Sumarfrí

Það er yndislegt að vera í sumarfríi og þurfa ekki að rífa sig á fætur klukkan sjö og rjúka út. Rjúka svo heim og sækja Rakel, elda og sinna heimilisverkum og vera svo dauðuppgefin. Gef skít í húsverk þessa dagana þar sem samdrættirnir myndu nú ekki samþykkja það og Rakel hefur sofið til að verða hálf ellefu þrjá daga í röð enda farið seint að sofa eins og sæmir í sumarfríi.

Við erum snillingar í að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera þar sem ég get samt setið og hvílt mig. Eyddum heilum sólardegi í garðinum hjá tengdó. Ég las, Hrund stússaði og Rakel hljóp um. Fengum grillamat og nutum þess að borða úti. Kíktum til ömmu daginn eftir og svo niður í Nauthólsvík í minnst 20 stiga hita. Ég sat mest á teppi og sólaði mig og við nutum okkur allar í botn. Enduðum daginn í mat hjá mömmu, um að gera að losna við að elda. Fórum að veiða í gær við Vífilstaðavatn. Rakel alltaf hálf úti í vatninu, ég á teppi og Hrund með veiðistöngina. Veiddum auðvitað ekki neitt en fengum okkur bara ís í staðinn. Fórum heim og hvíldum okkur og horfðum og teiknimynd (ég gleymdi að taka með mér vatn í veiðiferðina og þornaði upp í sólinni sem aftur olli því að samdrættirnir efldust svo mikið að við þurftum heim í hvíld, það góða er að hvíldin virkaði og samdrættirnir höguðu sér aftur vel) og fengum okkur svo að borða á Pítunni.

Kannski kíkjum við á bókasafnið eða í bíó í dag þar sem sólin lætur ekki sjá sig. Ég get setið á báðum stöðum. Langar ótrúlega á Harry Potter frumsýningu á morgun en það gengur ekki með svona samdrætti. Það koma einstaka samdráttalausir klukkutímar en annars er ég yfirleitt með 1-3 á klukkutíma. Þeir eru enn þá allt of margir yfir daginn og nóttina og ég þarf að passa mig rosalega vel því öll áreynsla eykur þá en ég er alveg að detta inn í 25 vikurnar og hver dagur sem krílið tollir í bumbunni lætur mér líða betur.

Farin að elda hafragraut.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Um að gera Díana mín að slaka á og hvíla sig. Nokkuð viss um að krílið ykkar mun halda sig á sínum stað næstu vikurnar og mánuðina þó það láti þig vita reglulega að taka því rólega. Eru ekki 25 vikur á morgun?

Knús til ykkar allra í fríinu...She

ps. og þið eruð velkomnar allar saman hingað í Hlégerðið hvenær sem er.

Tengdó 14.7.2009 kl. 19:29

2 identicon

25 vikur í dag, jibbí. Var samt svo innilega að vona að samdrættunum hefði fækkað á þessum tímapunkti en þetta lagast ekkert. Vorum bara heima í gær en var samt með 4 samdrætti á klukkutíma allan daginn. Finn að það er mikill kvíði í mér í sambandi við Malarrif, finnst óöryggi í því að vera svona langt frá spítalanum.

Við vorum held ég að spá í að kíkja á þig á eftir og jafnvel sníkja kvöldmat þar sem við höfum ekkert lufsast í búð hérna.

dr 15.7.2009 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband