Hahahaha

Sem ég er að fara að byrja að skrifa nýja færslu rek í augun í fyrirsögn þeirrar síðustu. Fyrst hélt ég að einhver annar hefði komist inn á stjórnborðið, skrifað færslu og gefið henni furðulegt nafn. Ég las 'duuugle' nefnilega 'dúgúl' og var bara ' hvað í helvítinu þýðir þetta'. Þegar ég var aðeins búin að trappa mig niður og minna sjálfa mig á að vera ekki svona nojuð alltaf fattaði ég að ég hefði væntanlega skrifað þessa færslu sjálf og gefið henni nafn. Það tók mig smá tíma að muna að hún átti að heita 'duuuugleg' en ekki 'duuuugle'. Já, já, 'dúgúl'. Það er eitthvað að mér.

Ég var hins vegar aftur svona dugleg í gær. Mamma bauð okkur í pizzur og ég ákvað að hlaupa heiman frá mér og til hennar. Datt reyndar ekki í hug að ég gæti það þar sem leiðin er öll upp í móti og engar smá brekkur sem þarf að hlaupa. Ég ákvað því að labba ekkert og byrja strax að hlaupa. OG ÉG GAT ÞAÐ. Ég var 18 mínútur á leiðinni en ég hljóp allan tímann. Ég trúi þessu ekki. Ég vonast til að geta hlaupið í 20 mínútur á eftir. Ég er að springa úr gleði.

Þið ættuð hins vegar að sjá augnatillitið sem Hrund gefur mér þegar ég lýsi afrekum mínum fyrir henni. Hún horfir á mig eins og ég sé búin að missa vitið. Skilningur hennar á skoppinu mínu er álíka mikill og ef ég myndi setja hring í geirvörturnar og hefta mig í kinnina að gamni mínu. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ég væri ekki í góðu formi og með allt of mörg aukakíló. Þá fékk ég augnatillit sem sagði 'bíddu ... er það eitthvað vandamál?'. Konan mín má alveg eiga það að henni finnst ég alltaf óstjórnlega flott og miklu flottari núna en þegar ég kynntist henni. Þá var ég nefnilega tágrönn og hún bað mig vinsamlegast um að 'draga ekki inn magann því þá stæðu rifbeinin svo mikið út' (ég lá sko, rifbeinin sköguðu ekki út þegar ég stóð) og ég benti henni á að ég væri bara svona.

Æ, ég hef bara ekkert meira að segja núna. Vinnufjölskyldan er að fara út að borða í hádeginu þar sem þetta er síðasti dagurinn hennar Kristínar. Gyða er hætt og Hlíf fer til útlanda um helgina svo ég verð bara heima að vinna í næstu viku. Það verður skrítið að hitta ekki vinnufjölskylduna á hverjum degi, nú tekur við nokkurs konar fjarbúð.

Bueno, hasta luego.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er nú eiginlega að kommenta á stjörnumerkjabloggið. Er algjörlega ekki sammála því að hrútur og sporðdreki geti ekki verið góðir vinir. Tvær af mínum allra bestu vinkonum eru hrútar - við nefnilega stýrumst af sömu plánetunni, stríðsplánetunni MARS og eigum því óskaplega vel saman. Hvort við erum alltaf sammála er svo annað mál enda er það ekkert skemmtilegt þegar fólk lúffar endalaust fyrir þínum skoðunum. Þannig verða ekki eðlileg skoðanaskipti. Þú ert frábær stelpa Díana, með stór skap og fallegt hjarta.

Aftur á móti er nautið mitt hún Hrund þverari en andsk...þó hún sé nú yfirleitt frekar meðfærileg...en ef hún bítur eitthvað í sig getur verið verulega erfitt að fá hana til að gera eitthvað annað. En við elskum hana báðar og sættum okkur við hana eins og hún er.

Sé ykkur innan tíðar,

Tengdó 

Tengdó 22.8.2008 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband