Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Peningar með sín leiðindi

Já, já, ég veit. Ég hef ekki verið dugleg að skrifa. Ætli ég hafi ekki bara verið of upptekin við að borða. Og knúsa stelpurnar mínar. Þeir sem hafa mínustekjur líkt og ég og Hrund (þ.e. lifa á námslánum og eru í skóla) njóta þess munaðar að fá ágætis jólafrí. Hvorug okkar er byrjuð í skólanum og Rakel fór í fyrsta skipti á leikskólann í gær síðan fyrir jól. Þegar rútínan er engin er bloggáhuginn að sama skapi lítill. Eða kannski er það meira það að ég hef enga ástæðu til að kveikja á tölvunni þegar ég er ekki í skólanum og blogga þar af leiðandi ekki. En núna er þetta allt að byrja svo örvæntið ekki.

 Peningar já. Ég og Sprundin ætlum að kaupa okkur bíl. Það kemur að því að maður getur ekki gert lengur við bílinn sem bilar á tveggja mánaða fresti og heimtar 40000 kr. í hvert skipti. Sem er nátla helber dónaskapur. Við skítum þessu ekki. Krónunum það er.

Ég hef því setið og reiknað út hversu dýran bíl við höfum efni á að kaupa. Ef tryggingar væru ekki svona dýrar gætum við keypt alveg hreint ágætis bíl. Í staðinn þurfum við að gera okkur sæmilegan-ágætan að góðu. Sem er allt í lagi. Ég þakka fyrir að hafa möguleikann á því að kaupa bíl og þurfa ekki að vera með barnið í strætó alltaf hreint. Þar sem við Sprundin erum einstaklega útsjónasamar og ég snillingur í að nurla saman og leggja fyrir þá eigum við dágóða summu inni á bankabók. Sem aftur gerir okkur kleift að kaupa bíl. Geri aðrir betur á mínustekjum.

Fyrir utan það að við eigum mömmur sem leyfa okkur aldrei að borga til baka þegar við fáum lánað hjá þeim. Það sparast því endalausar aukakrónur hér og þar. Takk fyrir það bestu mömmur og tengdamömmur í heimi. 

 Meira um peninga. Það eru ágætis líkur á því að ég fái vinnu í Háskólanum í sumar. Ekki endilega við sama verkefni og síðast en það er bara gaman að breyta til. Launin stóðu hins vegar nokkuð í mér. Mér finnst ekki eðlilegt að fá minna borgað fyrir þess vinnu heldur en ég fékk sem leiðbeinandi á leikskóla því eins og allir vita eru launin þar ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég hringdi áðan niður á launadeild og komst að því að sökum aldurs (ári eldri en í fyrra) og eininga sem ég mun hafa lokið í sumar hækka ég í launum. Ef mér býðst vinna get ég því þegið hana án þess að hafa krónískar áhyggjur af peningum. Get þá kannski tekið smá sumarfrí með stelpunum mínum.

Það var þrettándakaffi á leikskólanum hjá Rakel í gær. Rakel var að springa hún var svo spennt yfir því að fá okkur í heimsókn. Þegar við komum snérist hún í kringum okkur og vaktaði okkur að sjálfsögðu því henni líkar hreint ekki vel þegar önnur börn eru eitthvað utan í okkur. 'Má ég gefa mömmunum mínum svona rjóma og kakó' sagði barnið í gær. Er það ekki bara krúttlegast í heimi? Mömmunum mínum.

Við fengum tvö ár þar sem barnið var alveg ómeðvitað um þetta 'stráka' og 'stelpu' kjaftæði. Var í hvaða litum sem var. Um daginn settum við hana í ljós-og dökkbláröndótta nærskyrtu og hún horfði forviða á okkur. Sagði þetta strákabol. Við héldum nú ekki. Hún væri stelpa og væri í bolnum og hann því stelpubolur. Rifum svo fram öll þau bláu föt sem við áttum og sýndum henni. Hún var líka að fá bláan pollagalla. 'Strákagalli' tilkynnti hún. Og við héldum sömu ræðu. Hún var alls ekkert ósátt við að fara í þessi föt. Fannst þau bara vera fyrir stráka. Ég þakka bara fyrir að fá að klæða hana í þetta. Og það mun ég gera þangað til hún fer að grenja undan því og virkilega hafa skoðanir á því.

Mikið andskoti finnst mér leiðinlegt að þetta skuli vera svona alltaf hreint með stelpu og stráka hitt og þetta. Skiptir einhverju máli hvort börn eru stelpur eða strákar þegar kemur að fötum og leikföngum? Hver sagði barninu mínu að blátt væri strákalitur? Væntanlega önnur börn. En hver kenndi þeim það?

Ég vil að dóttir min hafi frelsi til að gera það sem hún vill og vera í því sem hún vill án þess að það sé stimplað stelpu- eða strákalegt.

En ef hún er í bláu þá fær hún örugglega áhuga á bílum og verður lesbía og gengur aldrei út. Er það ekki svoleiðis?

Fjandinn hafi það. 


2008

Svo ég haldi áfram með yfirlitið síðan síðast ...

Höfðum það rosa gott hjá mömmu þann 27. des. Ég byggði pínkulítið snjóhús með Rakel milli þess sem við borðuðum og spiluðum. Akkúrat það sem maður á að gera um jól.

Jólaballið daginn eftir var líka mjög skemmtilegt. Rakel var búin að bíða spennt í marga daga, gat ekki beðið eftir því að fá að hitta jólasveininn. Enda sat hún um hann og einokaði hann allt ballið. Þurftum að útskýra fyrir henni að hann þyrfti líka að vera með hinum börnunum. Hún elti hann með stút á munninum og heimtaði koss sem hún og fékk. Fórum svo í smá jólaboð til ömmu, átum kökur og spjölluðum við fjölskylduna.

Á laugardaginn fór Hrund að hitta vinkonu sína en við Rakel eyddu deginum með mömmu í ýmsum útréttingum. Við fórum svo í bíó á sunnudaginn og var Rakel í essinu sínu. Hún fékk rúsínur, þurrkaða ávexti og piparkökur í poka og svala að drekka og var alsæl. 

Fyrri hluta gamlársdags dúlluðum við okkur hjá tengdó og svo keyrðum við Rakel til pabbans. Hún eyddi áramótunum með honum sem var ótrúlega skrítið. Eftir kvöldmat hjá tengdó brunuðum við Hrund heim og tókum á móti fullt af fólki. Fjölskyldan ákvað skyndilega að endurnýja gamla hefð og eyða kvöldinu saman svo mamma og co., systir mömmu, hennar krakkar og viðhengi og afi og amma mættu. Brjálað stuð. Frændi minn er sölustjóri hjá flugeldasölu björgunarsveita og mætti með bílfarm af flugeldum. Klikkað gaman.

 Ég og Hrund sváfum svo út í morgun og mikið var það gott. Snúllan var að koma heim og ég er um það bil að hefjast handa við matseldina. Ætla að hafa sítrónukjúkling og eplaköku með ís og Rakel ætlar að sjálfsögðu að hjálpa.

Mikið er lífið ljúft. Gleðilegt ár allir og takk fyrir samveruna á því liðna. Knús! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband