Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

?

Var að skoða gestabókina áðan og sá að Elsa var að spyrja um japanska baðið sem ég og Hrund fórum í.

Hver er annars Elsa? Elsa hennar Valdísar eða? Endilega skrifa komment.

Fékk gjafabréf frá mömmu og hún er með símanúmerið hjá konunni sem rekur þetta. Mamma er ekki í bænum en kemur á morgun og þá get ég beðið um númerið. Ég man ekki einu sinni heimilisfangið. Jú, þetta er á SKúlagötu 40 minnir mig en það er gengið inn frá Barónstígnum, rétt fyrir neðan búðina Janus.

Þannig Elsa mín, skrifaðu komment ef þú hefur ekki enn fundið þetta.

Annars voru hér tveir óboðnir geitungar áðan. Í fyrra voru að meðaltali 5 í íbúðinni á hverjum degi allt sumarið. Þegar við komum frá Svíþjóð sagði fólkið okkur niðri að það hefði fundist geitungabú í trénu fyrir utan eldhúsgluggann okkar. Fannst líka eitthvað óðeðliega mikið af geitungum inn í eldhúsi alltaf hreint. Búinu var eytt.

Er helvítið komið aftur? Ég hringdi í Sprundina. Ótrúleg þolinmæði sem hún hefur gagnvart því að láta garga í eyrun á sér. Þurfti andlegan styrk hennar á meðan ég reyndi að koma öðrum geitungnum út. Assgoti eru þeir vitlausir. Lokaði svo öllum gluggum og þorði lengi vel ekki að fara fram í eldhús að fá mér að borða út af hinum geitungnum sem hélt sig þar.

Hrund:'Geitungar eru ekkert árásagjarnir núna Díana. Vertu bara róleg' Farin að sjá eftir því að hafa svarað símanum.

Díana æpir: Hefur þú verið stunginn, haaaaa? Hefur þú verið stunginn? Mundi segja að ég röddin hafi verið ógnandi. Hrund er sammála manninum sem var ekki eins hræddur við neitt og litlar konur. Hrund er umkringd litlum konum: mér, mömmu og mömmu sinni.

Hrund:'Nei' Pottþétt strax farin að sjá eftir því að hafa æst mig frekar upp. Gleymdi þeirri gullnu reglu sinni að vera alltaf sammála mér þegar ég er svona æst.

Díana æpir hærra:´Það er vooooont'

Hrund sagði mér ekkert oftar að vera róleg. Þegar ég fór til Costa Rica fannst mér eitt það erfiðasta að venjast öllum pöddunum. Pissa með köngulóm og skoppandi froskum, sofa með risbjöllur í rúminu, fá fljúgandi kvikindi sem stungu upp skálmarnar á náttbuxunum, vera stungin tvisvar af sporðdreka (muna að hrista fötin áður en þú ferð í þau, biðja svo bara til guðs um að þú verðir ekki stungin á næturna sem ég var auðvitað), vera bitin inn í eyrun og bara eitthvað fleira miður skemmtilegt. Sveitasælan.

Ég gat þetta allt og margt fleira sem var miklu erfiðara. En ég bara meika ekki geitunga.

Maður á ekki að þurfa að takast á við svona þegar maður er með flensu. Ég er hreint ekki orðin frísk. Ég sem bjóst við því að vakna hress. Hrund sagði það nú kannski vera óþarfa bjartsýni þar sem ég var með hita í gærkvöldi. Hvaða, hvaða. Allt getur gerst.

Núna sit ég hér, ekki með hita, en ó svo heitt hér í sófanum, loftið í íbúðinni staðnað og súrefni af skornum skammti þar sem allir gluggar eru lokaðir.

Það er að verða kominn tími til að fá sér að borða aftur. Geitungurinn er enn inn í eldhúsi.

Ætli það sé nokkuð verra að sleppa því að borða bara? 

Búhú 


!!!

Niður með kynjaskipt leikföng!

Mcdonalds er ekki staður sem ég borða nokkurn tíma á en þeir eru einmitt með kynjaskipt barnabox (var að lesa um það) svo þar hafið þið enn eina ástæðu til að sniðganga staðinn.

Á bæði Pítunni og American Style er 'stelpulitabók' og 'strákalitabók'. Eins og ég bloggaði einhvern tíma um valdi Rakel sér 'strákalitabókina' þegar hún fékk að velja á Pítunni og það var að beiðni Hrundar (það er að barnið fengi að velja). Um daginn fórum við á America Style i fyrsta skipti í öruggleg tvö ár og þar var okkur rétt sama bleika litabókin (áður fyrr var bara eitthvað púsl). Ég bað um litabók fyrir stráka. Rakel hefur engann áhuga á bleikum prinsessum og ég vil fá að velja hennar fyrirmyndir. Guð forði okkur frá því að dóttir mín haldi bara kjafti og sé sæt með bleikan varalit í tjullpilsi allt sitt líf.

Ég vil að hún standi á sínu, berjist fyrir sínu, efist ekki um sjálfa sig og fái að velja fyrir sig sjálf. 

Hvað er eiginlega að? ÉG VIL EKKI AÐ RAKEL SÉ TROÐIÐ Í EITTHVAÐ HLUTVERK.

Stráka og stelpu hitt og þetta: dót, föt, litir, bækur, hugsanir, hegðun, störf, laun ...

Draumur okkar Hrundar er að Rakel verði í skóla Hjallastefnunnar. Strákar og stelpur eiga það hreinlega skilið að lögð sé rækt við þau í sitthvoru lagi. Kynin eru ólík og það er eðlilegt og að sjálfsögðu allt í lagi. Einstaklingar af sama kyni geta líka verið ólíkir og þar er líka eðlilegt og allt í lagi. Það er ekki eðlilegt og ekki í lagi að búa til einhver fyrirfram ákveðin hlutverk sem börn eiga að gegna allt frá frumbernsku.

Einbeitum okkur að félagsfærni barna og örvum samkennd þeirra. Gerum okkur grein fyrir þeim mun sem er á kynjunum og á hvern hátt þau eru lík. Byggjum upp sjálfstæði og sjálfsöryggi þeirra svo þau geti tekið meðvitaðar ákvarðanir fyrir sig sjálf. Hendum þessum hundgömlu, hundleiðinlegu, fáránlegu röngu kynjahlutverkum út um gluggann.

Ég á litla stelpu sem dýrkar mótorhjól, sem leikur sér helst við stráka, er alltaf drulluskítug eftir leikskóla, er skóböðull og buxnaböðull, sem átti turtlesbíl sem sitt fyrst uppáhalds leikfang, sem notar engin'feluorð' yfir kynfæri sín (þetta er ekkert til að skammast sín fyrir), sem elskar Línu Langsokk, af því að hún gerir það sem hún vill og er sterkasta stelpa í heimi, og sem fær að heyra það á hverjum degi frá mæðrum sínum að hún geti allt sem hún vill.

Hún velur dýr og bangsa yfir dúkkur, hún á 'strákahjól' samkvæmt hugsun margra (auðvitað tók afgreiðslumaðurinn fyrst niður bleikt prinsessuhjól handa henni) af því að það er með breiðum dekkjum og er ekki bleikt á litinn, hún vill frekar lita bíla en prinsessur, hún vill frekar vera úti að gaurast en inni að halda sér fínni og svona get ég endalaust talið áfram.

Við Hrund spornum við því á hverjum degi að einhverju hlutverki sé þröngvað upp á hana. Veljum sérstaklega orð, bækur, DVD myndir, tónlist, föt og leikföng með það í huga.

Þrátt fyrir alla okkar viðleitni kom barnið heim einn daginn og sagði bláröndóttu nærskyrtuna sína vera strákabol. Af því að hann var blár.

Ég hefði getað grenjað úr pirringi. Þetta hafði hún frá börnum á leikskólanum. En það er ekki við blessuð börnin að sakast heldur fullorðna fólkið. Hvaðan hafa börnin annars þessa hugsun?

Rak augun í hina yndislegu feministabók Píkusögur áðan. Hún hefur sinn stað i bókhillunni og ég les hana reglulega. Velti því fyrir mér hvenær Rakel verður nógu gömul til að lesa hana.

Við ölum upp feminista hér á þessu heimili. Það kemur ekkert annað til greina. 


Trúi þessu ekki!

Ég er orðin lasin! Og það líka hundlasinn. Það er kannski ástæðan fyrir því hvernig mér leið í gær þegar ég loksins druslaðist í rúmið klukkan fjögur. Þá var ég búin að vinna, sækja mömmu, fara í apótek, fara í Egló (snyrtistofa með geggjaðar húðvörur án allra aukaefna), heim að þrífa með Hrund, borða með Hrund, horfa á sjónvarp með Hrund, fara í bíó með mömmu, fara út á inniskónum til að fylgjast með þegar verið var að slökkva bensíneld í bíl og bursta tennur auðvitað. Þegar ég lagðist á koddann fór allt að hringsnúast og þurfti ég að rifja upp hvort ég hefði nokkuð drukkið bjór um kvöldið. Það var nú víst ekki. Snúningarnir ollu mér mikilli velgju og var ég viss um að geta aldrei sofnað fyrir henni. Það gerði ég þó og rumskaði ekki einu sinni þau skipti sem Hrund fór á fætur til að bera vöðvakrem á laskaðar hendur og fá sér kaffi og sígó (svo fór hún aftur að sofa, ég myndi aldrei geta farið á fætur og drukkið kaffi og farið svo aftur að sofa). Þá eru komnar þrjár nætur í bara þessari viku sem ég hef notið án þess að vakna. Eftir að Rakel fæddist hef ég varla sofið heila nótt, fyrst vegna þess að umönnun hennar krafðist þess og seinna vegna einhverrar duldar ástæðu. Þess vegna er ég alltaf þreytt. Alltaf.

Ég ætlaði aldrei að koma mér á fætur klukkan tólf í dag, var svo þreytt og tuskuleg eitthvað. Við Sprundin klæddum okkur og héldum í Misty að kaupa brjóstahaldara sem passa. Búðin var því miður lokuð. Fórum þá niður í bæ og keyptum 25 ára afmælisgjöf handa Oddu poddu sem kemur í bæinn í næstu viku. Fórum svo í keramik og málaði ég rauðan bolla með hvítum doppum. Hrund gerði nokkur listaverk á risa skál sem mun vera brúkuð sem ávaxtaskál. En ég gat gert bolla. Ég trúi þessu ekki. Ég er svona barn sem vandaði mig eins og ég gat í myndlistarprófi þegar ég var 11 ára og fékk sjö í einkunn. Mér var fljótlega gert ljóst í barnaskóla að ég kynni ekki að teikna. Að ég skuli hafa getað málað þennan bolla er því mikið afrek. Sérstaklega þar sem ég mér var farið að líða ansi illa á þessum tímapunkti, hnerraði í tíma og ótíma, var undarlega skjálfhent og já, komin með hita.

Við Sprundin fengum okkur svo pizzu á Ítalíu, keytpum jógúrtíssbragðaref og náðum í spólu fyrir mig og ég er að segja ykkur það, eftir þetta allt saman var ég gráti næst og full sjálfsvorkunnar þegar ég labbaði upp stigann heima.

Hrund er farin að smíða, ég er búin að fá mér te, horfa á spólu, snýta mér og vorkenna mér.

Vona bara að Rakelin sé ekki veik því hún vaknaði allt í einu með bullandi kvef á fimmtudaginn og var um kvöldið með nokkrar kommur. Var samt hress í gær en núna er hún hjá pabba sínum svo ég veit ekki hvort hún er orðin lasin. Krílið kemur heim á morgun og verður vonandi frískt.

Æi, meika ekki meira núna. 


Svona ykkur að segja ...

... er ég að fíla mig í tætlur í vinnunni. Og ekki eyðileggur það að upplifa einstakar íslenskunördastundir líkt og þá sem ég upplifði í dag þegar allt í einu bættust við okkar þriggja manna vinnuhóp fjórir málfræðingar á ólíkum aldri og með mismikla reynslu af hinum dulúðlega málfræðiheimi. Þetta var kostulegt. Ég fann fullvissuna um að ég væri á réttri hillu í lífinu skella á mér með þeirri vímu sem fylgir því að dýrka það sem maður er að gera. AAAAHHHH.

... á ég lítinn apakött sem er nær alltaf svo glaður svo glaður. Eftir leikskóla hoppar hann á öðrum fæti (reynir, reynir, reynir, það eru til börn sem hafa betri stjórn á sínum líkama en fyrrnefndur apaköttur) um allt hús svo freknurnar dansa á nefinu og rauði flókinn hristist með, syngur frumsamdar vísur um allt og ekkert og öskrar Áfram Lína! með reglulegu millibili. Hann skríður í gólfum og skoðar rusl sem löngu ætti að vera búið að ryksjúga, flækist fyrir fótum mæðra sinna við matseld og langar mest í heimi að koma við eggina á hnífnum sem verið er að skera með. Hann segir sögur sem ekkert samhengi er í og enginn skilur en sem eru þó greinilega um eitthvað sem stendur honum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum miðað við allt handapatið og ákafann. Apaköttur elskar mest í heiminum að fá óskipta athygli mæðra sinna og á slíkum stundum gubbast hláturinn upp úr honum og er sá hlátur svo smitandi að mæður geta ekki annað en krumpast af hlátri. Lítill kroppur hans hefur ekkert í hugann sem yfirleitt er hálfu skrefi á undan og sökum þess má aldrei finna færri en fimm sár á borð við göt á hausum, kúlur á gagnaugum, glóðaraugu, blóð undir nöglum og rispur á hnjám og í lófum, á þessum litla mjúka kroppi, hvern dag. Apakötturinn segir 'JÁ' á móti þegar maður segist elska hann meira en allt og 'Á, bara gera rólega' þegar maður knúsar eða skeinir of fast. Hann er sterkur og stór, grípur um leggi mæðra sinni í tilraun sinni til að lyfta þeim og þykist þess fullviss að það hafi tekist þegar mæður lyfta sér upp á tærnar. Apaköttur fyllist þá stolti, hniklar vöðva svo fast að allur kroppurinn hristis og hann verður eldrauður í andliti og segir 'Viltu finna vöðvana mína'. Þessi undraapaköttur ætlar að eignast mótorhjól þegar hann verður stór og hræðist ekkert nema köngulær en þær hafa frá unga aldri valdið honum ómældri skelfingu og reynir unginn að fela sig milli brjósta mæðra sinna á meðan hann æpir og veinar þegar könguló er í nánd, t. d. fyrir utan baðherbergisglugga. Apaköttur bætir heiminn og gefur lífi mæðra sinna tilgang á hverjum degi en best finnst þeim þegar hann kemur allt í einu, strýkur yfir vanga og enni og segir þeim að fara bara að sofa ef þær séu þreyttar, hann skuli leiða þær inn í rúm, eða þá tekur óvænt utan um háls þeirra og segist elska þær og að hann sakni þeirra voða mikið.

... ætti ég að vera komin í rúmið fyrir löngu

... get ég talað endalaust, sérstaklega við fólk sem ég þekki ekki mikið og hef ég einstaklega gaman af því

... var ég nokkuð ánægð með mig í dag og ó ó ó hvað það er langt síðan Dianita var síðast ánægð með kroppinn sinn

... er ég mjög trúuð og ætla aðeins að tala við guðinn minn á eftir 

... man ég ekkert hvað ég ætlaði að segja næst og ætla því að hætta þessu blaðri 

ps:

mammí: Jæja Rakel, gefðu ömmu Sillu nú stórt og gott knús, hún er að fara til útlanda og verður lengi í burtu.

mamma: Hún er að fara til Bandaríkjanna. Manstu Rakel, þegar allir kennararnir á leikskólanum fóru til Bandaríkjanna? (Í starfsferð).

Rakel (yfir sig hneiksluð): Nauts, þau fóru til Frakklands!

Hvað veit hún um Frakkland? 

 


Elsku rauðhaus ...

... var hágrátandi þegar ég kom að sækja hana í gær. Þekkti grátinn um leið og ég opnaði hurðina og fékk fiðrildi í magann, gráturinn var svo sár og ekkinn þvílíkur. Fann hana inn á baði með blóð í öllu hárinu og á annarri hendinni og hor niður á maga fyrir utan a að vera eldrauð í framan af gráti. Tók hana í fangið og sussaði og bíaði og knúsaði litla, sveitta kroppinn. Hún hafði víst dottið og lent með höfuðið á horninu á bókahillu og hlaut skurð á höfuðið sem blóðið lagaði úr (að mér fannst). Mömmuhjartað tók aukaslag við þessar fréttir og maginn fór kollhnís í hvert skipti sem ég leit á blóðið í hárinu. Það virtist ekki þurfa að klemma sárið saman, það var sem betur fer ekki mjög djúpt en alltaf blæðir jafn mikið úr höfuðleðrinu á börnum.

'Ég vil ekki þvo hendurnar' grét barnið og hélt um hægri höndina sem var öll útötuð í blóði. Það tók mig svolitla stund að útskýra fyrir henni að það væri ekkert að hendinni heldur væri blóðið úr höfðinu. Við mamma (sem var með mér) fengum á endanum að þvo hendurnar. 'Ég vil ekki fara í bað' grét barnið' og ég sagði að hún þyrfti það ekki. 'Ég vil ekki fara í buskur' grét barnið og fékk að labba heim á sokkabuxunum (mér var svo kalt um morguninn að ég klæddi í hana í sokkabuxur í einhverju stundarbrjálæði, allt of heitt fyrir þær). Ég reyndi að dreifa huganum til að sefa hana og tókst það nokkurn veginn. Á göngunni heim fangaði fluga athygli hennar og þá var hún fljót að gleyma að hún væri slösuð. Þegar heim kom kom ég krílinu fyrir upp í sófa og leyfði því að horfa á Bangsímon. Límdi Línu Langsokksplástur á höfuðið (tyllti honum réttara sagt, var bara fyrir sálina litlu) og fékk að baða hana eftir kvöldmat. Sjúklingurinn fékk tvær bækur fyrir svefninn og var sofnuð fyrir átta, uppgefinn eftir að hafa slasað sig svona.

Annars er bara sumar í kotinu. 


Útilega

Þetta var vægast sagt yndisleg helgi. Eftir að hafa reynt að vinna í fjóra tíma á föstudag gafst ég upp. Gat engan veginn fengið forritið sem ég átti að nota til að virka og var orðin öskuill út í tölvuna. Geðið léttist um leið og ég hætti og skaust út til að sækja rauðhaus í leikskólann. Var komin fyrir eitt, vildi ná henni áður en hún færi út ef það skyldi byrja að rigna. Nennti ekki að taka rennblautan pollagalla með í ferðina. Rauðhus var að venju kátur og að farast úr spenningi yfir útilegunni, hafði ekki talað um annað alla vikuna. Ég baðaði kút og sjálfa mig og á meðan Rakel horfði á Dýrin í Hálsaskógi kláraði ég að taka okkur til. Við Sprund höfðum pakkað og sett nær allt í bílinn kvöldið áður þar sem við vildum leggja sem fyrst af stað.

Hrund hætti snemma í vinnunni, kom hjá við Rósu frænku og keypti æðislega gönguskó (Rósa vinnur hjá Cintamani, núna eigum við kyrnur báðar 20 þúsund króna gönguskó keypta með töluverðum afslætti) og fór svo til mömmu sinnar að ná í plastflöskur sem hún fyllti af vatni. Pabbi Hrundar og bróðir hans fóru frekar illa út úr skjálftanum, sluppu báðir ómeiddir en allt var á tjá og tundri og vatnið á Selfossi ekki drykkjarhæft. Við lögum af stað austur rétt fyrir fjögur og vorum komnar á Selfoss stuttu seinna. Þar vorum við í góðu yfirlæti þar til Bjarndís, Kjartan og Einar mættu á svæðið og héldum við þá á Hellishóla þar sem við ætluðum að tjalda.

Reyndar misstum við af afleggjaranum og snérum fyrst við hjá Seljalandsfossi. Það var hins vegar þess virði þar sem Fljótshlíðin er dásamlega falleg. Þjóðvegurinn liggur í gegnum svo flatt og óspennandi svæði en tjaldstæðið var umkringt grænum hlíðum með fjöllin í fjarska.

þegar við vorum komin á áfangastað kom í ljós að í flýtinum höfðum við Hrund ekki tekið nýja, stóra, æðislega, góða tjaldið okkar heldur gamalt, götótt, hlandlyktandi tjald sem við fengum lánað fyrir tveimur árum. Hrund brunaði í bæinn, var einhverja þrjá tíma allt í allt með stoppi í bænum. Yndislegust að nenna þessu.

Rakel og Einar hoppuðu í hoppukastalanum sem þarna var og hlupu skríkjandi um allt svæðið. Að verða tíu grét Einar úr þreytu og var lagður inn í tjald. Rakel fékk samloku og súrmjólk og svo röltum við um svæðið og lékum okkur og lásum þangað til Einar var sofnaður. Krílið hafði sem betur fer blundað í rúman klukkutíma fyrr um daginn, annars hefði hún líka verið farin að gráta úr þreytu. Rakel fékk að leggja sig inn í tjald hjá Einari og steinsofnaði milli hans og Kjartans sem fór stuttu seinna að sofa.

Ég og Bjarndís spjölluðum í góða veðrinu þar til Hrund kom. Sprundin kom með grenjandi rigningu með sér en við náðum að koma tjaldinu þurru upp þar sem maður tjaldar himninum fyrst og við náðum að gera það áður en hellidemban byrjaði. Við þjár fengum okkur samloku og kókómjólk og fórum svo örþreyttar inn í tjald að verða tvö.

Við fengum gjeggjað veður á laugardag en þar sem blés svolítið gerðum við þau algengu mistök að vanmeta sólina og gleymdum að bera sólarvörn á Rakel þangað til leið á daginn. Ótrúlegt en satt þá brann hún ekki þessi sérstaki litli rauðhaus sem berður brúnn í sundi. Mamma hennar brennur miklu frekar enda var hún brunnin eftir daginn. Eftir morgunmat og leik fórum við í sund á Hvolsvelli. Ég gleymdi því enn einu sinni hvað ég verð fljótt brún og skarta núna fallegu fari eftir skápalykilinn sem ég hafði kringum kálfann. Rakel vildi vita hvar pabbi hans Einars ætti heima. Á meðan við lágum í bleyti reyndum við að útskýra fyrir henni að sumir ættu heima á hjá pabba sínum og mömmu. Ég veit nú ekki hvað komst til skila en hún er aö komast á þann aldur þar sem hún fer að velta sínu fjölskyldumynstri fyrir sér.

 Eftir hádegismat, hopp og skopp og lúrinn hans Einars fórum við á Torfastaði, fallegasta sveitabæ sem ég hef séð. Okkur hafði verið sagt að þar væri vel tekið á móti börnum og vildum við leyfa krökkunum að klappa hestum og hundum ef það væri hægt. Við vorum nú svo heppin að krökkunum var leyft að fara á bak og þau teymd út um allt, þau fengu að halda á hvolpum og gefa heimalingnum að drekka og skoða landnámshænur og ungana þeirra og svo auðvitað endurnar og andarungana sem syntu um í sinni tjörn. Börnin voru í skýjunum. Rakel komst ekki yfir að hún sæti á baki ALVÖRU Litla kalli eins og Lína langsokkur og sat hestinn eins og hún hefði aldrei gert annað.

Um kvöldið grilluðum við og krakkarnir ærsluðust en þau fóru svo snemma að sofa, rjóð í kinnum og alsæl eftir daginn. Við hin spiluðum og borðuðum nammi en hröktumst á endanum í rúmið vegna kulda. Nóttin var líka ísköld og ekki mikið sofið í okkar tjaldi. Nema barnið, hún svaf eins og steinn án þess að rumska einu sinni.

Daginn eftir var komið hávaðarok sem skók tjaldið svo hvein í því. Það vakti okkur Rakel og vöktum við svo Sprundina og skipuðum henni út í rokið með Rakel að pissa. Eftir morgunmatinn tókum við allt saman en það tók dágóða stund í rokinu. Við fórum svo á Tumastaði sem er mitt inni í litlum skógi og fundum þar skjól milli trjánna og bekki og borð. Sólin skein og trén ilmuðu og trén voru svo óvenju há að okkur leið eins og við værum í útlöndum. Við elduðum hádegismat og fengum okkur kakó og bakkelsi í eftirrétt. Við Sprundin og Rakel fórum svo á sýninguna hennar Siggu á Grund (minni mig) á Hvolsvelli en Sigga sker snilldarlega út í tré. Ég sá frétt um sýninguna um daginn og vissi að Hrund mynd fíla að sjá þetta.

Þegar klukkan var að verða þrjú ákváðum við að fara í bæinn sem við og gerðum, gengum frá dótinu og fórum svo í mat til mömmu. Við Hrund vorum gjörsamlega að leka niður úr þreytu og vorum komnar upp í rúm fyrir tíu.

Það  var yndislegt að sofna hrein í hlýju, mjúku rúmi.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband