
þegar við vorum komin á áfangastað kom í ljós að í flýtinum höfðum við Hrund ekki tekið nýja, stóra, æðislega, góða tjaldið okkar heldur gamalt, götótt, hlandlyktandi tjald sem við fengum lánað fyrir tveimur árum. Hrund brunaði í bæinn, var einhverja þrjá tíma allt í allt með stoppi í bænum. Yndislegust að nenna þessu.
Rakel og Einar hoppuðu í hoppukastalanum sem þarna var og hlupu skríkjandi um allt svæðið. Að verða tíu grét Einar úr þreytu og var lagður inn í tjald. Rakel fékk samloku og súrmjólk og svo röltum við um svæðið og lékum okkur og lásum þangað til Einar var sofnaður. Krílið hafði sem betur fer blundað í rúman klukkutíma fyrr um daginn, annars hefði hún líka verið farin að gráta úr þreytu. Rakel fékk að leggja sig inn í tjald hjá Einari og steinsofnaði milli hans og Kjartans sem fór stuttu seinna að sofa.
Ég og Bjarndís spjölluðum í góða veðrinu þar til Hrund kom. Sprundin kom með grenjandi rigningu með sér en við náðum að koma tjaldinu þurru upp þar sem maður tjaldar himninum fyrst og við náðum að gera það áður en hellidemban byrjaði. Við þjár fengum okkur samloku og kókómjólk og fórum svo örþreyttar inn í tjald að verða tvö.
Við fengum gjeggjað veður á laugardag en þar sem blés svolítið gerðum við þau algengu mistök að vanmeta sólina og gleymdum að bera sólarvörn á Rakel þangað til leið á daginn. Ótrúlegt en satt þá brann hún ekki þessi sérstaki litli rauðhaus sem berður brúnn í sundi. Mamma hennar brennur miklu frekar enda var hún brunnin eftir daginn. Eftir morgunmat og leik fórum við í sund á Hvolsvelli. Ég gleymdi því enn einu sinni hvað ég verð fljótt brún og skarta núna fallegu fari eftir skápalykilinn sem ég hafði kringum kálfann. Rakel vildi vita hvar pabbi hans Einars ætti heima. Á meðan við lágum í bleyti reyndum við að útskýra fyrir henni að sumir ættu heima á hjá pabba sínum og mömmu. Ég veit nú ekki hvað komst til skila en hún er aö komast á þann aldur þar sem hún fer að velta sínu fjölskyldumynstri fyrir sér.
Eftir hádegismat, hopp og skopp og lúrinn hans Einars fórum við á Torfastaði, fallegasta sveitabæ sem ég hef séð. Okkur hafði verið sagt að þar væri vel tekið á móti börnum og vildum við leyfa krökkunum að klappa hestum og hundum ef það væri hægt. Við vorum nú svo heppin að krökkunum var leyft að fara á bak og þau teymd út um allt, þau fengu að halda á hvolpum og gefa heimalingnum að drekka og skoða landnámshænur og ungana þeirra og svo auðvitað endurnar og andarungana sem syntu um í sinni tjörn. Börnin voru í skýjunum. Rakel komst ekki yfir að hún sæti á baki ALVÖRU Litla kalli eins og Lína langsokkur og sat hestinn eins og hún hefði aldrei gert annað.
Um kvöldið grilluðum við og krakkarnir ærsluðust en þau fóru svo snemma að sofa, rjóð í kinnum og alsæl eftir daginn. Við hin spiluðum og borðuðum nammi en hröktumst á endanum í rúmið vegna kulda. Nóttin var líka ísköld og ekki mikið sofið í okkar tjaldi. Nema barnið, hún svaf eins og steinn án þess að rumska einu sinni.
Daginn eftir var komið hávaðarok sem skók tjaldið svo hvein í því. Það vakti okkur Rakel og vöktum við svo Sprundina og skipuðum henni út í rokið með Rakel að pissa. Eftir morgunmatinn tókum við allt saman en það tók dágóða stund í rokinu. Við fórum svo á Tumastaði sem er mitt inni í litlum skógi og fundum þar skjól milli trjánna og bekki og borð. Sólin skein og trén ilmuðu og trén voru svo óvenju há að okkur leið eins og við værum í útlöndum. Við elduðum hádegismat og fengum okkur kakó og bakkelsi í eftirrétt. Við Sprundin og Rakel fórum svo á sýninguna hennar Siggu á Grund (minni mig) á Hvolsvelli en Sigga sker snilldarlega út í tré. Ég sá frétt um sýninguna um daginn og vissi að Hrund mynd fíla að sjá þetta.
Þegar klukkan var að verða þrjú ákváðum við að fara í bæinn sem við og gerðum, gengum frá dótinu og fórum svo í mat til mömmu. Við Hrund vorum gjörsamlega að leka niður úr þreytu og vorum komnar upp í rúm fyrir tíu.
Það var yndislegt að sofna hrein í hlýju, mjúku rúmi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:43 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.