Spekúlasjónir

Rakel alltaf að spá eins og áður sagði. Þegar ég fór að ná í brandarakallinn í baðið um daginn vildi hún vita hvað gerðist þegar pokarottur dræpust. Og ég útskýrði rotnunarferlið og hvernig við yrðum öll að mold og enginn lifði að eilífu. Rakel skildi það, við yrðum útdauð eins og risaeðlurnar.

Eftir lestur og bænir sungum við Krummi svaf í klettagjá eins og venjulega. Rakel vill læra öll erindin svo ég er smám saman að bæta við. Svo þarf ég að útskýra hvert einasta orð: gogg, byggð og bú, hjú, stél, ýfði, sálaður, krás ... Sem er allt í lagi, mér finnst æði að hún vilji vita svona mikið.

Rauðhaus hleypur alltaf frá hliðinu á leikskólanum, upp göngustíginn og út að gangstéttinni í Skipasundinu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft hún hefur dottið, bæði þar og í lífinu yfir höfuð. Oftast vegna þess að hún horfir alls ekkert fram fyrir sig heldur aftur. Í gær datt hún á litlu hnén og ég mat það svo að fallið hefði ekki verið mjög alvarlegt og sagði henni að standa bara upp, hún væri svo dugleg. Hún lá enn í götunni þegar hún kallaði til mín að hún hefði sko víst 'horft fram hjá sér', hún hefði bara samt dottið. Við mæður hennar erum óduglegar að benda henni á mikilvægi þess að horfa fram fyrir sig og kennum því að hún geri það ekki mjög oft um endalaus föll hennar. Hún ætlaði greinilega að koma í veg fyrir að ég væri ekki að ásaka hana um það núna, ég meina hún horfði fram hjá sér.

Áðan skokkaði hún á undan mér heim og stoppaði með reglulegu millbili eins og hlýðinn hundur og beið eftir mér. Eitt skiptið þegar ég var komin alveg upp að henni studdi hún höndum á mjaðmir og blés úr nös með tilþrifum. 'Ætlarðu ekki að hlaupa meira' spurði ég. 'Nei, ég ætla aðeins að hækka á mér fyrst svo ég fái ekki illt hérna sagði hún og benti á síðuna'. Hækka á sér já. 'Ætlarðu að hægja á þér svo þú fáir ekki hlaupasting' spurði ég. 'Já, og líka svo ég fái ekki labbusting'. Erfiður þessi labbustingur.

Það getur verið mjög erfitt að gera litlu vargatítlunni til hæfis stundum. Hún  er svo yfir sig hneiksluð stundum á fattleysi og hreinni og beinni heimsku mæðra sinna að maður skammast sín fyrir sjálfan sig. En hún er svo sem bara með sína hluti á hreinu. Settist á klósettið áðan og var búin að sitja þar allan tímann sem ég var að blogga þegar ég spurði hvort hún væri ekki að verða búin.

'Nei! Ég SAGÐI að ég þyrfti að kúka OG pissa.'

Já, já, afsakið yðar hátign. Var ekkert að segja henni að það að hugsa væri ekki það sama og að tala, ég vissi bara ekki hvað hún var að hugsa um að gera þarna inni.

Hún hélt áfram að dóla sér, ákallaði pissið í formi söngs, piss piss piss og pelamál púðursykur og króna ...

'Ertu viss um að þú þurfir að pissa aftur Rakel mín, þú varst að pissa á leikskólanum.'

'Já, mér er illt í maganum.'

Og besta ráðið við magaverk er að pissa eða?

'Veistu, manni verður yfirleitt ekki illt í maganum af því að þurfa að pissa, frekar ef maður þarf að kúka og er búin að halda lengi í sér og þú ert búin að kúka núna.'

Og það varð þögn.

Brakaði í litla heilanum.

Komst svo greinilega að þeirri niðurstöðu að ég hefði rétt fyrir mér.

'Ó! Þá er ég búin ... Ég er búúúúúiiiiiin.'

Annars finnst mér sætast í heimi þegar hún tekur í taumana af mikilli festu. Eins og í gær þegar mamma hennar var að bursta í henni tennurnar og stríða mér í leiðinni. Og þá stríddi ég henni til baka og þá greiddi Hrund á mér húðina með burstanum hennar Rakelar og ég æjaði og Hrund hló. Rakel sem stóð á kollinum sínum og var nokkurn veginn í okkar hæð var ekki lengi að stía okkur í sundur, ýtti Hrund frá með annarri hendinni og mér með hinni. 'Viltu gjöra svo vel að hætta þessu' fær maður oft að heyra. Svo vill hún auðvitað vera viss um að allir séu vinir. 'Kysstu hana' skipar hún okkur eftir 'áflog' okkar mæðranna. 'Knúst þú núna hana' bætir hún svo við. Þegar við erum eitthvað að knúsast þrjár passar hún alltaf að enginn verði útundan. Ef við Hrund kysstumst á að kyssa hana. Ef önnur mamman gefur henni koss smellir hún líka kossi á hina. Og best er auðvitað hópknúsið.

Inn á milli þusar hún svo næstum af sér hausinn. Ef hún fær ekki að gera eitthvað hengir hún haus á dramtískan hátt, stappar inn í herbergi (hún labbar ekki heldur stappar niður fótunum í hverju skrefi) og upphefur þusið: 'Ég má bara ekki gera neitt og þá ætla ég bara að stija hér og ég finn ekki bangsann og þessi bók er leiðinleg ...' Um daginn bannaði ég henni að gera lest úr öllum stólunum inni í stofu þar sem glerskápurinn var í hættu daginn áður þegar hún bjó til lest. Hún byrjaði sitt litla drama og þusaði og þusaði inni í herbergi. Heyrði svo að hún var orðin gráti næst svo ég fór og leit inn til hennar. Barnið var þá að basla við að búa um rúmið sitt (þetta var sumst snemma um morgun) og alveg að fara að grenja, svo frústreruð var hún yfir að ráða ekkert við sængina. Enginn að biðja hana að búa um sko.

En hún má sko eiga það að hún hlýðir mér. Hún er búin að eyða nógu miklum tíma með mér til þess að vita að það þýðir ekkert annað.

Í gær var krílið á leið upp í rúm og ætlaði mamman að lesa. Ég og Hrund vorum svaka mikið að spjalla saman, ég með hendurnar um hálsinn á Hrund og hún með sínar um mittið á mér. Það fór svakalega í taugarnar á Rakel, í þetta skipið ekki af því að hún vildi vera með heldur af því að það var komið að heilagri lestrarstund. Hún hefur sjálfsagt verið búin að kalla til okkar nokkrum sinnum, stundum getur verið slæmt að vera búin að þróa með sér mömmuheyrn sem lýsir sér í algjöru heyrnarleysi stundum þegar börnin kalla og kalla. Rauðhaus gafst að minnsta kosti upp á endanum, henti sér upp í rúm svo brakaði í, rykkti til sín sænginni og dúndraði sínum tveimur böngsum sitthvoru megin við sig í rúminu: 'Ég ligg þá bara hérna ein með Rósu og Kanínu (bansarnir) ef ENGINN vill tala við mig, þusiþusiþusi.' Var samt varla búin að ljúka setningunni þegar hún gafst upp á fýlunni: 'Elsku mamma mín.' Hún fékk sinn lestur.

En þetta átti ekki að vera svona langt. Langaði bara aðeins að deila barninu mínu með ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

skemmtilegt barn með eindæmum!! Ertu ekki búin að segja henni hvað mér fannst kortið ofsalega fínt? :) :)

Gyða 26.11.2008 kl. 21:16

2 identicon

Jæja, ætla að hætta að vera leynigestur og kvitta fyrir komuna ;) Stelpan þín er algjör rúsina, mjög gaman að lesa um hana þrátt fyrir að ég hafi ekki einu sinni séð hana :)

Helga Björg (íslensku stelpa) 26.11.2008 kl. 22:00

3 identicon

Hundurinn minn hann Nói er einmitt líka mjög meðvitaður um það að enginn megi vera út undan þegar kysstst er. Ef hann verður vitni að slíku kemur hann hlaupandi með tunguna á lofti og skottið á fleygiferð og drekkir öllum í endalaust góðhjörtuðu slefi.

Anton 26.11.2008 kl. 22:36

4 identicon

elska hana Rakel mína (og veit ég er elskuð til baka eða var það allavega í sumar) Hlakka til að hitta hana um jólin. Við getum kannski farið út og fengið labbisting saman.

Oddný 26.11.2008 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband