Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
5.9.2007 | 09:52
Hvurslags
Ég auglýsi hér með eftir auka klukkustundum. Mig vantar að fá að bæta nokkrum við í sólarhringinn minn. T.d. svo ég hafi tíma til að skrifa á þetta blogg á hverjum degi. En það er nú kannski óþarfi. Við lifum ekki það krassandi lífi.
Haldiði að ég hafi ekki vaknað með kverkaskít í morgun. Dónaskapurinn. Veit ekki við hvern ég á að æsa mig.
Skólastressið hefur komið sér fyrir í maganum á mér. Finnst svo mikið að læra og það á bara eftir að versna. Kannski væri þetta betra ef ég eyddi ekki tímanum í að prjóna eins og ég gerði í tvo tíma í gærmorgun. En ég er búin að skipta tvisvar um lit og búin með heilmikið. Ég er að springa úr stolti. Ég var búin að rekja að minnsta kosti átta sinnum upp áður en ég komst á lagið. Eins og svo oft var það Hrund sem kom mér til bjargar þegar ég var að tapa geðheilsunni. Hún spurði mig hvað væri eiginlega að þegar hún var búin að fylgjast með mér rennsveittri með prjónana í drykklanga stund, blótandi eins og mér einni er lagið (barnið var sofandi og varð því ekki fyrir neinum skaða). Ég svaraði að ég væri að reyna að helvítis prjóna en það færi alltaf í klessu. Þá horfði hún á mig með þolinmæði (sem ég á ekki til, aldrei) og sagði: þú þarft bara að æfa þig!
Ég hafði ekki fattað það. Svo æfði ég mig og gafst ekki upp, sló af þeim kröfum að trefillinn þyrfti að vera fullkominn og voila (er það ekki skrifað svona annars?)
Ykkur finnst kannski skrítið að þetta gangi svona illa en skýringin er einföld. Handavinnukennarinn í Melaskóla var hundrað ára og átti að vera komin á eftirlaun fyrir löngu en var á einhverjum sérsamningi. Hún reykti í frímínútum og setti stubbana í veskið. Það var ekki hægt að vera nálægt henni. Svo var hún hálfblind og sögur gengu um að hún staupaði sig inn á klósetti hvenær sem færi gafst.
Í Breiðó vorum við bara í því að gera ónauðsynlega hluti eins og að sauma út. Úff.
Í réttó tók ekki betra við. Kennarinn hataði mig auk þess að vera með banvænan andadrátt. Hún fyrirleit mig fyrir að fjöldaframleiða ekki flíkur og fyrir að skilja ekki saumavélar. Þegar ég bað um að fá að læra að stoppa í sokka, sem var um það bil það eina sem ég hafði áhuga á að læra, sagði hún að það gerði enginn lengur. Þá bara gafst ég upp á henni, nenni ekki að tala við fólk sem hendir hosunum sínum ef það kemur gat á þær. Uss bara.
Sumst. Amma kenndi mér að prjóna og hekla þegar ég var krakki og mamma hefur hjálpað mér með allt í skólanum og eftir hann. Þær hljóta að fá einhvern bónus frá ríkinu hvað úr hverju.
Rakel er byrjuð á leikskólanum og það er ekki eins og hún hafi verið í burtu í sjö vikur. Fær endalaus hrós frá starfsfólkinu en ég veit nátla hvað hún er fullkomin.
Mig langar svakalega að prjóna en ég verð eiginlega að fara að lesa spænsku. Kannski ég fari milliveginn og geri eitthvað allt annað eins og að hringja aðeins í mömmu ...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 16:17
Ljúf helgi
Við höfðum það rosa fínt um helgina. Ég elska að fjölskyldustússast eitthvað. Líf mitt er ekkert líkt því sem ég ímyndaði mér að það myndi verða þegar ég var yngri en mér finnst það frábært. Ég hreinlega dýrka hluti sem ég hafði engann áhuga á áður fyrr. Ég sagði eitt sinn við Hrund að hún væri draumurinn sem mig dreymdi aldrei um að dreyma. Ég lifi drauminn sem ég vissi ekki að ég ætti mér. Fyrir vikið er allt ennþá betra.
Rakel fílaði sig í tætlur í Kroppakoti. Mátti ekki vera að því að kveðja okkur og við þurftum svo að lokka hana með okkur heim, rennsveitta, með úfið hár og bros á vör. Hún fékk sér svo kærkominn blund og eftir það fórum við til tengdó þar sem hún lék sér í garðinum í rigningunni. Við vorum svo boðnar í mat til mömmu á sunnudaginn og tókum því rólega þar. Fórum líka að sækja lopapeysu sem Inga frænka prjónaði eftir pöntun á Rakel. Hún er í sauðalitunum, ótrúlega flott og ég og Hrund erum grænar af öfund.
Ég fékk svo mömmu til að kenna mér klukkuprjón og er nú byrjuð að prjóna röndóttan trefil á Rakel. Hún spyr mig einu sinni á mínútu hvar trefillinn sinn sé og skilur ekkert þegar ég segi henni að hann sé ennþá á prjónunum. Ég er orðin alveg húkt og sé kvöldið fyrir mér í hillingum. Ég og prjónarnir.
Spurði Hrund hvort henni fyndist ekki magnað að eiga konu sem eldaði, gerði við saumsprettur og stoppaði í sokka, bakaði og prjónaði og smyrði handi henni nesti. Henni finnst það magnað. Mig langar að vera mamma með svuntu og eiga heilan krakkaskara og búa upp í sveit. Við Hrund látum okkur dreyma og hlægjum yfir því að þetta sé það sem okkur langar. Aldrei hefði okkur grunað það ...
Ég er byrjuð í skólanum aftur. Hef kviðið því svolítið undanfarið, aðallega af því að honum fylgir svo mikil vinna, en um leið og ég fór í fyrsta tímann leið mér betur. Skólafílingurinn helltist yfir mig. Fór svo eftir tímann upp á Þjóðarbókhlöðu að ná mér bækur og stóð svo dágóða stund í rigningu og roki og beið eftir strætó. Get ekki annað sagt en að hausið hafi byrjað í dag með skólanum. Sat svo í strætó og hlakkaði til jólanna. Eitthvað sem ég hafði ekki gert lengi áður en ég eignaðist fjölskyldu.
Sem sagt, haustið er komið og eins og alltaf á haustin er ég eitthvað að drífa mig. Verð að hlaupa út og ná í Rakel. Hasta pronto!
1.9.2007 | 10:23
Sól í hjarta
Elskurnar mínar. Ég held að þessi ruslvörn verði að vera. Mamma segir að ef maður er lélegur í stærðfræði þá er maður yfirleitt góður í hugarreikningi. Kannski eru þið öll svona góð í stærðfræði, ekki amalegt það.
Annars vil ég taka það fram að ég tala hvorki né skrifa fullkomið mál. Heitustu umræðurnar í skorinni upp í skóla eru örugglega um álit fólks (ekki allra) á íslenskunemum. Í fyrsta lagi á fólk erfitt með að skilja hvað við gerum í íslensku þar sem við kunnum hana. Í öðru lagi heldur fólk (aftur ekki allir) að það eina sem við getum nýtt námið í sé í kennslu. Í þriðja lagi gerir það ráð fyrir að við tölum lýtalaust mál.
Mikill miskilningur allt saman. Við nemarnir erum fæst það hrokafull að halda því fram að við kunnum allt sem hægt er að kunna í íslensku. Við erum ekki að læra að stafsetja og lesa þarna upp frá. Ég læri bókmenntafræði og sögu, íslenskt mál að fornu, setningafræði (þar sem notuð eru hugtök sem ekki eru kennd í menntaskóa), orðmyndunarfræði (vissi nú ekki hvað það var áður en á byrjaði í náminu),aðferðir og vinnubrögð (hvernig á að skrifa ritgerð, afla heimilda o. s. frv.), hljóðfræði og málfræði (inn í því námskeiði er allt frá ættartré tungumála og yfir í málnotkun barna). Svo læri ég að prófarkalesa og þýða. Ég læri eiginlega bara hluti sem ég kunni ekki.
Mig langar ekki að vera kennari! Ég hef litlar áhyggju af því að ég geti ekki nýtt gráðu í íslensku í íslensku samfélagi. Ef þið vissuð það ekki finnst mér gaman að skrifa. Mig langar að taka master í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og helst vinna á fjölmiðli í framtíðinni.
Ég tala ekki villulaust mál. Ég held að í flestum tilfellum sé máltilfinning mín í samræmi við það sem talið er gott mál. Hins vegar er málið að breytast svo mikið og þar með reglur. Stór hluti fólks talar ekki í samræmi við það sem talið er gott mál. Ég litast af því. Og allt í lagi með það. Ég geri ekki þær kröfur á fólk að það skipti það jafn miklu máli og mig að tala fallegt mál. Ég hins vegar leiðrétti þá sem ég þekki (reyni nú oft að sitja á mér og gjamma ekki fram í í miðri setningu, gengur ekkert svakalega vel). Mér finnst skipta mestu að ég er meðvituð um hvernig mig langar að tala, hverjar reglurnar eru. Ég þarf t.d. að hugsa hvernig beygja á ær og kýr (eins og flestir), beygingarnar samræmast ekki minni máltilfinningu. Mig langar hins vegar að beygja þetta rétt svo ég hugsa áður en ég tala eða segi eitthvað og leiðrétti mig svo. Svona er það með fleira.
Núna er ég búin að halda ræðu yfir ykkur. Nú skilja allir mig betur. Ekki að þið séuð fólkið sem ég er að tala um. Langaði bara að koma þessu frá mér. Svo byrja ég í aukafaginu, spænsku, í haust. Jibbí!
Litli engillinn er kominn. Knúsaði okkur í bak og fyrir og kyssti þegar við sóttum hana. Horfði á okkur hýr á svip og sagðist elska okkur. Finnst yndislegt að fá gefa henni kvöldmat, baða hana og setja hana ilmandi í hrein náttföt. Heyra andadráttinn hennar þegar ég fer að sofa. Vakna við tipl í berum tám, gefa henni speltflögur og AB-mjólk (alltaf í hollustunni), vítamín og appelsínusafa. Klæða hana í náttslopp og inniskó og kveikja á morgunsjónvarpinu fyrir hana. Horfa í augun sem horfa eins og inn í mig og enn og aftur undrast það hversu heitt er hægt að elska litla manneskju.
Núna ætla ég að hella upp á kaffi og svo förum við mægður að vekja Hrund. Ætlum í ræktina og Rakel ætlar að prófa að vera í gæslunni í Kroppakoti.
Sól í hjarta, sól í sinni, sól bara sól.
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar