Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Skemmtilegt

Þessi spurningalisti er nú eitthvað fyrir mig. Náði í hann á síðunni hennar Hlífar og ætla að svara honum að áeggjan hennar:

 1. Harðspjalda eða kilja og hvers vegna?

Erfitt að segja. Mér finnst harðspjalda eigulegri og þær tengjast jólunum, þá fæ ég sjaldan kiljur. Hins vegar eru kiljur svo meðfærilegar og hægt að lesa þær hvar og hvenær sem er. Ég segi harðspjalda í gjöf og kiljur þegar ég kaupi sjálf (nema bókin sé þeim mun sérstakari). 

2. Ef ég ætti bókabúð myndi ég kalla hana ...

Vá, ég væri alveg til í að eiga bókabúð. Ætli ég myndi ekki kalla hana Kotið. Við það orð tengi ég eitthvað notalegt, spennandi og áhugavert. 

3. Uppáhalds frasinn minn úr bók (nefnið titilinn einnig)

Góðar stelpur. Gæða sér á guðsgjöfunum og bursta tennurnar á eftir. Góðar stelpur. Passið ykkur bara á mér. (Sérstakur dagur eftir Kristínu Ómarsdóttur).

4. Höfundurinn (lifandi eða dauður) sem ég myndi helst vilja borða hádegismat með

Kristín Ómarsdóttir 

5. Ef ég væri að fara á eyðieyju og mætti bara taka með mér eina bók ...

Einu sinni sögur eftir Kristínu Ómarsdóttur. Eina bókin sem ég hef byrjað strax aftur á eftir að ég lauk henni. Alltaf jafn sjúklega góð.

6. Það væri frábært ef einhver fyndi upp svona bókatæki sem ...

Hreinsaði bækur og gerði við þær. Þá gæti maður bara sett þvældu, uppáhalds bókina sína sem kannski er með matarslettum (svo gott að lesa um leið og maður borðar) og einhverjum krumpuðum síðum í tækið og hún kæmi út eins og ný. Þessi viðgerð fæli ekki í sér að bókailmur hennar þurrkaðist út. Lyktin af gömlum bókum er svo góð. 

7. Lyktin af gamalli bók minnir mig á ...

Allt það góða í lífi mínu, bæði í fortíðinni og núinu. Ég get tengt svo margt í lífi mínu við bækur af því að þær lita það allt. 

8. Ef ég gæti verið aðalhetjan í bók (nefnið titilinn) væri ég ...

Emma í Emmubókunum, Arnþrúður í Z ástarsaga, Anna í Z ástarsaga.

9. Ofmetnasta bók allra tíma er ...

Verð að vera sammála Hlíf, Laxness kallinn og allar hans bækur. Mér finnst reyndar Salka Valka góð en annars finnst mér þessi dýrkun á honum kjánaleg. Mamma segir að það sé líklega best að lesa hann þegar maður er svona 12-15, þá er maður svo hrifnæmur. Ég las einmitt Sölku Völku á þeim aldri. Það sem ég hef lesið eftir hann síðan þá hefur mér ekki líkað. 

10. Ég þoli ekki þegar bækur ... 

... sem ég fæ í jólagjöf og ég hef sérstaklega beðið um eru leiðinlegar. Ég verð svo hræðilega svekkt. 

 


Jólasnjór

Í gær sögðum við Rakel að þegar hún vaknaði á morgun yrði kominn fyrsti desember og þá mætti hún opna fyrsta gluggann á dagatalinu sínu. 'Þá byrjar að snjóa' sagði hún vongóð. Blessað barnið hefur beðið eftir snjónum síðan í sumar.

Eitt kvöldið í vikunni fengum við okkur vínber eftir kvöldmatinn. Rakel raðaði í sig af miklu kappi, svo miklu að við þurftum að stoppa hana af. Hún var nú ekki á því, þurfti sífellt að smakka eitt í viðbót, bara eina baun (minnsta mælieining sem hún getur hugsað sér). Í lokinn var allt búið nema örfá skemmd ber sem við höfðum tekið frá. Rakel var ekki sein að grípa eitt og ætlaði að stinga því í munnsann sinn þegar við sögðum henni að það mætti hún ekki, þessi ber væru skemmd. Hún horfði forviða á okkur: 'Hver skemmdi þau? sagði hún hneiksluð.

Eins og oft áður vorum við eitthvað að spyrja hana hvernig hefði verið í leikskólanum og hvað hún hefði fengið í hádegismat. 'Ég veit það ekki, ég bulla bara' sagði hún. Við héldum nú ekki og spurðum aftur. Hún studdi hönd undir kinn og andvarpaði. Teygði svo hendurnar út og lagði og á sinn hvorn handlegg okkar Hrundar: 'Þið eruð svo góðIR' sagði hún blítt í von um að losna við að svara. Við þökkuðum fyrir og spurðum hvort hún væri alveg búin að gleyma hvað hún hefði fengið að borða á leikskólanum. 'Ég er ekki á leikskólanum' sagði hún snöggt og þar með var málið útrætt. Óþarfi að vera að tala um leikskólann þegar maður er ekki í honum.

Við Hrund erum búnar að gera ólívubollurnar og þær bíða girnilegar inn í frysti. Við náðum líka að taka einn jólahring í Ikea daginn eftir magakveisu Rakelar. Keyptum eitt nýtt jólaskraut eins og við gerum fyrir hver jól og eitthvað meira glingur. Rakel eignaðist vini í jólalandinu og hélt sig þar mest allan tímann.

Ég lærði eins og brjálæðingur fyrir spænskuprófið en til einskins. Reyndar gat ég það sem ég hafði lært en restin af spurningunum á prófinu voru ekki í neinu samræmi við það sem við höfum lært, enda var ég ekki ein um að vera að skíta á mig. Fólk ákallaði guð og stundi í gegnum allt prófið. Við ætlum að tala við kennarann í næsta tíma (það er aukatími af einhverjum ástæðum eftir viku) og benda honum á hvað þetta er ósanngjarnt. Öllum gekk illa. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi náð. Því miður gildir prófið 20% af lokaeinkunn. Er farin að sjá fram að fá frekar lélegar einkunnir í spænsku. Það er alltaf erfiðara að læra annað tungumál en þitt eigið. Allavega finnst mér það.

Við stelpurnar áttum gæðastund í gær. Um að gera þar sem prófatörnin er hér með hafin. Fórum í keilu og út að borða á Á næstu grösum og fengum okkur svo ís í eftirrétt.

Núna eru Sprundin og Rakel á leið til ömmu Sillu og ég er að fara að læra. Á morgun ætlum við að skreyta og kveikja á fyrsta kertinu í aðventustjakanum og svo er komið að mér að vera með Rakel á meðan Hrund lærir. Annars er konan mín svo mikill snillingur að hún þarf bara í eitt próf, sleppur við hin sökum góðs árangurs á önninni. Stoltið er alveg að drepa mig. Um miðjan desember fer hún svo að sækja búslóðina sem hún hefur smíðað í skólanum. Ætli við verðum ekki að kaupa okkur nýtt hús fyrir þann tíma svo við komum öllu fyrir.

Lærdómurinn bíður. Fyrst:

Mér líka helgarnar þegar Rakel er heima svo vel. Að finna að þú ert hluti að fjölskyldu, elska og vera elskaður er ómetanlegt. Þetta er lífið og hamingjuaugnablikin eru flest með stelpunum mínum.

Mér er illa við ósanngjörn próf. Það kemur aldrei fyrir að ég geti varla svarað helming af prófi. Eða falli. Gud i himmelen.

Farin að læra! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband