Fastur blettur

Það er svo margt sem mig langar að komast yfir í þessari viku en hún en bara ekki nógu löng. Á sunnudögum hugsa ég oft um hvað ég þarf að gera í komandi viku og hvað mig langar að gera. Síðastliðið sunnudagskvöld kom þetta upp í huga mér:

-Pumpa í dekkin á hjólinu svo ég geti farið út að hjóla

-Fara í Byko og skila því sem við keyptum í síðasta 'útileguholli' og sjáum engin not fyrir (keyptum t. d. fjórar hitakrúsir en okkur nægja tvær (vissum ekki að það væru tvær í pakka))

-Hitta Maríu vinkonu og krakkana hennar, fara í göngutúr í Laugardalnum með þeim og njóta blíðunnar

-Fara í heimsókn til tengdó áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Fara í heimsókn til mömmu áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Fara í heimsókn til ömmu áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Versla inn í Bónus

-Grilla helst einu sinni

-Fara í bíó með Rakel og Hrund

-Þrífa bílinn 

 

Glætan bara. Allt of mikið. Við erum búnar að grilla, búnar að hitta Maríu og njóta blíðunnar, ætlum í Bónus á eftir, í heimsókn til tengdó á fimmtudaginn, mömmu á föstudaginn og ömmu á laugardaginn áður en pabbi hennar Rakelar sækir hana. Við ætlum að sleppa bíóinu og þrifum á bílnum. Ég stefni á að pumpa í dekkin á hjólinu mínu eftir Bónusferð. Svo má hitt eiga sig þar til seinna.

Veðrið var yndislegt í gær og ákváðum við því frekar að hitta Maríu en morkna í Bónus. Hún kom með litla kútinn sinn og stelpuna sína og svo röltum við Rakel og Hrund með þeim niður í Laugardal. Stelpurnar hlupu um í sólinni og skemmtu sér konunglega. Fórum í Grasagarðinn þar sem María gaf litla kút umkringd dúfum og á meðan léku Arna, stelpan hennar, og Rakel sér. Voru ótrúlega krúttlegar. Höfðu komið sér fyrir á túni og sátu þar og spjölluðu eins og gamlar kerlingar.

Ég hafði varað Rakel við gæsaskítnum í grasinu en hún lét það, eins og mörg önnur orð mín, sem vind um eyru þjóta. Brölti um í grasinu og pældi ekki í neinum skít. Við ákváðum svo að fara á kaffihúsið í garðinum og þá rak Hrund augun stóran skítablett aftan á kjólnum hennar Rakelar. Þeir voru fleiri en einn. Það var líka skítur á gammosíunum sem hún var í og þar sem þeim sleppti og berir leggir tóku við mátti finna fleiri klessur. Hrund þreif hendurnar og leggina á barninu inn á klósetti kaffihússins en við létum hitt vera. Stelpurnar gæddu sér á samlokum og við hinar spjölluðum og svo var kominn tími til að rölta heim.

Rakel varð súr á svip þegar hún sá Maríu og co. fara. Ég sagði henni að þegar hún væri búin að vera í sumarfríi með pabba þá færi hún í frí með mömmunum. Við þessi orð glennti Rakel upp augun, dró djúpt andann og svelgdist nær á í æsingnum:'Að heimsækja afa Douglas?' vildi hún vita þar sem hún tengir sumarfrí við hann. Hún var nú pínu leið þegar ég sagði henni að ekki gætum við það í sumar en lofaði henni sumarbústað nálægt sjónum og útilegu sem var þó bót í máli.

Þegar kom að því að þrífa barnið fyrir svefninn kom í ljós að skíturinn á kjólnum hafði farið í gegnum hann. Mátti finna skít á rassinum á gammosíunum líka. Þegar hún var komin úr þeim var greinilegt að skíturinn hafði farið í gegnum þær og var eins blettur á nærbuxunum. Þegar hún var komin úr þeim kom í ljós að skíturinn var kominn í gegnum þær og á rassinn á barninu. Og það var sama hvað ég skrúbbað botninn á stelpunni í sturtunni, bletturinn fór ekki úr húðinni. Ég gat ekki lagt rassinn á henni í baðkarið og makað hann út í grænsápu líkt og ég gerði við fötin svo hún þurfti að fara að sofa með daufan blett á rassinum.  Ég vona bara að þetta fari úr í næsta þvotti.

Annars er ég að velta fyrir hvar ég get komið því á framfæri að það er upprunalega hugmynd Rakelar að kalla mömmur sínar mömmu og mammí. Hún reyndi sem kríli að segja mamma Díana en það kom heldur brenglað út. Við Sprundin tókum það sem út kom og fínpússuðum það aðeins og höfðu þá búið til nýyrðið 'mammí'. Lesbíupari á leikskólanum hennar Rakelar fannst þetta svo sniðugt að þær tóku þetta upp líka. Allt í lagi með það en þegar þær voru í þættinum Fyrstu skrefin kom það út eins og þetta væri þeirra hugmynd. Það finnst mér einum of. Í gær hitti Hrund konu,sem er mamma stelpu sem var á leikskólanum sem Hrund var að vinna á, og sagði hún henni að vinkonur sínar létu strákinn sinn líka kalla sig mömmu og mammí eftir að hafa heyrt það (veit ekki hvaðan). Þetta bara breiðist út! Og mér finnst að Rakel, og við allar, ættum að fá kredit fyrir þetta orð!

Gyðan stakk upp á að ég skrifaði grein um þetta. Kannski ég geri það bara. Ef það fæðist að meðaltali eitt barn í mánuði sem á tvær mömmur þá á þetta nýyrði enn frekar eftir að breiðast út.

Annars var ég líka að velta því fyrir mér hvort það væri hlutskipti konunnar að vera sífellt með fangið fullt. Af einhverju. Eftir að ég flutti að heiman er ég endalust berandi eitthvað út um allt. Og flestar aðrar konur gera það líka. Ef þær bera ekki barn í leginu þá bera þær barn sem þær hafa ungað út, byrðar heimsins á á herðum sér, þvott, innkaupapoka, mat ...

Sjitt, er svo svöng að ég get ekki hugsað, alveg að koma kaffi!

Svo er greinilegt að við Sprundin erum farnar að kvíða því pínku smá að hafa ekki Rakel hjá okkur í tvær vikur. Þegar ég var komin upp í rúm í gær mundi ég að ég hafði gleymt að skipa Rakel á klósettið fyrir svefninn. Þar sem ég vildi ekki að hún vaknaði hlandblaut tók ég krílið í fangið og bar hana á klósettið. Hún pissaði og kúrði í hálsakotinu á mér á meðan. Fylltist ég þá svo mikilli ást að ég ákvað að taka hana aðeins inn í stóra rúm og knúsast í henni þar. Hrund gerði slíkt hið sama þegar hún kom upp í. Ég hafði ætlað að biðja Hrund um að bera Rakelitu inn í sitt rúm en á endanum tímdum við því ekki. Ákváðum bara að leyfa henni að kúra á milli okkar enda er hún búin að biðja um það nokkrum sinnum undanfarið.

'Hvernig ætli sé að eiga svona skrítnar mömmur' spurði ég Hrund þar sem við lágum sitthvoru megin við barnið og dáðumst að vel sköpuðum tám, freknum á nefi og mjúkri húðinni. 'Mömmur sem fara í dúkkuleik með sofandi barnið sitt.'

Við elskum hana bara svo ofur- og undurheitt.

Við sváfum líka allar eins og steinar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þið verðið pottþétt að koma þessu á framfæri! Rakel á skilið kredid fyrir nýyrðið sitt sem er greinilega þörf á í okkar samfélagi. Nú er bara spurning hvað barn sem á tvo pabba á að kalla þá... Eruð þið ekki til í að spyrja Rakel um hennar álit á því máli? ;)

Gyða 9.7.2008 kl. 11:12

2 identicon

Yrði það ekki pabbi og pabbó - pabbi Róbert - pabbi Ró - pappó.

svipað og

Mamma Díana - mamma Dí - mammí

 Hlakka til að sjá ykkur seinna í dag.

Tengdó 

Tengdó 10.7.2008 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Hér skráir Díana Rós fyrir hönd litlu fjölskyldunnar hinar ýmsu athafnir hennar og deilir með ykkur sögum úr stelpukotinu þeirra í Skipasundi

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 56567

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband