Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
3.3.2012 | 08:35
Hugsað og skrifað
Ég hef sagt og skrifað það áður að mér finnst hamingjan standa saman af augnablikum og ef maður er heppinn og lætur ekkert standa í veginum fyrir sér er hægt að fanga þessi augnablik. Þegar ég var yngri átti ég erfitt með að sjá þessi augnablik eða hafði ekki orkuna til að safna þeim. Núna hef ég æft mig og er orðin ansi fær í því. Ég er líka orðin miklu betri í því að byrja ekki að ofanda og finna skelfinguna heltaka mig þegar augnablikin eru ekki þung af hamingju. Áður fyrr þýddi það oft að eitthvað verra var í vændum, það gerði mín eigin geðheilsa og var oft eitthvað sem ég hafði ákveðið og rættist þess vegna. Núna veit ég að þau eru aðeins brautir sem tengja hamingjuaugnablikin saman og alls ekkert hræðileg. Ég hef líka endurskilgreint hamingjuna á mínum eigin forsendum, ég hef alls ekki gert neinar málamiðlanir, bara leyft mér að njóta lífsins meira og er þess vegna hamingjusamari:
Þegar ég fer í sund með Röskvu virðist ég alltaf á einhverjum tímpunkti enda með annað brjóstið úti. Oftast tek ég fljótt eftir því. Það gerðist síðast á fimmtudaginn og þegar ég áttaði mig á því að brjóstið hafði brotist út hallaði ég höfðinu aftur og skellihló svo dátt og lengi að ég fann úðann setjast á andlit mitt. Er eitthvað betra en að eiga lítinn fjörkálf sem blár um munninn spriklar í kringum þig í vatninu. Drekkur svo mikið vatn að hún er ælu næst inn á milli. Svo þrjósk að hún vill alls ekki að ég haldi í sig en nær samt ekki að halda sér alveg á floti. Þess vegna stekkur hún á mig inn á milli og rígheldur í sundbolinn minn, frelsar brjóstin og upplifir sig örugga. Það er góð tilfinngin að vera hennar skjól.
Í morgu vaknaði fyrst ungi yngri og lá tuldrandi við hlið mér í smá stund og raðaði böngsum og dúkkum ofan á andlitinu á mér. Stuttu seinna vaknaði ungi eldri og þær systur fóru saman á klósettið. Annað kemur auðvitað ekki til greina fyrir Röskvu. Eftir það fóru þær inn í herbergið sitt, lokuðu á eftir sér og fóru að leika. Þessar yndislegu systur eru mínar, þær rífast stundum svo mikið og eru svo þverar að mig langar til að ganga út en inn á milli gera þær það sem gerir mig ó svo glaða. Leika sér saman.
Konan mín hefur breyst mikið eftir að ég kynntist henni. Kannski vegna þess að mér hefur á einhvern hátt tekist að hafa góð áhrif á hana. Mest, held ég, vegna þess að við stelpurnar hennar gerum hana glaða og gleðin blæs manni í brjóst lífsvilja og kraft. Hún hefur komið sjálfri sér og fólkinu sínu á óvart, fyrst og fremst með því að öðlast trú á sjálfa sig, hitt höfum við alltaf vitað, að henni væru allir vegir færir. Yfirleitt má ég ekki af Sprundinni minni sjá, tíminn sem við höfum saman eftir vinnu og þegar börnin eru sofnuð er svo lítill. Hún er í árshátíðarnefnd í vinnunni þessa dagana og á eftir verður árshátíð skemmtilega fólksins haldin. Hún hefur verið nokkuð mikið í burtu og mér finnst ég varla hafa séð hana síðan á miðvikudaginn. Þegar hún kom svo heim í gærkvöldi í sínum ljóta pollagalla frá Reykjavíkurborg með bros á vör fann ég hvernig mér hitnaði allri. Ég hef unnið fyrir þessari konu, hún er mín ef ég fer vel með hana, mig og okkur. Og brosið var ætlað mér.
Í dag á amma mín Rósa afmæli. Hin amma mín hefur alltaf búið úti í Nicaragua og ég aðeins hitta hana tvisvar sinnum. Amma Rósa hefur sinnt sínu hlutverki sem tvöföld amma með mestu ágætum. Ég hef getað talað við hana um allt og hún hefur aldrei dæmt mig. Hún, og elsku afi minn sem nú er farinn, hafa alltaf verið mér svo mikilvæg. Og ég þeim. Það er gott.
Í apríl mun ég keyra á draumbílnum mínum í draumhúsið mitt með draumafjölskyldunni minni. Stundum finnst mér það of gott til að vera satt. En af hverju ætti það að vera það? Ég, og við Hrund seinna saman, hef unnið að þessu hörðum höndum og verið svo heppin að fá fullt af hjálp. Það er ekkert betra í heiminum en að finna sterkt fyrir því að eiga sér bakland. Það er ómetanlegt.
Hlín Agnarsdóttir, góð vinkonu mömmu, skrifaði einu sinni bók sem heitir Að láta lífið rætast (ég vona að sé ekki að fara með neina vitleysu, einhvern veginn hefur þessi frasi allavega orðið til og sest að í mér). Hamingjan felst einmitt í því að láta lífið rætast, allavega fyrir mér. Ég get ekki skrifað lista yfir það sem mér finnst hamingjan vera, aðeins liðin augnablik sem gerðu mig hamingjusaman. Þetta gefur mér fresli til að vera hamingjusöm núna, eins og einhvern vitrari en ég sagði er hamingjan ekki áfangastaður, hún er ferðlag. Og ég held áfram á mínum hamingjuaugnabliksveiðum.
Ég held áfram í væmninni, þannig er það bara.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar