Skotturnar mínar

Unginn minn orðin tveggja vikna og alveg að verða þriggja vikna. Ætlaði að skrifa þetta daginn sem hún varð tveggja vikna en hann, eins og aðrir daga, hvarf næstum án þess að ég yrði hans vör. Ætla að reyna skrifa smá blogg þegar hún verður þriggja vikna og kannski setja myndir með. Er líka alltaf á leiðinni að breyta síðunni hennar Rakelar í systrasíðu (á eftir að fá góðfúslegt leyfi hjá Robba) og setja inn albúm merkt Rösvkunni. Hún stækkar svo hratt!!! Og mikið er hún alltaf falleg og yndisleg. Mömmuhjartað alveg springur af ást þegar ég horfi á hana. Svo dásamleg.

Alltaf jafn skrítið að strjúka yfir litla kollin og gæla við silkmjúkar kinnarnar og gera svo slíkt hið sama við rauðhaus rétt á eftir, þvílíkur munur! Var að sniffa píslina eftir baðið hennar um daginn og fór svo strax og strauk hinni dótlunni minni sem svaf inni í rúmi. Mér fannst rauðhaus vera tröllahaus hreinlega en ég elska þessa tvo hausa í tætlur. Höfuð, myndi amma segja sem bannar mér að kalla barnahöfuð hausa.

Var í Bónus um daginn með mömmu. Hrund búin að gera grín að því hvað ég var spennt að fara að kaupa inn. Búin að greiða mér og fara í pils og setja á mig vellyktandi og hreinlega klæjaði í fingurna að komast út og vera ein með mömmu og öðru fullorðnu fólki. Hringdi úr búðinni til að biðja Sprundina að setja kartöflur yfir. Hrund vildi þá vita hvað væri í matinn þar sem rauðhaus hafði spurt hana að því stuttu áður. Þegar Sprundin sagðist ekki vita það dæsti Rakelin og fannst það ekkert skrítið þar sem eldabuskan væri í Bónus! Já, takk, ég er eldabuskan á þessu heimiliW00t

Annars bara léttist ég og léttist. Þyngdist um 12 kíló á meðgöngunni og hreinlega gleymdi að vigta mig eftir fæðingu. Held ég hafi gert það einhverjum 4-5 dögum eftir hana og átti þá tæp fjögur kíló eftir í þá þyngd sem ég var í fyrir meðgöngu. Vigtaði mig nokkrum dögum síðar og þá var þetta 1,5 kíló. Tveimur dögum seinna 1 kíló og í gær var ég allt í einu 1 kíló léttari en ég var áður. Ég sem var svo handviss um að ég myndi þyngjast með barn á brjósti. Það gæti nú alveg gerst samt og þá bara hefur það sig. Var búin að lofa mér að pæla ekki í þyngdinni eftir fæðingu (ekki strax allavega), rétt eins og á meðgöngunni, og ætla mér að standa við það.

Svo er önnin bara að verða búin og lokaverkefnið bíður mín. Verður yndislegt að hafa meiri tíma en venjulega í jólastúss þar sem ég er 'bara' (dugir mér alveg og meira en það) í einu námskeiði. Sé mig alveg fyrir mér að baka og skreyta á daginn með ungann hjalandi í ömmustólnum. Fá svo pössun og skjótast með Sprundinni út í frostið að kaupa einhverjar gjafir. Og vera fjórar á jólunum, get ekki beðið.

Hef lúmskt gaman af því að eiga heima á algjöru stelpuheimili og geta áfram talað um 'stelpurnar' mínar. Ætli fyrsti typpalingurinn verði ekki bara ættleiddur frá Kenýa og nefndur Júlíus. Það væri nú ekki leiðinlegt.

Ætla að skríða upp í sófa, sitja með fætur konunna í fanginu og glápa á skjáinn þar til sætu svefnhljóðin sem berast úr vöggunnin breytast í kvart og svo stuttu seinna í dramatískt org á tútturnar mínar. Það er ekki eins og maður gegni ekki mikilvægu hlutverki hérna.

Yfir og út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að lesa fréttir, hlakka til að sjá fleiri myndir

Dagný 18.11.2009 kl. 11:36

2 identicon

Gaman að heyra að allt gangi bara vel hjá ykkur. langar til að sjá fleirri myndir og hlakka til að sjá ykkur um jólin. stutt þangað til.

hildur 22.11.2009 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband