Kannist þið við svona? Dagbók sveittrar mömmu ...

...

'Hún vildi bara ekki taka mig inn, sagði að ég væri það sein að allur dagurinn myndi riðlast' stamaði ég og reyndi að hemja kökkinn í hálsinum. 'Við erum að tala um 10 mín.', bætti ég við og röddin brast.

Mamma fann til með mér og átti ekki til orð yfir því hvað konan var eitthvað stíf.

'Ég fann ekkert innganginn. Hún er flutt á Skólavörðustíg og ég átti að ganga inn frá Óðinsgötu en inngangurinn var ekki merktur.'

Ég hafði átt að vera hjá grasalækni klukkan eitt, hafði beðið eftir tímanum í viku og vonaði að læknirinn gæti hjálpað mér að hækka aftur í blóði eftir blóðmissinn í fæðingu.

'Hún sagði að þetta væri merkt inni í gangi en það hjálpar mér ekki neitt, ég gekk þarna í hringi og leitaði að innganginum' kjökraði ég og þurrkaði tárin sem láku og ég réð ekkert við.

Ég stóð inni í barnafataverslun og þuklaði rándýr barnaföt, Davíð frændi varð pabbi í gær og ég vildi kaupa gjöf. Ætlaði að fara endurnærð eftir nálastunguna en stóð í staðinn og titraði af geðshræringu milli rekkanna, vælandi í mömmu sem reyndi að hugga mig í gegnum tólið.

Gafst upp og fór út þegar ég símtalinu lauk, andaði að mér svölu loftinu og reyndi að stilla mig. Hugsaði með mér að það væri greinilega langt síðan læknirinn var nýbökuð mamma því hún gerði sér engan veginn grein fyrir átakinu sem fylgdi því að reyna að mæta eitthvert stundvíslega þegar maður er með 12 daga gamalt barn á brjósti. Hún hafði reyndar boðið mér tíma daginn eftir en bíllinn átti að standa á verkstæði þá svo ég kæmist ekki. Auk þess var ég bara vond út í hana og hraus hugur við því að þurfa aftur að mæta eitthvert á slaginu.

Röskvulingur fær stundum pínu í magann og átti erfitt í nótt sem leið. Gjöf, bleiuskipti, spjall og rugg í svefn tók tvo tíma og unginn kominn í ból að verða 02. Vaknaði svo aftur stuttu síðar og kvartaði yfir lofti í maga og mæður reyndu að sussa og bía og gefa brjóst og allan pakkann. Barnið komst samt ekki í almennilega ró fyrr en að verða sex um morguninn og klukkan átta hringdi svo vekjaraklukkan, tími til kominn að fara með eldri stelpuna í leikskólann (við höfum verið að reyna að halda einhverri rútínu og láta hana borða í leikskólanum og svona eins og áður, gengur misvel). 

Röskvan vildi líka sitt og svo var þvottavélin með vesen, hleypti ekki niður af sér vatninu og við konan búnar að bauka við að laga hana í einhverja tíma kvöldið áður. Vesenið hélt áfram í morgun og til að gera langa sögu stutta var allt komið á flot og ég að verða of sein í nálastungu.

Stóð algjörlega svefnvana í sturtunni og reyndi að muna hvað ég var að gera þarna. Varð litið niður á loðna kálfa og ákvað að ég yrði að raka leggina ekki seinna en núna. Er algjörlega komin úr æfingu og endaði með nokkur blæðandi sár áður en yfir lauk. Hafði varla orku í að þurrka mér. Konan var komin undir þvottavélina og ég reyndi að þurrka mér hratt með brjóstin lekandi eins og venjulega. Fékk mér útrunna langloku að borða og fór svo inn að vekja lítinn, heitan kút. Gaf brjóst með augun límd við klukkuna, fljót Röskva, fljót. Fór algjörlega andlaus í flísbuxur og bol og kom lekavörninni góðu fyrir framan á túttunum. Jakki, skór, trefill. Var orðin sveitt af áreynslu þegar ég kyssti Sprundina bless.

Gluggapóstur í stiganum. Bankinn að tilkynna mér fallega að ég hefði ekki borgað visareikninginn og því bættust vextir ofan á. Þetta á að skuldfærast, fjandinn hafi það! Ansi gróft þegar bankinn gerir mistök og rukkar kúnnann um þau.

Var óörugg þegar ég startaði bílnum. Sullaði á mig sjóðheitu kaffinu sem ég hafði með mér í ferðamáli. Þótt ég sé komin úr 75 og upp í 89 í blóði þá er ég vön að vera í 120 og er því enn þá vægast sagt orkulaus. Var pínu hrædd um að líða út af í miðjum akstri en krossaði putta og keyrði af stað. Örugglega lengstu leið í heimi niður í bæ þar sem ég gleymdi mörgum sinnum á leiðinni hvert ég var að fara. Fann stæði, borgaði og labbaði, með stjörnur fyrir augunum, eins hratt og ég gat til grasalæknisins til þess eins að vera vísað burt.

Hrökklaðist á endanum út úr dýru barnafatabúðinni fyrrnefndu og inn í aðra. Álíka dýr. Rölti í átt að bílnum og datt í leiðinni inn í búð með íslenskri hönnun. Dýrust þeirra allra en mikið var allt fallegt þarna. Stóð þarna með höfuðverk og brjóstin lekandi og kreisti sveittan 5000 kallinn í lófanum. Varð hugsað til þess að viðgerðin á bílnum átti að kosta 50.000 en Davíð verður bara einu sinni pabbi. Fann tvær gullfallegar flíkur handa Glænýjum Davíðssyni og hafði það í bílinn. Skellti hurðinni fast á eftir mér og hlustaði svo á Muse í botni. Ímyndaði mér sjálfa mig að berja trommurnar aftur og aftur og aftur.

Ákvað að taka bensíns þar sem það var 5 krónu afsláttur í dag en fattaði á miðri leið að ég var ekki með dælulykilinn. Hækkaði aðeins í Muse. Kom heim, hringdi í kvensjúkdómalækninn minn og vildi panta tíma í eftirskoðun eftir einhverjar vikur. Það var upppantað út árið. Konunni á símanum hefur þó líklega brugðið við örvæntinguna í röddinni minni því skyndilega fann hún tíma 3. des. Skrifaði færslu á bloggið og held ég hafi fundið æð springa í höfðinu þegar hún datt út af því að ég ýtti á vitlausan takka.

Ég held ég haldi mig bara heima og knúsi kútinn minn á morgun. Svona útstáelsi er ekki gott fyrir geðheilsuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elskan, ekkert of góður dagur heyrist mér. Ég hringdi einmitt akkúrat þegar þú varst í nálastungu (eða áttir að vera það) ætlaði einmitt að heyra hljóðið í þreyttu nýbökuðu móðurinni en hringi bara seinna.

Til hamingju með litla frændann (samt ekki víst að Davíð verði bara einu sinni Pabbi, svo ég böggi aðeins færsluna ;o)) gaman að það sé svona stutt á milli Röskvu og Stubbs.

ást í húsið

Oddný 11.11.2009 kl. 22:59

2 identicon

Haha, auðvitað ekkert víst að hann verði bara einu sinni pabbi. Ætlaði að segja að það væri ekki á hverjum degi sem hann yrði pabbi;)

dr 11.11.2009 kl. 23:51

3 identicon

Ég fattaði alveg hvað þú varst að meina, varð bara aðeins stríða þér ;o)

Oddný 12.11.2009 kl. 00:09

4 identicon

Já, ég kannast aðeins við svona daga...

...heppilegt samt að þú þekkir Dísu grasó. Aldrei að vita nema hún geti hjálpað þér.

Bjarndís 12.11.2009 kl. 08:34

5 identicon

hm. svona eftir á að hyggja hljómar Grasa-Dísa mun betur.

Bjarndís 12.11.2009 kl. 08:35

6 identicon

Ég verð nú bara að segja það Díana mín að þú blómstrar sem mamma og mér finnst þú í ótrúlega góðu jafnvægi og afslöppuð. En svo eru það hormónarnir sem geta alveg farið með mann stundum og eftir barnsburð er maður einhvern veginn í eigin heimi, besta heimi í heimi, sem stundum fittar þó ekki alveg við heiminn úti fyrir. Og auðvitað er mikilvægt að ná upp blóðinu og vonandi kemur það fljótlega. Knús til ykkar allra fallegu stelpnanna minna. She.

Tengdó 12.11.2009 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband