Heil vika

Já, það er heil vika síðan ég skrifaði síðast. Ég er bara búin að vera á fullu að læra. Kom mér loks í það að byrja á ritgerðinni sem ég á að skila í næstu viku og náði að skrifa helminginn í liðinni viku, helvíti gott finnst mér bara. Og það er ekkert smá gaman að skrifa hana, Eva Luna eftir Isabel Allende út frá feminísku sjónarhorni. Ég fer alveg á flug þegar ég byrja að skrifa þótt það sé auðvitað aðeins erfiðara að skrifa á spænskunni fallegu heldur en á mínu ástkæra.

Hef svo bara verið dugleg í minni hreyfingu (hef samt bara lést um 100 gr á einhverju þremur vikum en er samt svo glöð að ná því að standa í stað, það er algjört kraftaverk), þrifið mína krúttaraíbúð með minni krúttarakonu, knúsað mit krúttarabarn og bara krúttast eitthvað. Mest samt lært og verið að drepast úr þreytu þar sem ég sef aldrei á nóttunni. Er núna búin að smita Hrund sem bara liggur og svitnar og er andvaka og byltir sér og heldur fyrir mér vöku. Við erum nú meiri ...

Helgin fór í að þrífa ælu og ýmislegt þakið ælu eins og dýnu, sæng, föt, föt ,föt, lítinn kropp, hár, mæður, gólf ... Rakelin byrjaði að æla aðfaranótt laugardags og gerði það svona líka hressilega. Og mikið svakaleg er ælulyktin leiðinleg, neitar að fara úr fötum sem búið er að þvo og af gólfum sem búið er að skúra þrisvar, þar af einu sinni upp úr ediki. Við höfum aldrei brennt jafn mörg reykelsi og kveikt á jafn mörgum ilmkertum og á laugardaginn. Ákváðum líka að taka smá jólabakstur til að hafa ofan af fyrir lasarus og fylla húsið bökunarlykt. Laugardagurinn var bara ýkt kósý þrátt fyrir þvott á ælufötum og lítinn, lystarlausan og auman lasarus með augnsýkingu.

Ég fór og hitti vinnufjölskylduna á laugardagskvöldið og eins og vanalega var það algjör gæðastund sem við áttum. Yndislegar þessar stelpur  mínar. Endaði kvöldið á minn sérstaka hátt, með því að meiða mig en ég er snillingur í því. Var að hlaupa niður Laugarveginn í átt til Hlífar sætu þegar ég rann  í hálkunni og skall í götuna. Lenti á maganum og hökunni og hef sjaldan meitt mig eins mikið. Kom heim með mar og skurði á báðum hnjám, marða lófa, kúlu út úr hökunni og illa krambúleraðan þumalputta. Hrund lá andvaka á bedda inni hjá Rakel (ákváðum að það væri best ef hún byrjaði að æla aftur) og fór á fætur og hjúkraði mér. Hélt köldum þvottapoka við hökuna og kyssti á öll meiddin. Var svo mjög lurkum lamin þegar ég vaknaði í gær og held að þumalputtinn hafi orðið verstur úti og þar sem hann er svo nauðsynlegur gat ég eiginlega ekkert gert. Sprundin þurfti að klæða mig í og úr skóm og hneppa höppum. Ég er samt aðeins skárri í puttanum í dag svo ég hef líklega ekki brákað hann.

Eyddum gærdeginum hjá ömmu og mömmu og höfðum það bara rosa gott.

Annars erum við að læra um hinsegin fræði í Straumum og stefnum þessa dagana og mikið er það skemmtilegt. Ég hef lesið svo mikið af greinum um þessi fræði þar sem ég skrifaði ritgerð um þau og Kristínu Ómarsdóttur (uppáhalds rithöfundinn minn) í Íslenskri bókmenntasögu. Þetta var fyrsta bókmenntaritgerðin sem ég skrifaði í Háskólanum svo ég var pínu óörugg þegar ég var að skrifa hana en ég skemmti mér konunglega. Og ekki var verra hversu hrifinn kennarinn var af henni og að fá 9,5 fyrir hana. Alltaf gaman að monta sig!

Svo vil ég benda ykkur á að Skjár einn er að sýna breska þáttaröð sem heitir Sugar Rush og er algjör snilld. Þetta er önnur serían og eru tvö ár síðan hin var sýnd. Þættirnir eru um unga lesbíu og hennar líf og bæði eru þeir raunsæ lýsing á lífi hennar og ótrúlega fyndnir og skemmtilegir. Þeir eru sýndir klukkan 23:30 á sunndögum sem er stórundarlegur tími fyrir breska verðlaunaseríu. Ástæðan fyrir þessum ömurlega sýningartími er líklega vegna þess að þættirnir eru um lesbíu (meðal annars, þetta eru nátla bara þættir um líf venjulegrar stelpu) og það þykir svo "dónlegt". Svo sýndu þeir þætti um einhverja hóru klukkan tíu á virkum degi og eru núna að fara að sýna seríu tvö um manninn sem gerir ekkert annað en að drekka og r**a. Ótrúlegt. En ég sem sagt mæli með þessum þáttum, við Hrund fundum seríu tvö á Laugarásvideo fyrir tilviljun þegar við vorum að leita að seríu eitt þar. Ég er farin að kunna þessa þætti utan að. Og þeir eru skemmtilegir þótt þið séuð ekki lesbíur sko.

En núna ætla ég að fara að skrifa um feminisma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aldrei aldrei láta líða svona langt á milli! Ég er búin að kíkja þrisvar á dag síðastliðna viku og um helgina var ég komin litlahúsið cold turkey! Það er skurður í planinu þegar ég það er ekki nýtt að frétta af litlahúsinu!

Annars er ég alltaf að analísera mig meira og meira og vá hvað það er rétt sem þú commentaðir hjá mér um daginn....þvílík og önnur eins planmennska er ekki alveg eðlilega....það að smáfrávik geti látið mann fara í panikkattakk er held ég ekki alveg eðlilegt!

inam 17.11.2008 kl. 19:17

2 identicon

Nákvæmlega! Ég áttaði mig ekki á því hversu mikið þetta hafði gengið út í öfgar fyrr en ég kynntist Hrund og fór að búa. Talandi um að fríka út ef einhver kom óvænt í heimsókn! Það var bara allt ónýtt og ég lengi á eftir að jafna mig. Eða bara þessi eilífu tímaplön mín sem standast aldrei af því að ég hef fleiri en sjálfa mig að hugsa um núna. Ég byrja bara að svitna þegar ég er komin á eftir áætlun ... sem er alltaf. Eða ef ég er búin að ákveða að fá mér eitthvað að borða og svo er það ekki til. Ekki að ræða það að ég fái mér eitthvað annað, ég bara sleppi því að éta. Og ég höndla alls ekki óvissu þegar kemur að vinnu að skóla. Meika ekki ef ég fæ ekki dagsetningar og tíma, það veldur mér í alvöru líkamlegum kvölum. Svona er maður bilaður. Bilaður að gera sér allt svona erfitt. En ég er að reyna að bæta mig í þessu, ég hreinlega get ekki lifað svona ...

dr 17.11.2008 kl. 20:07

3 identicon

Já ég get ímyndað mér að maður taki betur eftir því þegar maður er farin að búa með einhverjum. Þarf að inklúda fleiri inní planið. Ég fékk samt smá hláturskast þegar ég stóð sjálfa mig að því að plana skokk laugardag og sunnudag og skipuleggja hvern klukkutíma og hvaða þátt ég ætlaði að horfa á í pásunni minni.

Og varðandi próf....gvuð minn góður! Við fáum ekki einu sinni dagsetningar og þegar við loksins fengum einhverjar upplýsingar um hvernig þessu væri háttað þá var ég vondu skapi og fýlu í þrjá daga því það passaði ekki við fína planið mitt sem átti eftir að bjarga mér...nei ég meina mannkyninu. 

Það liggur við að við ættum að skrifa bók: "Leiknin að plana"

inam 17.11.2008 kl. 22:14

4 identicon

Já, "Leiknin að plana - 100 skref í átt að geðveiki."

Við erum samt snillar að gera plön!

dr 17.11.2008 kl. 23:12

5 identicon

kreisí görls.... bjóðið kötlu að skrifa kafla í bókinni ;o)

hlutirnir gerast alveg þó að þeir séu EKKI skrifaðir niður.

 Hvað mynduð þið gera á eyðieyju?

kl 9:00 skokk umhverfis eyju

kl 11:00 leita að banönum í trjám.............

nei djók það er ljótt að gera grín að ykkur, skipulag Díönu og Kötlu hefur komið mér til góða, ég er svo óskipulögð að ég sækist eftir skipulögðum vinum...greinilega

Oddný 17.11.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband