Allt að gerast

Það erum við búnar í sumarfríi. Síðasti dagurinn var ótrúlega ljúfur, fórum í bústað rétt hjá Laugarvatni sem vinkona mömmu á og eyddum þar deginum í spjall og leik og át.

Og svo tók tími framkvæmdanna við.

Okkur hefur langað að breyta eldhúsinu síðan áður en við keyptum og neitaði ég fyrst að kaupa íbúðina út af þessu borulega, óskipulega eldhúsi. Það hefur dugað okkur fínt hingað til en lítil von var til þess að einn ungi í viðbót kæmist við matarborðið. Sprundin tók sig því til og setti mál inn í forrit á síðu Ikea og teiknaði upp þetta líka glæsilega eldhús fyrir okkur. Tengdó fannst þetta meira en góð hugmynd og dró okkur með sér í Ikea til þess að láta drauminn verða að veruleika. Síðan um síðustu helgi hefur því allt verið á haus heima, búið að rífa eldhúsinnréttinguna og pottofninn út, brjóta upp leka sturtubotninn úr því við vorum að vesenast á annað borð og í framhaldi verður sett plastparket á eldhúsið og holið frammi. Pabbi hennar Hrundar mætir hvern dag og vesenast og fær bræður sína í lið með sér og Sprundin hoppar beint úr vinnu í stússið heima. Að venju eru það mömmurnar sem gefa okkur einhverja krónur og styrkja okkur en einnig lumum við Hrund á sparisjóð auk þess sem við fengum ágætis vaxtabætur. Sprundin straujar því kortið fyrir öllu sem þarf og bara sér um þetta, sagði mér bara að slappa af og láta mér líða vel. Geri víst lítið gagn með mína kúlu og samdrætti.

Ég gisti því um helgina hjá mömmu og Rakel hjá pabba sínum þar sem það var ekki verandi heima. Núna er samt alveg hægt að sofa svo við Rakel keyrum um á bílnum hans afa og höfum það gott hjá mömmu eftir leikskóla. Ég vinn líka hérna heima hjá mömmu og svo er voða kósý að elda kvöldmat handa öllu liðinu, fíla mig í tætlur. Hrund og pabbi hennar vinna hörðum höndum þessa dagana við að klára sturtuna fyrir helgi en þá á að reyna að setja eldhúsinnréttinguna upp. Hrund leggur svo partketið sjálf þessi elska þegar það er búið. Þetta er svoooo skemmtilegt. Og mér líður bara vel með að eyða peningunum okkar í eitthvað svona, fínt að fjárfesta bara í sjálfum sér og sínum eignum og eiga ekkert of mikið inn á bankabókum í undarlegum og spilltum bönkum.

28 vikur í dag og unginn minn enn þá á sínum stað. Vona að hann komi bara ekkert strax þótt hann ætti góðar lífslíkur núna. Er svo glöð að hafa náð þessum áfanga þar sem ég var orðin svo hrædd um að vera að fara af stað. Lungun eru að verða fullþroskuð og barnið að bæta á sig og að verða bústnara.

Góðir dagar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

:)

Gyða 5.8.2009 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband