Elsku rauðhaus ...

... var hágrátandi þegar ég kom að sækja hana í gær. Þekkti grátinn um leið og ég opnaði hurðina og fékk fiðrildi í magann, gráturinn var svo sár og ekkinn þvílíkur. Fann hana inn á baði með blóð í öllu hárinu og á annarri hendinni og hor niður á maga fyrir utan a að vera eldrauð í framan af gráti. Tók hana í fangið og sussaði og bíaði og knúsaði litla, sveitta kroppinn. Hún hafði víst dottið og lent með höfuðið á horninu á bókahillu og hlaut skurð á höfuðið sem blóðið lagaði úr (að mér fannst). Mömmuhjartað tók aukaslag við þessar fréttir og maginn fór kollhnís í hvert skipti sem ég leit á blóðið í hárinu. Það virtist ekki þurfa að klemma sárið saman, það var sem betur fer ekki mjög djúpt en alltaf blæðir jafn mikið úr höfuðleðrinu á börnum.

'Ég vil ekki þvo hendurnar' grét barnið og hélt um hægri höndina sem var öll útötuð í blóði. Það tók mig svolitla stund að útskýra fyrir henni að það væri ekkert að hendinni heldur væri blóðið úr höfðinu. Við mamma (sem var með mér) fengum á endanum að þvo hendurnar. 'Ég vil ekki fara í bað' grét barnið' og ég sagði að hún þyrfti það ekki. 'Ég vil ekki fara í buskur' grét barnið og fékk að labba heim á sokkabuxunum (mér var svo kalt um morguninn að ég klæddi í hana í sokkabuxur í einhverju stundarbrjálæði, allt of heitt fyrir þær). Ég reyndi að dreifa huganum til að sefa hana og tókst það nokkurn veginn. Á göngunni heim fangaði fluga athygli hennar og þá var hún fljót að gleyma að hún væri slösuð. Þegar heim kom kom ég krílinu fyrir upp í sófa og leyfði því að horfa á Bangsímon. Límdi Línu Langsokksplástur á höfuðið (tyllti honum réttara sagt, var bara fyrir sálina litlu) og fékk að baða hana eftir kvöldmat. Sjúklingurinn fékk tvær bækur fyrir svefninn og var sofnuð fyrir átta, uppgefinn eftir að hafa slasað sig svona.

Annars er bara sumar í kotinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband