2.8.2008 | 00:18
Ferðasaga (svakalega löng og djúp og allt það)
Ég hef ákveðið að skrifa ferðasöguna jafn óðum. Bæði veit ég að ég á aldrei eftir að muna öll smáatriðin sem ég vil koma frá mér og sem skipta máli og svo er skrifþörfin farin að segja ansi vel til sín svona á þriðja degi skrifleysis. Í dag er:
sunnudagurinn 27. júlí 08
Við tókum því rólega fyrsta daginn í fríinu. Rakel hafið vaknað um nóttina við enn eina köngulóarmartröðina og varð ekki róleg fyrr en hún var komin á milli okkar í stóra rúmi. Það er misjafnt hvernig við mömmur sofum með bröltboltann upp í. Þessa tilteknu nótt gekk soferíið ekki vel. Klukkan fjögur um nóttina gafst ég upp, ég gat ómögulega sofið og fór Hrund með krílið yfir í sitt rúm. Um morguninn ætlaði Sprundin ekki að koma sér á fætur þrátt fyrir að Rakel vaknaði ekki fyrr en um hálf tíu. Eins og áður kenni ég því um að konan mín fer hreinlega allt of seint að sofa. Það er ekkert skrítið að hún geti ekki vaknað. Svo er ég nátla svo hardcore, urrrrrr, að ég læt mig hafa það fara meðvitundarlaus á fætur.
Rakel borðaði morgunmat á meðan ég gekk frá þvotti og vaskaði upp. Rósa frænka kom svo í kaffi og hún og Rakel skemmtu sér vel á meðan ég bloggaði. Hrund reis úr rekkju um það leyti sem Rósa var að fara og þá settum við í annan gír enda klukkan farin að nálgast hádegi. Hrund setti allt dótið í bílinn á meðan ég byrjaði að þrífa. Hún lauk svo þrifunum og við hoppuðum í sturtu og þá vorum við tilbúnar. Gud i himmelen hvað það var heitt í bílnum. Það var 22 stiga hita úti og 100 gráður í bílnum. Þið vitið nú öll að ég hef verið að stikna undanfarið, nálastungukonan hefur verið að auka blóðflæðið um líkama minn og næstum gengið af mér dauðri (auðvitað verið að laga mig samt). Ég var í síðermabol og kjól og hélt ég yrði ekki eldri. Þetta var hreinlega sársaukafullt.
Leiðin vestur á nes gekk samt vel. Tengdó lánaði okkur eitthvað ipoddót svo við gátum hlustað á ipodinn í bílnum og það var ansi ljúft. Rósa kom með okkur í bíl og sofnuðu hún og Rakel (eða misstu meðvitund í sólinni) þegar ferðin var hálfnuð. Hrund var við það að deyja úr hita svo hún reif sig úr bolnum og keyrði á brjóstahaldaranum megnið af ferðinni. Ég var þannig klædd að ég gat lítið klætt mig úr svo ég naut þess bara að finna svitann leka niður andlit og bak.
Rakel naut þess líka að geta klagað okkur mömmurnar í Rósu sína. Sagði henni frá því þegar hún fór í ísbúð með pabba sínum og fékk þennan líka fína ís. Spurði svo:´Er ís ekki góður. Jú, það fannst Rósu jafn augljóst og henni. Rakel benti þá á mömmur sínar í framsætunum og sagði: Þessar!!! fara aldrei með mig í ísbúð
Jæja, krakkar mínir. Þetta mömmustand er bara tapað spil frá upphafi held ég.
Veðrið var fínt þegar við komum, smá gola sem var ó svo kærkomin. Orkan frá jöklinum sló mig eins og hnefahögg í magann, saltlyktin af sjónum var frískandi og vitinn bauð okkur velkomnar. Í mörg ár hefur Malarrif verið fastur punktur í lífi mínu og trúið mér, það er eitthvað sem ég hef þurft á að halda. Malarrif er rok og rigning, glampandi sól og hlýrabolur, öskrandi brim og svört fjara, kaffi á morgnana og bjór í hádeginu, núðlusúpa, flísteppi, kaldar tær og Trivial, frjókornaofnæmi og þúsund hnerrar, ísköld sturta og ömurlegt rúm, ullarsokkar og inniskór, beygla með smurosti, hreinsun í sálinni og ein fjölskylda með öllu.
Þessi ferð hefur verið óvenju tæknileg. Farsímasambandi hefur verið komið á og veit ég ekki hvað mér finnst um það. Það er gott að geta hringt í þann sem enn er ókominn og beðið hann um að taka með það sem gleymdist. En hluti af friðnum fer með þessu sambandi. Það tóku nær allir með sér tölvur og það er nú allt í lagi þótt ekkert sé netsambandið (sem er líka bara fínt). Ég, Rósa, Hrund og Elísabet Rós höfum verið að ipodast og núna er minn fullur af tónlist (Glætan samt að það sé mér að þakka, ég hef verið að reyna að læra þetta (hef samt mjög takmarkaðan áhuga á því) en það sló út á mér köldum svita þegar Hrund stakk upp á því að ég setti tónlist inn á minns eigin ipod sjálf. Systir mín sá að lokum aumur á stóru systur sinni og hjálpaði henni. Takk!!!) Við Rósa tókum báðar með okkur prjóna og svo er hér nóg af bókum og krossgátum sem er alveg hreint yndislegt. Hrund tók með sér helling af smíðadóti og föndurdóti og hefur verið að tálga úr rekaviðnum hérna og þess á milli leyft Rakel að smíða með sér. Rósa og Hrund deila fönduráhuga og hafa verið að gera hálsfestar og eyrnalokka og ég veit ekki hvað. Ég skrifa bara og les og er þá algjörlega fullnægð.
Ég hef nú ekki hugsað mér að skrifa svona mikið á tveggja til þriggja daga fresti en get ekki lofað neinu. Núna ætla ég að vista þetta og skella þessu svo inn þegar ég kem í bæinn á föstudaginn.
Rósa, Hrund, Einar Jóhann og Elísabet Rós sofa. Rakel situr upp á vatnstanki (henni er að takast að slátra þriðja skópari sumarsins með prílinu upp á þennan vatnstank, við hverja ferð skrapast fram af tánum og bráðum kemur gat) og teiknar kanínu með krítunum sínum, Valdís er eitthvað að vinna í sinni tölvu, ég skrifa og mamma les. Það er logn og sólin er að brjótast fram úr skýjunum. Rakel er búin að tilkynna okkur að þegar við erum búnar að tölvast og lesa séum við að fara að skoða brimið.
Ég er að reyna að hreinsa til í sjálfri mér og verður að segjast að þetta er besti staður í heimi til þess.
Þriðjudagurinn 29. júlí 2008
Ég sit hérna í steikjandi sólskini í þunnu pilsi, sem ég hef kuðlað saman á lærunum, og ermalausri mussu. Við hlið mér stendur krílið mitt í engu nema kjól og nærbuxum og með sólhatt á rauða kollinum sínum. Systkini mín liggja hálfber á teppi í grasinu og lesa sem og Valdís frænka. Sprundin er í göngu á brjóstahaldaranum og mamma nýtur sólarinnar í rauðu bikiníi. Örlítil gjóla bærir strá og hár og er kærkomin eftir margra tíma blankalogn og áðurnefnt sólskin. Ég hreinlega dýrka hversu fljótt veður skipast í lofti hérna á nesinu. Í gær var heldur kalt og sátu allir úti í hlýjum peysum og með teppi ofan á sér. Allt var rennblautt eftir næturrigningu og Rakel var í essinu sínu í pollagalla og stígvélum. Í dag er hreinlega baðstrandaveður. Hitinn slagar hátt í hitann í Guanacaste og þá er mikið sagt. 26 stig í skugga. Yndislegt alveg hreint.
Mikið óskaplega er ljúft að gera ekki neitt. Ég er búin að lesa þrjár bækur með áfergju, spjalla, spila á hverju kvöldi, prjóna og hlusta hlusta hlusta á tónlist, eitthvað sem ég fæ aldrei nóg af. Ég hef borðað úti í nær öll mál, enda bragðast allt betur með smá sjávarseltu og roki, og látið vitann, sjóinn og og jökulinn umvefja mig og endurnæra. Ég heillaðist svo mikið af bókinni Himnaríki og helvíti að ég þurfti að taka fram skrifbókina mína og skrifa niður hinar mörgu fleygu og ó svo sönnu setningar sem finna á má í þessari snilldarbók. Ég bjóst hreint ekki við því að bókin myndi höfða til mín og því var það þvílík víma að sogast inn í textann, frásögnina, atburðarásina, öll dýrlegu orðin. Ekkert hefur eins mikil áhrif á mig og vel sögð orð. Úff. Ég er enn eftir mig.
Dvölin í bústaðnum er nær hálfnuð og hefur verið vægast sagt ljúf. Við Sprundin erum nú eitthvað að beila á hringferðinni. Nennum hreinlega ekki stressinu, veseninu og skipulagningunni sem henni fylgir. Hún verður bara farin seinna og þá tökum við tvær vikur í hana. Við höfum verið að velta því fyrir okkur að leggja samt af stað norður á mánudagsmorgun og halda til elsku Oddnýjar á Akureyri. Við erum að gæla við það að þiggja boð hennar um gistingu og fá jafnvel að gista þrjár nætur. Dagana myndum við svo nýta í ferðir til áhugverðra staða í kring, Mývatns, Aðaldals, Hólmavíkur ... Svo myndum við eiga margar gæðastundir með Oddnýju sem við söknum svo sárt.
Það er enginn með bústaðinn um verslunarmannhelgina svo það er aldrei að vita nema maður lengi dvölina og fari heim á laugardegi í stað föstudags. Þar sem við ætlum ekki hringinn höfum við meiri tíma þegar við komum heim, Rakel getur farið til pabba síns og verið yfir nótt, við getum þvegið og gengið frá í rólegheitum og pakkað fyrir næsta ferðalag. Eftir Akureyrardvölina (sem vonandi verður úr, eigum eftir að tala við Odddu poddu) fáum við svo helgi til að jafna okkur áður en vinnan tekur við. Við Hrund erum að fara á Eric Clapton tónleika og svo er gay pride gangan góða 9. ágúst. Allir að mæta! Vonandi getur Rakel svo farið til pabba síns um kvöldið því okkur mæðurnar langar svolítið á djammið. Það eru allavega tvö ár síðan við fórum síðast á ballið.
Ég ætla taka mér einn auka dag í frí, mánudaginn eftir fyrrnefnda helgi, og leyfa vinnufamilíunni að hitta rauðhaus. Það er alveg nauðsynlegt held ég bara. Var líka að hugsa um að grafa upp þrjú eintök af ljóðabókinni minni og gefa þeim, ég á að eiga kassa af þeim upp á lofti. Það eru ekki allir svo heppnir að fá bókina hjá mér en þær eru svo yndislegar að þær fá að kynnast þessu fyrsta barni mínu (ekki það að ljóðin séu einhver eðalljóð, ég var bara 18 ára krakkaskítur þegar hún kom út, en hún er hluti af mér).
Ætli ég segi þetta ekki gott núna. Rakel er farin með Einari og Elísabetu niður í fjöru, ég er búin að opna einn kaldan í sólinni og Hrund er að búa sig undir að fara að grilla hamborgara oní liðið.
Best ég fari og hringi í Oddnýju. Yfir og út.
Föstudagurinn 1. ágúst 2008 (kominn ágúst, ótrúlegt!)
Mér finnst þú ekki kúkur í framan gall í rauðhaus og gráblá augun horfðu rannsakandi á mig undan börðum sólhattsins. Slegin hitamet náðu hingað til okkar á Snæfellsnesið og sólin hefur bakað okkur og grillað líkt og við annað kjöt til átu. Mér finnst ég vera orðin kúkabrún í framan og veit ekki hvað mér finnst um það. Ég er ekki vön því að þurfa að díla við það á klakanum. En verði ég svona brún í sól á svona stuttum tíma er mér líklegast ætlað það. Ég þarf einhvern veginn að reyna að komast yfir það að finnast ég ljót, þessi hugsun í kolli mínu er merkilegur andskoti og þvert á það sem annað fólk segir mér. Samt er ég alltaf gapandi hissa ef einhver segir mig fallega. Mér finnst þú sæt svona brún sagði konan mín áðan og ég heyrði votta fyrir pínulítilli þreytu í röddinni. Hún verður nebla stundum svo þreytt á því hvað ég tala illa um sjálfa mig segir hún og þegar hún segir það er hún líka sár í röddinni. Ég verð að taka á þessu.
Úff, ég er alveg að stikna. Sit hér í bol og pilsi og held ég neyðist til að rífa mig úr einhverju. Ég lá nær allan fyrradag hálfnakin í grasinu, hlustaði á tónlist, las og hugsaði. Var meira að segja ber að ofan, spéhrædda ég. Rétt huldi brjóstin þegar Guðni vinur Einars var nálægt, ekki af því að ég er kynbomba heldur af því að ég vildi ekki særa blygðunarkennd hans. Spikið á maganum hefur nú á sér ögn brúna slikju sem fær mig til að hugsa aðeins betur til þess. Ég lá líka á maganum og brúnaði bakið. Hefði betur sleppt því. Gleymi alltaf hvað það vantar mikið litarefni í húðina á bakinu, núna er ég öll í hvítum doppum.
Ég held ég verði bara að sleppa því að vera ber að ofan á næstunni. Komst nefnilega líka að því í gær að brjóst mín eru undarlega löguð. Við höfum spilað öll kvöldin í bústaðnum og nokkrum sinnum hef ég lent í sæti þar sem spegilmynd mín blasir við mér. Það er ekki alveg að gera sig. Mér til undrunar komst ég að því að ég er með miklu stærri brjóst en ég hélt. Þegar ég horfi niður eftir bringunni finnst mér þau ekkert stór en þegar þau eru brjóstahaldaralaus (mér finnst það svo ósköp notalegt) og hulin bol og peysu þá bara taka þau alla bringuna. Þau byrja einhver staðar í handarkrikunum og flæða út um allt. Ég hef enga stjórn á þeim, þau eru hreint ekki stinn og ungleg eða neitt bara. Ég hafði nú betri stjórn á þeim þegar ég var grennri og þá hreinlega af því að þau voru minni. Hann fer alveg með mig þessi líkami minn. En eins og ég segi, ég ríf mig ekki úr að ofan á næstunni.
Haldiði svo ekki að bæði Hrund og mömmu hafi tekist að taka af mér myndir sem ég er nokkurn veginn sátt við. Ég á rosalega erfitt með að skoða myndir af mér, ég verð hreinlega oft gráti næst, finnst ég koma svo illa út. Hrund verður mjööööög reið þegar ég eyði myndum sem hún hefur tekið af mér út af myndavélinni. Þetta er því annað sem ég hef verið að vinna í og ég er mjög glöð með þann áfanga minn að vera nokkuð sátt við heilar fjórar myndir af mér. Húrra fyrir mér! Ég held að ég hafi tekið fyrsta skrefið í vinnunni þegar ég sýndi vinnufamilíunni nokkrar myndir af mér (ekki af því að ég er að drepast úr athyglissýki heldur voru þetta myndir af brúnku minni sem þær eru mjög heillaðar af og svo nokkrar fyndnar af atburðum sem við höfðum talað um í vinnunni). Ég var svoleiðis með dynjandi hjartslátt allan daginn og rennsveittar hendur mínar skildu eftir sig blaut för á lyklaborðinu. Ég sat og starði á klukkuna og mannaði mig upp í að ljúka þessu af. Á endanum leið að því að Gyða var að verða búin að vinna svo það var að duga eða drepast. Og mér tókst það. Ég sýndi þeim myndirnar og það var ekkert hræðilegt.
Ég held þær viti ekki hversu stórt mál þetta var fyrir mig. Ég eyddi svo mörgum árum í að brjóta mig niður, þess fullviss að aðeins þannig gæti ég skapað mig upp á nýtt, orðið sú sem ég vildi vera. Mér tókst aldrei að breyta mér (sem betur fer), mér tókst bara næstum því að drepa mig á því að reyna það. Sem betur fer náði ég aldrei að brjóta mig alveg niður, þá hefði farið illa, en ég eyddi svo miklu af sjálfi mínu að ég er enn að reyna að púsla mér saman. Og ég veit að ég skrifa oft um þetta en það er mér eins nauðsynlegt og að draga andann.
Núna stefnir vinnufamilían á að fara í sund eftir næstu Esjugöngu. Og ég samþykkti uppástunguna! Ég hef þrisvar sinnum farið í sund síðan í fyrrasumar (þá fór ég oft og mörgum sinnum en þá var ég grennri og sáttari við sjálfa mig). Það sem af er sumri hef ég farið einu sinni á Hvolfsvelli, einu sinni í Laugardalslaugina með mömmu og einu sinni í laug í Hvalfirðinum. Ég kveið því í sturtunum að þurfa að labba fram hjá fullt af fólki til að komast ofan í og ég kveið því allan tímann ofan í að þurfa að labba fram hjá fullt af fólki til að komast inn í sturtur. Ég var fegin því að vera gleraugnalaus svo ég sæi ekki hvernig fólk horfði á mig vanþóknunaraugum (ég er klikkuð, ég veit).
Ég las í Fréttablaðinu að fitufordómar væru þeir viðurkenndustu í samfélaginu. Fólk setur samasemmerki á milli þess að vera of feitur og að vera latur, heimskur, metnaðarlaus ... Feitar konur fá minna í laun en grannar konur. Og ég er með það á heilanum að allir sem ég hitti dæmi mig fyrir að vera of feit. Skíthrædd um að fólk haldi að sé ekki neitt, geti ekki neitt. Mér er sama hvað fólki finnst um það sem ég geri, þær leiðir sem ég hef valið í lífi mínu, persónuleika minn. En ég er dugleg þótt ég sé of feit. Auðvitað á þessi ótti minn rætur að rekja til álits míns á sjálfri mér. Sem því miður er svo oggupons. Vinkonur mínar og konan mín hafa séð mig tággranna, veika, feita, þunglynda, glaða ... og nálægt þeim er ég aldrei óörugg (ok, sjaldan). Ég hef forðast það að kynnast fólki í skólanum, mér hefur fundist nógu erfitt að þurfa að standa upp í pásu og labba fram á gang, mér hefur alltaf fundist allir horfa á mig (aftur, ég veit að ég er rugluð!).
Þetta sumar hefur umbylt lífi mínu. Allt í einu er ég tilbúin að kynnast fólki, treysta einhverjum öðrum en þeim sem ég er búin að þekkja í mörg ár. Ég hef jafn vel íhugað það hvort ég sé kannski skemmtileg. Stelpurnar í vinnunni voru svo sannarlega á réttum stað á réttum tíma. Ég held að ég sé tilbúin að veita sjálfri mér eitthvað frelsi til að lifa. Hrund glæddi mig lífi og gaf mér lífsgleðina aftur og sumarið, vinnan og stelpurnar þar gáfu mér kraft til að lifa lífinu.
Það er sól og það er sumar. Dvölin hér senn á enda en líf mitt rétt að byrja. Hlakka til að sjá ykkur öll!!!
Seinna:
Við erum komnar heim. Lögðum af stað upp úr sjö og keyrðum heim í kvöldsólinni. Bárum sofandi kríli í rúmið og allt dótið inn. Vorum ekkert að ganga frá öllu þar sem við erum á leið norður á mánudaginn. Oddný sagði okkur velkomið að gera út frá sér og er ég ekkert smá spennt að hitta hana og fá loksins að sjá hvernig hún býr.
Rakel var ekki alveg á því að fara heim úr bústaðnum. Fannst það þó bót í máli að amma var að fara líka og allir hinir. Ég sagði henni að við myndum gera eitthvað skemmtilegt þegar við kæmum heim, eins og að heimsækja ömmu Sillu.'Ömmu Sillu' endurtók barnið í spurnartón, barnið sem alltaf þarf útskýringu á ömmunum sínum. 'Er það amman með hvolpinn' (tengdó var að fá sér hvolp)spurði hún og ég kinkaði kolli. 'Er það amman sem safnar dýrunum' spurði hún áfram og ég kinkaði áfram kolli. 'Er það amma dýraformaður' vildi hún vita og ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri. Dýraformaður? Hvar nær barnið í þessi orð sín? Hún býr yfir ótrúlegum orðforða þetta undrabarn mitt. Hún týndi krækiber með ömmu sinni og vildi deila með sér eins og alltaf. Kom með nokkur í skál inn í stofu og lagði skálina á stofuborðið: 'Ég set þetta bara hérna svo að allir geti fengið sér'. Snillingur.
Annars gleymdi ég að geta þess áður hversu sjúklega ég er farin að kvíða spilakvöldi vinnufamilíunnar sem á að eiga sér stað þegar ég sný aftur úr fríi. Við höfðum hugsað okkur að spila Party og co. og fá tvo í viðbót (fyrir utan okkar fjögurra manna fjölskyldu) til að spila með. Ég er nú frekar feimin en ætlaði samt að láta slag standa. Eftir að hafa spilað umrætt spil í bústaðnum er ég eiginlega hætt við. Mér fannst nógu erfitt að þurfa að humma og leika og teikna og móta úr pípuhreinsara bara með fjölskyldunni. Ég á eftir að deyja ef ég þarf að gera þetta með einhverjum öðrum en þeim. Vinnufjölskyldan kannski sleppur en ekki einhver utanaðkomandi. Ég myndi þurfa að vera haugadrukkin og mig langar ekki að vera sú eina sem er haugadrukkin. Ég er eiginlega að vona að við getum að minnsta kosti tekið eitt spilakvöld bara fjórar. Svo ég geti æft mig og komið hægt og bítandi út úr skelinni. Við verðum bara að spila Trivial og sötra bjór. Hljómar það ekki bara vel stelpur? Ég bara veit ekki hvort ég höndla hitt.
Æ, ég held ég fari bara að koma mér í bólið. Veit ekki hvort nokkur manneskja nennir að lesa þessa ritgerð.
dr
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:46 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 56566
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ok, ég verð að kommenta jafnóðum og ég les... það er ekki séns að ég muni allt sem ég vil segja eftir að ég klára færsluna.
Í fyrsta lagi: Díana, þú átt að vera búin að læra það að vera ekki í langermabolum! Þú verður alltaf að vera þannig klædd að þú getir auðveldlega fækkað fötum...
Í öðru lagi: Jáááá! Mér myndi þykja mjög vænt um að fá ljóðabókina þína. Þá slepp ég líka við að taka hana á hlöðunni eins og ég ætlaði að gera:)
Já, Díana, ef þér finnst þú ljót:) þá er nú eitthvað að augunum í þér? Vantar þig sterkari gleraugu...eða? En ég kannast við þetta syndróm, að tala illa um sjálfan sig, en maður verður bara að trúa því að fólk sé ekki stöðugt að ljúga að manni og reyna að taka bara hrósinu:)
Maður sá nú hvað þetta var erfitt fyrir þig að sýna okkur myndirnar:) en þú þurftir ekki að hafa neinar áhyggjur:) Þú varst mjög sæt á þeim öllum, alveg eins og þú ert í dag. Í sambandi við sundið, ég er líka sko búin að fitna rosalega mikið og kannast ekkert við þessa bollu í speglinum, þannig að ég kveið því frekar mikið að spranga um á bikiníi á Spáni. En svo, þegar allt kom til alls, þá fannst mér það bara ekkert svo óþægilegt. Þegar ég var grennri (án þess þó að vera eitthvað svaka mjó) þá var ég alltaf að passa upp á magann, fékk sjokk ef ég sat þannig að einhver keppur virtist myndast, en núna er ég bara feit. Ég get ekkert falið það - og það er ákveðið frelsi í því.... mér fannst það næstum því bara notalegt. En ég vil líka koma því á framfæri að mér finnst þú ekki vera feit. Ég er með fitufordóma eins og aðrir og set stundum einhvern "fitustimpil" á fólk án þess að pæla í því. Þú ert ekki með þann stimpil.
Amman með hvolpinn? Dýraformaður? ahahahaha:) yndislegt
Sko faktískt séð þá finnst mér alveg hljóma vel að vera bara fjórar, hvort sem við spilum partý og kó eða eitthvað annað. Alveg hægt að spila bara fjórir sko. En pældu í því hvað þú verður búin að sigrast á mörgum hindrunum eftir sumarið:) Spilið (eða leikurinn og hummiið og það allt) og sundið verður örugglega eins og þegar þú sýndir okkur myndirnar: erfitt áður en ekkert mál þegar að því kemur.
Sorrý: löng færsla fær langt komment:)
Hlíf 2.8.2008 kl. 10:38
Ok, sjitt. Ég hélt þetta væri ekki aaalveg svona langt komment
Hlíf 2.8.2008 kl. 10:38
Váaaaa, þetta er besta komment sem skrifað hefur verið. Mikið svakalega var það fallegt og skemmtilegt.
Ég held mér líði aðeins betur en áðan eftir lesturinn. Ég var nefnilega að staupa og drekka mojito í gær og svo er ég með geðveikt ofnæmi (ágúst er alltaf verstur). Núna er ég sko við dauðans dyr.
Og ég þarf að pakka og þvo þvott því við erum að fara norður á morgun. Sjitt, ég get þetta ekki, ég get ekki einu sinni talað. Er bara búin að endurtaka 'sjitt' hvað eftir annað í morgun.
Sjitt.
dr 3.8.2008 kl. 11:08
Ha, ha, ha. Ég þurfti að nota puttana til að leggja saman fjóra og ellefu. Þá er nú fokið í flest skjól.
Ég ætlaði að skrifa vááááá, ekki váaaaa.
Ég segi ekki meir. Eða skrifa. Er enn þá pissfull.
Sjitt.
dr 3.8.2008 kl. 11:10
Díana! Þú ert með fallegri konum landsins, það er ekki flóknara en það. Og þú ert ekki feit, bara pattaraleg í augnablikinu, sæt og sexý. Kannski hef ég bara svona undarlegan smekk á konum! En í mínum huga eru konur með eitthvað hold meira sexý en einhverjar horrenglur sem eru að detta í sundur. Sif Ragnhildardóttir og Ragnheiður Arnardóttir (Rassa) eru með kynþokkafyllstu konum landins. Ef þú veist ekki hvaða konur þetta eru leika þær báðar í "Með allt á hreinu". Og þær eru ekki að detta í sundur úr hor.
Og það skiptir líka máli að vera með fallega sál. Sú fegurð sem kemur innan frá er meira virði en hylkið sem við búum í. She
Amma dýraformaður 3.8.2008 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.