Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Tíminn líður ...

... svo hratt finnst mér og sífellt hraðar eftir því sem ég eldist. Mér finnst hann sérstaklega líða hratt eftir að ég byrjaði í Háskólanum. Núna er t. d. önnin að verða búin, rétt vika eftir og svo skella prófin á af öllum sínum þunga.

Er búin að vera með fiðrildi og söknuð í maga það sem af er degi. Strákur sem er með mér í Menningu, sögu og þjóðlífi Rómönsku-Ameríku hélt smá fyrirlestur um Costa Rica í dag. Hann er sjálfur þaðan og bara að heyra hann tala, heyra sérstakan r-framburðinn, var nóg til þess að nostalgían helltist yfir mig. Var svo með tárin í augunum allan fyrirlesturinn, það var svo skrítið að sjá myndir af stöðum þar sem ég hafði verið, hvað þá borginni þar sem ég bjó meðal annars, af torginu mínu þar sem við vorum vön að hittast og finna okkur eitthvað að gera. Úff. Mig langaði að rjúka út úr stofunni, ræna Sprundinni úr skólanum og fljúga út í sólina, spænskuna og þykkt loftið. Rakel myndi vera heima þar sem ég þori ekki að fara til Mið-Ameríku með barnið. Væri allt of hrædd um hana. Það yrði nógu erfitt að vera með ljóshærðri, fullorðinni manneskju.

En mig dreymir um að sína stelpunum mínum Costa Rica sem ég elska, dýrka og dái. Og auðvitað Nicaragua sem er allt öðruvísi og líka svo stór hluti af mér. Sniff.

Var líka hálf angurvær um helgina. Komst að því í tíma á föstudaginn að spænskukennarinn minn notar einhvern rakspíra sem kallar fram minningar frá Costa Rica. Það er eittvað við lyktina sem fær minningarnar til að streyma fram og ég get heyrt röddina í abuelu á fincunni minni í Guanacaste og fundið bragðið af tortillunum hennar og ég man hitann og svitann og lykt af dýrum og mold og ég sé herbergið mitt fyrir mér, pínkulitla herbergið mitt með bláu gluggahlerunum og gardínu í stað hurðar.

Þessir myndir voru í huga mér alla helgina og það var bara gaman. Við fjölskyldan gerðum heilmikið eins og alltaf um helgar. Sumir vinir okkar hafa reynt að líta við ,oftar en einu sinni, um helgar og við aldrei verið heima. Það þýðir ekkert að koma án þess að hringja á undan sér. Um helgar erum við ávallt að fjölskyldast út um allar trissur. Að minnsta kosti um mömmuhelgar.

Við fórum í íþróttaskólann á laugardaginn. Þetta var síðasti tíminn og Rakel fékk viðurkenningarskjal, kex og epli. Við fórum svo í morgunkaffi til ömmu minnar þar sem búið var að dúka þvílíkt veisluborð inn í stofu. Útbelgdar keyptum við inn í Bónus og fórum svo í heimsókn til Maríu vinkonu sem er alveg komin á steypirinn og er fallegri en nokkru sinni. Finnst okkur. Ekki henni sem er aðframkomin af þreytu.

Á sunnudaginn var það fermingarveisla í skíðaskálanum í Hveradölum og kvöldmatur hjá mömmu.

Rakelin tók tvö grenjuköst um helgina sem rekja mátti beint til sykuráts fyrir utan að vera ekki mjög meðfærileg (sem hún er venjulega, ég veit að hún er bara kútur og hún má alveg vera með vesen en það er munur á venjulegu veseni og svo algjörum stælum í kjölfar sykuráts). Ekki að hún hafi fengið nammi, ekki í boði á þessum bæ. En kexkakan á laugardaginn og kökusneið hjá ömmu var nóg til þess að hún breyttist í annað barn. Og kökusneið og síðdegislúr á sunnudag var nóg til þess rugla hana alveg í ríminu. Það kemur nær aldrei fyrir að hún fái svona mikið bakkelsi á tveimur dögum. Og hún hreinlega ræður ekki við sykurinn. Ég held að þau séu ekki eins ströng á sykrinum hjá pabba hennar og skil hreinlega ekki hvernig þau afbera það.

Mér finnst nóg um þegar hún fær íspinna í leikskólanum, ég sé alltaf mun á henni þegar hún hefur borðað eitthvað með sykri og fullt af aukaefnum. Það er ekki einu sinni til hvítur sykur á þessu heimili og krakki eins og hún sem er alin upp við hollustu hreinlega ræður ekki við þetta eitur. Fæst börn gera það auðvitað en það er hægt að venja þau á hvað sem er.

Og burt með þessar helvítis Mcdonalds auglýsingar sem beint er að börnum. Þetta á að vera bannað. Ég vil ekki sjá að Rakel borði á svona skyndibitastöðum. Og burt með þessar Latabæjarauglýsingar. Mér finnst hugmyndin um hollt mataræði og hreyfingu fín en ég þoli ekki þessa markaðssetningu þeirra. Auglýsingar þeirra sem beint er til barna og fataherferð fer í taugarnar á mér. Ég bara vil ekki að reynt sé að selja börnum hugmyndir, auglýsingum á að vera beint til fullorðinna enda þeir sem taka ákvörðun og kaupa.

Ég vil að þessum heilaþvotti verði hætt. Og ég vil ekki hafa ís í afmælum á leikskólanum. Ég vil hafa spelt pasta og lífrænan mat og ávexti í veislum.

 AAAAHHHH. AAARRRRG.


Japanskt bað

Ég var búin að segja ykkur frá dekrinu sem ég fékk í afmælisgjöf og að Hrund fékk líka sem fyrirfram afmælisgjöf frá mömmu. Við skelltum okkur sumst í dekrið, japanskt bað, á miðvikudaginn. Áttum tíma klukkan fjögur og mamma tók því Rakel að sér. Við vorum settar í sturtu og skrúbbaðar og þvegnar. Sátum þarna á evuklæðunum og lyftum höndum og fótum eftir skipun. Gott fyrir mann að neyðast til að líta á líkama sinn sem einmitt það sem hann er og hætta að vera svona sjálfsmeðvitaður. Hef ekki verið skrúbbuð svona af annarri manneskju síðan ég var lítil og mamma þvoði mér.

Vorum svo settar í bleyti í sjóðandi heitan pott og þegar við vorum að yfirliði komnar sökum hita var komið að nuddi. Svæðanuddi. Og ég fékk powernudd. Ég hélt ég myndi deyja úr sársauka. Hef aldrei upplifað annað eins. Ég lá á dýnu á gólfinu og konan notað olnbogana og allan sinn líkamþunga til þess að nudda einhverja orkupunkta á rasskinnunum. Tárin láku ofan í koddann og ég var farin að biðjast vægðar. Hún tók allan líkamann minn svona. Bak, læri og kálfa að aftan og svo snéri ég mér við og það sama tók við hinum megin. Hún nuddaði líka kirtlana í holhöndinni og ég hélt að hún myndi slíta af mér brjóstin þegar hún var að sýna mér hvernig ég gæti komið í veg fyrir brjóstakrabbamein með því að nudda eitlana. Nakin, að sjálfsögðu, og löðrandi í olíu var mér svo komið fyrir í stól og punkar í andliti örvaðir. Allan tímann talaði konan látlaust, margt var speki og annað, að mér fannst, bull. Hrund sem fékk venjulegt svæðanudd lá í slökun í næsta herbergi.

Hún var nú ekki í vandræðum með að lesa okkur, konan sem nuddaði mig og sem á þetta japanska bað. Í lokin vissi hún allt um okkar hagi. Við fórum svo í sloppa og borðuðum heimatilbúin mat og hvíldum okkur. Við vorum rúma þrjá tíma í þessu og það verður að segjast að við vorum heldur betur endurnærðar og eiginlega agndofa að þessu loknu. Ég fékk líka að vita að það væri ekkert að mér, öll líffæri í góðu standi, mjaðmagrindin breið og ég því sköpuð til að eiga börn og að ég ætti að láta af þessari fullkomnunaráráttu sem væri að plaga mig. Ég veit.

Ég mæli með þessu. Þó ekki nema væri fyrir lífsreynsluna. Við kyrnur fórum svo í bíó á eftir og ræktuðum sambandið enn meir. Yndislegt að fara svona út í miðri viku og gera eitthvað skemmtilegt.

Í gær var ég voða skrítin. Held að orkustöðvarnar hafi verið of opnar. Var eiginlega hálf geðveik af tilfinningarugli. Tókst þrátt fyrir það að leggja lokahönd á ritgerðina í spænsku með hjálp mömmu sem prófarkalas. Hún er tilbúin!

Í dag var ég skárri, hamingjusöm og full orku eins og konan sagði að ég myndi vera. Kom heim, tók smá stund fyrir sjálfa mig og hófst svo handa við að þrífa. Eins og ég hef áður sagt þrífum við Hrund á eins og hálfs vikna fresti. Í þau fáu skipti sem það bregst og lengra líður á milli endum við yfirleitt með því að þrífa svakalega vel. Sú var raunin í dag. Ég tók til og þreif allt hátt og lágt. Gerði pásu til að drösla þríhjólinu á leikskólann og leyfa Rakel á hjóla heim. Hún sat svo inn í herbergi og teiknaði en ég setti óperur á fóninn, opnaði alla glugga til að hleypa vorinu inn og stillti svo græjurnar í botn svo hverfið gæti notið með okkur Rakel. Við fíluðum okkur í tætlur og tókum undir sönginn í sitthvoru herbergi. Rakel byggði svo marblett (?) úr kubbum og er líklega eina manneskjan sem hefur tekist það. Meðan ég lagði lokahönd á þrifin steig hún dans inn í stofu með hettu á höfðinu og var vægast sagt kostuleg.

Hrund kom heim að verða sex og er nú að ryksjúga. Rakel horfir á Litlu folana og ég er búin að henda sítrónukjúlla inn í ofn. Ætla núna að fara að gera kúskús og njóta lífsins.

Rétt föstudagur og heil helgi framundan. Ég bið ekki um meira. 


Litli gullmolinn

Ég elska litla rauðhaus þótt hann geti auðvitað gert mig hálf geðveika stundum sem aftur veldur því að ég skamma hann sem hefur þær afleiðingar ég fæ gífurlegt samviskubit sem endist mér daginn á meðan molinn er löngu búinn að gleyma og syngur inn í herbergi.

Í gær prílaði ég upp á háaloft og náði í þríhjólið hennar Rakelar. Fann þó hvergi hjálminn hennar svo ég gat ekki leyft henni að hjóla heim af leikskólanum. Hún reyndi að sannfæra mig um að húfa væri nægileg vörn en ég stóð fast á mínu. Það á að hjóla með hjálm og eins gott að hún venjist á það frá byrjun. Ég keypti mér meira að segja sjálf hjálm um leið og við urðum okkur úti um hjól og stól aftan á fyrir hana, svona til að sýna gott fordæmi.

Þrátt fyrir dauðaleit fannst hjálmur hvergi og var barnið að rifna úr spenningi yfir hjólinu. Vappaði í kringum um það og hringdi bjöllunni (hjólið stóð í holinu) og minnti mig endalaust á að ef hjálmurinn fyndist mætti hún hjóla á morgun.

Ég ákvað að setja skítahauginn snemma í bað. Þessi orkubolti kemur alltaf löðursveittur og með sand í rassi og hári úr útiveru. Það er hið besta mál, það eru drulluföt og drullupollar sem ég hatast við.

Krílið reif sig úr fötunum og kom þá í ljós að búið var að pissa í buxur og greinilegt var að einhver hafði farið á klósettið og skeint sig sjálfur eftir að hafa kúkað og það með miður góðum árangri miðað við útlit nærbuxna. Barnið var komið ofan í baðið þegar ég tók eftir þessu en ég neyddist til að draga hana upp úr og láta hana pissa svo hún pissaði ekki í baðið. Hélt líka fyrirlestur um að hún væri allt of gömul til að vera sífellt að pissa í buxur, hún yrði að gefa sér tíma til að sinna þessum þörfum sínum þótt lífið væri spennandi. Rauðhaus var stórmóðgaður yfir að vera rifinn upp úr baði auk þess að halda að ástæða þess væri sú að ég væri æf af reiði. Sú var nú ekki rauninn en hún þurfti að gráta soldið og ég að hækka róminn og það finnst okkur báðum leiðinlegt.

Eftir þessi dramaköst okkur beggja lagðist hún aftur í bleyti og ég réðist til atlögu við fisk inn í eldhúsi. Ákvað svo að líta inn til hennar, tjá henni ást mína og athuga hvort ekki væri allt í lagi. Því miður kom ég að henni þar sem hún var að drekka baðvatnið úr bolla. Því miður gerist þetta í hvert einasta skipti sem hún fer í bað. Því miður verð ég ekki glöð þegar ég sé þetta. Hélt langa ræðu yfir henni um það sem væri í vatninu. Mér er nokk sama um lífrænar olíur og baðsalt, hún lifir það af. Hins vegar er öllu ógeðfelldara að drekka vatn sem inniheldur klístrað tásukusk, sand sem áður var í rassi, í höfuðleðri, eyrum og nefi, hor úr nefi, og þær leyfar sem eftir urðu þegar krílið reyndi að skeina sig sjálft. Fyrir utan það var hún svo skítug á höndunum (gaman að vita til þess að hún þvoi sér ekki eftir útveru og fyrir drekkutíma og borði svo drullublandað brauð, ekki það baðvatnið sé eitthvað skárra) að hún skildi drullurákir eftir hvar sem hún snerti baðkarið. Hún harðneitaði að þetta væri allt í baðinu og hundleiddist röflið í mér. Vonandi heyrði hún eitthvað og hún brast að minnsta kosti ekki í grát.

Þetta átti að vera svo kósý stund hjá okkur en fór bara í eitthvað uppeldi og siðavandanir sem ég verð stundum svo þreytt á. Sérstaklega ef ég er þreytt og næ ekki að koma boðum og bönnum til skila á skemmtilega hátt eins og mér tekst stundum.

Allavega. Hrund leitaði að hjálmi án árangurs. Ég var komin upp í rúm að lesa og braut heilann um hvar hann gæti eiginlega verið. Kom allt í einu skápur í hug og viti menn, þarna voru hjálmar okkar beggja.

Þegar ég vakti álfinn í morgun hvíslaði ég í hálsakotið að við hefðum fundið hjálmið. Barnið rauk upp með svo miklum látum að við lá að hún skallaði mig. Hún henti sér í fangið á mér og ég bar þennan heita böggull fram í hol þar sem hjól og hjálmur stóðu. Hún var himinlifandi. Ég sagði henni að ef við værum fljótar gæti hún fengið að hjóla. Allt gekk eins og í sögu þangað til ég var að greiða henni (sem gengur yfirleitt mjög vel, síðan stráin á hausnum urðu tvö hef ég greitt í tagl og fléttað og ég veit ekki hvað og tek minnst 10 mínútur í þetta á hverjum morgni). Kannski var það það að ég fékk að velja greiðsluna (nenni ekki að gera Línu langsokks fléttur á hverjum einasta degi) og athyglin því ekkert of mikil eða þá að mamma hennar var einmitt að koma úr sturtu sem var of mikil truflun fyrir hana. Hún var að minnsta kosti sífellt á iði og snéri höfði í ýmsar áttir sem gerði mér erfitt um vik. 'Horfðu fram Rakel' sagði ég í sífellu, 'þú verður að horfa beint fram'. Hún tautaði eitthvað svar í hvert skipti, ég veitti því enga sérstaka eftirtekt, hún er vön að þusa á móti þegar ég þusa. Á endanum ofbauð henni þó horfðu fram-skipunin og sagði:´Ég get ekki horft fram, mamma er búin að loka hurðinni.' Sem var alveg rétt. Við vorum inn á baði og snérum að hurðinni. Þar sem mamma hennar lokaði hurðinni fram á gang þegar hún kom úr sturtu gat Rakel eðlilega ekki horft fram. Hurðin var fyrir eins og henni sjálfri varð að orði.

Sniðugur krakki. Við Hrund áttum hins vega í basli með að útskýra muninn á því að horfa fram og horfa fram á gang. Kannski að því að við börðumst við hláturinn.

Anginn minn fékk svo að hjóla í leikskólann. Hún horfði annaðhvort beint niður í götuna eða aftur og ég átti fótum mínum fjör að launa. Auk þess tók ég eftir því að hún er orðin svo stór að stækki hún um tvo sentimetra í viðbót mun hún reka hnén í stýrið. Sé ekki alveg þriggja ára barn fyrir mér á tvíhjóli.

Rakelin mín var samt svo glöð og það er það eina sem skiptir máli.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband