5.8.2008 | 23:16
Útlönd
Ég get svo svarið það, okkur líður eins og við séum í útlöndum. Ég hef varla verið hérna fyrir norðan síðan ég man eftir mér og líður því eins og ég sé að koma hingað í fyrsta skipti. Fjöllin, göturnar og fólkið allt framandi og ég þarf kort til að rata.
Ferðin gekk vel. Rakel var svo stillt, horfði út um gluggann eða lék sér við ímyndaðan vin sinn (eða einhvern sem bara hún sér) og svaf svo eins og steinn í klukkutíma. Við stoppuðum einu sinni til að pissa en annars ekkert. Vorum tæpa fjóra og hálfan tíma á leiðinni og vorum komnar að verða fimm. Oddný beið með hlýjan faðm og það var yndislegt að hitta hana. Við borðuðum pasta, bjuggum um okkur fjölskylduna og spiluðum Trivial eftir að Rakelin var komin í rúmið (hún sofnaði reyndar ekki fyrr en að verða ellefu þótt hún væri komin upp í rúm klukkan níu, það gerði blundurinn fyrr um daginn). Eftir spil, bjór og spjall komum við Hrund okkur fyrir í eldgömlum svefnsófa sem er í mesta lagi 90 cm breiður. Sko, Hrund er hlý og mjúk og allt það en ég var alveg að verða klikkuð í þessum þrengslum. Aðallega af því að ég gat þá ekki sofið í fósturstellingu. Það er reyndar annar svefnsófi inn í stofu en við nennum eiginlega ekkert að færa okkur.
Þrengslin minntu mig reyndar á Baldur, fyrrverandi kærasta minn. Við vorum nú ekkert lengi saman en nógu lengi til þess að hann gisti nokkuð oft hjá mér í 90 cm breiða rúminu mínu í herberginu mínu heima hjá mömmu. Að ég skuli hafa látið mig hafa það, ég sem var eiginlega ekkert hrifin af honum (eða sko ekki fyrr en hann hætti allt í einu með mér, þá var ég svakaleg sár og móðguð og leið). Fínn strákur samt. Á meira að segja enn þá disk sem hann gaf mér með lögum með hljómsveitinni sem hann var í. Eitt lagið samdi hann handa mér eftir að hafa lesið ljóðabókina mína og hrifist svakalega af henni. Ekki amalegt.
Rakelin vaknaði allt of snemma í morgun fyrir minn smekk. Ég er bara orðin hræðilega langþreytt eftir of lítinn svefn og óþægileg rúm í þessu sumarfríi (ég veit ég hljóma vanþakklát en er það alls ekki, ég er bara drulluþreytt). Ástandið er ansi slæmt ef maður er farinn að gelta á alsaklaust barnið og hefur varla orku í að standa á fætur til að skeina það og gefa því morgunmat. Ætla því á skikkanlegum tíma að sofa í kvöld.
Allavega. Við Hrund drukkum svakalega sterkt kaffi og fórum svo út í sólina með rauðhaus. Leyfðum honum að leika sér aðeins á róló áður en við fórum í Bónus að versla og því næst á Bláu könnuna að borða hádegismat. Keyptum ullarföt á Rakel á útsölu í Janus og skruppum því næst heim með vörurnar, náðum í Oddnýju og héldum í Jólahúsið.
Rakel var yfir sig hrifin, skaust út um allt, var ofan í öllu, þurfti að koma við allt og hætti að tala við okkur, kallaði bara til okkar þótt við værum við hlið hennar, svo mikill var æsingurinn. Við keyptum englaspil og karamellur og leyfðum Rakel að rannsaka það sem garðurinn í kring um Jólahúsið hafði upp á að bjóða.
Vaka, bróðurdóttir ömmu, býr aðeins fyrir utan bæinn og hafði boðið okkur að líta inn, sem við og gerðum. Fengum Rakel til að kveðja Jólahúsið með loforði um ævintýraskóg heima hjá Vöku. Rakel varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Vaka og Stebbi, maðurinn hennar, eru svo sannarlega með ævintýraskóg í bakgarðinum hjá sér og þar má finna allt milli himins og jarðar. Fuglahræður, vindmyllur, geiturnar þrjár og tröllið undir brúnni, fuglahús, köngulær, eplatré, maríubjöllur, álfa, lítinn torfbæ (nákvæm eftirlíking af Gilsá, bænum hennar ömmu) og svo heilt bú fyrir krakkana. Í búinu voru könnur og bollar og pottar og pönnur og skeiðar og svuntur og eldavél og svo auðvitað vatn og drulla. Rakel var hreinlega í himnaríki, setti á sig svuntu og matreiddi og hellti upp á kaffi og varð drullug upp fyrir haus. Á meðan röltum við Oddný og Hrund með Vöku um garðinn og settumst svo við eitt af borðunum úti og supum á kaffi (venjulegu og drullukaffi a la Rakel).
Rakel var áfram í paradís því hún fékk að prófa rafknúið barnafjórhjól. Hún var ekkert nema hjálmurinn (mótorhjólahjálmur í fullri stærð) þar sem hún þaut áfram á hjólinu, eitt sælubros. Hún átti hreinlega ekki til orð þegar hún steig af hjólinu, svo mikil var gleðin og upplifunin. Ég skellihló (og grét eins og alltaf þegar ég hlæ) allan tímann vitandi það að barnið mitt var að upplifa drauminn sinn.
Dætur Vöku, sem eru á aldur við Hrund, og fjögur börn þeirra (af sex) komu svo mátulega í grill sem Stebbi sá um. Við sátum öll úti og borðuðum og höfðum það gott. Aldís Vaka, barnabarn Vöku og Rakel náðu strax saman. Báðar rauðhærðar, jafn háar (Aldís er reyndar 5 ára en barnið mitt er tröllabarn) og í eins peysum. Það var kostulegt að fylgjast með þeim. Þegar sólin hvarf bak við ský færðum við okkur inn, krakkarnir inn í sjónvarpsherbergi og við hin fullorðnu að eldhúsborðinu. Við sem ætluðum rétt að líta inn fórum ekki heim fyrr en eftir fjóra tíma, Rakel þá orðin græn í framan af þreytu. Þær mæðgur hoppuðu í sturtu og ég bunaði út úr mér bænum og einu lagi, kyssti krílið og heyrði hroturnar í því um leið ég hallaði aftur hurðinni.
Við Sprundin erum að hugsa um að smyrja nesti á morgun og taka með okkur kakó og keyra svo eitthvað út fyrir bæinn. Bara aðeins út í náttúruna. Við nennum eiginlega ekkert að keyra neitt langt, ætlum bara að taka því rólega eins og maður á að gera í fríi. Nýtum líklega fimmtudaginn í rölt um bæinn, sund og jafn vel tívolí ef það verður enn opið og stefnum á að bjóða Oddnýju út að borða um kvöldið. Tökum svo stefnuna í bæinn á föstudagsmorgun.
Svo verð ég að fara að setja myndir inn á barnaland. Á eftir að setja inn heilan helling, bæði frá tíma fyrir sumarfrí og svo frá sumarfríinu sjálfu. Þið bíðið bara spennt á meðan.
Eins og það hefur verið ljúft hjá okkur í fríinu hlakka ég líka til að komast í rútínu aftur, slá inn bréfin góðu, hitta stelpurnar mínar í vinnunni og sofa í míns eigins rúmi.
Þangað til næst, knús og kossar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:23 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 56566
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
ohh... En kósý ferð! Hér er eiginlega líka eins og útlönd, það er svona hitabeltislykt úti þó það sé ekki einu sinni sól! Njóttu frísins... öfund... og ég hlakka til að sjá myndir :)
p.s. Leó Löve er hundurinn hans Palla, pabba hennar Sillu. Lítill pommeranian púki. Ég var aldrei neitt smeyk við partý og co.... Minnir að það hafi verið einhver annar ;) Veit ekki þetta með "enterið" Það er mjög dularfullt.
Gyða 6.8.2008 kl. 09:43
Gyðan: Einhver annar er ekki smeykur heldur feiminn! Og þá sérstaklega við fólk sem hann þekkir ekki vel. Þið skytturnar þrjár eruð ekki lengur í þeim flokki (eða sko næstum aldrei). Það er nauðsynlegt að gera greinarmun á þessu tvennu: sjúklegri feimni og ótta. Annars hlakka ég til að leysa dularfullu "entergátuna" þegar ég kem aftur.
dr 6.8.2008 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.