Hvítt

Best að blogga aðeins svo þið haldið ekki að ég sé dottin í þunglyndi bara. Svona mikil líkamleg vanlíðan hefur hins vegar óneitanlega áhrif á sálartetrið og ég hef örugglega grenjað meira síðastliðna viku en samtals á meðgöngunni. Ég er samt öll að skríða saman. Hef sofið aðeins betur undanfarnar tvær nætur og svona og það skiptir öllu.

Ákvað að hunsa hálsbólgu og hósta í dag og vera hress. Hoppaði í sturtu og drakk kaffi með Sprundinni, skutlaði Rakel í leikskólann og spúsunni í vinnuna og útréttaði svo eins og mér einni er lagið. Leið samt eins og ég væri 100 kíló, kemst varla úr sporunum núorðið og vagga, geng ekki. Allt í lagi með það.

Var að koma með heim með pinkla. Fór hér um eins og stormsveipur með handryksuguna og gekk frá þvotti, þreif (létt þrif bara) vaska á baðherbergjum og klósett, skellti í vél og ...

... allt í einu helltist yfir mig hamingjan. Hamingjan umvefur mig alltaf í formi augnablika hér og þar, það er það sem gerir hana svo sterka og yndislega. Mér fannst allt verða hvítt og hreint og hlýtt í kringum mig og ég sá bara myndir af rauðhausnum mínum og Sprundinni og strauk kúluna og dáðist að heimilinu mínu og söng aðeins með Pétri. Svo færðist yfir mig ró.

Vá, hvað ég þurfti á þessu augnabliki að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ást friður og hamingja

Odda Podda 13.10.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband